23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. félmn. hefur hreyft því, að meiri hl. hafi ekki getað fallist á þá brtt., sem ég flyt við frv. á þskj. 423, en hún er um það, að hámark lána úr byggingarsjóði verði 200 þús. kr. í stað 150 þús. kr., sem er í frv. Meiri hl. n. rökstyður þetta með því, að þetta hafi ekki hagnýta þýðingu, af því að það muni ekki verða fé til að lána nema 150 þús. Nú getur hv. meiri hl. n. ekkert sagt um það, hvað verður hægt að lána á komandi árum úr þessum sjóði. Það fer eftir því fjármagni, sem tekst að afla sjóðnum, svo að það er ekki mögulegt fyrir meiri hl. að fullyrða neitt um það, hvað hefur hagnýta þýðingu og hvað ekki að standi í lögunum hvað þetta snertir. Hins vegar skil ég þennan rökstuðning þeirra á þá leið, að núverandi stjórnarflokkar ætli sér ekki að beita sér fyrir meiri fjáröflun en það, að það verði hægt að ná þessu 150 þús. kr. marki. Þetta er að mínum dómi hrein stefnuyfirlýsing um það. Þetta er hámark, hvað stjórnarflokkarnir telja alveg nóg að ná, og þess vegna ekki ástæða til að vera að setja inn í lögin hærra mark en þetta. Þrátt fyrir það er sú 50 þús. kr. hækkun á lánunum, sem fyrirhuguð er í frv., ekki nægjanleg fyrir helmingi þeirrar hækkunar á byggingarkostnaði íbúðar, sem orðið hefur á tveimur árum, síðan viðreisnarstefnan hófst. Ég hef ekkert fleira út af fyrir sig að segja um þessa stefnu. Hún er svona. Þetta er sjálf viðreisnarstefnan. Ég er náttúrlega andvígur henni, en þessir flokkar fylgja henni, og þá verður það að gilda, fyrst þeir hafa völdin.