24.03.1962
Neðri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Hæstv. forseti. Haustið 1960 var skipuð n. til að athuga lögin um húsnæðismálastofnun og byggingarsjóð ríkisins o.fl. Hún skilaði áliti nú í haust, ýtarlegu, um verkamannabústaði, sem liggur fyrir hv. Ed., og hún hefur skilað bráðabirgðatillögum um breytingu þá á húsnæðismálalögunum, sem hér liggur fyrir.

Þessi breyting á lögunum um húsnæðismálastofnun ríkisins felur í sér eiginlega tvær aðalbreytingar. Í fyrsta lagi þá, að heimilað er í frv. að hækka lán til íbúðarhúsabygginga úr 100 þús. kr., eins og nú er í lögum, í 150 þús. kr. í öðru lagi er heimilað í þessu frv., að Landsbanki Íslands megi gefa út bankavaxtabréf fyrir 150 millj. kr. í stað 100 millj., sem er í núgildandi lögum. Þetta má segja að séu aðalbreytingar laganna og svo raunar hitt líka, að lagt er til, að framlag ríkissjóðs til endurbyggingar heilsuspillandi íbúða verði nú ekki ákveðið í fjárlögum, heldur skuli framlag ríkisins vera jafnhátt framlagi hlutaðeigandi sveitarfélags. Auk þessa eru svo ákvæði um breytingu á samsetningu húsnæðismálastjórnar, þannig að í henni verði framvegis fimm menn í stað fjögurra, sem kosnir verði hlutfallskosningu á Alþ., og að kjörtímabil húsnæðismálastjórnarinnar verði fjögur ár í staðinn fyrir þrjú.

Þetta eru þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á lögunum nú. Hækkunin á lánveitingunum og á útgáfu vaxtabréfanna og breytingin á framlagi ríkisins í sambandi við heilsuspillandi íbúðir eru fram komnar vegna þess, að gildandi ákvæði um þetta eru talin ónóg og með vaxandi byggingarkostnaði nauðsynlegt að hækka lánin. Þá hefur um leið verið breytt til um skipun nefndarinnar í samræmi við þann hátt, sem nú hefur yfirleitt verið tekinn upp, að fimm manna nefnd, kosin hlutfallskosningu á Alþ., sjái um stjórn þessara mála.

Ég held, að málið sé ekki flóknara en svo, að ég þurfi ekki að hafa um það fleiri orð, en ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.