22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 802 í B-deild Alþingistíðinda. (829)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég mun nú ekki ræða sérstaklega þá löngu ræðu, sem hv. 10. þm. Reykv. var að enda hér við. Mér virðist, að svona 90% af ræðunni eigi ekki beint við þetta frv., en þann hlutann, sem beint kom inn á frv., vil ég þó aðeins drepa á hvað snertir tvö eða þrjú atriði. Ég held, að það hafi verið eitt af því síðasta, sem hann nefndi, að aðilar hafi dregið við sig að leggja fram lánsfé til bygginga, sem vænzt var að gerðu það á s.l. ári, komið sér undan því, eins og hann nefndi, og sagði hann, að gegn slíku væri varla um annað að ræða en að lögbjóða slík framlög. Mér sýnist, að þessar upplýsingar spái ekki góðu um það, að allir fái 150 þús. kr. lán, sem gefið er í skyn með stjórnarfrv., fyrst svona er. Og hvað kemur til, að ekki eru gerðar einhverjar ráðstafanir til þess með þessu frv. að tryggja betur fé til lánanna?

Annað atriði, sem hv. þm. drap á, var það, að hann skýrði frá, hve mikið lægi fyrir af umsóknum um lán og væri það sízt meira hlutfallslega en áður, heldur minna, og tók hann þetta sem mælikvarða á lánsfjárþörfina. M.ö.o.: ef ég sé fram á það, að ég hef engin efni á að byggja, og sæki þess vegna ekki um neitt lán, þá hef ég enga þörf fyrir að byggja. Þetta held ég að sé hæpinn mælikvarði, að umsóknirnar sanni nokkuð um þörfina. Þörfin getur verið gífurleg, en ef fólkið hefur ekki efni á að byggja, þá sækir það ekki um lán.

Eitt atriði skal ég að lokum drepa á, sem hann nefndi. Það var það, að hækkanir á byggingarkostnaði hefðu orðið meiri í tíð vinstri stjórnarinnar en núv. hæstv. ríkisstj. Hann nefndi tölur, en ég náði þeim ekki niður á pappír, hann væri vís til að láta mig fá þær seinna. En eitthvað var hann að vitna í vísitölu. Nú hafa þessar vísitölur byggingarkostnaðar verið birtar í Hagtíðindum um nokkurra ára skeið, og ætti þetta atriði ekki að þurfa að fara milli mála. Vísitala byggingarkostnaðar í febrúar 1957 var 113, í febrúar 1959 133, hún hafði hækkað um 20 stig. Vísitala byggingarkostnaðar í febrúar 1960, þegar viðreisnin var að byrja, var 132, vísitalan í febrúar núna er 173, hún hefur hækkað um 41 stig. En ef hv. þm. vill heldur fá þetta í krónum, og það er eiginlega betra, þá eru þær tölur til líka. Rúmmetrinn í íbúð kostar samkv. skýrslum hagstofunnar í febrúar 1957 1054.70 kr., í febr. 1959 1233.10 kr. Rúmmetrinn hafði þá hækkað um 178.70 kr. á þeim árum. Rúmmetrinn í febr. 1960 kostaði 1231.01 kr. En hvað kostar hann núna í febrúar? Það er búið að reikna þetta út, hann kostar 1607.61 kr. Hækkunin á þessum tveimur árum er 376.60 kr. á hvern rúmmetra í íbúð. (EggÞ: Vill þm. endurtaka þetta.) Hv. þm. skal fá þetta allt á blaði á eftir. Hv. frsm. félmn. gat þess, að þessar brtt. tvær, sem nú liggja fyrir við þetta frv., hafi komið, eftir að nefndin afgreiddi málið frá sér. Það er rétt. Fulltrúi Framsfl. í heilbr.- og félmn. var fjarverandi vegna veikinda um nokkurt skeið, og ég ætla, að það hafi verið daginn eftir að hann veiktist, að málið var afgreitt frá nefndinni, og enginn fulltrúi frá þeim flokki tók þess vegna þátt í störfum hennar. Mér var ætlað að taka sæti sem fulltrúi Framsfl. í n., en þegar ég ræddi um það við formann nefndarinnar, var búið að afgreiða málið. Ég hef af þessu tilefni flutt brtt. á þskj. 423 við frv. Nú hef ég rætt um þetta við formann og hv. frsm. n., hvort hv. nefnd vilji ekki athuga brtt. mína milli umr. Ég hef fengið góðar undirtektir, og skal ég taka það fram, að ef hv. nefnd fellst á að athuga þá brtt. á milli umr., mun ég taka hana aftur við þessa umr. En till. er þess efnis, að lánveitingar til íbúða hækki úr 150 þús. kr., eins og lagt er til í frv., í 200 þús. kr. á íbúð. Ég hef reyndar strax drepið á ástæðuna fyrir því, að farið er fram á að hækka þetta mark. Það er vegna hinnar miklu hækkunar á byggingarkostnaði, sem orðið hefur, síðan þessi lög voru sett 1957. Skv. lögunum má hámark lána ekki fara yfir 100 þús. kr., en samkv. þessu frv. má það ekki fara yfir 150 þús. kr. Við framsögu þessa máls ræddi hæstv. ráðh. um það, að í raun og veru hefðu lánin aldrei verið 100 þús. kr., heldur aðeins 70 þús. kr. í framkvæmd. Þetta mun vera rétt, að almennt voru ekki veitt 100 þús. kr. lán lengi vel, en nú ætla ég, að það megi heita regla, að menn fái 100 þús. kr. lán samkv. gildandi lögum, en hér er aðeins um 50 þús. kr. hækkun að ræða. Hitt sjáum við svo líka, að það er ekki meiri trygging fyrir því nú, að lánin geti orðið 150 þús., heldur en var 1957, að þau gætu orðið 100 þús., og síður en svo, að það sé meiri trygging eftir orðum hv. 10. þm. Reykv. að dæma hér áðan.

Til þess að gera sér grein fyrir efnahagslegum möguleikum manna til bygginga nú og fyrir fimm árum, þegar lögin voru sett, þarf að kynna sér, hvað byggingarkostnaðurinn hefur hækkað og hversu mikið það er, sem menn verða að leggja af mörkum sjálfir eða útvega með öðrum hætti til þess að geta komið upp íbúðum sínum. Það má að sjálfsögðu deila um það, hvað eru meðalíbúðir að stærð. Nú hefur húsnæðismálastjórnin sínar reglur um þetta, hvað hún lánar til stórra íbúða. Og hámark þeirra íbúða, sem stjórn byggingarsjóðs lánar til, er 360 ms. Það fer því ekki á milli mála, að það eru engar óhófsíbúðir. Það er engin óhófsíbúð, þó að hún sé 360 m3. Varla hefur stjórn byggingarsjóðs farið að lána fé af svo skornum skammti sem hún hefur haft það til óhófsíbúða. Nú ætla ég ekki að telja 360 m3 íbúð meðalíbúð, en ég fullyrði, að 320 m3 íbúð er ekki ofan við meðalíbúð. Hvað kostaði þá 320 m3 íbúð fyrir 5 árum, þegar lögin voru sett? Hún kostaði samkv. skýrslum hagstofunnar eða samkv. vísitölu byggingarkostnaðar, sem hagstofan hefur í skýrslum sínum, um 337 þús. kr. eða rúmmetrinn 1054.70 kr. Af þessari upphæð var möguleiki til að fá 100 þús. kr. lán, sem varð þó ekki 100 þús. kr. nema kannske einstaka sinnum, en er þó orðin regla að heita má nú. Þessi maður þurfti því að leggja fram eða afla sér fjár á annan hátt, sem nam 237 þús. kr. Sams konar íbúð kostar nú ekki 337 þús. kr., heldur 514 þús. kr. samkv. vísitölu byggingarkostnaðar. Íbúðin hefur hækkað um 177 þús. kr. á þessum fimm árum. Og þótt svo vel tækist til, að byggjandinn fengi 150 þús. kr. lán, sem engin trygging er þó fyrir, þá þyrfti hann samt að leggja fram eða afla sér fjár á annan hátt, sem nemur 364 þús. kr., eða um 127 þús. kr. meira en hinn þurfti 1957. Svona er útlitið fyrir þá, sem þurfa að byggja sér íbúðarhús nú. Á þessum rökum er það, sem ég byggi það að flytja þá till., sem ég flyt, að hámark lánanna megi vera 200 þús. kr. Og þótt sú till. yrði samþ., nemur þessi hækkun frá því, sem er í stjórnarfrv., ekki helmingnum af hækkun byggingarkostnaðarins, sem orðið hefur á tveimur árum, því að tvö s.l. ár eða frá febr. 1960 til febr. 1962 hefur 320 m3 íbúð hækkað um 120 þús. kr. Fyrir skömmu var afgreitt frá þessari hv. deild frv. um lánveitingar úr fiskimálasjóði. Sjútvn. var sammála um að hækka hámark lána úr 150 þús. í 400 þús. og byggði það á því m.a., að jafnvel þótt sjóðurinn hefði ekki efni á því, eins og sakir stæðu, að lána svo mikið, þá væri þetta ekki nema heimild, og ef fjárhagur sjóðsins gerði betur, þá væri þó heimildin til. Ég lít nákvæmlega eins á þetta mál. Það skaðar ekki neitt, þó að tekin sé upp í lögin heimild til að lána allt að 200 þús. kr. Sjóðurinn kann að hafa efni á því. Ég vænti þess, að hv. heilbr.- og félmn. vilji því athuga þessar tillögur á milli umræðna.

Annað atriði í þessu máli er ákaflega mikilsvert fyrir þá, sem byggja, en það eru vextirnir af lánunum. Ég hef ekki flutt brtt. um það, en það er vegna þess, að framsóknarmenn í hv. Nd. hafa flutt slíka till. fyrir löngu um almenna lækkun vaxta. Yrði sú till. samþ., næði hún auðvitað til vaxta á þessum lánum eins og öðrum, og er því ekki aðkallandi að flytja hliðstæða till. hér í þessari hv. d. um þetta eina mál. En það er ekkert hégómamál að fá vextina lækkaða, því þótt gott sé að koma sér upp íbúð, þá er hitt ekki minna um vert að geta átt hana og búið í henni, eftir að hún er komin upp.

Ég skal ljúka máli mínu með því að endurtaka þá ósk mína, að hv. nefnd vilji athuga þessa brtt. mína á milli umr., og ef hún getur fallizt á það, þá mun ég taka hana aftur við þessa umræðu.