26.02.1962
Efri deild: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 783 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) lagði í lok ræðu sinnar sérstaka áherzlu á það, að ég léti til mín heyra varðandi þau vandamál, sem hér er um rætt, þ.e.a.s. úrlausnir til þeirra lánsumsækjenda, sem um lengri eða skemmri tíma hafa beðið eftir lánveitingu hjá húsnæðismálastjórn. Ég skal vissulega taka undir hans frómu óskir um það, að æskilegt væri, að lánsupphæðirnar væru hærri og hægt væri að veita betri úrlausn en gert hefur verið á undanförnum árum. Það er sjálfsögð ósk, sem við öll getum sameinazt um hér á hv. Alþingi. Hitt er þó miklu meira virði, hvað hægt er að standa við af slíkum óskum, þegar til alvörunnar kemur.

Ég vil aðeins á þessu stigi málsins taka fram það atriði eitt, sem ég tel að sé höfuðvandamál þessarar stofnunar og hafi verið, frá því að ég fór að hafa kynni af störfum þar fyrir um það bil 6 árum, að það sé e.t.v. ekki fyrst og fremst það, hvað lítið er lánað á hverja íbúð, heldur hitt, hvað margir þurfa að bíða til þess að fá þessa litlu upphæð. Af því leiðir svo aftur, að byggingartími verður hér óhæfilega langur, og hinn langi byggingartími er efalaust ein meginorsökin í því, að byggingarkostnaður hefur stórhækkað. Ég vil segja, að þetta fyrirbrigði er ekki að koma í dagsins ljós nú. Það á rót sína að rekja allt til setningar fyrstu laganna um stofnunina árið 1955. Þá var, því miður, vil ég segja, allt of mikið af því gumað, að það ætti að tryggja hverjum einasta húsbyggjanda 100 þús. kr. lán, og látið í það skína jafnframt, að hver sem vildi út í byggingar leggja gæti fengið 100 þús. kr. lán. Staðreyndirnar urðu allt aðrar. Það bunkuðust upp hjá stofnuninni í hundraðatali umsóknir, sem enga úrlausn fengu, þrátt fyrir það að þess fundust varla dæmi, að farið væri yfir 70 þús. kr. hámarkslán. Þetta voru efndirnar á þeim miklu fyrirheitum, sem upphaflega voru gefin um þá lagasetningu, sem upphaflega var um þessa stofnun sett. Af þessu hefur stofnunin sopið seyðið allt til þessa dags, og sífellt er á þennan snjóbolta að bætast. Ég held, að það væri langtum heiðarlegra og raunhæfari tilraun að setja lög, sem gætu á einhvern hátt staðizt, og það er heitasta ósk mín til lagasetningar nú, að það verði ekki eins að unnið og þá. Og ég vil minna hv. 3. þm. Norðurl. v. á það, að þá fór með þessi mál framsóknarmaður. Ég hygg, að þau fyrirheit, sem í upphafi lagasetningar voru gefin, hafi ýtt fjölda manna á flot til húsbygginga, sem töldu sig geta reitt sig á, að þarna væri ekki um pappírsplagg eitt að ræða, en staðreyndin varð allt önnur.

Ég undirstrika það, að meginvandamál stofnunarinnar í dag er kannske ekki fyrst og fremst það, hve lág lánin eru, heldur hitt, hve hópurinn er stór, sem þarf að bíða eftir einhverri úrlausn. Sjálfur held ég, að það hafi dregið úr íbúðarhúsabyggingum, eftir bara lauslegu yfirliti hér í nánasta nágrenni, en af umsóknum hjá húsnæðismálastjórn verður það alls ekki ráðið. Það er eins og hæstv. félmrh. sagði hér áðan, umsóknafjöldinn hefur aukizt svo nú síðustu 5–6 mánuðina og náð hámarki nú í janúar, að þess munu fá dæmi í sögu stofnunarinnar áður.

Mér skilst, að í þeim umr., sem þegar hafa farið fram um þetta frv., sé ekki deilt um þær lagagreinar, sem í frv. eru, heldur er, eins og flesta mátti e.t.v. gruna, deilt um, að of skammt sé gengið. Ég vil í því sambandi undirstrika það, sem ég hef áður sagt, að það er miklu heiðarlegra að reyna að bæta fyrir fyrri yfirsjónir og blekkingar við húsbyggjendur með því að setja lög, sem menn eygja að gætu staðizt, heldur en hitt, að halda þessu blekkingamoldviðri áfram og auka á umsóknahlaðana hjá húsnæðismálastjórn. Ég vil vænta þess, að svo verði að undirstöðu þessa frv. unnið, en undirstaðan er að sjálfsögðu, að það fjármagn, sem stofnunin hefur til umráða, verði hægt að nota til þess að draga úr þessum geysilega háu bunkum umsókna og lækka þá, sem um allt of langan tíma hafa beðið, og tel ég þá, að það væri lagt inn á raunhæfustu brautina til lækkunar á byggingarkostnaði, því það er að mínu viti ein meginorsök hins langa byggingartíma, sem vart munu dæmi um annars staðar í heiminum. Hér mun það algengt, að byggingartími sé 3–5 ár, þegar annars staðar er talið hæfilegt, að hann sé 6–14 mánuðir. Þarna á að vera hægt að stinga á meinsemdinni um framkvæmd þessara mála, og ég vona, að við getum orðið sammála um að reyna að gera það. Hitt er þýðingarlítið fyrir fjárvana húsbyggjendur, sem eiga hús sín e.t.v. undir uppboðshamrinum, að fá lagasetningu hér um 200 eða 250 þús. kr. hámarkslán, ef raunveruleikinn verður svo sá, að helmingi lægra sé lánað og enn lengist biðtíminn hjá húsnæðismálastjórn fyrir þá, sem sækja um þessi lán.

Ég vil á þessu stigi málsins ekki hafa þessi orð fleiri, það gefst sjálfsagt tækifæri til að ræða málið frekar í einstökum liðum, þegar málið hefur hlotið athugun hér í nefnd.