02.04.1962
Efri deild: 77. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

157. mál, aðstoð við fatlaða

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Nefndin hefur rætt þetta frv. og samþ. að mæla einróma með því, að það verði samþykkt með þeirri breytingu eða viðbót, sem fram kemur í nál. á þskj. 569. En í þeirri brtt. felst það að leyfa Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins að setja merki styrktarsjóðs lamaðra og fatlaðra á eldspýtustokka og greiða félaginu allt að 20 aurum af hverjum stokki, sem verzlunin selur með merki félagsins. Verðhækkun á eldspýtum af þessum sökum skal vera undanþegin smásöluálagningu. Það, sem í þessari grein felst, er að hækka það gjald, sem styrktarsjóði lamaðra og fatlaðra hefur verið leyft að fá af eldspýtustokkum, sem seldir hafa verið með merki þeirra, úr 10 aurum, sem verið hefur undanfarið, og í 20 aura, en þetta er talið að sé nauðsynlegt til að gera félaginu kleift að sinna því starfi, sem það hefur sinnt undanfarið, endurþjálfun lamaðra og fatlaðra í lækningastöð sinni. Þessi till. og raunar líka sjálft frv. eru samkv. till. mþn., sem kosin var 1959 og skilaði áliti um öryrkjamál, hvað heppilegast og nauðsynlegast væri að gera öryrkjum til styrktar, og taldi n., að það væri heppilegast að gera það með þeim hætti að efla þau samtök, sem öryrkjarnir og styrktarfélög þeirra hafa þegar gengizt fyrir og hafið fjársafnanir til styrktar þeirra málum. Það var talið nauðsynlegt, að styrkur ríkissjóðs eða hins opinbera kæmi á þennan hátt. Það er að vísu mikið álitamál, hvort heppilegt er að leyfa einstökum félögum eða samtökum sérsköttun eða leyfi til skattlagningar. En á meðan ríkið sér ekki fyrir þeim þörfum, sem svona brýnar eru, á annan hátt, verður ekki hjá því komizt. Ég tel raunar, að það sé orðið tímabært að endurskoða þessa löggjöf, bæði um skattlagningu, sem einstök félög eða félagasamtök hafa fengið, og sömuleiðis óbeina skattlagningu, sem slík samtök hafa fengið t.d. með happdrættisleyfum eða á annan svipaðan hátt. Þetta er að verða svo útbreitt, og það er svo mikil ásókn á nýja skattstofna fyrir einstök félög og félagasamtök, að það er sjálfsagt orðið tímabært að taka það til heildarathugunar. En þar til það verður, er óhjákvæmilegt að sjá þessum nauðsynjafyrirtækjum fyrir tekjum, og n. leggur til, að þessar till. verði báðar samþ., bæði frv. og þessi viðbót, sem n. leggur til á þskj. 569.