09.03.1962
Neðri deild: 62. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (893)

157. mál, aðstoð við fatlaða

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ef frv. það, sem hér er til umr., verður að lögum, þá kveður það svo á, að leggja skuli 3 kr. aukagjald á hvert kg. af sælgæti, sem framleitt er í landinu, og renni gjald þetta í styrktarsjóð fatlaðra, en sjóðurinn skal vera samkv. ákvæðum frv. í vörzlu félmrn. Ætlazt er til þess, að þetta ákvæði gildi í næstu 10 ár. Fé þessu skal síðan varið til byggingar og rekstrar vinnustofnana fyrir fatlað fólk. Um stjórn sjóðsins skal sett reglugerð. Framleiðendur skulu greiða gjaldið og innheimta það með öðrum tekjum til ríkissjóðs, en heimilt er framleiðanda að leggja gjaldið á vöruna. Gjaldið er því raunverulega greitt af neytendum á sama hátt og hinn almenni söluskattur er nú. Ætlazt er til, að þessi ákvæði taki nú þegar gildi og standi, eins og ég gat um áðan, í 10 ár.

Það er síður en svo æskilegt, að farið sé lengra inn á þá braut að lögfesta ákveðna tekjustofna til að standa undir ákveðnum framkvæmdum í landinu á þann hátt, sem lagt er til í þessu frv. Enn sem komið er þykir þetta eina leiðin til þess að koma í framkvæmd ýmsum aðkallandi verkefnum, sem vitað er að mikið tjón er að fyrir þjóðina að sé frestað. En þar til mál þessi öll eru tekin til heildarendurskoðunar, verður tæplega stætt á því að neita um þá aðstoð, sem frv. það, sem hér um ræðir, ákveður, þegar haft er jafnframt í huga það verkefni, sem féð skal inna af hendi.

Eins og fram er tekið í aths. við frv., var skipuð mþn. um atvinnu- og félagsmál öryrkja 1959, og segir þar m.a. í grg.: „Mþn. um atvinnu- og félagsmál öryrkja, sem skipuð var á vorþingi 1959, hefur kynnt sér það, sem unnið hefur verið að málefnum öryrkja til þessa, og er það skoðun n., að stórfelldur árangur hafi orðið af því starfi.“

Fyrst beitti sér fyrir þessum umbótum, eins og kunnugt er, S.Í.B.S. með því að reisa þær miklu byggingar, sem reistar hafa verið á Reykjalundi, og koma þar upp raunverulegu öryrkjahæli, þar sem sjúklingarnir gátu unnið undir eftirliti læknis. Er þjóðinni kunnugt um, hve mikið gagn hefur verið af þeim störfum, þar hefur verið haldið til haga tugþúsundum vinnustunda, sem annars hefðu farið forgörðum. Þeir sjúklingar voru engan veginn hæfir til þess að taka upp baráttu á hinum almenna vinnumarkaði, og höfðu því orðið algerlega útundan eða svo að segja algerlega um störf í þjóðfélaginu, þar til þessi stefna var tekin upp að láta þá vinna eftir getu og undir lækniseftirliti og skapa þeim skilyrði til þess að geta unnið við sérstakar aðstæður. Þessi reynsla hefur sýnt, að það er hægt að fara lengra en í raðir berklasjúklinga. Það er hægt að útfæra þetta til ýmissa annarra þegna í þjóðfélaginu, sem ganga ekki heilir til skógar, og þess vegna hafa þeir aðilar, sem vinna að þessum störfum, sérstaklega óskað eftir því, að þeim væri gefið tækifæri til þess að geta búið svo í haginn, að einnig aðrir aðilar í landinu, sem ekki hafa fulla heilsu, geti haft aðstöðu til þess að vinna eftir því, sem kraftar þeirra leyfa.

Félmn, hafði tekið þetta mál til meðferðar og var einróma sammála um að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt. En eftir að nefndin hafði gengið þannig frá málunum, barst henni erindi frá Félagi ísl. iðnrekenda, sem mælir eindregið gegn því, að frv. verði samþ. Erindið hefur ekki verið birt sem fskj, með nál., enda hafði nál. verið gefið út, áður en n. barst erindið. Mér þótti hins vegar sjálfsagt, að fresta því, að málið kæmi fyrir hér til 2. umr., þar til nefndin hefði haft tækifæri til þess að athuga hið langa og ýtarlega erindi frá Félagi ísl. iðnrekenda um málið. Nefndin hefur því haldið fund um það á ný og orðið einnig sammála um að leggja til, að frv. verði samþykkt óbreytt, þrátt fyrir þau mótmæli, sem hér koma fram. Mér þykir þó rétt hér að geta nokkurra þeirra meginatriða, sem koma fram í þessu erindi, en það er fyrst og fremst, að grunngjald af innlendri tollvöruframleiðslu, sem var ákveðið með lögum nr. 60 1939, hafi verið margsinnis hækkað og nemur nú heildarálagið á grunngjaldið frá því ári 1880% eða úr kr. 2.10 á kg upp í kr. 41.58 fyrir kg. Hér er sundurliðað, hvernig þetta hefur þróazt, en ég sé ekki ástæðu til þess að lengja umr. með því að taka það sérstaklega upp. Þá er einnig sýnt fram á, að afleiðingin af þessu hafi orðið sú, að framleiðslan hafi stórkostlega minnkað á þessu tímabili og hún hafi minnkað í öllum liðum framleiðslunnar nema lakkrísframleiðslu, á suðusúkkulaði hafi hún minnkað um 5.4%, átsúkkulaði um 25.9%, brjóstsykri 30.3%, konfekti 11.6%, karamellum 38.6%, en lakkrís hafi hins vegar aukizt um 15.9%.

Það kemur skýrt fram í erindi Félags ísl. iðnrekenda, að þeir telja aðalástæðuna eða jafnvel einu ástæðuna fyrir þeirri lækkun, sem hér hefur verið lesin upp, vera tollinn, sem lagður hafði verið á, svo sem ég hef áður greint frá. Nefndin leggur engan dóm um það atriði á þessu stigi málsins út af fyrir sig. En það hefur ekki breytt afstöðu hennar til málsins, þótt þessi skýrsla lægi fyrir. Það kemur og fram í erindi frá Félagi ísl. iðnrekenda, að eftirspurn eftir sælgæti hafi einnig beinzt inn á aðrar brautir, þ.e. að aðrar vörur keppi um það fé, sem almenningur ráðstafar í slíku skyni, og nefnir þar mjólkurís. Ég vil í sambandi við þetta benda á, að nefndin sá ekki ástæðu til þess að gera neinar ráðstafanir, sem kæmu í veg fyrir það, að fólk keypti heldur mjólkurís, sem er að allmiklu leyti innlend framleiðsla frá landbúnaðarafurðum. Einnig er nefnt súkkulaðikex og alveg sérstaklega nýir ávextir. Við töldum þessar upplýsingar tákn þess, að þjóðin væri að vitkast, ef hún eyddi fé sínu frekar í að kaupa nýja ávexti heldur en kaupa sælgæti. Þá er einnig bent á, að framleiðsla á sælgætisvörum hafi minnkað um nær 20% s.l. 5 ár þrátt fyrir nokkra söluaukningu, sem hefði átt sér stað á hverju ári vegna aukins fólksfjölda. Þá bendir einnig Félag ísl. iðnrekenda á það, að með þessari sífelldu lækkun gæti svo farið, að ríkissjóður raunverulega tapaði meira í tollum af framleiðslunni, sem fari sífellt minnkandi, eins og ég hef tekið fram, en nema mundi því, sem styrktarsjóðurinn fengi í tekjur af því gjaldi, sem hér hefur verið lagt á. Ég skal á þessu stigi ekkert dæma um það atriði. Reynslan verður að sýna, hvort það verður, og er þá sjálfsagt hægt að taka málið til athugunar á ný. En eins og ég tók fram áðan, er ekkert af þessum liðum, sem settir eru hér fram, sem orsakar það, að neinn nm. hafi viljað láta athuga málið nánar eða fresta afgreiðslu þess eða leggja til, að frumvarpið yrði ekki samþykkt.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að þetta muni gefa um 1250 þús. kr. í styrktarsjóðinn á ári. En ef marka má sölu á sælgæti á s.l. ári, sýnist nefndinni, að þetta mundi geta gefið að þeirri framleiðslu óbreyttri allt að 1½ millj. kr.

Ég vil að síðustu leyfa mér að benda á, að hvaða leið sem yrði farin til þess að efla tekjur sjóðsins, þá má ekki undir neinum kringumstæðum fara þá leið, sem gæfi minni tekjur en þetta frv. gerir ráð fyrir. Þörfin á að koma þessum stofnunum upp er svo aðkallandi, að þjóðin verður að leggja á sig töluverðar byrðar til þess að koma þeim verkum í framkvæmd. Þar er ekki einasta um að ræða, eins og ég tók fram áðan, að tryggja tugþúsundir dagsverka, sem annars færu forgörðum og ríkissjóður hefur að sjálfsögðu töluverðar tekjur af, heldur er hér um að ræða að skapa þessu fólki, sem gengur ekki heilt til skógar, sæmileg lífskjör og einkum og sér í lagi trú á sjálft lífið, skapa því möguleika til að taka þátt í þeirri uppbyggingu, sem jafnan fer fram í þjóðfélaginu, og það er e.t.v. miklu meira virði en nokkuð annað í sambandi við þetta mál. Þó að nefndin því sjái ýmsa annmarka á því, eins og ég hef tekið fram, að þessi leið sé farin, metur hún hitt atriðið miklu meira og leggur því til, að frv. verði samþykkt óbreytt.