07.11.1961
Neðri deild: 14. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú mjög liðið á fundartímann, svo að mér gefst ekki tækifæri til að ræða um ýmis þau atriði, sem ég hefði viljað ræða um og einkum voru í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Austf., er hann hélt hér s.l. föstudag. En það eru þó nokkur atriði, sem ég get ekki látið hjá líða að minnast á, með því að ég tel, að þau megi ekki standa í þingtíðindum, án þess að þeim sé mótmælt og þau raunverulega vítt. Skal ég reyna að stytta mál mitt, eftir því sem unnt er.

Þegar reynt er að draga saman í stuttar niðurstöður þau atriði, sem hv. þm. kom inn á í sinni löngu ræðu, má segja, að niðurstaðan hafi verið sem hér segir:

1) Stjórn og stjórnmálaflokkar verða umfram allt að halda þingræðinu í heiðri og mega ekkert aðhafast, sem rýrt geti álit þingsins hjá þjóðinni.

2) Þess vegna má stjórn aldrei gefa út brbl., nema það sé óhjákvæmilegt og vitað, að fyrir þeim sé meirihlutafylgi á Alþingi, án þess að flokksforustan þvingi til þess þm. að fylgja máli gegn vilja sínum.

3) Í þessu máli hafi ríkisstj. ekki getað fengið stuðningsmenn sína til að fallast á gengislækkunina og því hafi hún orðið að þvinga þá á flokksfundum, án þess að þing væri kallað saman, til þess að lofa þar að fylgja málinu á Alþ. Það sé rangt að afgreiða mál þannig í þingflokkunum undir pressu frá foringjum flokkanna.

Út af þessu vil ég leyfa mér að mótmæla þeim ásökunum, sem hv. 1. þm. Austf. beinir hér gegn okkur þm., sem styðjum ríkisstj. Ég tel, að manni, sem setið hefur svo lengi á þingi sem hann hefur gert, sem er formaður þingflokks, hefur setið í fjöldamörg ár sem ráðherra, sé mikill vansi að láta slík ummæli frá sér fara hér á Alþingi, að bera jafnþungar sakir á meiri hl. hv. alþm., að þeir hafi verið þvingaðir til þess að fylgja málum gegn vilja sínum og það máli, sem svo alvarlegt er, eins og hér er til umr.

Út af þessu vildi ég leyfa mér að skýra frá hér, hvernig þetta mál var undirbúið af hæstv. ríkisstj. Þegar henni var ljóst, að kaupgjald hafði hækkað um allt land, samningar hefðu verið gerðir um allt að 15% kauphækkun, kallaði hún suður til Reykjavíkur á sinn fund alla þá þingmenn, sem hana styðja, og lagði fyrir þá þennan vanda, sem við það hafði skapazt í efnahagsmálum þjóðarinnar, að kaupgjald allt hafði hækkað, svo sem ég hef þegar minnzt á. Það var engu leynt fyrir hv. þm., þótt það væri ekki í þingsölunum, heldur á flokksfundum, eins og getið er um. Þar ríkti fullt málfrelsi og fullt atkvæðafrelsi og engin tilraun gerð til þess að hafa áhrif á afstöðu þm., en þeir hins vegar beðnir um að gera sínar aths. við þær ráðstafanir, sem hæstv. ríkisstj. var að gera, og tjá það alveg þvingunarlaust, hvort þeir væru samþykkir slíkum ráðstöfunum eða andvígir þeim. Að mjög athuguðu máli var það samróma samþykkt í þingflokki Sjálfstfl. án nokkurrar þvingunar frá ríkisstj. að fylgja málinu eins og það var lagt fyrir og hefur verið lagt fyrir Alþ. á þskj. 15, sem nú er hér til umr.

Ég skal ekkert segja um, hvaða aðferðir hafðar eru í Framsfl. um slík mál. Ég ætla ekki að hafa um það neinar getgátur. En ég á ákaflega bágt með að trúa því, að slík ummæli, eins og hv. 1. þm. Austf. hafði hér um meðferð þessa máls, stafi af öðru en því, að þetta sé orðin rótgróinn vani í hans eigin flokki. En slíkt þarf hann ekki að bera á aðra flokka, þó að það sé þannig ástand í hans eigin þingflokki.

Um sjálfa gengisfellinguna vildi ég leyfa mér að segja þetta: Það var ekki til umr. að taka afstöðu til þess, hvort ætti að fella gengið eða ekki, þegar brbl. voru gefin út. Gengið var fallið. Það var fallið með þeim samningum, sem höfðu verið gerðir og hv. 1. þm. Austf. átti mjög sterkan þátt í. Það er því ekki hæstv. ríkisstj., sem ber ábyrgð á því, að gengið hafi fallið í landinu á þessu ári, heldur einmitt allur Framsfl. og allur kommúnistaflokkurinn, þ.e.a.s. öll stjórnarandstaðan. Þar höfðu þeir fulla samvinnu. Þeir einir bera ábyrgð á þeim gerðum í efnahagsmálunum. Hitt, að skrá gengið opinberlega, hið raunverulega gengi, eins og það hafði verið fellt af þessum mönnum, sem ég er að lýsa, það var það, sem var til umr., og það var það, sem menn áttu að gera út um við sig, hvort það væri æskilegt að skrá hið rétta gengi, eftir að það hafði fallið við aðgerðir þessara manna, skrá það þegar eða bíða seinni tíma. Um það var enginn ágreiningur í Sjálfstfl., og ekki heldur, að ég hygg, þótt ég hafi ekki verið þar á fundum, í Alþfl., að það væri ekki einungis rétt, heldur alveg óhjákvæmilegt til þess að forðast frekari vanda að gera þjóðinni ljóst, hvaða áhrif kauphækkunin hefði haft á efnahagsmálin, og skrá hið rétta gengi eins og það væri reiknað út af Seðlabankanum. Það var því ekki um neina þvingun að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj. á okkur þingmenn, sem stóðum að þessu máli.

Um hin atriðin, að halda uppi heiðri þingsins, það verður aldrei of mjög brýnt fyrir hv. þingmönnum og það verður aldrei heldur of vel brýnt fyrir Framsfl. og sízt af öllu of vel brýnt fyrir formanni þingflokks Framsfl. Mér gefst ekki tími til þess nú að rekja ýmislegt af því, sem hefur skeð í þingsögunni þau árin, sem ég hef setið á þingi eða síðan ég kom fyrst á þing 1942, en það þarf ekki að fletta mörgum blöðum þingsögunnar til þess að sjá þar, að það hefur enginn flokkur og enginn maður gengið lengra í því að minnka heiður þingsins heldur en hv. 1. þm. Austf. í samfélagi við hv. 2. þm. Vestf. Gefst mér e.t.v. einhvern tíma tækifæri til þess að færa óhrekjandi rök fyrir þessum ummælum. Ég vil þó þegar benda á, að 30. marz 1949 var hér einhver alvarlegasta stund í Alþingi, þegar mjög alvarlegu máli var ráðið til lykta og úti fyrir stóð hópur manna til þess að kasta grjóti á hæstv. forseta og skít og eggjum í þinghúsið og hafði nokkru áður sent inn á borð til alþm. umslag með íleppi í, sem átti að vera tákn þess, að þeir væru leppar Bandaríkjanna í sambandi við afgreiðslu þess máls, og átti að hafa mjög áhrifarík áhrif á afstöðu þeirra í atkvgr., og öll þessi herferð var undirbúin af kommúnistaflokknum og var reyndar á ábyrgð formanns þess flokks, hv. 3. þm. Reykv., og hv. 4. þm. Austf., þótt þeir sjálfir hefðu ekki tekið þátt í því skítkasti. En svo liðu nokkrar stundir, — og hverjir voru það svo, sem færðu þessa sömu menn inn í ráðherrastóla á Íslandi og sjálfan formann kommúnistaflokksins, hv. 3. þm. Reykv., beint upp í forsetastól neðri deildar Alþingis? Var það ekki Framsfl.? Var hægt að sýna Alþingi Íslendinga meiri lítilsvirðingu en var gert með þessum ákvörðunum?

Ég sé, að fundartíminn er liðinn, hæstv. forseti. Ég mun láta þessi orð nægja í þetta skipti, en fæ e.t.v. tækifæri síðar til þess að taka fram ýmis önnur dæmi, þar sem Framsfl. hefur slegið flest met í að minnka virðingu Alþingis.