02.04.1962
Neðri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (850)

156. mál, húsnæðismálastofnun o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á lögum nr. 42/1957, um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til húsbygginga o.fl., hefur ekki inni að halda mörg ákvæði til breytinga á þeirri löggjöf. Helztu efnisbreytingarnar, sem frv. hefur inni að halda, eru fjórar og eru þessar: Í fyrsta lagi, að fjölga á húsnæðismálastjórnarmönnum úr 4 í 5. Í öðru lagi á að lengja kjörtímabil þeirra úr 3 árum í 4 ár. Í þriðja lagi er heimild í frv. til þess að hækka hámarkslán hjá húsnæðismálastofnuninni úr 100 þús. kr. í 150 þús. kr., og jafnframt er heimild til Landsbanka Íslands um útgáfu bankavaxtabréfa hækkuð úr 100 millj. í 150 millj. kr. Fjórða og síðasta efnisbreytingin er sú, að ríkissjóður skuldbindur sig til þess að leggja fram jafnháa fjárhæð árlega og sveitarfélögin ákveða að leggja fram til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum.

Það, sem ég tel höfuðgalla þessa frv., er, að í því er ekki að finna nein ákvæði, er tryggi, að hækkun lánanna geti orðið raunhæf, því að með frv. eru byggingarsjóðnum ekki lagðar neinar nýjar tekjur umfram það, sem hann hefur samkv. löggjöfinni frá 1957. Þetta tel ég höfuðágalla frv. Mín skoðun er sú, að þessum málum verði aldrei komið í viðunandi horf, nema efnt sé til sjóðsmyndunar á vegum byggingarsjóðs ríkisins og honum fengnir tekjustofnar umfram það, sem hann nú hefur.

Með löggjöfinni frá 1957 var í fyrsta skipti reynt að byggja upp veðlánasjóð til húsbygginga, sem í framtíðinni gæti orðið svo öflugur, að hann gæti sinnt því verkefni, sem honum er ætlað að annast, á sæmilegan hátt. En tekjustofnar þeir sem byggingarsjóðnum voru ákveðnir með þeirri löggjöf, hafa verið að ganga æ saman allt til þessa dags, og nú er svo komið, að tekjur byggingarsjóðsins af þessum tekjustofnum eru ekki nema rúmur helmingur þess, sem áætlað var að þeir mundu gefa árlega, þegar löggjöfin frá 1957 var sett.

Vegna undirtekta, sem frv., er ég flutti hér í upphafi þessa þings, hlaut í umr. hér af hálfu stjórnarliða, en frv. þetta gerði ráð fyrir því, að lán úr byggingarsjóði ríkisins hækkuðu í 200 þús. kr., — þá gagnrýndu þeir stjórnarliðar, sem þátt tóku í þeirri umr., það mjög, að ekki væri gert ráð fyrir neinni tekjuöflun til byggingarsjóðsins í því, — skyldi maður ætla, að þegar hæstv. ríkisstj. leggur sjálf fram frv. í þessa stefnu, þar sem gert er ráð fyrir hækkun útlána byggingarsjóðsins, væri í frv. að finna ákvæði, er tryggðu tekjuauka fyrir hann, en þau ákvæði er ekki að finna í því. Ég held, að það sé nauðsynlegt að koma starfsemi húsnæðismálastofnunarinnar á tryggari grundvöll en hann er nú. Mér finnst það neyðarúrræði, að afla þurfi tekna til sjóðsins með samningum ríkisvaldsins við bankastofnanir í landinu frá ári til árs. Það vantar meiri festu í starfsemina en slíkt fyrirkomulag getur veitt.

Á þskj. 552 hef ég leyft mér að flytja tvær brtt. við þetta frv. Sú fyrri hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á eftir 4. gr. komi ný grein, svo hljóðandi: Á eftir d-lið 3. gr. laganna komi nýr stafliður svo hljóðandi:

Ríkissjóður greiði byggingarsjóði ríkisins 4% árlega frá og með árinu 1963 af innheimtum söluskatti af vörusölu og þjónustu innanlands og bráðabirgðasöluskatti af innflutningi (8%), þó ekki af hluta sveitarfélaganna.“

Af fjárlögum fyrir árið 1962 má sjá, að tekjuauki þessi mundi það árið hafa gefið í byggingarsjóðinn um 17 millj. kr., hefði hann þá verið í gildi. Ég tel ekki ósanngjarnt, að ríkissjóður afsali sér þessum tekjum sínum til þess að standa undir lánum til húsbygginga, því að auknar tekjur ríkissjóðs af söluskatti eru ekki að svo litlu leyti fengnar með skattaálagningu á innflutt byggingarefni, og teldi ég ekki nema sanngjarnt, að nokkru af þeim hluta yrði skilað aftur í lánasjóð til húsabygginga.

Við 3. gr. frv. flyt ég brtt. um það, að í stað orðanna „150 þús. kr.“ komi: 200 þús. kr. Það hefur verið sýnt fram á það í þeim umr., sem hér hafa orðið um húsnæðismálin, að byggingarkostnaður á meðalíbúð hafi á s.l. 2 árum hækkað um og yfir 100 þús. kr., þannig að hækkun hámarksláns byggingarsjóðs ríkisins í 200 þús. kr. mundi ekki gera betur en vega á móti þeim hækkunum, sem hafa orðið á valdatíma núv. hæstv. ríkisstj.

Ég er mótfallinn ákvæðum í 1. gr. frv. um fjölgun manna í húsnæðismálastjórn og lengingu kjörtímabils þeirra. Eins og komið hefur fram í grg. frá minni hl. húsnæðismálastjórnar, hefur það á engan hátt staðið þeirri stofnun fyrir þrifum, þó að stjórnarmenn væru þar aðeins 4, en ekki 5, eins og frv. gerir ráð fyrir að verði, eftir að það hefur verið samþykkt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frv. nánar. Þessi mál hafa verið mikið rædd hér á undanförnum mánuðum, og hafa flestallir þm. haft aðstöðu til þess að láta sín sjónarmið koma þá fram.