12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Einar Olgeirsson:

Hæstv. forseti. Ég gat ekki verið sammála hv. samnefndarmönnum mínum í hv. menntmn. um afgreiðslu á þessu máli. Ég held satt að segja, að það væri rétt að athuga þetta betur, því að mér sýnist ekki, að neitt liggi á að afgreiða þetta. Á fjárlögunum fyrir þetta ár er veitt til kirkjubyggingasjóðs 1 millj. kr., þannig að það er ekki neinum vandkvæðum bundið um framlögin á yfirstandandi ári. Ég held, að það mætti þess vegna alveg bíða til næsta þings að athuga, hvað gert skuli í þessum málum.

Ég vil vekja athygli hv. þingmanna á því, að 2. gr. þessa máls hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sjóðsins er heimilt að hækka lánsupphæðir þær, sem um ræðir í 1. mgr., til samræmis við það, sem vísitala byggingarkostnaðar hefur hækkað hverju sinni frá vísitölutímabitinu 1. okt. 1953 til 30. sept. 1954.“

M.ö.o.: það á að lögskipa lánveitingar samkvæmt vísitölu úr ákveðnum sjóði, sem ríkið hefur með að gera. Þetta getur máske verið ágætis fyrirmynd, og ég vildi spyrja, hvort þetta væri sérstaklega sett þarna inn með þetta fyrir augum, að það ætti að taka upp þann hátt, að héðan í frá skyldi það lögskipað, að í öllum þeim sjóðum, sem ríkið kemur nærri, skuli gilda sú regla, að það skuli lána út samkv. vísitölu, eftir því, hvernig hækkað hefur frá 1953, þannig að almenningur. sem nú þjáist mjög undir dýrtíð í sambandi við íbúðarhúsabyggingar, megi eiga von á því nú þegar á þessu þingi, að svo verði mælt fyrir í lögum, að öll lán skuli hækka, úr sjóðum eins og byggingarsjóði ríkisins og öðrum slíkum, sem ríkið hefur eitthvað með að gera. Ég vil enn fremur spyrja að því, hvort það sé meiningin í sambandi við t.d. byggingarsjóð landbúnaðarins og annað slíkt, að það eigi að fyrirskipa, að það skuli samkv. vísitölu hækka öll lán úr öllum þeim sjóðum, sem ríkið hefur með að gera, í samræmi við hækkun vísitölu frá 1953 til 1954. Og þá býst ég við náttúrlega, ef bæði íbúðarhúsabyggingar og landbúnaðurinn eigi að njóta slíks, að þá muni vafalaust fleiri fara þar á eftir.

Ég held, að það hljóti að vera meiningin, að eitt gangi nokkurn veginn yfir alla í þessum efnum, hvað snertir lánasjóði ríkisins, og ekki fæ ég séð, að t.d. kirkjubyggingar eigi að hafa þar nein forréttindi fram yfir byggingar fyrir fólk, lifandi fólk, og þess vegna vildi ég gjarnan fá, áður en þetta mál héldi áfram, upplýsingar um það, fyrst þetta er stjórnarfrv., hvort þetta er prinsip-ákvæði hjá hæstv. ríkisstj. og hvort það megi búast við, að sami háttur verði hafður á um útlán úr öllum öðrum sjóðum. Ef svo skyldi fara, að hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir, að þetta væri meiningin og yrði nú þegar gert á þessu þingi, þá mundi ég út af fyrir sig kannske geta fellt mig við þetta, af því að það gæti þó orðið til einhvers góðs. En meðan það kemur ekki, álít ég, að það sé ekki þörf á að afgreiða þetta frv. á þessu þingi og það mætti þá bíða.

Það er vitanlegt, að hvergi kreppir eins að almenningi nú og einmitt í sambandi við byggingar, og fyrir þessu þingi liggja allmörg frv., sem hafa ekki fengið afgreiðslu enn þá, einmitt um að reyna að laga dálítið til í þeim málum, og þess vegna væri gott að heyra um leið, hver er ætlun hæstv. ríkisstj. viðvíkjandi afgreiðslu á slíkum málum, sem eru orðin mjög erfið fyrir almenning. Hins vegar verð ég að segja það, að ef ríkið hefur efni á því, — en stundum er nú verið að kvarta yfir, að það séu ekki allt of miklir peningar til, og maður fær stundum að heyra, að það séu ekki allt of miklir peningar til, — ef ríkið hefur efni á því að ákveða, að á hverju einasta ári skuli verja 1 millj. til kirkjubygginga, þá held ég, að það væri rétt að athuga, hvort það eru ekki ýmsar aðrar byggingar, sem væru máske álíka nauðsynlegar.

Ég verð að segja, að ég held t.d., eins og nú er komið ástandinu í okkar þjóðfélagi, þar sem vitað er, að ef fjölskylda á að draga fram lífið og ekki sízt ef ung hjón eiga að geta byggt yfir sig, þá verða venjulega bæði konan og maðurinn að vinna úti, þá væri ekki síður og jafnvel frekar þörf á því að skapa sérstakan barnaheimilissjóð, sem veitt væri í 1 millj. á ári til þess að byggja fyrir barnaheimili, sem gætu tekið að sér að taka á móti þeim börnum, sem foreldrarnir þurfa að koma frá sér, til þess að þau geti unnið fyrir heimilinu. Það er vitanlegt, að það er á fáum sviðum orðin önnur eins þörf á nýjum byggingum og nýrri starfrækslu og einmitt hvað barnaheimili snertir, og ég held, þegar við erum að ræða um, hvernig eigi að verja fé, þá sé það a.m.k. mjög athugandi, ef við höfum að áliti okkar fjármálamanna efni á því að setja 1 millj. í sérstakan byggingarsjóð, hvort það væri ekki nær af okkur að verja því í sérstakan barnaheimilissjóð, sem hjálpaði til þess að koma upp barnaheimilum, bæði hér í höfuðstaðnum og annars staðar. Það er, eins og allir vita, svo yfirfullt um aðsókn að barnaheimilum, að það er ekki hægt að koma að — ja, ég veit ekki, hvað ég á að segja — tíunda eða fimmta partinum af þeim börnum, sem sótt er um að koma þar að á hverju ári. Og þó að kirkjurnar séu kannske vel sóttar á stórhátíðum, þá held ég, að það sé ekki slík þröng í þeim á venjulegum sunnudögum.

Ég held þess vegna, að það væri rétt af hv. deild, af því að ekki kemur til með að væsa um kirkjubyggingar í ár, að láta þetta mál bíða, eins og nú standa sakir, og athuga, hvort þessu fé yrði ekki betur varið öðruvísi, ef menn vilja hækka þetta upp í 1 millj., og athuga um leið það, sem ég gat um í upphafi míns máls, hvernig eigi að verða með vísitölulán úr sjóðum ríkisins. Það er máske líka rétt að spyrja að því um leið, ef á að fara inn á þessar vísitölugreiðslur eða vísitöluhækkanir viðvíkjandi lánum, hvort það eigi kannske að koma svo á eftir, að það verði farið að afnema þau lög, sem sett voru hér um árið og breyttu öllum þeim samningum, sem þá voru fyrir, að það væri bannað að borga samkvæmt vísitölu, þegar atvinnurekendur hefðu samið við verkamenn um það. En það virðist sem sé eiga að gilda eitthvað annað, þegar það eru lán úr sjóðum, raunverulega sjóðum ríkisins, eða sjóðum, sem ríkið styrkir og heldur uppi til ákveðinna framkvæmda.