22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Út af þeim ásökunarorðum, sem hv. 9. þm. Reykv. bar hér fram í minn garð sem formanns heilbr.- og félmn. þessarar deildar, vildi ég leyfa mér að segja nokkur orð. Ásökun hans var þess efnis, að ég hefði neitað sér um það að kveðja á fund nefndarinnar formann þeirrar n., sem frv. þetta samdi. Ef um einhverja sök hefði verið að ræða, þá er að vísu ekki við mig einan að sakast. Hann bar fram þessa ósk sína á nefndarfundi, og meiri hluti n. var sömu skoðunar og taldi þetta alveg óþarft, eins og bókað er í fundargerðabók nefndarinnar. Og ástæðurnar til þess, að meiri hl. n. taldi þetta óþarft, voru tvenns konar. Það var, að þetta frv. væri ekki það margþætt, í því fælust svo litlar breytingar, eins og hann reyndar viðurkenndi sjálfur í sinni ræðu, að það væri ekki sérstök þörf á því að kveðja formann nefndarinnar, sem frv. samdi, til umræðna um málið, þó að það geti að vísu ávallt verið álitamál nokkurt, hvað nefndir eigi að ganga langt í því að kalla fyrir sig menn, sem geta gefið skýringar og upplýsingar, og að afla gagna. Hin ástæðan, sem var þó, að ég tel, enn þá veigameiri af hálfu nefndarinnar, var sú, að formaður þeirrar nefndar, sem frv. samdi, á sæti í þessari hv. deild, eins og öllum er kunnugt, en það er hv. 10. þm. Reykv. (EggÞ). Meiri hluti nefndarinnar áleit því, að hv. 9. þm. Reykv. væri það mjög í lófa lagið að hafa samband við þennan mann og fá hjá honum hverjar þær upplýsingar, sem hann óskaði, þar sem hann hittir hann hér daglega í deildinni. Auk þess gæti hann fengið þessar upplýsingar líka beinlínis við umr. um málið hér í d., enda hefur nú formaður n., sem frv. samdi, haldið hér skilmerkilega ræðu um þetta. Það var því af fyllilega eðlilegum .„ástæðum, að það var talið algerlega óþarft að kveðja formann n., sem frv. samdi, á fund heilbr.- og félmn. En hins vegar var það tekið fram, að ég skyldi sjá til þess, að hann fengi að ræða við hann, að hv. 9. þm. Reykv. gæti fengið viðræðufund við formann frumvarpsnefndarinnar, ef hann óskaði þess, en hann kom aldrei til mín til þess að æskja þess, að ég kæmi þessum viðræðufundum á, enda, eins og ég hef margtekið fram, var það í sjálfu sér alveg óþarft, þar sem hann gat haft mjög greiðan aðgang að þessum manni án minnar milligöngu.

Þá er það líka rétt, sem kom hér fram, að þetta frv. var í n. afgr. að fulltrúa Framsfl. fjarstöddum. Hann var veikur og hafði verið það um nokkurt skeið. Það var þess vegna ekki talið hægt að bíða. Þar sem nú gengur inflúenzufaraldur í bænum, var alltaf hægt að búast við því, að einn og einn nefndarmaður væri veikur, og ógerlegt að fresta fundum nefndarinnar eftir því. Strax og ég vissi það, að hv. fulltrúi Framsfl. í nefndinni væri veikur, kom ég hér að máli við tvo hv. flokksbræður hans, sem sæti eiga í þessari deild, og spurði þá, hvort einhver maður úr þingflokknum hefði verið valinn til þess að mæta í hans stað, og þeir sögðust ekki vita til þess og höfðu lítil svör um það. Það var svo ekki fyrr en nokkrum dögum seinna, þegar búið var að halda fundinn, að hv. 4. þm. Vestf., sem hér talaði áðan, gaf sig fram og sagðist eiga að mæta í nefndinni, og ég tel, að ég eigi þar enga sök á.

Út af tilmælum þeirra hv. þm., sem hér hafa flutt brtt. við frv., tel ég eðlilegt, að nefndin taki þessar tillögur til athugunar, áður en 3. umr. málsins fer fram, ef þeir draga tillögur sínar til baka til 3. umr.