12.03.1962
Neðri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í B-deild Alþingistíðinda. (866)

128. mál, Kirkjubyggingarsjóður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst gera þá athugasemd, að hvað sem menn telja um kirkjubyggingar almennt, þá eru þær ætlaðar fyrir menn ekki síður en ýmsar aðrar þarfar byggingar, en það var auðheyrt á orðum hv. síðasta ræðumanns, að hann gerði mun á kirkjubyggingum og byggingum fyrir menn.

Um þetta frv. er það að segja, að það er flutt að beiðni biskups og eftir samþykkt, sem gerð var á síðasta kirkjuþingi, fyrir hér um bil 1½ ári. Þær reglur, sem hér eru ráðgerðar, eru því eftir tillögu þessara aðila og lýsa ekki almennt afstöðu til allt annarra og ólíkra mála.

Meginbreytingin er sú, sem segir í 1. gr., að ráðgert er, að framlag í kirkjubyggingasjóð hækki úr 500 þús. kr. á ári næstu 20 ár í 1 millj. kr. Með ákvæðum fjárlaga var búið að hækka þetta framlag upp í 800 þús. í gildandi fjárlögum var þetta hins vegar hækkað upp í 1 millj. kr., þá fjárhæð, sem nú er ráðgert að lögfesta til frambúðar. Frá því, sem fé er nú þegar veitt, er þess vegna ekki um neina aukna fjárveitingu úr ríkissjóði að ræða.

Varðandi aftur á móti þær reglur, sem gilda um lánsupphæðir, þá er þar einungis um heimildarákvæði að ræða. Og ég vil minna á, að einmitt nú fyrir þessu þingi liggja frumvörp bæði um fjárhæðir, sem lána má til ýmiss konar landbúnaðarframkvæmda og einnig til venjulegra húsbyggingarframkvæmda, þannig að það er hægt samtímis fyrir þingið og með hliðsjón af þeim reglum, sem settar eru í hverju frv. um sig, að koma fullu samræmi á í þessum efnum. En þá skiptir auðvitað ekki mestu, hver heimild lánsupphæðar skuli vera, heldur að raunverulega sé fé fyrir hendi í því skyni, að hægt sé að verja sem mestu til þeirrar heimildar, sem fyrir hendi er. Og það er ekki óeðlilegt, úr því að nú er gerð breyting á lögum um kirkjubyggingasjóð, sem sett voru 1954 og var þá takmörkuð heimild lánsupphæðar, að þá sé sú heimild gerð þeim mun ríflegri sem byggingarkostnaður hefur hækkað á þessu tímabili. Hvort þar er hins vegar fyrst og fremst um pappírsgagn að ræða eða ákvæði, sem koma að raunverulegu gagni, kemur undir því, hversu miklu fé sjálfur sjóðurinn hefur yfir að ráða. Mér skilst samkv. því, sem hér kemur fram, að talið sé, að töluvert meira fé hefði þurft á að halda en hér er heimilað, til þess að þetta ákvæði kæmi að fullu gagni. Þó er ljóst, að hækkun upp í 1 millj. kr. á ári sem framlag ríkissjóðs til kirkjubyggingasjóðs verður til þess, að nokkuð verulega er hægt að hækka einstakar lánsupphæðir frá því, sem verið hefur, og þó fer það auðvitað mjög eftir því, hversu mikil eftirsókn er frá einstökum söfnuðum í landinu, til þess að koma upp kirkjubyggingum hver fyrir sig.

Ég legg áherzlu á það, að samkv. þessu frv. á ekki að verja árlega meira fé í þessu skyni en Alþingi nú þegar er búið að benda til að það sé ásátt um að í þessu skyni sé varið með setningu núgildandi fjárlaga, og að samkv. reglunum um lánsfjárupphæðina er ekki verið að taka á sig skyldu til þess að verja ákveðnum fjárhæðum, heldur einungis rýmkuð heimildin, ef fé er fyrir hendi.