26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 777 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur atriði út af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v., sem ég sé ástæðu til þess að minnast á og svara að einhverju leyti.

Hv. þm. lýsti eftir skoðun Alþfl. á því, hvort æskilegt væri, að það ástand skapaðist hér, að húsnæðisvandræði yrðu og olnbogarúm þá einnig fyrir athafnamenn til bygginga, sem gætu hækkað húsaleigu í gróðaskyni og þröngvað þannig kost manna, sem erfitt ættu með að byggja og útvega sér það húsnæði, sem þeir þyrftu til þess að draga fram lífið í. Ég veit, að hv. þm. spyr ekki af því, að hann viti ekki. Alþfl. mundi, eins og ég hygg allir þm. yfirleitt, vera á móti því, að slíkt ástand skapaðist.

Ég tók svo eftir, að hv. þm. hélt því fram, sem hann kallaði staðreyndir um hækkun byggingarkostnaðar, að byggingarkostnaður hefði nú á síðustu 2–3 árum hækkað um 100 þús. kr. á íbúð. Og þetta var ekki eftir hans orðum að dæma nein ágizkun eða neitt þess háttar, heldur talaði hann um þetta sem staðreynd. Hann talaði líka um það sem staðreynd, að færri einstaklingar byrjuðu nú á byggingum en nokkru sinni áður. Af þessum tveim staðreyndum dró hann svo þá ályktun, að þetta ástand væri að myndast, húsnæðisvandræðin væru að skapast og olnbogarúm þar með að myndast fyrir athafnamennina til þess að græða á því, að eftirspurn yxi eftir húsnæði. Ég held, að allt þetta sé nokkuð orðum aukið hjá hv. þm. og þessar staðreyndir, sem hann nefndi svo, séu ekki til staðar, a.m.k. ekki í þeim mæli, sem hann vildi vera láta, þannig að það sé ekki hætta á því, að þetta ástand, sem hann óttaðist svo mjög, sé að verða til.

Ég verð að játa það, að ég hef ekki tölur í höndum yfir, hvað byggingarkostnaður íbúða hefur vaxið á s.l. 2–3 árum. En ég hygg, að ef um smáar íbúðir er að ræða, eins og t.d. íbúðir í verkamannabústöðum, eða allt upp í 100 m2 íbúðir, þá sé hækkunin á byggingarkostnaði ekki 100 þús. kr. á íbúð. Ég dreg það af eftirfarandi hugleiðingum bara á þessari stundu: Ég hugsa mér, að efniskostnaður við íbúðarbyggingu sé í hæsta lagi 40% af byggingarkostnaði, og það er sennilega of hátt áætlað, og ég hugsa mér, að sá kostnaður, sem á þessum efnislið hefur orðið af gengislækkun og fleira, sé í kringum 20%, og ef íbúðarverðið er 400 þús. kr., þá eru 20% af 400 þús. kr. 80 þús. kr., þannig að ég hygg, að það sé ákaflega vel í lagt að segja, að byggingarkostnaðurinn hafi hækkað um 80 þús. kr. á íbúð, að vísu ekki stóra íbúð, heldur frekar litla, en þó upp undir það af þeirri stærð, sem ég nefndi. Hins vegar skal ég viðurkenna, að þetta eru aðeins hugleiðingar mínar hér. En ég er ekki tilbúinn til að samþykkja það sem neina staðreynd, að kostnaðarhækkunin á íbúð, a.m.k. ekki af þessum stærðarflokki, sé 100 þús. kr.

En ef nú hækkunin hefur orðið í kringum 80 þús., eins og ég held að sér nær raunveruleikanum en þessi tala, sem hann nefndi, þá má geta þess, að lánsupphæðin fyrir gengislækkanirnar var að meðaltali í kringum 70 þús. kr. En þessi 70 þús. kr. lánsupphæð hefur nú þegar eftir gengislækkanirnar verið hækkuð upp í 100 þús. kr., og nú er lagt til, að hún verði hækkuð upp í 150 þús. kr. Þannig nemur þá sú raunverulega hækkun, sem verður á íbúðarláni til hverrar íbúðar, þeirri sömu upphæð eða mjög svipaðri upphæð og ég tel að byggingarkostnaðurinn hafi mest aukizt á smáum íbúðum, þ.e.a.s. lánshækkunin hefur þá í raun og veru orðið sú sama á þessum tíma og ég tel að byggingarkostnaðurinn hafi vaxið. Þannig hefur allri hækkun byggingarkostnaðarins verið mætt með hækkuðu láni sömu upphæðar. Ég skal að vísu játa, að grundvöllurinn undir þessu er ekki annar en sá, sem ég nefndi í upphafi míns máls, það sem maður getur lagt niður fyrir sér á stundinni. En ég held, að það sé ekki ofmælt að ætla, að byggingarkostnaðarhækkuninni sé að fullu mætt með þessari lánsfjárhækkun, sem gert er ráð fyrir í frv.

Hvað viðvíkur því aftur á móti, að færri einstaklingar byrji nú á byggingum en áður, þá kann það að vera að einhverju leyti rétt, en áreiðanlega ekki algild regla, því að ég hef fregnir af því, að umsóknir um lán til húsnæðismálastjórnar hafi á hinum síðustu tímum verið meiri en ég vil segja nokkurn tíma áður, og dæmi um það sé, að slíkur fjöldi umsókna hafi borizt um húsnæðismálastjórnarlán í janúarmánuði að hann hafi sjaldan eða aldrei meiri verið. Ég held því, að hvorugt þetta, sem hv. þm. taldi að væri grundvöllurinn undir því, að húsnæðisvandræði og húsnæðisskortur myndaðist, sé fyrir hendi.

Út af hugleiðingum hans að öðru leyti um það, að æskilegt væri að hækka lánin, þá er ég náttúrlega síður en svo andvígur því, að það yrði gert, ef möguleikar væru til þess. En ég hygg, að það megi halda vel á til þess að ná þeirri hækkun, sem frv. gerir ráð fyrir, þó að ekki sé gert ráð fyrir að hækka töluna upp í 200 þús. kr. á íbúð, eins og hv. þm. lagði til. Og hitt er alveg augljóst, að það er þýðingarlaust að setja inn í frv. tölu, sem styðst ekki við raunverulega möguleika. Í núgildandi lögum um húsnæðismálastjórn var gert ráð fyrir 100 þús. kr. hámarkslánveitingu, þó að í mörg ár, eftir að þau lög voru sett, væri hámarkið í raun 70 þús. kr., af því að fé var ekki til til þess að komast hærra. Nú hefur lítillega raknað úr því á undanförnu ári, og eins og ég sagði í minni frumræðu, mun ríkisstj. gera það, sem í hennar valdi stendur, til þess að reyna að auka þessa möguleika. En ég hygg, að það sé að fara fram úr því, sem ýtrustu vonir gætu verið um, að nefna 200 þús. kr. á íbúð, enda væri þá líka lánsupphæðin nokkurn veginn þrefölduð á móts við það, sem hún var í raun fyrir gengisfellinguna, eða 70 þús. kr.

Hv. þm. fór svo út í hugleiðingar um víðreisnarráðstafanir ríkisstj., og yfirleitt virtist mér á hans ræðu allri vera nokkur pólitískur blær, þannig að hann vildi kenna núv. ríkisstj. það, sem miður hefur farið í þessum málum, en þakka Framsfl. þær góðu tillögur, sem í þessu hafa komið fram, og hef ég út af fyrir sig ekkert við því að segja. Það er ekkert óeðlilegt, að hverjum þyki sinn fugl fagur. En ég gætti þess í minni frumræðu, að ég minntist ekki á neina pólitík í þessu sambandi, og ætla mér ekki heldur að gera það. Þetta er mál, sem alla pólitíska flokka varðar og allir hafa að meira eða minna leyti staðið að lausn á, hver svo hefur gert það bezt og hver lakast, það ætla ég að alltaf geti verið matsatriði. En út af því, að viðreisnarráðstafanirnar hafi komið þannig við, að ríkisstj. hafi orðið að slá undan í ýmsum málum, þá vil ég aðeins um það segja, að dæmin, sem hann tók, eru ekki út af fyrir sig viðreisnaráformum ríkisstj. að kenna eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut skyld þeim, t.d. vandamál togaraútgerðarinnar. Það vita allir menn, af hverju þau stafa. Það er ekki viðreisnarráðstöfunum ríkisstj. að kenna, að togararnir standa sig ekki betur en þeir nú gera, heldur af aflatregðu þeirra, sem áreiðanlega er að mjög verulegu leyti vegna þess, að fiskimiðin hafa verið tekin af þeim, og það var búið að gera a.m.k. áður en viðreisnaráform ríkisstj. komu til. Það er náttúrlega rétt, að ef húsnæðismálin eru skoðuð út frá því sjónarmiði, að það hafi verið af völdum gengisbreytingarinnar, að byggingarkostnaðurinn hefur hækkað eins og hann hefur gert, þá er það út af fyrir sig rétt, en þar tel ég því að svara, að gengið var raunverulega fallið, áður en sú formlega gengislækkun var gerð, þannig að hækkunin gengisskráningarinnar vegna er raunverulega komin á að verulegu leyti áður.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum í bili. Ég vildi aðeins leyfa mér að vefengja þessar tvær fullyrðingar hv. þm., sem hann raunar talaði um sem staðreyndir, annars vegar að byggingarkostnaður á íbúð hefði hækkað um 100 þús. kr. og að svo miklu færri einstaklingar byrjuðu nú á byggingum, að til vandræða horfi. Hvort tveggja þetta leyfi ég mér að draga í efa.