16.03.1962
Efri deild: 65. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 860 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

157. mál, aðstoð við fatlaða

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta mál er komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ. samhljóða. Það er ósköp einfalt og óbrotið. Það er gert ráð fyrir því, að gjald verði tekið af innlendum tollvörutegundum, sem taldar eru upp í lögum þar að lútandi, og ákveðið, að það skuli vera í næstu tíu ár sem svarar 3 kr. af hverju kg, og skal það gjald renna í styrktarsjóð fatlaðra, sem skal vera í vörzlu félmrn. Það er enn fremur sagt, að sælgætisframleiðendur skuli mega leggja þetta gjald á vöruna, en telst ekki innifalið í söluverði við álagningu söluskatts.

Þetta er raunverulega efni frv. það, sem á bak við er, er þetta: Það var sett hér n. fyrir tveim árum til þess að rannsaka öryrkjamálin í landinu. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að þar hefði verið unnið af ýmsum aðilum mjög mikið og gott verk til þess að leggja þessu fatlaða fólki lið og reyna að koma því á réttan kjöl í lífinu. Það hefur verið stofnað til vinnuheimila, þar sem öryrkjarnir hafa getað fengið vinnu við sitt hæfi, og þar við hefur unnizt tvennt í senn. Þeir hafa getað aflað sér nokkurra tekna til lífsframfæris og öðlazt allt aðra og ég vil segja bjartari lífsskoðun en þeir höfðu áður, er þeir voru dæmdir til að sitja úti í horni og hafast ekki að.

Það, sem þess vegna liggur mjög mikið á að gera, er að auka fjárráð þeirra stofnana, sem hafa þessa starfsemi með höndum, og það er það, sem meiningin er með þessu frv.

Þetta frv. er að heita má alveg nákvæmlega tekið upp eftir tillögum mþn. í örorkumálum. Þó skal ég leyfa mér að taka fram, að þar var gert ráð fyrir, að gjaldið rynni til landssambands fatlaðra, Sjálfsbjargar, en hér er gert ráð fyrir, að gjaldið renni í sérstakan sjóð, sem sé í vörzlu félmrn., og að veitt verði úr honum til vinnuheimilabyggingar o.fl.

Það er gert ráð fyrir því, að þetta gjald, sem hér er lagt til að tekið verði, muni nema nokkuð á aðra milljón króna á ári, og raunverulega er það gjald, sem leggst á almenning í landinu, sem ég veit að muni ekki telja eftir sér að greiða það.

Ég skal líka taka fram, að iðnrekendur hafa mótmælt þessu frv. og lagt til, að það verði fellt, ekki vegna þess, að það leggist á þá beinn kostnaður út af þessu gjaldi, heldur vegna hins, að þeir telja, að e.t.v. muni salan eitthvað minnka við það, að þetta verði tekið upp. Ég er ekki á þeirri skoðun, að svo verði, og hefur þess vegna ráðuneytið ákveðið að taka a.m.k. að svo stöddu máli ekki tillit til þessara mótmæla iðnrekenda.

Þetta er mjög líkt fyrirkomulag og haft var um aðstoð við vangefna, sem líka hafa verið studdir með fjárframlögum hér á hv. Alþingi á þessu þingi, þar sem gjaldið af öli og gosdrykkjum var þrefaldað vegna þarfa þeirra, og þetta frv. miðar í sömu átt. Hv. Nd. hefur verið einhuga um afgreiðslu málsins, og hv. Ed. var, að ég ætla, líka einhuga um gjaldið til vangefinna nú fyrir skömmu. Vildi ég því mega vona, að hv. deild gæti einnig orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.