07.11.1961
Neðri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 906 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þeir hv. þm. Austf., sem hér hafa talað, hv. 1. þm. Austf. og hv. 4. þm. Austf., hafa báðir haldið því fram, að það frv., sem hér er til umr., væri stjórnarskrárbrot, það hefði verið óheimilt samkv. stjórnarskrá lýðveldisins að gefa brbl. út með því efni, sem í þeim er, og hv. 4. þm. Austf. bætti því við, að annað frv., sem þessu er nátengt, en að vísu er hér ekki til umr., væri einnig stjórnarskrárbrot. Ég vildi fara um þessar fullyrðingar nokkrum orðum.

Mér skilst, að fullyrðingarnar um, að þetta frv. sé stjórnarskrárbrot, byggist á ummælum, sem viðhöfð voru í sameinuðu þingi af hálfu hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) nú fyrir nokkru. Að því er skilið varð, var hugsunargangur hans sá, að jafnvel þótt segja mætti, sem hann vildi út af fyrir sig vefengja, að brýn nauðsyn hefði verið til þess að gefa út brbl. um nýja gengisskráningu, þá gæti það ekki með neinu móti talizt brýn nauðsyn né fengi staðizt, að ríkisstj. með útgáfu brbl. tæki af Alþingi það vald, sem það hefði haft til gengisskráningarinnar.

Hér er undarlega málum blandað, vegna þess að ríkisstj. sviptir Alþingi ekki neinu valdi með þessu, heldur er það efni frv., að ríkisstj. felur öðrum aðila en sjálfum sér það vald, sem hún hefur. Það er óumdeilt, að ríkisstj. hefur með atbeina forseta heimild til þess að gefa út brbl. á milli þinga, og þar á meðal, ef hún sjálf metur, að brýn nauðsyn sé fyrir hendi, til þess að kveða á um nýja gengisskráningu. Þetta vald hefur því jafnvel frá sjónarmiði þeirra manna, sem þessum athugasemdum hreyfa, ríkisstj. ótvírætt. Það, sem hún gerði með brbl., var því að láta Seðlabankann fá það vald, sem hún ein hafði ella, eins og á stóð. Og Alþingi hefur vitanlega í hendi sér að fella þetta frv. eða breyta því, jafnskjótt og það kemur til, ef það er þessari skipan andvígt, alveg á sama hátt og Alþingi hefur vald til þess, hvenær sem er, að kveða sjálft á um nýja gengisskráningu eða annað fyrirkomulag hennar en ákveðið er með brbl. Þessu valdi Alþingis hefur ekki á nokkurn hátt verið haggað eða breytt með útgáfu þeirra brbl., sem hér er um að ræða.

Það fær heldur engan veginn staðizt, að ekki megi með brbl. gera aðra skipan um ákvörðun einhvers atriðis heldur en Alþingi hefur kveðið á með sérstökum lögum. Jafnvel þó að Alþingi hafi áskilið sér að hafa úrslitavald í þeim efnum, ef það er gert með einföldum lögum, settum á Alþingi, þá fær breyting á þeirri ákvörðun með brbl. fyllilega staðizt. Það er einungis, ef stjórnarskráin sjálf felur Alþingi eitthvert vald, sem ekki má taka það vald af Alþingi með setningu brbl. Að öðru leyti er bráðabirgðalöggjafinn í þessu algerlega óbundinn.

Sú hugsun, sem kom fram hjá hinum hv. 3. þm. Norðurl. v., hvílir því á mjög einkennilegum misskilningi á því, sem hér er um að ræða, og er mjög furðulegt, að svo stjórnvanir menn sem þessir tveir hv. þm. Austf. skyldu taka þann misskilning upp og ekki átta sig á, að fullyrðing hv. 3. þm. Norðurl. v. fékk ekki staðizt.

Það er svo annað mál, sem ég mun víkja að á eftir, hvort það eftir atvikum hafi verið skynsamleg og eðlileg ráðstöfun af ríkisstj. að fela Seðlabankanum þetta vald sitt, eins og á stóð. Það er allt annað mál. En það er ljóst, að með brbl. er ekki nein valdskerðing gagnvart Alþingi framin.

Þá hélt hv. 4. þm. Austf. því fram, að hin brbl., sem eru ekki hér til umr., en blönduðust mjög inn í hans mál og raunar hjá þingbróður hans, hv. 1. þm. Austf., einnig, — hv. 4. þm. Austf. hélt því fram, að þau brbl. væru stjórnarskrárbrot. Hann færði að vísu engin rök fyrir þeirri fullyrðingu. Ég get ekki skilið, að hún geti í hans huga stuðzt við annað en ákvæði 40. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir: „Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.“

Mér skilst, — hv. þm. leiðréttir mig, ef ég misskil, — að hann byggi á þessu ákvæði, að ekki megi með brbl. leggja á skatt, breyta honum né taka af. Þessi hugsun fær ekki með neinu móti staðizt. Hér er ekki verið að takmarka vald bráðabirgðalöggjafans, sem í þessu fer að öllu með sams konar vald og hinn almenni löggjafi, heldur er þessari 40. gr. beinlínis beint gegn ákvæðum settum í fjárlögum, sem sett eru á annan veg heldur en með venjulegum lögum, og efni þessa ákvæðis er, að ekki megi breyta skattalöggjöfinni með einföldu fjárlagaákvæði. Nú er það að vísu annað mál, að öll atriðin í 40. gr. hafa ekki verið virt af Alþingi sem handhafa fjárlagavaldsins. Þannig vitum við, að heimildir til lántökuábyrgða og ráðstafana á einstökum eignum ríkisins hafa stundum verið veittar í fjárlögum. Þetta hefur ætíð verið talið varhugavert og stangast á við 40. gr. stjórnarskrárinnar nú og tilsvarandi ákvæði hennar áður, en hefur verið tíðkað um marga áratugi, og má nú segja, að það sé að því leyti orðið venju helgað. En það atriði skiptir ekki máli í þessu sambandi. Ætlunin var aldrei með 40. gr. að takmarka vald bráðabirgðalöggjafans í þessu. Og það er ekki nein ný fullyrðing mín, að sú hafi ekki verið ætlunin, heldur stendur þannig á, að einmitt, að því er ég hygg, síðustu brbl., sem flokkur þessa hv. þm. stóð að og undirrituð voru af hæstv. þáv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni, brbl. nr. 68 1957, fjalla um breytingu á lögum um útsvör og veita heimild til annarrar aðferðar við útsvarsálagningu, sem ýmist gat leitt til hækkunar eða lækkunar frá því, sem verið hafði, og voru því, ef skilningur hv. 4. þm. Austf. væri réttur, fullkomlega sams konar stjórnarskrárbrot og hann nú telur þau brbl., er hann fullyrti um skýringarlaust í sinni löngu ræðu í gær að ekki fengju staðizt samkvæmt stjórnarskránni. Og enginn skyldi halda, jafnvel þó að hæstv. fyrrv. félmrh. hafi gefið þessi brbl. út, að það hafi verið gert af fljótræði, því að einmitt í næstu brbl. á undan, brbl. nr. 67 1957, um útflutningssjóð, sem öll þáv. hæstv. ríkisstj. stóð að, eins og raunar hinum einnig, en brbl. nr. 67 eru undirrituð af sjálfum hæstv. forsrh. í umboði allrar ríkisstj., þar er einnig breytt ákvæðunum um gjöld til útflutningssjóðs, tekin af sum gjöld, er áður höfðu verið, og hefði því sú lagasetning verið ótvírætt stjórnarskrárbrot, ef þessi skilningur, sem hæstv. þáv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, nú heldur fram, fengi staðizt.

Það er því alveg ótvírætt, að meðan þessi hv. þingmaður hafði aðstöðu til þess að hafa meiri áhrif á gang mála og ákvarðanir ríkisstj. en hann gerir nú, þá fylgdi hann í þessum efnum þveröfugum skilningi við þann, sem hann prédikar þessa dagana, og er hann raunar ekki einn um það, því að hans kæri þingbróðir, hv. 1. þm. Austf., hefur alveg sömu aðferð í sínum málflutningi. Hann talaði um það með mikilli vandlætingu, að menn yrðu að fara varlega í útgáfu brbl. og ekki beita þeim, nema mjög brýna nauðsyn bæri til. Útgáfa þeirra ætti nánast að vera algert undantekningarfyrirbæri, er sem allra sjaldnast ætti að grípa til. Þegar litið er á þróun útgáfu brbl. hér á landi, kemur hins vegar í ljós, að engin stjórn hefur verið ákafari í útgáfu brbl. en einmitt sú stjórn, sem hv. 1. þm. Austf. fyrst átti sæti í og sat hér frá miðju ári 1934 og næstu ár á eftir. Á fyrstu tveimur mánuðunum, sem sú stjórn sat, gaf hún út hvorki fleiri né færri en 8 brbl. — á fyrstu tveim mánuðunum. Og 1936, þegar hv. þm. enn var í stjórn ásamt hv. 2. þm. Vestf., Hermanni Jónassyni, þá gaf sú stjórn út 13 brbl. á einu ári, og hygg ég, að engin stjórn, hvorki fyrr né síðar, hafi komizt hærra í útgáfu brbl., hvorki á einu ári en þessi stjórn 1936 né á skemmri tíma um meiri afköst í útgáfu brbl. en þessir herrar hina tvo fyrstu mánuði síns valdatímabils. Og því fer fjarri, að hægt sé að líta sem nokkur bernskubrek hjá þeim tveim hv. þingmönnum á dugnað þeirra við bráðabirgðalöggjöfina 1934 og 1936, vegna þess að þeir hafa á sínum valdatíma síðan ætíð verið óhræddir og ófeimnir að grípa til útgáfu brbl., hvenær sem þeim leizt, alveg án tillits til þess, með hverjum þeir hafa verið í stjórn í það og það skiptið.

Í þessu sambandi er eftirtektarverðast, vegna þess að nú koma athugasemdirnar fram af hálfu þessara tveggja hv. þingmanna og frá hv. 4. þm. Austf., að þegar þeir voru allir saman nýkomnir í vinstri stjórnina 1956, voru meðal fyrstu brbl. — ekki þau fyrstu — brbl. um lögfestingu kaupgjalds í landinu. Venjulega er svo að heyra, þegar sumir þessara manna tala, og ekki sízt þegar hv. 4. þm. Austf. talar og hans félagsbræður, sem það sé fáheyrt og ósæmilegt, að við kaupgjaldi sé yfirleitt haggað með löggjöf, jafnvel þó að hún fari fram með fyllilega formlegum og rækilegum hætti á Alþingi. En við fyrsta tækifæri, sem þeir sjálfir voru í stjórn, gripu þeir til brbl. til festingar á kaupgjaldi í landinu í félagsskap við hv. 1. þm. Austf. og hans flokksbræður.

Þegar á þetta er litið, er ljóst, að það kemur óneitanlega einkennilega fyrir eyru manna að heyra varúðarorð og aðvaranir þessara hv. þm. til annarra, sem miklu skemmra hafa gengið í útgáfu brbl., þótt þeir hafi þar einnig verið óhræddir, þegar til þurfti að taka. Það er einkennilegt að heyra þessa menn með hinar miklu aðvaranir, einmitt þá, sem ófeimnastir og hvatvísastir hafa verið í beitingu slíkrar löggjafar, þegar þeir töldu brýna þörf til.

Það er svo enn annað mál, að fyrr og síðar hefur það tíðkazt á Íslandi og aldrei sætt neinni alvarlegri gagnrýni, að úr hinum vandasömustu málum hefur verið leyst með útgáfu brbl. Það er eins og vant er, að stjórnarandstæðingar hafa sett út á þetta, stjórnin og hennar fylgismenn varið, en venjan hefur ætíð verið hin sama nú um mannsaldurs skeið.

Ég skal aðeins rifja upp nokkur helztu deilumál, sem voru ekki síður orsök mikils ágreinings á sínum tíma heldur en gengisskráningin nú, sem ráðið hefur verið fram úr með útgáfu brbl.

1915 og 1916 voru gefin út brbl. um aukningu seðlaútgáfu Íslandsbanka, sem þá var eitt heitasta deilumál á Alþingi og í stjórnmálum þjóðarinnar í heild.

1931 voru gefin út brbl. um skiptameðferð á búi síldareinkasölu Íslands. Mætti a.m.k. hv. 3. þm. Reykv. muna eftir því.

1934 komu brbl. um meðferð og sölu mjólkur, og þá lá svo mikið á að gefa brbl. út, en sá, sem undirritaði þau, var hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, að þó að meginefni laganna ætti ekki að koma í gildi fyrr en löngu eftir að Alþingi var saman komið, voru engu að síður gefin út brbl.

1936 voru gefin út brbl. um stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem var mikið deilumál, 1939 um breytingar á verkamannabústaðalögunum, 1941 um breyt. á hegningalögum til verndar gegn háttsemi skaðlegri íslenzkum hagsmunum í sambandi við hernámið og ýmis atvik, sem þá komu fyrir, sem ástæðulaust er að rifja frekar upp nú, 1942 um gerðardóm í kaupgjalds- og verðlagsmálum, eitt allra mesta deilumál, sem upp hefur komið á okkar dögum á Íslandi, sem varð meira að segja til þess, að þáverandi ríkisstj. klofnaði, 1945 um verðlagningu landbúnaðarafurða, búnaðarráð, sama ár um togarakaup ríkisins, hina svokölluðu nýsköpunartogara, 1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna, 1956 um festingu kaupgjalds.

Menn þurfa ekki annað en að heyra þessa titla nefnda, þeir sem eru kunnugir stjórnmálasögu Íslands, til að gera sér grein fyrir, að allt hafa þetta á sínum tíma verið hin mestu og hörðustu deilumál. Og það er þess vegna algerlega út í hött, þegar er verið að tala um það nú sem einhverja varhugaverða nýjung, þótt brugðizt sé við raunverulegum og alvarlegum vanda í þjóðfélaginu, eins og blasti við í sumar, og gefin út brbl. til þess að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu og fjárhagsþröng í landinu.

Hv. 1. þm. Austf. sagði, að einmitt ákvæðið um það, að veita skyldi Seðlabankanum rétt til að skrá gengi gjaldeyrisins, minnti menn á, að svipað ákvæði hefði á sínum tíma verið í frv., sem Framsfl. og Sjálfstfl. stóðu að, en þeir hefðu fallið frá við frekari athugun málsins á þingi, og sýndi það vel, hverja þýðingu það gæti haft, að mál væru borin upp á þingi, en ekki afgreidd með brbl. Auðvitað hefur það sina þýðingu, að mál séu rædd á þingi. En þm. eru, — og það vitum við allir, sem á þingi höfum verið, — þeir eru ekki síður bundnir við tillögur ríkisstj., hvað þá samninga milli tveggja stjórnarflokka, um ákveðna lausn mála heldur en við brbl., sem eru ekkert annað samkvæmt þeirri venju, sem hér hefur komizt á, heldur en samningur milli þeirra flokka, sem hverju sinni standa að ríkisstj. og ríkisstj. eru búnar að tryggja sér þinglegan meiri hluta fyrir, áður en brbl. eru sett, alveg eins og ríkisstj. 1950, ríkisstj. Steingríms Steinþórssonar, hafði þá tryggt sér þinglegan meiri hluta fyrir því ákvæði, að gengisskráningin skyldi fengin Landsbankanum og ríkisstjórninni, og meira að segja þar sem það var ákveðið, að í hvert skipti, sem almenn kauphækkun yrði í landinu, skyldi Landsbankinn taka málið upp til nýrrar athugunar og senda ríkisstj. greinargerð sína og tillögur um málið, og það var einmitt þetta atriði, sem sérstaklega þótti varhugavert við meðferð málsins, að það var lögð skylda á bankann og þar með ríkisstj. að taka gengisskráninguna upp til nýrrar athugunar hverju sinni, eftir að almenn kaupgjaldsbreyting hefði átt sér stað í landinu. Það var bent á það, vissulega með réttu, að það væru ýmis fleiri atriði, sem kæmu til athugunar og hefðu áhrif á gengisskráningu, heldur en kaupgjaldið eitt. Og að því leyti verða allir að viðurkenna, að ákvæðið frá 1950 var ekki eins fullkomið og skyldi. Einmitt þetta atriði varð til þess, að þrátt fyrir þinglegan meiri hl. var ákvæðið fellt niður, og leyfi ég mér til staðfestingar á því og til skýringar á því, sem þá gerðist, að lesa upp, með samþykki hæstv. forseta, ummæli þáv. hæstv. forsrh., Steingríms Steinþórssonar, sem hann viðhafði hinn 18. marz 1950 í Ed. Alþingis. Þá segir hann:

„Stjórn Alþýðusambands Íslands hefur rætt þetta mál við ríkisstj. undanfarna þrjá daga í fullri vinsemd, þó að andstæðar skoðanir hafi komið fram og báðir aðilar hafi haldið á sínu máli af fullri festu. Það var tekið fram, þegar ríkisstj. tók við völdum, að hún vildi hafa sem bezt samkomulag við verkalýðssamtökin í landinu, og hefur ríkisstj. nú rætt þetta mál allýtarlega við Alþýðusambandið til að kynna sér kröfur verkalýðsins í þessum efnum. En niðurstaðan varð sú, að ríkisstj. sá sér ekki fært að ganga til móts við kröfur ASÍ, sem bar fram kröfur, sem höfðu verið samþykktar á nýafstöðnum fundi þess, nema að nokkru leyti. En með 1. og 2. brtt. á þskj. 461 telur ríkisstj. sig ganga nokkuð til móts við þann vilja, sem kom fram hjá Alþýðusambandinu. Það kom í ljós, að það var allmikill þyrnir í augum verkamanna, ef 2. gr. frv. stæði svo áfram. Mörgum innan ríkisstj. var óljúft að breyta því ákvæði, sem í henni felst, svo sem nú er gert, en þó var það gert til samkomulags, en svo virtist sem ASI teldi, að í henni fælist kaupbinding.“

Það var þetta ákvæði um það, að Landsbankinn skyldi með samþykki ríkisstj. ákveða gengið og taka það upp til athugunar hverju sinni að nýju, eftir að almenn kaupbreyting hefði átt sér stað. Síðan segir hæstv. þáv. forsrh.:

„Ég skal taka það fram, að ríkisstj. hefur gert þessar breytingar á frv., sem hér um ræðir, í því trausti, að þá verði sýnd meiri viðleitni af verkalýðnum til að gera ekki róttækar ráðstafanir, fyrr en séð er, hvernig þessar ráðstafanir, sem hér eru gerðar, gefast.“

Þarna er beinlínis lýst yfir, að það sé í trausti þess, að ASÍ vinni af hollustu og drengskap að kaupgjaldsmálunum í landinu með ríkisstj., sem breytingarnar eru gerðar. Ef sú forsenda er úr sögunni, er um leið úr sögunni sú ákvörðun þingmeirihlutans að falla frá því samkomulagi, sem gert hafði verið um að lögfesta þessa nýju skipan.

Nú er það alveg eins og hv. 1. þm. Austf. hélt fram í ræðu, er hann hélt í okt. 1955. Þá tókst allt sæmilega í þessum málum, á meðan lýðræðissinnar voru við völd í verkalýðshreyfingunni. Það var ekki fyrr en 1954, að kommúnistar náðu þar völdum, sem út af brá, því að þá, eins og hv. 1. þm. Austf. hélt fram 1955, var hætt að vinna að þessum málum með kaupgjaldsmálin sjálf og hvað verkalýðnum væri fyrir beztu í þeim efnum efst í huga, heldur var tekið að beita verkalýðshreyfingunni og Alþýðusambandinu sem tæki í hinni pólitísku baráttu á móti þáverandi ríkisstj. Hv. 1. þm. Austf. fannst það vera mjög fordæmanlegt, sem rétt var. En þá var hann líka sjálfur í ríkisstj. og skildi betur en hann virðist nú gera, hversu þjóðhættuleg slík misbeiting verkalýðsfélaganna er.

Það, sem átti sér stað í sumar og hv. þm. staðfesti mjög í sinni löngu ræðu og hann var að reyna að afsaka sig umfram allt með öllum sinum ásökunum á aðra, það var, að nú var það ekki einungis, að verkalýðshreyfingunni væri misbeitt af kommúnistum til þess að reyna að torvelda eðlilegt stjórnarfar í landinu, heldur hafði hún nú fengið nýjan bandamann í skemmdarverkunum, sjálfan hv. 1. þm. Austf., og það var þetta lítt heilaga samband, sem réð þeim aðgerðum, sem í sumar urðu bein orsök til þess, að ef efnahagur þjóðarinnar átti ekki að nýju að komast í kaldakol, varð að gera breytingar á gengisskráningunni. Það er því alveg ljóst, að þær forsendur, sem voru fyrir því, að Alþingi 1950 féll frá sinni fyrirætlan um að færa gengisskráningarvaldið frá Alþingi til annarra aðila, voru nú brostnar, og einn af höfuðsökudólgunum í því var hv. 1. þm. Austf. og hans ráð, sem miklu réðu.

Það var einnig mjög athyglisvert, að svo snjall maður í rökfærslu sem hann annars er skyldi verða svo gersamlega tvísaga í öllum sínum málflutningi sem hann varð, ekki einungis að hann neitaði sinni fortíð jafnrækilega og ég hef nú sýnt með þeim tilvitnunum í brbl., sem ég hef gert að umræðuefni, en við erum ekki svo óvanir á seinni tíð að heyra hinn endurfædda 1. þm. Austf. tala töluvert öðru vísi en hann áður gerði, en jafnvel í sömu ræðunni gat ekki þessi tvíklofningur persónunnar látið vera að láta í sér heyra. Hv. þm. hélt því fram snemma í ræðu sinni, að kaupgjaldshækkanirnar og áhrif þeirra hefðu skapað svo alvarlegt ástand í landinu, að ríkisstj. hefði í raun og veru ekki átt um neitt annað að velja en að segja af sér. Henni hefði borið að segja af sér og láta rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Ástandið í þjóðfélaginu hefði verið orðið svo alvarlegt. En þegar hann var búinn að tala í eitthvað einn og hálfan klukkutíma, var komið töluvert annað hljóð í strokkinn, því að þá sagði hann, að hann og aðrir ráðamenn í samvinnuhreyfingunni, — mér skildist hann ekki ráða þar miklu, af því að þar væru um 30 þús. manns, — að þetta fólk hefði með skynsamlegum ákvörðunum lagt grundvöllinn til þess, að ríkisstj. hefði áhyggjulaust getað stjórnað hér áfram í friði og velgengni með vinnufrið tryggðan í tvö, ef ekki þrjú ár, ef hún hefði ekki gripið til sinna hefndarráðstafana. Þá áttum við að skilja það, að þessir prýðismenn hefðu af einskærum velvilja til ríkisstj. lagað svo erfiðar kringumstæður, að ríkisstj. hefði áhyggjulaust getað tekið við því, sem hv. 1. þm. Austf. og hans félagsbræður lögðu upp í hennar hendur. En hvernig kemur þetta heim við það, sem hann var búinn að segja nokkrum kortérum áður, að ástandið hefði verið svo alvarlegt, að við hefðum átt að segja af okkur eftir alla þessa okkur auðsýndu velgerninga?

Hv. þm. hefur bæði í þessari ræðu og áður fyrr farið mörgum orðum um, að það hefði verið algerlega ástæðulaust að fella gengið eða gera ráðstafanir til gengisfellingar þrátt fyrir kauphækkanirnar. Hann hefur lýst því nánast sem hefndarráðstöfunum, sem ótrúlegu gerræði og öðru fleira.

En hvað segja nú hlutlaus vitni í þessum efnum? Hvað segja þeir, sem bezt mega vita og með sannindum hafa sagt frá því, hvað gerðist í herbúðum hv. 1. þm. Austf., áður en ákvarðanirnar um samstarf samvinnufélaganna við kommúnista var tekið upp? Þar höfum við umsögn sjálfs formanns Sambands ísl. samvinnufélaga, æðsta manns samvinnuhreyfingarinnar á landinu og mesta valdamannsins á Akureyri, þar sem voru gerðir þeir kaupsamningar, sem úrslitum réðu í þessu efni. Skömmu áður en þeir samningar voru gerðir, lýsti Jakob Frímannsson yfir, að af almennum kauphækkunum mundi leiða gengislækkun, þetta tvennt mundi fara saman. (EystJ: Hvar kom þessi yfirlýsing fram?) Hún kom fram í fréttabréfi, sem gefið var út. Hv. þm. hefur kannske verið veikur, svo að honum er vorkunn, þó að hann hafi ekki lesið það, en þetta hefur oft verið endurprentað og því yfir lýst. (EystJ: Hvaða fréttabréfi?) Ég kann nú ekki nöfn á öllum þeim áróðurspésum, sem SÍS gefur út fyrir peninga alþjóðar, og tel víst, að hv. þm. hafi betri aðgang að þeim en ég, og ég skyldi ekki verða hissa á því, þótt þessi pési fyndist í einhverri skjóðunni hjá hv. þm. Og vel veit ég, að hann heldur upp á þau plögg, sem hann telur hafa þýðingu. En það er a.m.k. gott að heyra nú, að hann vill ekki kannast við, að þessi yfirlýsing hafi verið gefin. Það sýnir, hversu drepandi yfirlýsingin er fyrir allan málflutning hv. þm., hversu öruggt sönnunargagn hún er fyrir því. að þessir menn fóru með opnum augum að því, sem þeir gerðu, og vissu, hver afleiðingin mundi verða. Jakob Frímannsson er enginn skynskiptingur. Hann vissi ósköp vel, hver afleiðing mikillar kauphækkunar mundi verða. Hann sá rétt fyrir.

En hann vissi líka af reynslunni, af viðbrögðum hv. 1. þm. Austf. 1956, að ámóta mikil kauphækkun og um var samið í sumar var til þess löguð að valda algerum þáttaskilum í íslenzkum stjórnmálum. Hv. 1. þm. Austf. sagði þá í ræðu, sem ég vitnaði áðan til, að kauphækkunin, sem gerð var 1955, hefði brotið blað í íslenzkum efnahagsmálum. Og hann fylgdi því eftir, vegna þess að hún varð til þess, að hann á árinu 1956 ákvað, að hætta skyldi samvinnu við sjálfstæðismenn og tekin upp samvinna við það, sem hann kallaði þá verkalýðsflokk, það var í því tilfelli Alþýðuflokkurinn, einfaldlega af þeim sökum, að Sjálfstæðisfl. og Framsfl. réðu ekki saman við verðbólguþróunina, þess vegna yrði að leita annarra afla í þjóðfélaginu til þess að reyna að leysa þennan vanda. Þetta gat út af fyrir sig verið pólitísk hugsun, og eftir á má segja, að þjóðin hafi af fáu haft betra en þeirri reynslu, sem hún fékk 1956 og á næstu árum á eftir. En hv. þm. tjáir ekki að halda því nú fram, að kauphækkunin 1961 hafi verið svo lítil, að hún hefði eiginlega ekki átt að hafa nein áhrif, þegar hann sjálfur er staðinn að hvað hörðustum ummælum um tilsvarandi kauphækkun 1955 og meiri kúvendingu í íslenzkum stjórnmálum en nokkur annar maður hefur gert um áratugi einmitt af þeim sökum, hversu hann taldi afleiðingarnar af kauphækkuninni 1955 vera alvarlegar.

Hv. þm. segir: Það var svo komið, að allir sáu, að það var ómögulegt að lifa á kaupi hinna lægst launuðu. — Þess vegna varð að eiga sér stað kauphækkun, a.m.k. hjá hinum lægst launuðu, og þá talar hann um þá lægst launuðu í landinu eins og þeir hafi haft 4000 kr. tekjur á mánuði. Nú spyr ég þennan töluglögga og stjórnreynda mann: Hvað voru margir menn á landinu, sem áttu að lifa af 4000 kr. á mánuði, og hvernig var afkoma almennings í raun og veru? Samkv. þeim skýrslum, sem óvefengdar eru, var almennt kaupgjald verkamanna á árinu 1960 hér í Reykjavík eitthvað nærri 75 þús. kr., þó að ekki séu taldar með fjölskyldubætur. Það má segja, að þetta sýni, að þeir hafi þurft að vinna mikið. Það er vafalaust rétt. En það sýnir þá einnig, að sú fullyrðing, sem hv. þm. hefur hvað mest þrástagazt á, að hér hafi átt sér stað mikill samdráttur í landinu, er gersamlega út í bláinn. Hvernig hefði verið hægt að fá slíkar meðaltekjur hér í Reykjavík, ef atvinnuleysi hefði átt sér stað, ef ekki hefði verið mjög mikil eftirspurn eftir vinnuafli?

Það má einnig segja: Mönnum veitir ekki af 75 þús. kr. kaupi. — Það er út af fyrir sig alveg rétt. En hvað segir hv. þm. sjálfur um afkomu fólksins, þegar hann gætir ekki að sér. Hinn 12. júlí í sumar birtist viðtal við hv. þm, í Tímanum, eftir að hann var nýkominn af yfirreið um Austfirðingafjórðung. Nú munum við öll, sem hér erum inni, og raunar landslýður allur eftir þeim ósköpum, sem hv. þm. hafði spáð, sérstaklega fyrir Austfirðingafjórðungi, eftir kjördæmabreytinguna og að hin nýja stefna væri til komin í framhaldi hennar. Á mörgum átti samdráttarstefnan að bitna hart, en á engum eins og vesalings Austfirðingunum í kjördæmi hv. þm. En hinn 12. júlí segir hv. þm.: Afkoma er góð. Hún hefur verið góð í vor. — (EystJ: Ríkisstj. réð ekki við síldina) Síldin var ekki komin, þegar hv. þm. var fyrir austan, og þó að ég efist ekki um, að hann hefði verið góður í beitu fyrir hákarl, efast ég um, að síldin hefði mjög sótt eftir honum. En við vitum öll, að síldin var ekki komin 12. júlí. Þá voru hins vegar komin fram hin eyðileggjandi áhrif landhelgissamningsins! Þá var hann búinn að vera í gildi fyrir Austfjörðum um nokkurra mánaða bil, með þeim árangri, að hv. þm. sagði: Aflinn hefur verið góður. Afkoman er góð. — En hv. þm. bætir því svo við síðar: En nú stefnir til samdráttar. — Hann var oft búinn að segja samdráttinn fyrir, en nú þóttist hv. þm. vita, að eitthvað færi að gerast, sem mundi horfa til samdráttar, yrði raunverulega til samdráttar. Jú, þá hafði það gerzt, sem átti að duga til samdráttar. Það var búið fyrir forgöngu þessa hv. þm. að hækka kaupið, og nú fór hann að vonast eftir því, að áhrifanna færi að gæta. Það var ómögulegt að skilja þessa yfirlýsingu hv. þm. um, að nú ætti að fara að breyta til, á annan veg en þann, að eitthvað nýtt hafi komið til sögunnar, sem eigi að stefna til gerbreytingar.

Og þá komum við að því, sem er eftirtektarverðast í þessu öllu, að það var ekki efnt til kauphækkananna í sumar, verkfallanna, vegna þess, að viðreisnin hefði mistekizt, heldur vegna þess, að hún hafði tekizt miklu betur en vonir stóðu til. Allir þm. og raunar miklu fleiri vita það, að hv. stjórnarandstæðingar voru innilega sannfærðir um það, strax þegar viðreisnarlöggjöfin var sett snemma árs 1960, að hún fengi með engu móti staðizt. Þeir töldu, að í henni fælust svo magnaðar og harðúðugar samdráttarráðstafanir, að það hlyti að koma upp mjög alvarlegt atvinnuleysi í landinu og að öðru leyti mundu atvinnurekendur einnig rísa upp og mótmæla þessum aðgerðum, þannig að viðreisnin hlyti að stöðvast af sjálfu sér, að óhugsandi væri, að ríkisstj. gæti staðizt fram yfir áramótin 1960–61. Henni yrði ókleift að koma flotanum úr höfn snemma árs 1961, svo að þá væru síðustu forvöð fyrir því, að ríkisstj. hlyti að gefast upp.

Það er alvitað, að innan Alþb. var mikill ágreiningur um það, hvort ætti strax á árinu 1960 að grípa til hinna pólitísku verkfalla eða láta þau bíða. Það er kunnugt, að hv. 4. þm. Austf. var mjög andvígur því, að til verkfalla væri gripið á árinu 1960. Hann fullyrti þá við sína félagsbræður, eins og hv. 1. þm. Austf., að ríkisstj. hlyti að steypast af sjálfu sér og þess vegna þyrfti ekkert annað að gera en að bíða. Þeir sögðu þá í sinn hóp, að það væri ljóst, að almenningur mundi, áður en yfir lyki, kenna þeim um öngþveitið, sem stofnaði til þess með nýjum verkföllum, og þess vegna hlyti það að bitna á Alþb. og eftir atvikum Framsókn, ef til verkfalla væri lagt, fyrr en sýnt væri, að viðreisnin væri komin algerlega út um þúfur.

Það var í þessari öruggu trú, sem hv. 4. þm. Austf. beitti sér fyrir því á landssambandsfundi útgerðarmanna fyrir hér um bil ári að hvetja þá til sem allra mestrar kröfugerðar. Hann fordæmdi þá, eins og hann vitanlega hafði rétt til, allar aðgerðir ríkisstj. og taldi hag bátaútgerðarinnar svo bágan, að óhugsandi væri, að hún gæti haldið áfram nema með stórkostlegum styrkjum úr ríkissjóði. Það var hins vegar trú hans, að ef útgerðarmenn almennt fengjust til þess að leggja slíkt róðrabann á ríkisstj. eins og hann vann að og raunar átti hlut að því að komst á á einum stað, eins og hann hældist um hér í gær, þá mundi ríkisstj. ekki fá staðizt, heldur verða að segja af sér.

Öll þessi ráðagerð fór út um þúfur, nema hvað hv. þm. tókst að valda Vestmannaeyingum og raunar þjóðarbúinu öllu ómældu tjóni með þeirri róðrastöðvun, sem að hans undirlagi var þar efnt til. Vertíðin gekk hins vegar mun betur en þessir herrar höfðu álitið, og þegar þeir sáu í sumar, að það væri komið fast að því að ná því jafnvægi, sem að var stefnt, var gripið til hinna pólitísku verkfalla. Þá var gripið til þess vopns, sem þeir frá fyrstu tíð töldu sig hafa í bakhöndinni og þeir yrðu að grípa til, ef önnur úrræðu dygðu ekki.

Við sjáum það svo, okkur til frekari fróðleiks, að austur í Moskvu heldur Krúsjeff nákvæma dagbók um öll verkföll í heiminum og greinir þar nákvæmlega á milli, hvers eðlis þau séu, hvort þau séu af kaupgjaldsástæðum eða af pólitískum ástæðum, og fullyrðir, að 73% verkfalla á árinu 1960 hafi verið af pólitískum ástæðum. Hann fer ekki dult með, að honum líkar sú tegund verkfalla mun betur en hin, svo að við vitum, að það er mjög í anda hinna ókistulögðu valdhafa í Moskvu, sem þessir herrar hegða sér, þegar þeir nú og fyrr hafa reynt að efna til pólitískra verkfalla á Íslandi. Hitt kemur okkur undarlegar fyrir sjónir, að hv. 1. þm. Austf. skuli ganga í þennan félagsskap, svo sem hann hefur gert, enda var auðheyrt á ræðu hans nú á dögunum og ekki síður af ræðu hans við 1. umr. fjárlaga, að hann talaði meir í afsökunartón og ergelsis en nokkru sinni áður, og sannaði það franska máltækið, að sá, sem afsakar sjálfan sig, ásakar sig. Hann veit ósköp vel, í hvaða skyni þessi leikur var gerður, en honum er engin vorkunn, vegna þess að hann veit þetta og hann er óbundinn. Hann hefur frjálsan vilja, sem ekki allir hafa, því miður. (EystJ: Er það þá ekki bara enn ámælisverðara fyrir það?)

Þá kemur að úrræðinu, sem hv. 1. þm. Austf. sagðist hafa lagt upp í hendurnar á stjórninni með því að greiða fyrir þessum hagkvæmu kaupgjaldssamningum, og það var, að vandinn hefði ekki verið annar en að auka útlán og lækka vexti. Hvað eru nú margir þm., sem hafa gleymt öllum prédikunum hv. 1. þm. Austf. um, að það verði að verjast verðbólgu með varfærni í útlánum? Ef margir þm. hafa gleymt því, þá eru þeir ólíkir almennum kjósendum, vegna þess að hvar sem maður kemur og ekki eingöngu í framsóknarmanna hóp, af því að sumir fleiri en framsóknarmenn muna, hvað hv. þm. hefur sagt, þá hafa menn orð á því, að hv. 1. þm. Austf. tali hin síðari missiri allt öðruvísi en hann gerði áður, þegar hann ár eftir ár brýndi fyrir mönnum, að það yrði að halda verðbólgunni í skefjum með varfærni í bankaútlánum. Og hv. þm. veit auðvitað öllum öðrum betur, að ef með einhverju átti að magna hér verðbólgu og hleypa öllu í strand á sem allra skemmstum tíma, þá var það ráð helzt fyrir hendi til viðbótar aukinni peningaumferð um 500–600 millj. kr. á ári að lækka vexti og auka útlán. Þá hefði á skömmum tíma öll gjaldeyriseign þjóðarinnar horfið eins og dögg fyrir sólu, við verið komnir í óbotnandi skuldir út á við, áður en varði. Það er e.t.v. hægt að telja einstökum mönnum, sem hafa hagsmuni af því að hafa lága vexti, eins og margir hafa, trú um, að það sé óþarft böl að hafa háa vexti. En það er alveg fullvíst, að það þarf ekki að prédika mikið um þetta fyrir hv. 1. þm. Austf., vegna þess að hann man enn svo mikið af því, sem hann áður hélt fram, að hann veit, að ef þessi aðferð hefði verið höfð, þá var það sama og hella olíu á eld. Það var beint tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.

Hér kemur aftur að því, að þó að hv. þm. léti svo í seinni hluta ræðu sinnar sem hann og hans félagsbræður hefðu verið að reyna að greiða götu stjórnarinnar og gera henni auðveldara að stjórna með kaupgjaldssamningunum, er þeir beittu sér fyrir í sumar, þá sagði hann réttara, þegar hann hélt því fram í upphafi ræðu sinnar, — þá sagði hann réttara um sinn eigin hug, er hann taldi, að eftir kaupgjaldshækkanirnar hefði slíkur vandi verið skapaður, að stjórnin mundi nú loksins neyðast til að fara frá og gefast upp. Hann treysti því, að það væri búið að tefla málum þjóðarinnar í slíkan vanda, að við mundum viðhafa sömu aðferðina og þeir félagar, hann og hv. 2. þm. Vestf., Hermann Jónasson, þegar þeir, eins og alræmt er orðið, gáfust upp, hlupust burt frá vandanum hinn 4. des. 1958, enda er nánast skoplegt að heyra suma ræðumenn framsóknarmanna hér, bæði í útvarpsumr. og almennum umr. á Alþ., þegar þeir öðru hvoru spyrja af hjartans einfeldni: Af hverju gefizt þið ekki upp? Af hverju farið þið ekki að eins og Hermann okkar? — Það er von, að þá langi ekki til þess að vera einir um að eiga Hermann. Hann er ekki svo girnilegur að þessu leyti, þó að hann sé góður að öðru. En það verður áreiðanlega bið á því, að aðra stjórnmálaflokka fýsi að eiga slíkan viðskilnað við vandamál þjóðarinnar eins og Framsfl. átti 4. des. 1958.

Um ræðu hv. 4. þm. Austf. get ég verið stuttorður. Ég sýndi fram á nokkur dæmi um það, hversu málflutningur hans væri haldlaus varðandi það, er hann sagði um brbl. og það er í raun og veru dæmi um hans málflutning í heild. Hann lagði á það mjög ríka áherzlu, að það hefði verið tekið tillit til verðlækkunar á fiskimjöli 3 viðreisnarlöggjöfinni 1960, og vitnaði þar í ummæli um það, að reiknað væri með lægra verði á þessari vörutegund en áður hafði verið. Það er alveg rétt. En hv. þm. gleymir því, að verðlag á fiskimjöli tók að lækka síðari hluta árs 1959, en sú breyting var hægfara. Í janúar 1960, þegar útreikningar varðandi gengislækkunina voru gerðir, töldu menn ekki sjást nein merki þess, að stórkostlegt verðhrun væri fram undan, sem bezt má sjá á því, að sá aðilinn, sem átti að fylgjast með útflutningsverðinu, útflutningsnefnd sjávarafurða, sem ég hygg að hv. þm. hafi átt einhvern fulltrúa í, hafi þá ekki viljað samþykkja nema smávægilega lækkun frá því, sem verðið hafði verið hæst á miðju ári 1959. Og þegar útreikningarnir voru gerðir, var því ekki unnt að miða við annað verðlag en það, sem útflutningsyfirvöldin höfðu ákveðið sem lágmarksverð fyrir fyrirframsölur vertíðarinnar 1960. Það kom hins vegar í ljós, áður en langt um leið, að verðhrunið skalt yfir miklu stórkostlegra en nokkurn gat órað fyrir. Lækkunin, þegar kom fram á árið, var yfir 40% frá því, sem áætlað hafði verið í janúar 1960, byggt á lágmarksútflutningsverði nefndarinnar. Lækkunin frá hæsta verði 1959 nam um 47%. Síðan í fyrra hefur verðið hækkað aftur, en er samt yfir 18% lægra en í janúar 1960 og nær 25% lægra en árið 1959, þegar það var hæst. Þetta sýnir, hvernig tilvitnanir og rökfærslur hv. 4. þm. Austf. eru gersamlega á stráum byggðar. Hann vitnar í einstök ummæli í greinargerðum og ummælum, en gáir ekki að því, hvað á bak við þau stendur, segir ekki nema minnstan hluta sögunnar, og hálfur sannleikur er oft, eins og í þessu tilfelli, verri en hrein ósannindi, vegna þess að ósannindin liggja augljósar fyrir. En hv. þm. reynir með því að skjóta inn einstaka sannleikskorni öðru hvoru að gera sína villandi frásögn ögn trúlegri en hún ella mundi vera.

Annars er fróðlegt að heyra þennan hv. þm. lýsa því sældarástandi, sem hér hafi í raun og veru verið á s.l. vori og allt í himnalagi, atvinnuvegir staðið með miklum blóma. En hvernig stenzt þetta við fullyrðingar hv. þm., sem hann viðhafði fyrir áramótin í fyrra, þegar hann fullyrti, að sjávarútvegurinn væri svo illa staddur, að hann yrði að fá stórkostlega styrki úr ríkissjóði? Hann veit og að bátaútvegsmenn fengu síðan verulega kauphækkun, eins og hann gat um. Engu að síður ætlast hann til þess, að þeir hefðu getað tekið á sig, án þess að að væri gert, þá miklu kauphækkun, sem varð í sumar. En það er ekki nóg, að ærin mótsetning felist í þessu, heldur lýsir hann því í öðru orðinu, að atvinnuvegirnir hafi staðið með fullkomnum blóma og mikilli velgengni, en hins vegar hafi viðreisnin verið komin í strand. Það er að vísu rétt, að 1958 fór svo, að efnahagskerfið var komið að hruni þrátt fyrir hið mesta afla- og velgengnisár, sem nokkurn tíma hafði gengið yfir íslenzku þjóðina. En það var vegna þess, að þá var brugðizt rangt jafnvel við velgengninni, þannig að stjórnendurnir gáfust upp, þó að í lófa hefði átt að vera lagið, ekki sízt með þeirra valdi yfir verkalýðshreyfingunni, að leysa allan vanda. En þeir kunnu engin ráð. Þeir gáfust upp. Þeir hlupu með af skútunni undir forustu hv. 2. þm. Vestf., Hermanns Jónassonar. Þeim tókst að breyta góðæri í ráðleysi, vegna þess að þeir kunnu engin ráð til þess að fara með málefni þjóðarinnar.

Það er sams konar ástand, sem hv. þm. er að reyna að gefa í skyn að ríkt hafi á þessu ári, að það hafi í raun og veru verið hin mesta velgengni, en þó hafi allt verið komið í strand fyrir stjórninni. Um þennan hv. þm. gildir það sama, sem ég sagði áður um hann og hv. 1. þm. Austf., að þeir beittu sér fyrir kauphækkunum í sumar vegna þess, að þeir sáu, að annars mundi viðreisninni vegna of vel, annars mundi það jafnvægi nást fyrr og betur, er menn kepptu eftir, heldur en nokkur hafði vonað. Það var til þess að hindra, að þetta gæti komið fyrir, að kauphækkanirnar voru gerðar. Hv. þm. var fyrir fram kvíðandi um, að illa mundi fara fyrir þeim, sem ábyrgð bæru á þessu. Það mun og sannast, að sú verður raunin, að almenningur mun, áður en yfir lýkur, sannfærast um, hver veldur þeirri truflun á efnahagslífinu, sem leiddi af kauphækkununum í sumar. Það voru þeir, sem bera ábyrgð á þeim pólitísku verkföllum, sem efnt var til og ekki höfðu stoð í efnahagslífinu.

Nú talar hv. þm. um, að það sé stefnt til einnar veltu til, og hv. 1. þm. Austf, hefur einnig gefið slíkt í skyn. Vel má vera, að þessir hv. þm. hafi það í huga. Það er eftir að sjá, hvort þeim tekst að fá fólk með sér í slíka hryggðargöngu. Um það er bezt, að hvorugur okkar spái neinu fyrir fram né neinu um þau viðbrögð, sem gegn slíkum tiltektum ber að gera. En ég segi, að miklu nær væri hv. þm. og hans félagsbræðrum, sem sannarlega hafa nú rækilegra tilefni en nokkru sinni fyrr til þess að skoða sinn huga og athuga, hversu illilega þeir hafa verið blekktir og ginntir á undanförnum árum, — þeim væri nær að nota það tilefni til þess að íhuga ekki einungis stöðu sína gegn hinum útlendu valdhöfum, heldur einnig afstöðu sína til hinna íslenzku mála og endurskoða þann trúnað, sem þeim ber að sýna því fólki, er þeim hefur veitt traust innan verkalýðshreyfingarinnar.

Hv. þm. talaði um, að ósamið væri um fiskverð og ágreiningur mundi koma upp um það á milli bátasjómanna, útvegsmanna og fiskkaupenda. Hér er vissulega um vandamál að ræða, sem er til íhugunar, hvernig leysa megi, og hv. þm. sýndi raunar á síðasta þingi, hvernig hann telur að leysa beri, með því frv., sem hann flutti þá. Æskilegast er, að aðilar geti komið sér saman um hagkvæma lausn þvingunarlaust, og verður áreiðanlega að því unnið af hálfu ríkisstj. af fullu kappi, alveg eins og ríkisstj. er fús til samvinnu við hvern sem er, sem vill raunverulega vinna að því að bæta kjör allra vinnandi manna í landinu og það má segja, að sé meginþorri þjóðarinnar. Það er hægt að finna ýmis ráð til þess með betri skipan á vinnu, með ákvæðissamningum og fleiri þvílíkum úrræðum, ef vilji beggja aðila er fyrir hendi. Það er vissulega þess vert og verður að treysta því í lengstu lög, að menn reyni nú slík úrræði til hlítar, áður en í ný pólitísk ævintýri verður lagt, svipuð og í sumar átti sér stað með kauphækkunarherferð kommúnista og framsóknarmanna þá. Þjóðin hefur með réttu og mun með réttu fordæma þær aðgerðir, en hún mun fagna öllu því, sem í raun og veru horfir til þess, að öllum almenningi í þessu landi geti liðið betur en áður.