03.11.1961
Neðri deild: 12. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

12. mál, skemmtanaskattsviðauki

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Þetta mál er komið frá hv. Ed. og var þar samþykkt samhljóða, í því felast engin nýmæli. Efni þess er, að á næsta ári skuli innheimta skemmtanaskatt með sama viðauka og hann hefur verið innheimtur með um langt skeið undanfarið. Sú venja hefur skapazt hér á hinu háa Alþ. að framlengja ákvæði um viðauka við skemmtanaskatt til eins árs í senn aðeins, og hefur svo jafnan verið, frá því er viðaukinn var fyrst lögleiddur. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort æskilegt sé að framlengja viðauka við skatta eða skatta yfirleitt til aðeins eins árs í senn, en þó hefur hinu háa Alþingi aldrei sýnzt rétt að breyta frá þessari venju, og hefur því ríkisstj, ekki talið ástæðu til að gera tillögur um, að frá henni verði breytt nú.

Ég vildi leyfa mér að leggja til, hæstv. forseti, að málinu verði vísað að þessari umr. lokinni til 2. umr. og hv. menntmn.