26.03.1962
Efri deild: 70. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

146. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. sjálfsagt muna, voru rétt fyrir 1. okt. s.l. gefin út brbl., sem framlengdu samning milli Sjúkrasamlags Reykjavikur og læknasamtakanna, til þess að tóm gæfist til þess að freista þess að ná samkomulagi um málið. Rétt fyrir áramótin síðustu náðist svo bráðabirgðasamkomulag, sem á að gilda til 1. apríl n.k., og gert er ráð fyrir, að tíminn þangað til verði notaður til þess að freista þess að ná endunum endanlega saman.

Einn þátturinn í þessu samkomulagi á milli læknasamtakanna og Sjúkrasamlagsins var sá, að viðtalsgjöld og vitjanagjöld lækna hækkuðu, hin fyrri úr 5 kr. í 10 kr. og hin síðari úr 10 kr. í 25 kr., en þessi gjöld eru ákveðin í almannatryggingalögunum 5 og 10 kr. nú. Til þess að þetta samkomulag á milli læknasamtakanna og Sjúkrasamlagsins kæmist þess vegna í framkvæmd, þurfti að breyta almannatryggingalögunum á þennan hátt, að gjaldið væri hækkað úr 5 í 10 kr. og úr 10 kr. í 25 kr. þetta frv. fer í rauninni ekki fram á annað en að þessu verði breytt. Það er að vísu í 2. gr. frv. breyt. á 54. gr. almannatryggingalaganna, sem tekur til héraðslækna, sem sitja í kauptúni eða kaupstað. Þá getur sjúkrasamlagið á staðnum með samþykki Tryggingastofnunarinnar krafizt þess, að hann taki að sér að gegna heimilislæknisstörfum þar gegn föstu gjaldi. Takist samningar þar ekki, ákveður heilbrigðisstjórnin greiðsluna með tilliti til gjaldskrárinnar eða gildandi samninga um heimilislæknisstörf á samsvarandi stöðum. Þessi breyt. er komin frá heilbrmrn., þó að það sé breyt. á sömu l. Félmrn. á aftur á móti fyrst og fremst hlut að því, að 1. gr. er borin fram.

Ég vænti, að hv. þdm. geti fallizt á að afgreiða þetta frv. eins fljótt og mögulegt er, vegna þess að Sjúkrasamlag Reykjavíkur hefur til bráðabirgða tekið að sér þessa greiðslu, á meðan ekki er heimilt að leggja hærra gjald á almenning en lögin segja, og það er Sjúkrasamlaginu ofviða að greiða þetta gjald, þ.e.a.s. það er greitt í nokkuð öðru formi en hér er gert ráð fyrir, en á þó að jafngilda því, og þess vegna þarf, ef Sjúkrasamlagið á ekki að þurfa að hækka sín iðgjöld þess vegna og gera ráðstafanir, sem annars væri hægt að komast hjá, að reyna að flýta afgreiðslu þessa frv., sem nú hefur verið afgr. í hv. Nd., og ég vildi vona, að það tækist að koma því fram fyrir mánaðamótin, því að við það eru greiðslur Sjúkrasamlagsins miðaðar.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr: og félmn.