23.03.1962
Efri deild: 69. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (841)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta, sem ég hef þegar sagt í þessu máli, og tvær síðustu ræður gefa ekki tilefni til stórra umræðna þar til viðbótar.

Ég varð þess mjög áskynja síðast við þessar umr. í gær, að í deilum okkar, mín og hv. framsóknarmanna, þá var þeim það sérstakur þyrnir í augum að nefna árið 1959. Það virtist m.ö.o. ekki vera til í almanaki framsóknarmanna, það ár, og af þeim ástæðum mátti helzt aldrei nefna það, því að þá var ekki sá vöxtur í byggingarkostnaði, sem var talinn hentugur til áróðurs í þessu máli. (Gripið fram í) Það sýndi sig á þessu kauplækkunarári, sem hv. 4. þm. Vestf. kallar svo, að þá hefur þó verið meiri vorhugur hjá mönnum til nýbyggingar heldur en var á fjörbrotaári vinstri stjórnarinnar. Eftir síðustu upplýsingum hv. 9. þm. Reykv., sem ég skal engan veginn rengja og hef enga ástæðu til að ætla, að þær tölur, er hann nefndi, séu ekki réttar, þá sýnir það sig, að 510 manns hafa lagt út í nýbyggingar á síðasta ári vinstri stjórnarinnar, 1958, en á þessu ári, sem helzt má ekki nefna, 1959, leggja 642 út í nýbyggingar. Þarna virðist mér falla allverulegur hluti þeirra raka, sem hér hafa verið uppi höfð um, að frá og með valdaafsali vinstri stjórnarinnar hafi fokið í öll skjól varðandi það, að menn legðu í nýbyggingar. Það er hins vegar alveg rétt, eins og ég viðurkenndi í minni ræðu hér í gær, að manni virðist svo hér í Reykjavík og næsta nágrenni, að til færri íbúðarbygginga sé lagt, enda var ekkert farið dult með það í sambandi við þær viðreisnarráðstafanir og þau lög, sem sett hafa verið í sambandi við hina svonefndu viðreisn, að það var talið eitt höfuðatriðið að draga úr fjárfestingu. Það er þess vegna ekkert óeðlilegt, þó að tölur síðustu tveggja ára sýni það, að færri hafi lagt til þessara hluta, og gegn því hef ég aldrei mælt. Hitt sagði ég í gær, að það stangaðist töluvert á fullyrðingar manna um það, að menn væru gersamlega hættir að hugsa til íbúðabygginga, sú staðreynd, að t.d. hafa aldrei flykkzt að önnur eins ósköp af íbúðarlánaumsóknum til húsnæðismálastjórnar á skömmum tíma og á s.l. þremur mánuðum.

Ég hjó eftir því í lok ræðu hv. 4. þm. Vestf., að hann sagði, að það sýndi sig í afstöðu stjórnarliða hér til brtt. hans og hv. 9. þm. Reykv., að það væri alls ekki hugmyndin að standa við þá hækkun, sem boðuð er í frv. á hámarkslánum. Vilja þessir menn þó bæta 50 þús. kr. við það hámark, sem í frv. er, svo að það virðist nú vera lítið samræmi í því að ætla að fela þessum voðalegu mönnum, sem hafa jafnillt í huga og hér er tæpt á, að ætla sér ekki að standa við 150 þús. kr. lán, — að ætla þeim þá að standa við 200 þús. kr. lán. Mér virðast þessi rök haldlítil, og enn þá haldminni eru þau fyrir það fólk, sem því miður er allt of margt og hefur verið allt of margt á undanförnum árum, sem hefur ekki verið hægt að fullnægja sökum fjárskorts í þessum efnum.

Ég læt nægja að vísa til framsöguræðu meiri hl. heilbr.- og félmn. varðandi þær brtt., sem fyrir liggja. Flest af þeim er í öfgaátt, áróðurstíll. eða eitthvað hliðstætt, sem hvergi fá staðizt og til þess eins að bæta ofan á þann blekkingabunka, sem hrúgað hefur verið yfir fátæka húsbyggjendur á undanförnum árum. Það er meginatriði þessa máls, að það sé ekki farið lengra en svo, að menn eigi a.m.k. líkur fyrir því, að það verði staðið við ákvæði frv., en ekki hitt, að hrúgað sé upp heimildum, sem seint eða aldrei yrðu notaðar.