20.10.1961
Neðri deild: 6. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

34. mál, félagslegt öryggi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Árið 1955 gerðu Norðurlöndin öll, Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð, með sér samning um félagslegt öryggi. Aðalatriðið í þeim samningi eða sú meginregla, sem þar var staðfest, var, að ríkisborgarar hvers samningsríkis fengju rétt til að njóta sams konar aðstöðu til almannatrygginga í dvalarlandi sínu, hvar sem það væri, eins og heimamenn þess lands. Ásamt með bótagreiðslum almannatrygginganna njóta þeir fyrirgreiðslu í sambandi við framfærslu, greiðslu meðlaga af hálfu hins opinbera og nokkur atriði önnur.

Það kom í ljós, eftir að þessi samningur hafði verið í gildi nokkurn tíma, að það gátu komið fyrir tilvik, þar sem borgarar, sem fluttust á milli landa, náðu samt sem áður ekki fyllilega þeirri sömu aðstöðu og borgarar dvalarlandsins. Það var þegar skilyrði voru um dvalartíma manna í landinu, áður en þeir ættu rétt til þessara bóta. Í þessum löndum er nefnilega þannig ákveðið, að til þess að njóta ellilífeyris þarf lífeyrisþeginn að hafa dvalizt í landinu samfleytt a.m.k. fimm síðustu árin, áður en umsókn um ellilífeyri er lögð fram. Þegar þess vegna maður flyzt á milli landa, sem annaðhvort er að ná þeim aldri, þegar hann á rétt til lífeyris, eða hann er búinn að ná honum í heimalandi sínu, sem hann flytur frá, þá verður að líða fimm ára tími, til þess að hann öðlist réttindin í því landi, sem hann flyzt til, og þar sem bótagreiðslur heimalandsins falla niður, um leið og hann flytur í burtu, verður þarna millibilsástand, sem hann fær engan lífeyri greiddan. Þetta mál hefur verið tekið upp af félagsmálanefnd Norðurlandaráðs og hún komið sér saman um að gera tillögur til breytinga á samningnum að því er þetta varðar.

Meginhugsunin í þessum brtt., sem hér er leitað staðfestingar á, er sú, að menn haldi áfram að njóta bótagreiðslnanna í heimalandinu, þó að þeir flytjist burt, þangað til þeir öðlast réttindin í því landi, sem þeir dveljast í, og ætti þess vegna ekki að þurfa að verða neitt tímabil, þar sem þessar greiðslur falla alveg niður frá báðum aðilum, bæði heimalandi og dvalarlandi. Um þetta hefur svo verið gerður samningur, sem við undirskrifuðum allir, félagsmálaráðherrar Norðurlanda, á fundi, sem við héldum um þetta mál og önnur í Finnlandi nú fyrir rúmum mánuði, eða 13. sept. s.l. Efni málsins er ákaflega einfalt og raunverulega ekki annað en það, sem ég hef nú skýrt frá, og tel ég mig þess vegna ekki þurfa að fara fleiri orðum um frv. Ég leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að þessari umr. lokinni.