26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég gat um hér áðan í framsöguræðu minni fyrir frv. til laga um verkamannabústaði, var sett á laggirnar fimm manna nefnd haustið 1960 til þess að athuga lögin um húsnæðismálastjórn og gera tillögur til breytinga á þeim. Hún skilaði fullbúnu nú nýlega frv. um verkamannabústaðina, sem tekið hefur verið hér til umr. í hv. deild, og tillögum um bráðabirgðabreytingu á húsnæðismálastofnunarlögunum, sem felast í þessu frv. á þskj. 315, sem hefur verið lagt hér fram. Þessar breytingar á lögunum um húsnæðismálastjórn ber á engan hátt að skoða sem endanlegar tillögur um málið, heldur einungis bráðabirgðatillögur um þau atriði, sem brýnust þörf virðist á að breyta, og verður þá væntanlega síðar hægt að taka fyrir heildartillögur um breytingar á húsnæðismálastofnunarlögunum, þegar nefndinni þykir það tímabært. Þær breytingar, sem lagt er hér til að gerðar verði á húsnæðismálastofnunarlögunum, eru þessar helztar:

Í fyrsta lagi er lagt til að hámark lána úr sjóðum húsnæðismálastofnunarinnar sé hækkað úr 100 þús. kr. lánum á hverja íbúð upp í 150 þús. kr., og í sambandi við það er gert ráð fyrir, að Landsbanki Íslands fái heimild til þess að hækka útgáfu vaxtabréfa sinna úr 100 millj. kr. á ári í næstu 10 ár upp í 150 millj. á ári. Þetta er nauðsynlegt vegna hinnar miklu verðhækkunar, sem orðið hefur, og þeirrar brýnu þarfar, sem lántakendur og húsbyggjendur hafa til þess að fá lánaupphæðina hækkaða. Það ber þó að taka þarna fram, að því aðeins koma þessar hækkanir að gagni, að lán fáist til þess að auka starfsemina sem svarar þessum hækkunum, og að því verður stefnt að reyna að fá aukið fjármagn til handa húsnæðismálastjórn, svo að þessi ákvæði frv. verði að gagni.

Í sambandi við þetta er svo rétt að geta þess, að framlagið til útrýmingar heilsuspillandi íbúða hefur verið ákveðið á fjárlögum hverju sinni, en hér er lagt til, að lögð verði fram til útrýmingar heilsuspillandi íbúða jafnhá upphæð og sveitarsjóðirnir á hverjum tíma treysta sér til að leggja fram.

Loks er sú breyting gerð að fjölga um einn mann í húsnæðismálastjórn og kjörtímabil húsnæðismálastjórnarmanna lengt úr þremur árum í fjögur ár, sem er talið hvort tveggja heppilegra en það fyrirkomulag, sem nú gildir um þetta efni.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. að lokinni þessari umr.