30.03.1962
Efri deild: 75. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 771 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

34. mál, félagslegt öryggi

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Norðurlöndin gerðu með sér samning um félagslegt öryggi, sem gekk í gildi 1. nóv. 1956. Tilgangur samningsins var, að Norðurlandabúar nytu sín á milli sama réttar um almannatryggingar og þegnar þess ríkis, sem þeir dvöldust hjá. Samningurinn hefur gefizt mjög vel og verið til almennra þæginda fyrir þá, sem þurft hafa að dveljast annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandi sínu. Það hefur þó komið í ljós, að nokkrir erfiðleikar hafa verið á framkvæmd þessara mála, einkum um lífeyrisgreiðslur. Reglurnar hafa þar verið þannig, að lífeyrisþegi hefur ekki fengið lífeyrisrétt í dvalarlandinu fyrr en eftir alllangan biðtíma, en hefur misst réttinn í heimalandi sínu, um leið og hann fór af landi brott. Þetta er ósanngjarnt og kemur sér mjög illa fyrir þá, sem sízt mega við því. Til þess að bæta úr þessu hefur orðið samkomulag um þá breytingu á samningnum, sem hér er lagt til að heimila ríkisstj. að staðfesta. Nefndin mælir einróma með að heimila ríkisstj. samþykkt samningsins.