22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (835)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér ekki hljóðs í því skyni að ræða þetta mál almennt eða fara um það mörgum orðum, heldur einungis til þess að gera athugasemdir við eitt atriði, sem fram hefur komið og allmikið verið rætt nú við þessa umr. Mér skilst það vera samkomulag um það milli þeirra þm., sem flytja brtt. við frv., og hv. formanns nefndarinnar, að þær brtt. verði teknar til athugunar af n. hálfu milli 2. og 3. umr. Þetta styður vitanlega það, að eðlilegt er, að þetta mál fái nú afgreiðslu við 2. umr. og verði þá athugað nánar á milli umr. En mér þykir furðu gegna, hvernig lesið er úr og lagt út af tölum í þessum umr., sem hver einasti þm. hefur í höndum. Það er í sjálfu sér eðlilegt, að þm. og flokka greini á um leiðir við úrlausn mála. En hitt eiga allir að geta verið sammála um, að hagfræðilegar tölur, opinberar, sem eru í hvers manns höndum, hafi eitt og sama gildi, hver svo sem les þær. Og mér finnst það vera naumast hægt að láta þessari umr. lokið án þess, að á þetta sé bent.

Það hafa allir hv. þm. í höndum bæði Hagtíðindi og Fjármálatíðindi, þar sem vísitölur byggingarkostnaðar eru skrásettar. Og það getur ekki farið neitt á milli mála, hverjar þær tölur eru. En niðurstaðan, sem hv. ræðumenn hér í dag virðast hafa komizt að út frá þeim tölum, er næsta ólík. Mér skilst, að sumir ræðumanna leggi mikla áherzlu á að sýna fram á það, að byggingarkostnaður hafi hækkað meira í tíð vinstri stjórnarinnar en í tíð núv. stjórnar. Mér hefur satt að segja verið það hulið fram að þessu, hvernig hægt væri að fá slíka niðurstöðu. Og slík niðurstaða getur auðvitað ekki verið í samræmi við heilbrigða skynsemi án athugunar á tölum, því að þótt verðlag í landinu hækkaði töluvert í tíð vinstri stjórnarinnar, hefur það aldrei tekið þvílíkum risaskrefum til hækkunar eins og nú á s.l. 2 árum. Þetta sjá menn bara við að beita heilbrigðri skynsemi. En svo þegar litið er á tölurnar, þá vitanlega staðfesta þær þetta. Ég vil nú segja, að út af fyrir sig er það ekkert aðalatriði og leysir ekki þann vanda, sem nú er við að fást í þessum málum, þótt eitthvað hafi farið aflaga í tíð vinstri stjórnarinnar, svo að mér þykir það nú eiginlega furðu gegna, hve mikil áherzla er lögð á það, einkum þegar þess er nú gætt, að Alþfl., sem beitir sér fyrir þessu máli, átti aðild að vinstri stjórninni. Það getur því varla hjá því farið, að ef blettir falla á þá stjórn, þá lendi eitthvað af þeim blettum á Alþfl. sjálfum. En nú hefur komið fram sú skýring í þessum umr. á þessari niðurstöðu í ræðu hv. 10. þm. Reykv., að með því að taka árið 1959 inn í þennan reikning, þá sé hægt að finna út meðaltal, sem sé ofur lítið lægra, um hækkun byggingarkostnaðar frá ársbyrjun 1959 til við skulum segja ársloka 1961, heldur en meðaltalið á stjórnartíma vinstri stjórnarinnar.

Nú er það rétt, sem við framsóknarmenn bendum oft á, að núv. stjórnarflokkar tóku völdin í sínar hendur í árslok 1958. En það var ekki sama stjórnin, sem sat þá, og setið hefur síðan seint á árinu 1959 og situr enn. Og það, sem úrslitum ræður í þessu efni og gerir meginmuninn, er það, að á árinu 1959 var fylgt gerólíkri stefnu í efnahagsmálum við það, sem fylgt hefur verið nú s.l. 2 ár. Þetta er meginatriði og ræður úrslitum í þessu sambandi, þegar skoðuð eru áhrif efnahagsstefnunnar á byggingarkostnaðinn í landinu. Og það var á árinu 1959, að hv. 10. þm. Reykv. lét birta af sér fallega mynd á forsíðu Alþýðublaðsins og ýmsir forustumenn Alþfl. aðrir fóru að hans dæmi. Þessum myndum fylgdu feitletraðar klausur, feitletraðar greinar um það, að Alþfl. berðist fyrir stöðvunarstefnunni og frá stöðvunar stefnunni yrði ekki hvikað, ef hann fengi vald til þess að eiga aðild að stjórn landsins framvegis. Þetta er öllum mönnum í fersku minni. En það er fróðlegt, þegar litið er á þessar tölur, vísitölur byggingarkostnaðarins, að gera sér grein fyrir því, hvað á bak við þær liggur og af hvaða rótum er runnin sú hækkun á vísitölu byggingarkostnaðar, sem orðið hefur s.l. 2 ár. Þetta er mjög auðvelt, því að þetta liggur fyrir í Hagtíðindunum. Vísitala byggingarkostnaðarins í heild hefur hækkað úr 134 stigum í 168, frá því að vinstri stjórnin lét af völdum, samkvæmt þeim tölum, sem liggja fyrir á prenti, en í 173 samkv. því, sem hv. 4. þm. Vestf. hefur tekið fram að vísitalan sé nú í febr. 1962. Og allar þessar tölur, allar þessar vísitölur eru miðaðar við einn og sama grunninn, þ.e. 100 1955, þannig að í þessu efni getur ekkert farið milli mála.

Nú er það svo, að hagstofan birtir við og við sundurliðaða útreikninga á þessari vísitölu, þar sem hún gerir sérstaka vísitölu fyrir hvern kostnaðarlið, og sú vísitala, sem síðan er birt og lögð til grundvallar, er meðaltal af vísitölum hvers kostnaðarliðar um sig. Hagstofan skiptir kostnaðarliðum við íbúðarhúsabyggingar í 3 flokka: Það eru hreinir vinnuliðir, hreinir efnisliðir og í þriðja flokknum aðrir liðir, sem eru blandaðir.

Nú skal ég í þessum orðum, sem ég segi hér, láta 3. flokkinn, þ.e.a.s. þá liði, sem taldir eru blandaðir, alveg liggja á milli hluta, vegna þess að það er vitanlega nokkur vandi að greina, hvað liggur til grundvallar hverjum lið fyrir sig. En ég vil leyfa mér, af því að ég hef í höndum þessar tölur, að bera saman þessa sundurliðuðu vísitölu annars vegar frá 1958 og hins vegar 1961, til þess að þær tölur komist þá inn í Alþingistíðindin í þessum umr. í viðbót við annað, sem tekið hefur verið fram.

Þetta lítur þannig út samkv. Hagtíðindum, ef ég tek fyrst hreina efnisliði: Það er mótauppsláttur og trésmíði utanhúss og við þak, vísitalan í okt. 1958 132 og í okt. 1961 132. Þá kemur trésmíði innanhúss o.fl., okt. 1958 132, okt. 1961 133. Múrvinna: okt. 1958 133, okt. 1961 131. Verkamannavinna: okt. 1958 138, okt. 1961 134. Ég skal skjóta því inn í, að ég geri mér þá grein fyrir þessu, án þess að ég hafi leitað staðfestingar á því hjá hagstofunni, að hér komi til áhrif laganna um niðurfærslu verðlags og launa, sem sett voru 1959 og höfðu áhrif í þá átt að draga úr vinnukostnaði. Þá kem ég að öðrum liðum, sem eru hreinir efnisliðir. Það er timbur alls konar: Vísitalan í okt. 1958 143, en í okt. 1961 249. Hurðir og gluggar: í okt. 1958 141, í okt. 1961 228. Sement, steypuefni, einangrunarefni, grunnrör o.fl.: okt. 1958 116 og í okt. 1961 177. Þakjárn, steypustyrktarjárn, vír, hurða- og gluggajárn o.fl.: okt. 1958 140, í okt. 1961 237. Saumur, gler, pappi o.fl.: í okt. 1958 149, en í okt. 1961 221.

Sú byggingarvísitala, sem hér hefur verið rætt um, er meðaltal af þessum liðum. Og ég ætla, að það leiki ekki á tveim tungum, þegar á Þetta er litið, hvert er að rekja ræturnar að þeirri gífurlegu hækkun byggingarkostnaðar, sem átt hefur sér stað tvö s.l. ár. Ræturnar liggja í þeim efnahagsaðgerðum, sem núv. stjórnarflokkar hafa beitt sér fyrir, gengisfellingum, sölusköttum o.fl. af slíku tagi. Og hækkunin kemur fram á efnisliðum byggingarkostnaðarins, en mjög lítið á vinnuliðum hans.

Ég taldi rétt að láta þessar tölur koma inn í Alþingistíðindin, eins og ég sagði áðan, í sambandi við þessa umr., og ég endurtek það, að mér finnst það furðu gegna, að þm. leyfa sér að draga ólíkar ályktanir af tölulegum staðreyndum, sem hver einasti maður hefur í höndum og ekki eiga að geta farið milli mála.