22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég fer nú að skilja betur afstöðu hv. 9. landsk. sem formanns heilbr.- og félmn., eftir að þessar ræður hafa verið haldnar hér af fulltrúum stjórnarandstöðunnar, sem þegar hafa til sín látið heyra. Annar þeirra, sem mættur var á fundinum, kvartaði yfir því að fá ekki upplýsingar frá undirbúningsnefndinni og þá sér í lagi viðræður við mig um þessi mál. Þegar þessar upplýsingar eru svo látnar í té og allt er tínt til, sem máli skiptir, varðandi stofnunina og framkvæmd þessara laga, þá rís hinn stjórnarandstæðingurinn upp og segir, að 90% af þeirri ræðu, sem þar var haldin, hafi verið óþarft. Ég fer að skilja, að það er dálítið erfitt að fullnægja óskum stjórnarandstöðunnar, ef þær eru ekki í meira samræmi hver við aðra heldur en raun ber vitni um í þessu máli.

Ég vildi gjarnan, að hv. 4. þm. Vestf. hefði fundið orðum sínum meiri stað en þessa einu fullyrðingu og sagt þá, hvað úr ræðu minni hafi ekki skipt máli í sambandi við hugleiðingar um húsnæðismál, sem óneitanlega koma upp í sambandi við umr. um þetta frv. Ég hygg, að við nánari athugun verði að líta svo á, að þetta sé meira fullyrðing heldur en hitt, að ekki hafi allt verið málinu viðkomandi, sem þar var sagt. Mætti það kannske helzt að finna, að þar væri ekki nógu ýtarlega frá einstökum hlutum sagt, en um það verður ekki deilt, að það var þörf á því, að þessar upplýsingar væru gefnar.

Þá lagði ræðumaður á það sérstaka áherzlu, að ég hefði ekki fundið aðra leið til tekjuöflunar fyrir byggingarsjóðinn en að lögbjóða skylduframlög lánastofnana, en lagði svo áfram út frá þessum punkti sínum með því að segja, að það væru þá ekki miklar líkur til þess, að sú lánahækkun, sem frv. gerði ráð fyrir, fengi staðizt í raunveruleikanum. Þetta er náttúrlega að halla réttu máli, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Ég held sannarlega, að ég hafi alla tíð verið þeirrar skoðunar, að tekjum til stofnunarinnar ætti að ná með samningum. Hins vegar hafði það sýnt sig á s.l. ári, að ýmsir aðilar höfðu hliðrað sér hjá að láta fé í þessu skyni, og ef það sýndi sig æ ofan í æ, að samningaleiðin væri ekki fær, þá yrði að grípa til tveggja annarra leiða, er ég gat um, og önnur þeirra var lögboð. Að ég hafi ekki fundið aðra leið í þessu skyni, er því alrangt, eins og ég vona að ræða mín beri með sér, þegar hún kemur af segulbandinu. Og svo kom þessi geysilega sterka niðurstaða, í ræðu hans: Ef fólkið hefur ekki efni á því að byggja, þá sækir það ekki um lán. Af hverju er lánsfjárþörf yfirleitt mörkuð hjá lánastofnunum? Er það ekki sá eini mælikvarði, sem hægt er að hafa í þeim efnum, umsóknafjöldinn, sem fyrir liggur. Það er svo annað mál, hvað sérfræðingar í þessum efnum telja. Þeir telja, að íbúðaþörfin í landinu ætti að vera áætluð með hliðsjón af tilflutningi fólks, endurnýjun gamalla húsa og fólksfjölgun. En lánsfjárþörf einnar stofnunar verður að miðast við þær umsóknir, sem fyrir liggja á hverjum tíma, því að það eru, sem betur fer, fleiri aðilar í landinu, sem lána til þessara mála, heldur en einungis byggingarsjóður ríkisins, þó að hann sé þar allra stærstur, t.d. lífeyrissjóðir, veðdeild Búnaðarbankans, svo að nokkuð sé nefnt, og ýmsir sparisjóðir á landinu, sem hafa aðstoðað mjög drengilega í þessu efni.

Mikla áherzlu lagði hv. þm. á að koma því fram, að það hefði verið rangt í minni ræðu, að byggingarkostnaður hefði á tveim árum vinstri stjórnarinnar, 1957 og 1958, hækkað minna en á næstu árum á eftir, og bendir þar á tölur í Hagtíðindum, sem hann sagði vera og ég efast ekki um að hann lesi rétt. Ég hef hér hins vegar Fjármálatíðindi, þar sem að sagt er, að í febrúar 1957 er byggingarvísitalan 113 stig, en í október 1958 er hún 134 stig, þ.e.a.s. hún hefur hækkað um 10.5 stig hvort árið um sig að meðaltali. Á árunum 1959, 1960 og 1961 hækkar byggingarvísitalan úr 133 stigum í 168, það er að segja um 10.3 stig á ári til jafnaðar. Nú vill þm. sjálfsagt minna á það, að á árinu 1959 hækkar vísitalan ekki. Margoft hafa þessir sömu aðilar þó sagt og vilja bókstaflega leggja á það megináherzlu, að það hafi ávallt verið sama ríkisstj. hér allan þennan tíma, þeir, sem vægara hafa þó farið í, hafa sagt, að hún hafi verið studd af sömu stjórnmálaflokkum. Ef við föllumst á það, þá er það staðreynd, að á þessum þrem árum hefur byggingarvísitalan ekki hækkað nema um 10.3 stig, en um 10.5 á tveim árum vinstri stjórnarinnar. Þetta er töluleg staðreynd í þessu tímariti.

Og slaufan á öllum rökum hv. þm. var svo sú, að fiskimálasjóður og hækkun lána hjá honum væri alveg sambærileg við byggingarsjóð ríkisins. Nú gegna þeir svipuðu hlutverki sinn á hvorum stað. Hann hefur lýst því yfir, sem ég hygg að sé ekkert leyndarmál, við umr. um hækkun heimildar til að lána úr fiskimálasjóði, að sjóðurinn hafi á s.l. tveimur árum fullnægt öllum beiðnum að hámarki samkvæmt sínum lögum. (Gripið fram í.) Er nú hægt að jafna því saman, ef samkvæmt þeim tölum, sem ég lýsti í minni fyrri ræðu, að vantaði og hefði vantað frá 95 upp í 130 millj. hvert einasta ár, sem byggingarsjóðurinn hefur starfað, og svo því, að fiskimálasjóður fullnægir á s.l. tveimur árum a.m.k. sínum lánbeiðnum? Ég hygg, að það séu ekki sömu forsendur, sem geti legið til heimildahækkunar, enda er heimildahækkun, eins og ég vildi leggja áherzlu á í minni ræðu áðan, engin hagsbót fyrir húsbyggjendur. Heimildin var gefin 1955, þegar lögin voru þá út gefin, upp í 100 þús. kr. Allt fram til ársins 1958 er þó aldrei farið yfir 70 þús. kr. lán. Til hvers var heimildin upp í 70 þús. kr.? Að hvaða gagni kom hún nokkrum húsbyggjanda? Höfuðatriðið er að sjálfsögðu, og það vona ég, að hv. 4. þm. Vestf. eins og aðrir hv. þdm. geti verið mér sammála um, að hægt sé að standa við það hámark, sem lögin ákveða, en ekki, hvað þau heimila langt fyrir ofan allan raunveruleika.

Að þessum orðum mínum sögðum vona ég, að því sé svarað, sem máli skiptir, úr því, sem fram hefur komið um þessi mál.