10.11.1961
Neðri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 968 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónason:

Hæstv. forseti. Það var til þess að gera nokkrar athugasemdir við ræður hæstvirtra ráðherra. Það er að vísu dálítið óhægara um vik varðandi hæstv. forsrh., vegna þess að hann hreytti hér nokkrum athugasemdum fram varðandi þetta mál, en fór síðan af landi brott og er sennilega ekki væntanlegur við 1. umr. þess aftur. En ég mundi ekki láta setja þetta fyrir mig, þótt það sé leiðara, þar sem ég veit, að hæstv. ráðh. á fullan aðgang að því, sem hér er sagt, og getur vikið að því síðar, ef honum sýnist.

Það var auðheyrt á hæstv. forsrh., að hann var gramur yfir því hlutskipti að þurfa að verja gengislækkunina frá í sumar. Mátti heyra það á málflutningi hans öllum. En hæstv. ráðh. getur ekki kennt öðrum um þetta og ekki sanngjarnt, að hann láti þessa óánægju sína bitna á tíðum. Hann hefur sjálfur valið sér það hlutskipti að standa fyrir þessu, og verður því við það að sitja.

Fyrst vék hæstv. ráðherra að þeirri gagnrýni, sem höfð hefur verið í frammi vegna þess, að með brbl. er gengisskráningarvaldið fært úr höndum Alþingis og yfir til Seðlabankans. Það hafa verið færð rök að því, að með þessu hafi hæstv. ríkisstj. brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar og tekið sér vald, sem hún hefði ekki samkv. stjórnarskránni. Hefur meðal annars hv. þm. Ólafur Jóhannesson fært skýr rök fyrir þessu. Þeim rökum öllum vildi hæstv. ráðherra snúa í villu með því að segja, að ríkisstj. hefði gert það eitt með útgáfu brbl. að færa það vald, sem hún hefði haft, — ríkisstjórnin, — ég bið menn að taka eftir því: að færa það vald, sem hún hefði haft, — ríkisstj., — yfir til Seðlabankans. Ríkisstj. gæti ráðstafað því valdi, sem hún hefði, eins og henni sýndist. Þetta var röksemdafærsla núv. hæstv. forsrh., fyrrv. lagaprófessors.

En hefur ríkisstj. óskorað löggjafarvald? Ef þessi kenning hæstv. ráðherra ætti að vera annað en orðaskvaldur, þyrfti þetta að vera þannig, að ríkisstj. hefði óskorað löggjafarvald eða óskorað vald til þess að gefa út brbl., svo að það sé orðað alveg skýrt. En hefur hún það? Nei, það er einmitt mergurinn málsins, að það vald hefur ríkisstj. ekki. Vald hennar til þess að gefa út brbl. er ekki óskorað löggjafarvald, það er bundið því skilyrði, að brýna nauðsyn beri til að gefa brbl. út. Og ef hæstv. ríkisstj. verður uppvís að því að hafa gefið út brbl., sem ekki bar brýna nauðsyn til að gefa út, þá er hún um leið orðin uppvís að því að hafa brotið þetta ákvæði stjórnarskrárinnar, sem hæstv. forsrh. þóknaðist að fella algerlega niður, eins og það væri ekki til, í málflutningi sínum hér um daginn. Það er náttúrlega ákaflega þægilegt að fara þannig að, að sleppa úr og taka ekkert tillit til einstakra ákvæða stjórnarskrárinnar, þegar manni sýnist og er kominn í klípu í málflutningi. En skammgóður er áreiðanlega sá vermir, sem af því má hafa, og það ekki sízt fyrir hæstv. forsrh. og fyrrv. prófessor í lögum.

Hér þarf því ekkert um þetta að deila. Bráðabirgðalöggjafarvaldið er takmarkað í höndum ríkisstj. Hún var því ekki með brbl. að færa vald yfir til Seðlabankans, sem hún hafði, heldur vald, sem Alþingi hafði og henni var óheimilt að taka af Alþingi með brbl., vegna þess að óhugsandi er, að nokkur maður, hvorki hæstv. forsrh. né nokkur annar maður, geti fært rök fyrir því, að það hafi borið brýna nauðsyn til þess í ágústmánuði að færa gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis yfir til Seðlabankans.

Jafnvel þó að menn vildu fallast á það, sem ég vil ekki gera, að það hafi verið brýn nauðsyn að breyta gengisskráningunni, þá var engin nauðsyn að færa valdið yfir til Seðlabankans. Ríkisstj. gat breytt gengisskráningunni sjálfri með því að gefa út brbl. um það eitt. Og þá var ekki hægt að halda því fram, að hún hefði brotið stjórnarskrána, þótt það hefði eigi að síður verið gersamlega óþingræðislegt.

Það var auðvitað eftir sem áður gersamlega óþingræðislegt að rjúka til þess á bak við Alþingi, eins og á stóð í sumar, að breyta sjálfri gengisskráningunni. En það var ekki hægt að segja, að það væri beint brot á stjórnarskránni, eins og útgáfa þessara brbl. varð, þegar því var við bætt að færa skráningarvaldið úr höndum Alþingis og yfir í hendur Seðlabankans.

Ekki bætti það úr í þessu efni, þegar hæstv. dómsmrh. vildi koma kollega sínum til hjálpar í þessu atriði og færa fram fyrir þessu viðbótarástæður. Þá greip hann til þess að lesa upp hér álit Ólafs Jóhannessonar prófessors um þessi efni og þá m.a., hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi, til þess að brbl. mætti gefa út. Og þá tókst þannig til, vegna þess að hæstv. ráðh. hefur ekki viljað fella úr í lestrinum, og áfellist ég hann ekki fyrir það, að það kom fram sem eitt af þeim skilyrðum, sem Ólafur Jóhannesson taldi þurfa að vera fyrir hendi, að þörfin væri svo brýn, að ekki gæti beðið næsta þings. Það væri óhjákvæmilegt skilyrði, sem þyrfti að vera fyrir hendi, til þess að hægt væri að segja, að rétt væri farið með bráðabirgðalagavaldið. Síðan sló hæstv. dómsmrh. þessu yfir í allt aðra sálma og fór að bollaleggja um, hvort breytingin á sjálfri gengisskráningunni hefði mátt bíða, þangað til Alþingi kom saman á reglulegum tíma, m.ö.o. að leiða athyglina frá því atriði, sem hæstv. ríkisstj. getur ekki varið. En það er allt annað mál. Það er ekki það, sem verið er að deila um í sambandi við stjórnarskrána, heldur hitt, að með engu móti var heimilt að færa gengisskráningarvaldið yfir til Seðlabankans með brbl.

Ofan á þetta bætist, eins og raunar hefur komið hér fram hjá öðrum, að það er ákaflega hætt við því, að hæstv. ríkisstj. hafi með þessu viljað þvinga fram lagaákvæði, sem vafasamt var að hún hefði með nokkru öðru móti getað fengið í gegnum þingið, en aðeins með því að láta menn í flýti og að óathuguðu máli binda sig við málið fyrir fram. Það er mjög vafasamt, að þetta hefði með öðru móti gengið fram á Alþingi, því að nú er hætt við því, að hvaða rök sem kynnu að verða færð gegn því að færa valdið yfir til Seðlabankans, þá verði það allt haft að engu út frá þeim skilningi, að það megi ekki lækka gengi ríkisstj. með því að fella ákvæði, sem hún hafi sett með brbl., og þar með verði þetta að standa. Þá hefur ríkisstj. náð þeim tilgangi, sem hún ætlaði sér með þessu stjórnarskrárbroti, því að vitaskuld er jafnglöggur maður og hæstv. forsrh. ekki að leika sér að því að ganga eins í berhögg við stjórnarskrá landsins og gert er með þessu. Hann gerir það ekki af einhverju príli eða fikti. Það er eitthvað sérstakt, sem býr á bak við það að leggja út á svo hæpnar leiðir. Og það getur ekki verið annað en þetta, að tryggja með þessu, að menn standi frammi fyrir þessu sem gerðum hlut og það megi ekki lækka gengið á ríkisstj. með því að breyta þessu eftir á, — allra sízt þegar stjórnarandstæðingar séu búnir að finna að því, þá verði það þó fyrir alla muni að standa.

Ég held, að því fari þess vegna víðs fjarri, að hæstv. forsrh. hafi fríað stjórnina ámæli með ummælum sínum um þetta mál, sem voru furðulega út í hött. Og mér finnst einkennilegt, að hæstv. ráðherra skyldi flytja mál sitt á þessa lund. Mér finnst það hefði verið afsakanlegra, ef einhver af okkur hinum minna lærðu í lögum hefði látizt misskilja stjórnarskrána svona hrapallega. Ég fæ alls ekki skilið þann hugsunargang, sem fram kom hjá hæstv. ráðherra í þessu sambandi, að halda því fram, að ríkisstj. hafi í sínum höndum, hvað sem ákvæðum stjórnarskrárinnar liður, óskorað löggjafarvald og óskorað vald til þess að gefa út brbl., þótt það sé greinilega takmarkað í stjórnarskránni.

Þá var hæstv. ráðherra í sambandi við þessi brbl. að tala um, að hér hefði ekkert gerzt, því að það hefðu einhvern tíma fyrir löngu verið gefin út 13 brbl. á einhverjum tíma, sem hann tiltók, og á öðru tímabili 8, og þar með átti þetta að vera í lagi. Það þurfti ekki meira að fjargviðrast út af því, þó að við og við væri bætt við einum brbl. Þetta finnst mér furðuleg röksemdafærsla. Ætli það skipti ekki aðalmáli, hvað í þessum brbl. er og við hvaða ástæður þau hafa verið gefin út? Og ef slíkt er ekki greint og borið saman, þá hefur svona málflutningur ekki nokkra minnstu þýðingu. Það mætti t.d. fara að svara svona málflutningi með því að spyrja hæstv. ráðherra að því, hvað sjálfstæðismönnum hefði á þeim tíma fundizt um sumt af þessum brbl. og að þau voru gefin út. Ég býst við því, að þeir hafi ekki talið sumt af þessu vera til fyrirmyndar, þó að það sé nú allt í einu farið að vitna í þetta svona gersamlega út í hött. Ég býst við því, að þeir hafi t.d. á sínum tíma fundið ákaflega mikið að því, sennilega með sterkustu orðum tungunnar, að það voru gefin út brbl. um afurðamálin og það gerðu þeir raunar. En þótt þeir gerðu það þá, var hæstv. forsrh. nú farinn að vitna í þetta eins og hina æskilegustu fyrirmynd, og þess vegna skyldu menn ekkert vera að fjargviðrast um þessi brbl. Nú er það um afurðasölulöggjöfina að segja, að hún átti, eins og hana bar að, ekkert skylt við þær aðfarir, sem nú hafa verið í frammi hafðar, því að afurðasölulögin voru sett með brbl., eftir að alþingiskosningar höfðu einmitt snúizt um það mál. Það var þess vegna fullkomlega lýðræðisleg og þingræðisleg ráðstöfun. En gengislækkuninni er smellt á með brbl. í sumar, án þess að nokkrir séu þar til kvaddir nema stjórnarliðsmenn innan veggja alveg í lokin. Henni er smellt á gersamlega að ástæðulausu, í stað þess að kalla saman þingið og ræða þar hið nýja viðhorf. Brbl, eru sett á bak við þingið til þess að snúast við nýju viðhorfi, en afurðasölubrbl. voru sett í framhaldi af alþingiskosningum, sem háðar voru m.a. um það mál og þar sem sá málstaður hafði sigrað, sem afurðasölulögin voru byggð á.

En hvað sem þessu líður, getum við ekki verið sammála um, að þessar sífelldu umræður um það, hvað áður hafi verið gert, séu að vísu nokkuð fróðlegar og gætu að sumu leyti verið lærdómsríkar, ef menn vönduðu sig og bæru saman það, sem sambærilegt er, en þá jafnframt, að það skiptir ekki höfuðmáli í þessu sambandi, hvað skeð hefur áður, heldur hitt, hvort sú ráðstöfun, sem verið er að ræða þá og þá, er réttmæt eða ekki? Og það skiptir ekki heldur aðalmáli í þessu, hvort einhver kynni einhvern tíma áður að hafa stigið hæpið skref í sambandi við þetta eða hitt, heldur hitt, hvernig það skref er stigið, sem nú hefur verið stigið og verið er að ákvarða um. Þannig á auðvitað að ræða um þessa bráðabirgðalagaútgáfu. Það á að meta, hvort hún er eðlileg og hvort menn hafi haldið sér innan eðlilegra takmarka eða ekki, en ekki reyna að drepa málinu á dreif með því að fimbulfamba fram og aftur um gersamlega ósambærilega hluti, sem fyrir löngu hafa gerzt og þar á ofan margir eru þannig, að þeir, sem nú vilja nefna þá til fyrirmyndar, fordæmdu þá á sinni tíð. Ég hygg, það hafi ekki mikla þýðingu, nema þá til að draga athyglina frá því, að hér hefur verið farið rangt að. Slíkur málflutningur er ekki til fyrirmyndar og allra sízt æskilegt, að hæstv. ríkisstj. noti slíkar aðferðir.

Þá skal ég koma að því, sem hæstv. forsrh. ræddi og átti að vera um efni málsins, en var það sáralítið. Sannleikurinn er sá, að hæstv. forsrh. reyndi ekki einu sinni að færa fram ástæður fyrir því, að gengislækkunin hefði verið nauðsynleg. Hann bara fullyrti það. En hann reyndi ekki að færa fram neinar ástæður fyrir því, ekki að sýna fram á það.

En áður en ég kem að því, vil ég fyrst benda á, að hæstv. ráðherra sagði, að það væru mótsagnir í því, sem ég hefði sagt um málið, því að ég hefði haldið því fram í byrjun ræðunnar, að ástandið hefði verið orðið þannig eftir kauphækkanirnar í sumar, að það hefði verið orðið óviðráðanlegt og ekkert verið annað að gera fyrir ríkisstj. en að leggja málin frá sér og segja af sér. Ég hefði sagt, að ástandið hefði verið orðið þannig. Síðar hefði ég sagt í sömu ræðu, að ástandið hefði verið þannig, að gengislækkun hefði verið óþörf. Þetta taldi hæstv. ráðherra mjög lélega frammistöðu, að flytja mál á þessa lund, og hér hefðu orðið stórfelldar mótsagnir í mínu máli.

Sannleikurinn er bara sá, að hæstv. ráðherra snýr hér öllu við, og hann segir frá ræðunni eins og hann hefði víst viljað, að hún hefði verið, ekki eins og hún var, því að ég lagði sem sé megináherzlu á, að ef ríkisstj. hefði farið rétt að, hefði hún getað notað kjarasamningana frá í sumar til þess að lagfæra fyrir sér á þjóðarbúinu þannig, að það hefði ekki þurft að komast í strand, og getað stuðlað að varanlegu jafnvægi í efnahagsmálum landsins.

Ég lagði áherzlu einmitt á þetta, en ekki hitt, sem hæstv. ráðherra vill vera láta og bjó til. En síðan sagði ég, að fyrst hæstv. ríkisstj. var ófáanleg til þess að notfæra sér kjarasamningana á þessa lund og hugsaði sér þess í stað að vinna það skemmdarverk, sem gengislækkunin í ágúst var, þá hefði henni verið skylt að kalla Alþingi saman og síðan að rjúfa það og láta þjóðina dæma um, hvort fyrirætlanir hennar um enn nýja gengislækkun væru réttmætar eða hin stefnan, sem við höfum rökstutt og haldið fram. Það var þetta, sem hæstv. ríkisstj. bar skylda til að gera. Henni bar skylda til þess. Fyrst hún vildi ekki fara þá leið, sem við höfðum stungið upp á, bar henni skylda til þess að láta fara fram kosningar í landinu, áður en hún hleypti nýju verðbólguflóði yfir þjóðina með gengislækkuninni í ágústmánuði og það gersamlega að ástæðulausu.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að með kjarasamningunum, sem gerðir voru í sumar á vegum SÍS og síðan annarra, hefði gersamlega verið sleginn grundvöllurinn undan atvinnurekstrinum í landinu og gert ómögulegt, að hægt væri að halda gengisskráningunni óbreyttri. En hæstv. ráðherra reyndi ekki að færa rök fyrir þessari fullyrðingu. Hann sagði í stað raka: Eða dettur nokkrum manni í hug, að samvinnusamtökin í landinu og verkalýðsfélögin hafi gert samningana eins og þau gerðu þá af einskærum velvilja til ríkisstj. og lagað þá þannig til, að ríkisstj. gæti þeirra vegna átt hægara með að sitja áfram en ella? — Þetta voru rökin: Dettur nokkrum manni í hug, að þessi samtök hefðu staðið að samningum, sem gerðu ríkisstj. hægara fyrir að sitja? Þetta voru rökin, sem hæstv. ráðh. hafði fyrir því, að það hlyti að hafa verið unnið skemmdarverk með þessum samningum, af því að samvinnusamtökin og verkalýðssamtökin hefðu staðið að þeim.

Menn taki nú eftir þessum hugsunarhætti. Þessi málflutningur er byggður á því, að stjórnarandstæðingar hverju sinni hljóti að meta það meira að vinna skemmdarverk á efnahagsmálum þjóðarinnar og atvinnumálum en gera svo sanngjarna samninga t.d. um launamál, að þeir gætu undir nokkrum kringumstæðum orðið til þæginda fyrir þá ríkisstj., sem situr. Þetta er sá hugsunarháttur, sem kemur fram hjá hæstv. forsrh., og hann kemur mér ekki svo mjög á óvart, því að þessi hæstv. forsrh. heldur, að allir hugsi á nákvæmlega sama hátt og hann hugsaði og hann starfaði, á meðan hann var í stjórnarandstöðu, því að þá var við þetta miðað. Og það er þessi hugsunarháttur, sem hæstv. forsrh. virðist skilja bezt — og ekki aðeins bezt, hann gerir ekki ráð fyrir því, að nokkur annar hugsunarháttur sé yfir höfuð til. Ef menn séu í stjórnarandstöðu, hljóti þeir yfir höfuð að miða öll sín verk, hvort það er í því að semja um laun fyrir atvinnufyrirtæki, sem þeir eru riðnir við, eða yfir höfuð allt annað, hljóti þeir að miða allt við að gera ríkisstj. bölvun, ekki miða við að reyna að ráða á sem skynsamlegastan hátt fram úr þeim málum í félagssamtökum og atvinnurekstri, sem þeim kann að verða trúað fyrir. Nei, það hljóti allt að vera miðað við hitt.

Þessi hugsunarháttur, sem kemur fram í þessum málflutningi hæstv. ráðh., er því miður byggður á reynslunni af honum. Allir vita, hvernig þessi hæstv. ráðh. og Sjálfstfl. hagaði sér að þessu leyti 1958, þegar flokkurinn hafði mestan áhuga á því að sprengja vinstra samstarfið. Þá sá flokkurinn engin ráð önnur en þau að reyna að magna upp kauphækkanir sem allra víðast í landinu og það meira að segja eftir að búið var nýlega að lögbjóða hinar ýtrustu kauphækkanir, sem talið var að atvinnureksturinn gæti borið, og það meira að segja, þó að kaup væri þá um 15–20% hærra raunverulega en það var í sumar, þegar átökin urðu.

Við þessar aðstæður gerði Sjálfstfl. undir forustu núv. hæstv. forsrh. allt það, sem hann gat, til þess að sprengja kaupið sem mest upp. Ekki af því að hann héldi, að atvinnureksturinn gæti borið það eða efnahagskerfið. Nei, blátt áfram af því, að hann vonaði, að með því að hækka kaupið við þær aðstæður, sem þá voru, væri hægt að skapa slíkt vandamál við rekstur þjóðarbúsins, að stjórnarflokkarnir gætu ekki komið sér saman um viðeigandi ráðstafanir. Þetta var það sjónarmið, sem var látið ráða.

Og þegar ekki komu fram nógar kaupkröfur í verkalýðsfélögunum eða launasamtökunum við þessar kringumstæður, voru talsmenn Sjálfstfl. sendir út með skrifaðar ræður úr Sjálfstæðishúsinu til þess að hvetja sem allra víðast til nýrrar kauphækkunarbaráttu, og ef það ekki dugði, þá var atvinnurekendum Sjálfstfl., þeim sem þeir gátu ráðið við, skipað að bjóða fram kauphækkanir. M.ö.o.: núv. hæstv. forsrh. viðhafði þær aðferðir, ef hann taldi þess við þurfa, þegar hann var í stjórnarandstöðunni, að hann lét atvinnurekendur bjóða fram kauphækkanir, af því að það vantaði vinnudeilur. Þegar vantaði vinnudeilur til þess að sprengja upp kerfið, voru þær búnar til, og ef önnur ráð voru ekki til, voru atvinnurekendur gerðir út af örkinni til þess að bjóða fram kauphækkanir, sem var alveg vitað mál að þeir gátu ekki borið sjálfir og hlutu að valda dýrtíðaraukningu.

Það er ekki furða, þó að hæstv. forsrh., sem á þessa fortíð í þessum málum, eigi dálítið erfitt með að skilja, að menn, sem eru í stjórnarandstöðu, reyni að gera vinnu- og launasamninga þannig að miða þá við, hvað raunverulega er hægt að standa við og hvað raunverulega er eðlilegt og réttmætt, en ekki við hitt að gera ríkisstj. bölvun.

En það væri t.d. ekkert úr vegi fyrir hæstv. forsrh., sem virðist haldinn þessum hugsunarhætti og vill láta menn standa í þeirri meiningu, að annar hugsunarháttur geti í raun og veru ekki verið til, — það væri fróðlegt fyrir þennan hæstv. forsrh. t.d. að íhuga það, hvernig á því muni hafa staðið út frá þessu sjónarmiði, að á vegum samvinnuhreyfingarinnar var eytt mörgum sólarhringum til þess að koma því ákvæði inn í launasamningana, að kaupið skyldi standa óbreytt í heilt ár, nema því aðeins að vísitalan hækkaði um meira en 5 stig eða sem svarar 10 stigum eftir gamla laginu.

Hvers vegna skyldu samvinnufélögin hafa verið að leggja ofurkapp á að koma svona ákvæði inn í vinnusamningana, ef þau hefðu verið að reyna að færa efnahagskerfið úr skorðum og gera ríkisstj. bölvun? Ætli það hefði þá ekki verið óþarfi, að þeir, sem hér að stóðu, hefðu lagt á sig margra sólarhringa erfiði til þess að koma þessu ákvæði inn í samningana, ákvæði eins og þessu, sem er stórkostlegt nýmæli í íslenzkum kjarasamningum? Hefur aldrei nokkurt hliðstætt ákvæði fengizt inn í kjarasamninga hér, að kaupgjald skuli standa óbreytt heilt ár, jafnvel þó að vísitalan hækki um 5 stig eða framfærslukostnaður hækki um 5%. Og það var m.a. út af þessu ákvæði, sem fleiri en einn hafa sagt við mig, að þessir vinnusamningar virtust mönnum vera skynsamlegir og hóflegir, en óneitanlega væri á þeim einn galli og hann væri sá, að ef ríkisstj. hagaði sér skynsamlega, þá gætu þessir vinnusamningar gert henni léttara að halda áfram. Það er ekki því að leyna, að ég heyrði þennan hugsunarhátt. Mönnum fannst það út af fyrir sig galli, að þessir vinnusamningar hlytu að gera ríkisstj. léttara fyrir. Ég hef sagt við þessa menn, og það skildu þeir náttúrlega undireins, að kjarasamningar geti ekki miðazt við það, hvaða ríkisstj. situr þá og þá. Það verður, þegar vinnudeilur koma upp, að reyna að finna þá skynsamlegustu lausn, sem hægt er að fá, og vinna að því að fyrirbyggja tjón, bæði fyrir þau fyrirtæki og þá, sem þar eiga hlut að máli, og þjóðarbúið í heild sinni. Og ef menn álíta það skynsamlegt, að launin hækki ekki vélrænt eftir vísitölu, ber mönnum að reyna að koma slíku ákvæði inn í launasamninga, hvort sem þeir eru með ríkisstj. eða ekki, en ekki haga sér í þessu efni eins og hæstv. forsrh. og hans menn hafa gert hér á undanförnum áratugum. Ef menn telja, að það sé heppilegt fyrir atvinnulífið í landinu, að slíkt ákvæði sé í launasamningum, þá á það ekki að velta á því, hver ríkisstj. er, hvort menn vinna að því, að það komi í samningana, ef menn hafa aðstöðu til þess. Og það er það, sem samvinnumenn hafa leyft sér að gera. Þeir hafa leyft sér að hafa sömu afstöðu í þessu, hvort sem þeir voru hlynntir ríkisstj. eða ekki. En það skilur ekki hæstv. forsrh. og ræðir það ekki. Hann segir bara: Þið getið bara ímyndað ykkur, hvort samningarnir muni ekki hafa hlotið að vera skemmdarverk, af því að þeir, sem að þeim stóðu, voru ekki hlynntir ríkisstj. — Þá þarf ekki frekar vitnanna við. Þeir hlutu að vera það. Það þurfti ekki einu sinni að rökstyðja þetta. Og þó að samningarnir væru þannig, að í þeim væri sá merkilegasti hemill gegn dýrtíðarspólunni, sem nokkru sinni hefur verið settur í launasamninga á Íslandi, þá skiptir það engu máli. Það var skemmdarverk samt, af því að það var unnið af mönnum, sem fylgdu ekki ríkisstj. að málum.

Hæstv. forsrh. minntist nokkuð á, að það hefði komið fram einhvers staðar af hendi Jakobs Frímannssonar, formanns Sambandsins, að hann óttaðist, að kauphækkanir gætu haft í för með sér gengisfall. Hæstv. forsrh. var ákaflega hreykinn af þessu. Á þessu gætu menn séð, að formanni Sambandsins hafi verið algerlega ljóst, að hér var verið að vinna skemmdarverk og gengislækkun hlaut að fara í kjölfar samninganna, sem SÍS gerði við verkalýðinn og samvinnufélögin. — Þetta er röksemdafærsla hæstv. forsrh.

En hvar skyldi Jakob Frímannsson hafa sagt, að af þeim samningum, sem gerðir voru í sumar, hlyti að leiða gengislækkun? Hvar skyldi Jakob Frímannsson hafa sagt það? Hann sagði aðeins, að það gæti farið svo um kauphækkanir. Þetta voru viðvörunarorð, sem mælt voru til þess að hvetja til að fara varlega í kauphækkunarmálum. Þessum orðum leyfir hæstv. forsrh. sér að snúa út úr og dylgja um, að með þessu hafi Jakob Frímannsson lýst því yfir, að þeir samningar, sem gerðir voru um þessi mál í sumar, hlutu að hafa í för með sér gengislækkun. Þetta er dálítið sýnishorn af málflutningi hæstv. ráðherra.

Þá kvörtuðu þeir yfir því, bæði hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., að ég hélt því fram sem rökstuðningi fyrir því, að það hefði ekki verið hægt annað en koma nokkuð til móts við launastéttirnar, að verkamannakaup hefði verið aðeins 4000 kr. á mánuði fyrir 8 stunda vinnu hvern einasta virkan dag. Ég benti á, að enginn hefði treyst sér til að halda því fram, að hægt væri fyrir fjölskyldu að lifa af þessu kaupi. Ráðherrarnir hafa ekki mælt í móti þessu. Þeir hafa ekki treyst sér til að halda því fram, að nokkur maður á Íslandi hefði getað lifað af 4000 kr. á mánuði. En þeir sögðu, að það, sem ég sagði um þetta, bæri vott um mjög ósvífinn málflutning eigi að síður, og ég vil biðja menn að taka eftir því. Þeir sögðu, að það hefði verið mjög óviðeigandi áróður af minni hendi að benda á þetta. Og það var vegna þess, að meðaltekjur vinnandi fólks hefðu verið undanfarið mun hærri en 48 þús. kr. á ári. Þess vegna væri það blekkjandi af minni hendi og óviðeigandi að minnast á það í sambandi við kjarasamningana, hversu mikið kaup verkamenn gætu fengið fyrir að vinna 8 stundir hvern einasta virkan dag.

Hafa hæstv. ráðherrar gert sér ljóst, hvað þeir eru að fara með þessum málflutningi sínum? Og nú vil ég spyrja þá: Finnst þeim það vera ósvífin krafa, að hægt sé að lifa mannsæmandi lífi af því að vinna 8 stundir hvern einasta virkan dag á árinu? Finnst þeim það vera ósvífin krafa, að það sé hægt? Ég vil fá hreint svar við þessu. Þeir virðast ekki treysta sér til þess að halda því fram, að það sé hægt að lifa mannsæmandi lífi af því kaupi, sem borgað hefur verið verkamönnum fyrir að vinna 8 stundir hvern einasta virkan dag. Þeir segja, að það sé óviðeigandi málflutningur að minna á þetta. Og þeir deila stórlega á mig og aðra fyrir að leyfa okkur slíkt. En þá spyr ég: Á að skoða þennan málflutning hæstv. ráðh. þannig, að þeim finnist það vera ósvífin krafa, að verkamaður geti með meðalfjölskyldu lifað af verkamannakaupi, sem hann fær fyrir 8 stunda vinnu hvern virkan dag? Ég býst ekki við, að þeir þori að svara þessari spurningu játandi, að það sé ósvífin krafa. En þá vil ég í framhaldi af því benda á, hversu veikur sá málstaður er að kalla það skemmdarverk að færa kaup fyrir 8 stunda vinnu hvern virkan dag úr 4000 kr. og upp í 4400 kr. á mánuði, en það er það, sem gert var, og svo 1% í sjúkrasjóð.

Hæstv. forsrh. sagði í sinni ræðu, að það væri síður en svo ámælisvert, þó að brbl. væru sett til að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu og fjárhagsþröng. Hann orðaði það þannig: til að koma í veg fyrir yfirvofandi hættu og fjárhagsþröng. — Og hver var svo þessi yfirvofandi hætta og fjárhagsþröng? Hún var sú, að launasamningarnir, sem gerðir voru, gerðu ráð fyrir 400 kr. hækkun á mánuði til verkamanna í staðinn fyrir 240 kr. hækkun á mánuði, sem hæstv. ríkisstj. var búin að gefa út að kerfið mundi þola. Eða m.ö.o.: sá mismunur á kaupi, sem þarna kom til greina, var 160 kr. á mánuði fyrir hvern verkamann. Okkur er svo sagt, að þetta hafi komið efnahagsmálum þjóðarinnar í yfirvofandi hættu og landinu í fjárhagsþröng og út af því hafi þurft að fella gengið um 13%. Það er ekki furða, þó að hæstv. ráðh, gangi illa að færa rök fyrir öðru eins og þessu.

Það er reynt í þessu sambandi að halda því fram, að kauphækkanirnar, sem urðu, mundu hafa aukið tekjurnar með þjóðinni svo mikið, að gjaldeyrismálin hefðu gersamlega farið úr skorðum, og í því sambandi hafa verið nefndar alveg fjarstæðukenndar tölur. Ég skal ekki fara langt út í að nefna tölur í því sambandi, en hæstv. viðskmrh. segir, að hver 1% hækkun á kaupi geri tekjuaukningu upp á 30 millj. Við skulum segja, að þetta væri nærri lagi. Þá mundi eftir því hækkun frá 6% og upp í 11%, eða 5% meiri hækkun en fyrirhuguð var og efnahagskerfið átti að þola, hafa haft í för með sér 150 millj. kr. tekjuaukningu alls í öllu kerfinu, ef hún kæmi til allra launamanna í landinu. En þá er ekki um að ræða tekjuaukningu upp á 500–600 millj., eins og hæstv. viðskmrh. var að tala um, heldur hefur þá þessi mismunur í för með sér tekjuaukningu upp á 150 millj. kr.

Þegar svo þess er gætt, að aðeins brot af þessu verður eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, sjáum við, hvílík fjarstæða það er, sem hæstv. ráðh. hafa haldið fram um þetta. Ef efnahagskerfið þoldi án gengislækkunar 6% kauphækkun, sem þeir hafa hvað eftir annað raunverulega gengið inn á, þá ber allt að sama brunni, það er sama, hvernig dæmið er tekið, hvort það er tekið frá sjónarhól atvinnuveganna eða þjóðarbúsins í heild, miðað við eftirspurn eftir gjaldeyri, — það er sama á hvora lundina það er tekið, það verður gersamlega ómögulegt að finna nokkur skynsamleg rök fyrir því, að gengislækkun hafi átt að geta komið til mála, ekki sízt þegar þess er gætt, að gjaldeyristekjur af síldveiðum fóru stórkostlega hækkandi. Jafnvel þó að málið sé skoðað frá þeim sjónarhól, sem þeir vilja helzt, þ.e.a.s. eftir því, hvað kaupmáttaraukningin hefði orðið mikil í heild, þá ber allt að sama brunni. Það er líka af þessum ástæðum, sem hæstv. viðskmrh. grípur til jafnfurðulegrar röksemdafærslu og þeirrar, að þegar menn hafi verið að gera það upp við sig, hvort þyrfti gengislækkun eða ekki, þá hafi þurft að bæta við 330 millj., sem væri væntanleg tekjuaukning í landinu vegna þess fólks, sem bætist í hóp hins vinnandi fólks á hverju ári. En vitaskuld er það svo, að ef á að taka slíkt inn í dæmið, verður auðvitað að bæta við tekjumegin á móti þeirri verðmætisaukningu, sem myndast fyrir vinnu þessa fólks. En auðvitað er þetta ekkert annað en endaleysa — hrein endaleysa — að vera að blanda öðru eins og þessu inn í umr. um það, hvort gengislækkun hafi átt að koma til greina eða ekki, en sýnir á hinn bóginn, hversu aðþrengdir þeir eru orðnir, sem að þessu standa, þegar gripið er til annars eins og þess.

Kaupmáttaraukningin hefði orðið alveg gífurleg, 800–900 millj., segir stjórnin, og málið allt gersamlega óviðráðanlegt, og á þessu sjái allir, að gengislækkunin var lífsnauðsyn. Þetta eru rökin, sem mönnum er boðið upp á, þá að staðreyndirnar séu hinar, að hér var farið að vísu nokkrum prósentum hærra en ríkisstj. taldi kerfið þola. Og þótt afleiðingar þess séu reiknaðar upp á það harðasta í gjaldeyriseftirspurn og aukinni peningaumferð, koma þar út svo lágar fjárhæðir, að engum manni með fullri skynsemi hefði átt að geta dottið gengislækkun í hug í sumar. Enda er sannleikurinn sá, að áróður hæstv. ríkisstj. á sér engan hljómgrunn með þjóðinni. Ég ímynda mér, að 80% af þjóðinni sé í raun og veru sammála um, að hér hafi verið unnið stórkostlegt óhappaverk með þessari gengisbreytingu, sem gerð var í sumar, — heiftarverk, sem hefði verið bezt fyrir þá, sem að því stóðu, og alla, að ekki hefði komið til greina.

Þá vék hæstv. forsrh. að því, að ég hefði bent á úrræði til þess að komast hjá gengislækkuninni. Hann viðurkenndi, að ég og við framsóknarmenn hefðum bent á úrræði í því tilliti. Það viðurkenndi nú hæstv_. viðskmrh. líka. En þeir fordæmdu þau úrræði og sögðu, að þau mundu gera illt verra. Maður skildi, að það var það, sem þeir meintu, þau mundu gera illt verra. Meðal úrræða, sem við bentum á, var vaxtalækkun, að lækka vextina ofan í það, sem þeir voru, áður en viðreisnin fór af stað. Hæstv. viðskmrh. ræddi í því sambandi um, að það mundi verða mikið tjón fyrir sparifjáreigendurna í landinu. Ég held því alveg hiklaust fram, að það hefði verið mikill ávinningur fyrir sparifjáreigendurna í landinu, að hæstv. ríkisstj. hefði aldrei lagt út á þá braut, sem hún hefur gengið undanfarið, að hún hefði ekki lagt út í viðreisnarævintýrið á þann hátt, sem hún gerði, og ekki hækkað vextina, vegna þess að tvennar gengislækkanir, sem gerðar hafa verið, og ekki síður þessi seinni, taka ekki aðeins allan ávinninginn, sem sparifjáreigendur áttu að hafa af þessu ævintýri, heldur miklu, miklu meira, verða miklu þyngra áfall fyrir sparifjáreigendur í landinu en hitt, að vextirnir hefðu verið látnir standa óbreyttir. Eftir sitja svo allar þær búsifjar, sem vaxtahækkunin hefur gert atvinnurekstrinum í landinu, og eru þær ekki neitt smáræði.

Hæstv. forsrh. sagði, að tillögur okkar um að draga úr lánsfjárskortinum með því að hætta ráðstöfunum til að binda sparifjárinnstæðurnar væru beint tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Og nú vil ég biðja menn að taka eftir: Hverjar eru svo þessar tillögur Framsfl., sem eru beint tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar? Tillögurnar eru þær að hætta að taka sparifé þjóðarinnar úr umferð og frysta það inni í Seðlabankanum. Við leggjum til, að þessu verði hætt, sparifé þjóðarinnar fái að vera í umferð, það verði lánað út í atvinnureksturinn og til þess að greiða fyrir hinum mörgu áhugamálum fólksins. Sparifé þjóðarinnar fái að vera í umferð. Það er ekki annað, sem við förum fram á. Það er ekki annað, sem við leggjum til. Við leggjum ekki til, að það verði farið að búa til kaupgetu, sem ekkert er á bak við, með útgáfu nýrra peningaseðla út í bláinn. Við leggjum ekki annað til en það eitt í þessu sambandi, að sparifé þjóðarinnar fái að vera í umferð, það sé ekki tekið og fryst í Seðlabankanum til þess að skapa með því lánasamdrátt og kreppu.

En þetta, að sparifé þjóðarinnar fái að vera í umferð, fái að vera í hringrás í atvinnulífi landsmanna, það kallar núv. forsrh. beint tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Svona langt er hæstv. forsrh. kominn á örstuttum tíma frá því, þegar hann í stjórnarandstöðunni 1956–58 bað menn lengst allra orða að leggja ekki, hvað sem þeir gerðu að öðru leyti, út á þá leið að reyna að lækna vandamál efnahagslífsins með því að draga óeðlilega saman lánveitingarnar, og lagði svo mikið við þessi varnaðarorð, að hann vísaði til þess, að hagfræðingar hefðu komizt að þeirri niðurstöðu, að kreppan mikla upp úr 1928 mundi að verulegu leyti hafa stafað af því, að Englandsbanki rak of þröngsýna útlánapólitík. En þessi sami ráðh., sem varaði við þessu 1956–58 og í því sambandi alveg sérstaklega við núv. efnahagsmrh. sínum og aðalráðunaut, Gylfa Þ. Gíslasyni, sem sérstaklega hættulegum manni í þessu tilliti, þessi sami maður er kominn svo langt, að hann telur það beint tilræði við fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar að leyfa sparifé hennar að vera í umferð.

Látum vera, að hann hefði fundið að því, ef við hefðum viljað auka útlánin úr bankakerfinu, án þess að nokkuð væri á móti. Það var annað mál. Það er ekki það, sem við leggjum til. Við leggjum til, að það sé bætt úr rekstrarfjárskortinum, eins og hægt er að gera, með því að hætta að loka hluta af sparifénu inni.

En þessi pólitík að loka spariféð inni á þessa lund og að neita mönnum svo unnvörpum um lán, sem mörg mundu, ef veitt væru, leiða til stóraukinnar framleiðni og framleiðslu, m.a. lán til tækjakaupa í sjávarútvegi og öðrum atvinnugreinum, sem mundu kasta af sér margföldu láninu á örskömmum tíma, — þessi pólitík að loka spariféð inni og neita mönnum svo um lán til svona framkvæmda leiðir áreiðanlega ekki til þess að auka eða efla fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Það er alveg víst. Og það er alveg splunkuný kenning, sem við eigum nú við að búa í framkvæmdinni, að af öllu hættulegu sé það þó þjóðhættulegast að leyfa því fjármagni, sem menn leggja til hliðar, að koma í umferð í útlánum. Af öllu furðulegu er þetta furðulegast hjá þjóð, sem er í stórkostlegum vandræðum einmitt vegna skorts á lánsfé, þar sem verkefnin bíða alls staðar óleyst, ekki hægt að koma þeim í framkvæmd vegna skorts á lánsfé.

Við þetta bætist, að það hefur ekki aðeins verið látið við þetta sitja, að draga þannig inn í bankakerfinu spariféð, heldur hafa líka verið raunverulega stórminnkuð útlán á afurðir með því að halda útlánum á afurðir óbreyttum í krónutölu, þótt hver gengislækkunin dynji yfir af annarri. Þar að auki hefur því svo verið bætt við að draga alveg sérstaklega saman þau lán, sem lánuð hafa verið í landbúnaðinn, með því að setja til viðbótar þessari takmörkun aðra takmörkun. En hún ef fólgin í því að lána ekki meira í krónutölu út á landbúnaðarafurðir í heild en áður, enda þótt landbúnaðarframleiðslan vaxi stórkostlega. Og það er gortað af því núna í síðasta pésa frá Seðlabankanum og þá auðvitað á vegum ríkisstj., að það hafi „tekizt“ að draga mjög úr útlánum til landbúnaðarins á árinu 1960. Og það er líka gortað af því og talinn alveg sérstakur vottur um batann, takið eftir því: um batann í búskapnum, að það hafi lukkazt að loka svo og svo mikið inni í bankakerfinu af sparifé þjóðarinnar, það hafi tekizt að koma í veg fyrir, að það kæmist út aftur.

Hæstv. forsrh. var eitthvað að tala um, að ég skyldi tala varlega í þessu tilliti, því að ég hefði stundum varað við of miklum útlánum. Það er rétt. Ég hef varað við of miklum útlánum. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að setja seðlapressuna í gang til þess að lána út fjármuni, sem ekkert var á bak við. En ég hugsa, að enginn viti það betur en hæstv. forsrh., að ég hef í hvert skipti, sem til mála hefur komið að taka upp pólitík okurvaxta eða þá pólitík að loka inni það veltufé, sem þjóðin safnar sjálf, í hvert skipti, sem slíkt hefur komið til tals, hef ég verið eindregið á móti því og ásamt öðrum komið í veg fyrir, að slíkt hafi komið til mála, þangað til núv. stjórnarsamsteypa kom til greina og þurfti ekki lengur að taka tillit til minna ráða í þessu eða minna félaga, enda sjá menn nú afleiðingarnar af því, m.a. í þessari lána- og vaxtapólitík, sem þeir virðast vera a.m.k. annað veifið dálítið drýldnir af.

Að lokum sagði svo hæstv. forsrh., að engan mundi fýsa að eiga slíkan viðskilnað sem Framsfl. átti í des. 1958, þegar vinstri stjórnin fór frá. Jæja, látum það nú vera. Í þessu sambandi er rétt að minna aðeins á, — ég skal ekki fara langt út í það, — að þegar vinstri stjórnin fór frá, var gjaldeyrisstaða landsins betri en hún er núna og hafði farið batnandi það ár. Þá var greiðsluafgangur hjá ríkissjóði verulegur. Þá var meira líf í framleiðslunni til lands og sjávar en síðar hefur komið til mála. Þá var betri afkoma framleiðenda í landinu en síðan hefur verið og afkoma almennings alveg ósambærilega betri. Þetta eru staðreyndir, sem er ekki hægt að komast fram hjá, þótt menn kynnu gjarnan að vilja það.

En ástæðan til þess, að vinstri stjórnin gat ekki haldið áfram, var sú, að það var ómögulegt að ná samstöðu við þá, sem ríkisstj. studdu, um að taka dýrtíðarspóluna, vísitöluna úr sambandi. Það var þá haldið dauðahaldi í að hafa dýrtíðarspóluna í sambandi bæði við kaupgjald og afurðaverð og fyrirsjáanlegar miklar víxlhækkanir í því efni, sem mundu hafa gert óbætanlegt tjón. Af þessu voru málin mjög illviðráðanleg, þrátt fyrir þessar góðu ástæður að öðru leyti, sem ég var að lýsa.

Framsfl. gerði þá till. um lausn á því máli, sem samstarfsflokkarnir vildu ekki líta við og þeir, ásamt þeim öflum, sem núverandi hæstv. forsrh. stýrði í Sjálfstfl. þá, sameinuðust um að fella og koma fyrir kattarnef. Tillagan var að taka vísitöluna úr sambandi við kaupgjaldið og afurðaverðið og fella niður nokkur vísitölustig. Það var þá sýnt fram á af framsóknarmönnum, að þessi till. var miðuð við að halda kaupmætti launa í landinu eins og hann var í okt. 1958 og öðrum þeim kjörum, sem þjóðin átti þá við að búa. Og það var sýnt fram á, að þetta væri hægt.

En þá voru það þessi öfl, og þar á meðal hv. 3. þm. Reykv. (EOl.), sem var að hnýta hér í Framsfl. fyrir viðskilnað vinstri stjórnarinnar m.a., sem gengu fast að því að synja algerlega fyrir þessa lausn og gera þar með vinstri stjórninni gersamlega ómögulegt að starfa áfram. En hvað fékk svo hv. 3. þm. Reykv. í staðinn og þeir, sem stóðu að þessu? Hann lýsti því sjálfur í fyrradag, hvað fékkst í staðinn.

En það er fleira athyglisvert í þessu máli. Og það er, að sá kjarasamningur, sem gerður var nú s.l. sumar og við höfum rætt hér í þessum umr., var þannig, að ef slíkur samningur hefði verið gerður haustið 1958, hefði vinstri stjórnin getað haldið áfram að starfa. Slíkur samningur hefði veitt henni æskilegan grundvöll til þess að starfa áfram. Þannig var sá samningur, sem lagður var á borð núv. ríkisstjórnar s.l. sumar og hún hefur leyft sér að kalla skemmdarverk.

En þetta þýðir líka, að ef forráðamenn verkalýðssamtakanna hefðu viljað líta við því haustið 1958 á vegum vinstri stjórnarinnar, sem þeir fögnuðu í sumar í stjórnarandstöðunni, þá hefði vinstri stjórnin getað haldið áfram og menn hefðu ekki fengið yfir sig þær stórkostlegu kjaraskerðingar, sem síðan hafa átt sér stað. Þetta segir ekki svo lítið um, hversu óheppilega hefur verið haldið á málum.

Ég kem þá að lokum að hæstv. viðskmrh., sem ræddi nokkuð mína ræðu. Hann taldi, að ég hefði hallað á stjórnina og hennar málstað í mínum málflutningi. Fyrsta dæmið, sem hann nefndi því til stuðnings, var, að ég hefði sagt, að kaupmáttur launa hefði minnkað um 15–20% síðan í okt. 1958. Ráðh. vildi ekki, að því er mér skildist, bera þetta beint til baka, en hann sagði, að ég hefði átt í þessu sambandi að minna á, að það hefði ýmislegt verið gert til þess að drýgja fyrir mönnum, sem ekki kæmi fram í þessu, og átti hann þar sjálfsagt við fjölskyldubæturnar ekki sízt. Ég nefndi þær ekki, vegna þess að ég nefndi ekki margt annað, sem hefur orðið mönnum mjög til þyngsla á þessu tímabili. Ég nefndi bara kaupmátt tímakaupsins. Ég nefndi t.d. ekkert þær gífurlegu búsifjar, sem núv. stjórnarstefna hefur gert mönnum, sem þurfa að koma sér þaki yfir höfuðið, í gífurlegum hækkunum á byggingarkostnaði, óskaplegum hækkunum á vöxtum og styttingu lánstíma þeirra lána, sem látin eru í té. Með öllu þessu móti hafa mönnum verið bundnir gífurlegir baggar, sem ég nefndi ekki á nafn í mínu máli. Ég taldi mig þess vegna mjög vel hafa ráð á því að nefna þessa rýrnun á kaupmætti launanna sem dæmi um, hvað hallað hefði undan fæti, án þess að fara í leiðinni að tala um fjölskyldubæturnar þar í móti, og tel mig ekki hafa blekkt neitt, þó að ég nefndi þessa rýrnun kaupmáttarins sem einkennandi dæmi um, hversu á menn hefði hallað á þessu tímabili.

Auk þess nefndi ég ekki, hversu óskaplegum erfiðleikum stjórnarstefnan hefur valdið mönnum í hækkun á verði margvíslegra tækja, sem menn þurfa að kaupa til heimilanna og til þess að byggja upp atvinnureksturinn, bæði í sveitinni og við sjávarsíðuna, sem nú eru því miður sem óðast að koma niður á þeim, sem þurfa á því að halda að byggja sér upp heimili og aðstöðu í framleiðslunni. Ekkert af þessu nefndi ég. Ég nefndi aðeins þetta eina atriði sem einkennandi fyrir breytinguna og tel, að með því hafi ég alls ekki hallað á stjórnina.

Ég er búinn að ræða um það, sem hæstv. ráðherra sagði varðandi sparifjáreigendurna og lækkun vaxta og skal ekki fara út í það.

Í sambandi við ræðu viðskmrh. og ræðu hæstv. forsrh. vil ég alveg sérstaklega benda mönnum á, að þeir hafa enga tilraun gert til þess að hnekkja því, sem ég hef fært hér fram í umr. til að sýna, að þessi gengislækkun algerlega var gerð ófyrirsynju. Skal ég nú rifja þessi atriði upp. En áður en ég geri það, vil ég benda mönnum á, hversu óvenjulega mælt er fyrir þessari gengislækkun. Þegar gengislækkanir hafa komið til greina á undanförnum árum, hafa þær verið rökstuddar með sérstakri þörf atvinnuveganna. Það hafa verið færð fram dæmi um, að þessi eða hin gengislækkunin virtist óhjákvæmilega nauðsynleg til þess að jafna metin hjá atvinnuvegunum. Nú hefur þetta alls ekki verið gert. Þetta er vegna þess, hversu torvelt er að sýna fram á nauðsyn gengislækkunarinnar með eðlilegum rökum. Þess í stað er verið að fimbulfamba um þær gífurlegu fjárhæðir, sem leystar hefðu verið úr læðingi í aukinni kaupgetu og hefðu velt gjaldeyrisstöðunni um. Þær tölur, sem í því sambandi hafa verið nefndar, hafa allar verið hraktar.

Ég ætla nú vegna þess, hve nýstárlega er mælt fyrir þessari gengislækkun, að rifja upp þau atriði, sem sýna, að gengislækkunin átti engan rétt á sér og fyrir henni voru engin efnahagsleg rök. Ég vil biðja menn að taka eftir því, að þessum rökum hefur ekki verið reynt að hnekkja. Hér koma til eftirfarandi röksemdir:

Þegar iðnreksturinn var tekinn til rannsóknar að lokinni kauphækkun, kom í ljós og því var lýst yfir í skýrslum í stjórnarblöðunum m.a., að iðnreksturinn, með aðeins örlitlum undantekningum, sem nefnd voru um tvö dæmi, gat borið kauphækkanirnar án þess að hækka verð á iðnaðarvörunum. Enn fremur, að sú hækkun á iðnaðarvörum, sem leyfð var, var hnitmiðuð í nær öllum dæmum við áhrif gengislækkunarinnar einnar á kostnað iðnfyrirtækjanna. Þessu hafa hæstv. ráðherrar ekki reynt að hnekkja, sem er ekki von, því að þetta eru staðreyndir. En þetta sýnir, að iðnreksturinn gat borið þessar tiltölulega hóflegu kauphækkanir.

Næsta atriði er svo, að verðlag á saltsíld og bræðslusíld til útgerðarinnar gat hvort tveggja hækkað, — ég sagði hækkað, — þrátt fyrir kauphækkanirnar og eftir að búið var að reikna þær inn í dæmið hjá vinnslustöðvunum. Verð á saltsíld hækkaði og verð á bræðslusíld hækkaði, hækkaði, — en ekki lækkaði, þrátt fyrir kauphækkanirnar.

Þá kemur að athuga aðstöðuna hjá sjávarútveginum að öðru leyti. Þá er það fyrst, að kaupgjald sjómanna, hlutarmanna, hafði hækkað um veturinn áður og var komið inn í fiskverðið. Það var búið að gera nýja samninga um fiskverðið, eftir að þær kauphækkanir höfðu átt sér stað, og það hafði lagað sig eftir hinum nýju aðstæðum. Samningarnir, sem gerðir voru í sumar, snertu því eingöngu fiskvinnslustöðvarnar í sjávarútveginum. Þá kemur spurningin: Voru þessir samningar þá ekki alveg óbærilegir fyrir vinnslustöðvarnar í sjávarútveginum? Vinnulaunakostnaðurinn í frystihúsunum er talinn vera frá 17–20% af útflutningsverðinu. Við sjáum það því, að þær kauphækkanir, sem urðu í sumar umfram það, sem stjórnin vildi, geta ekki numið meira en 1–2% af útflutningsverði. Engum manni með heilbrigða skynsemi hefði dottið í hug að breyta gengisskráningu íslenzku krónunnar, þótt verð á útflutningsafurðum frystihúsanna hefði breytzt um 1–2%, hvorki til hækkunar né til lækkunar. Þegar þess er svo gætt hér til viðbótar, að ríkisstj. var í lófa lagið að lækka vextina niður í það, sem þeir voru fyrir gengislækkunina, eða um sem næst ¼ hluta, þá blasir við, að hægt var með því einu að bæta frystihúsunum upp kauphækkunina, sem varð s.l. sumar.

Einnig var hægt að bæta hag iðnaðarins og annars atvinnurekstrar að sama skapi. Og eftir því, sem nú er komið fram um verðlagsgrundvöll iðnaðarins, hefði verð á iðnaðarvörum getað lækkað, ef engin gengislækkun hefði getað komið til greina, en vaxtalækkun verið innleidd í hennar stað, — hefði getað lækkað í stað þess að hækka.

Til viðbótar þessu hefur svo verið bent á, að ef þessu til viðbótar hefði verið bætt nokkuð úr rekstrarfjárskorti fyrirtækja í landinu með því að lina á innilokun sparifjárins, þá hefðu viðskipti farið vaxandi, verzlanir og aðrar stofnanir átt miklu auðveldara með að komast af án nokkurrar breytingar á álagningu en ella og tekjur ríkissjóðs hefðu vaxið mjög verulega. Og eftir því sem nú horfir og raunar auðséð var vegna þess, hvað búið er að moka háum tollum á almenning, almennu neyzluvörurnar, hefði hagur ríkissjóðs orðið þannig, að hann hefði getað lagt fé af mörkum til þess að koma í veg fyrir fulla hækkun smásöluverðs landbúnaðarvara. Opnazt hefði leið til að bæta launakjör opinberra starfsmanna. Ég er alveg sannfærður um, eftir því sem ég þekki til þessara mála, að það hefði verið hægt með þessum aðferðum að halda verðlaginu innan við þau 5 stig, sem það mátti hækka, áður en kaupgjaldið færi að hækka á nýjan leik.

Þannig hefði verið hægt að nota kjarasamningana, sem gerðir voru, til þess að koma á jafnvægi og tryggja varanlegan vinnufrið og jafna þróun. Hæstv. ráðherrar hafa ekki reynt að hnekkja þessari röksemdafærslu, ekki gert tilraun til þess. Í staðinn fyrir að reyna að hnekkja þessari röksemdafærslu og sýna fram á með glöggum ástæðum, að gengislækkunarinnar hafi verið brýn þörf vegna kauphækkananna, eins og þeir hafa fullyrt, hafa þeir endurtekið slagorð sín um þetta mál.

Aðeins ein tilraun hefur verið gerð til þess að koma út tortryggni á þessari röksemdafærslu. Það var, þegar hæstv. viðskmrh. taldi sig hafa fundið púðrið í gær. Hann hafði lesið reikninga SÍS og sagði, að reikningar SÍS sýndu það fyrir 1959 og 1960, að þessar röksemdafærslur mínar væru algerlega á sandi byggðar. Það hefði sýnilega verið algerlega ómögulegt fyrir Sambandið að standa undir þeirri kauphækkun, sem það samdi um. Þessu til sönnunar nefndi ráðherrann, að gróði SÍS, eins og hann kallaði það, hefði verið rúmar 5 millj. 1959 og 6 millj. 1960. Síðan hefði kaupið verið hækkað um 15%, sagði ráðherrann, og launagreiðslur Sambandsins og allra fyrirtækja þess mundu aldrei vera undir 50 millj. og það gerði 7½ millj. í hækkun. Og þarna sjáið þið, segir ráðherrann, að af því leiðir, að SÍS hlyti að hafa tapað 1½ millj. á þessu ári, ef ekkert hefði verið gert til þess að hjálpa! Á þessu sjáið þið það, sagði hæstv. ráðherra, að allt þetta tal stjórnarandstæðinga um, að þessi kauphækkun hefði ekki þurft að koma af stað gengislækkun, er alveg út í bláinn.

Það er nú mál út af fyrir sig, að hæstv. ráðherra, jafnglöggur maður, skuli nú vera svo aðþrengdur að leyfa sér að gefa í skyn, að afkoma Sambandsins fyrir tveimur árum eða jafnvel í fyrra segi til um, hvernig til muni takast á árinu 1961. Þetta er auðvitað gersamlega út í bláinn, eins og sést bezt á því, að hæstv. ráðherra gat ekki stillt sig um í leiðinni að nefna, að 1958 hefði afgangur SÍS enginn verið. Hann sýnir sem sé fram á, hvílík markleysa þetta er, sem hann er að fara með, því að ef hagur SÍS hefur getað breytzt frá því að græða ekki neitt 1958 upp í það að græða 5.2 millj. 1959 og 6 millj. 1960, þá sjáum við, að það er harla lítið hægt að álykta frá ári til árs um afkomuna, enda er þetta tal hæstv. ráðherra algerlega út í bláinn og hefur ekkert gildi.

En fyrst hæstv. ráðherra óskar að blanda þessu hér inn í, get ég gert honum það til geðs að gefa honum nokkrar upplýsingar, sem kannske skýra þetta eitthvað fyrir honum eða öðrum, sem kynnu að taka það alvarlega, sem hæstv. ráðherra sagði um þetta efni.

Ég vil þá fyrst benda hæstv. ráðherra á, að 1960 var nýbúið að hækka vextina upp í fulla viðreisnarhæð, og hækkun á vaxtaútgjöldum Sambandsins það ár var hvorki meira né minna en rúmlega 8 millj. kr. Mest af þeirri fjárhæð var vegna viðreisnarhækkunarinnar. Það eru engar smáfjárhæðir, sem hér er um að ræða, þó að ráðherranum finnist alltaf vaxtaútgjöld hljóti að vera hégómi. Vextirnir voru síðar lækkaðir, ríkisstj. Þorði ekki annað en lækka þá í ársbyrjun 1961, og áreiðanlega var það ekki gert fyrir SÍS, það er alveg óhætt að bóka. En hún þorði ekki annað en lækka vextina í ársbyrjun 1961. Það munar ekki svo litlu. Það þýðir nokkrar millj. í ávinning fyrir SÍS, því að enn þá hafa ekki verið fundnar leiðir til að hafa hærri vexti fyrir SÍS en aðra, þó að það mundi sjálfsagt ekki vanta viljann til þess í stjórnarherbúðunum eftir öðru. En það hefur ekki enn þá verið fundin aðferð til þess. Þetta verður því til þess, að vextir Sambandsins lækka um nokkrar millj. á árinu 1961 frá því, sem var 1960. Af þessu sér hæstv. viðskmrh., hversu hæpið er að vera með einhverjar ályktanir fram í tímann og miða við afkomuna frá einu ári til annars. Þar að auki get ég líka huggað hæstv. ráðherra með því, þar sem hann hefur svona miklar áhyggjur vegna afkomu SÍS, að á árinu 1960 varð Sambandið fyrir gengistapi, sem kom á reksturinn, rúmar 2 millj. kr., og slíkt hefði vitanlega ekki endurtekið sig á þessu ári, ef ekki hefði verið gripið til gengislækkunarinnar. Breytingar til lækkunar á útgjöldum á þessum tveim liðum frá 1960 nema því mörgum millj., og sýnir það alveg nægilega, hvílík markleysa þessi röksemdafærsla hæstv. ráðherra er, ef á að kalla þetta tal því nafni.

Þessu til viðbótar vil ég svo upplýsa enn einu sinni, að iðnrekstur Sambandsins þurfti ekkert að hækka sínar vörur vegna kauphækkunarinnar, fremur en annar iðnrekstur í landinu yfirleitt. Loks er þess að gæta, að kauphækkunin var ekki 15% að meðaltali á vegum SÍS, og verða því útgjöld vegna hennar ekki eins mikil og ráðh. hélt. Hefðu svo vextir verið lækkaðir í það, sem þeir voru fyrir viðreisnina, eins og framsóknarmenn hafa lagt til, mundi það enn hafa lækkað vaxtaútgjöldin hjá öllum um ¼ og gert allt miklu léttara viðfangs. Slík vaxtalækkun hefði orðið stór liður í því, að fyrirtækin hefðu getað borið kauphækkunina, ekki aðeins samvinnufyrirtækin, heldur öll önnur fyrirtæki í landinu. Á þessu öllu sjáum við, hvílík fjarstæða ályktun ráðherrans er út frá rekstrarafkomu SÍS 1959 og 1960. Mér sýnist þessi málflutningur mest líkjast hálmstráinu, sem að litlu liði muni geta komið í sambandi við þessi vandamál öll.

Hitt er svo annað mál, að Sambandið verður fyrir stórtjóni vegna gengislækkunarinnar í sumar. Það er því alls fjarri, að hún komi til hagsbóta fyrir Sambandið eða geri því léttara að standa undir kauphækkunum.

Sambandið hafði eins og fjöldamargir aðrir innflytjendur í landinu aflað sér vörulána erlendis, vegna þess m.a., hversu strangar hömlur eru hér á útlánunum, rekstrarfjárútlánunum. í þessu sambandi er ástæða til að minna á, að það eru heldur þokkalegar aðfarir hjá hæstv. ríkisstj. í garð innflytjendanna í landinu. Þeir eru hvattir til að notfæra sér erlend lán til að flytja inn vörur, og sparifé landsmanna er lokað inni og fryst í bönkunum og innflytjendunum neitað um lán af því fé. En þeir eru hvattir til að útvega sér lán erlendis í staðinn til þess að flytja inn vörur. Svo þegar búið er samkvæmt áskorunum ríkisstj. að útvega aukin vörulán erlendis, skellir hæstv. ríkisstj. gengislækkun ofan á allt saman, hækkar öll þessi lán um 13%. Þetta eru þokkalegar aðfarir. Það er geðslegt viðskiptasiðferði í þessu: hvetja menn fyrst til að notfæra sér aukinn gjaldfrest erlendis, vegna þess að búið sé að koma á góðu kerfi, nú sé allt fast og öruggt, og síðan skella algerlega ófyrirsynju 13% ofan á allar þessar skuldir. Hafi þessi gengislækkun í sumar átt að vera eitthvert sérstakt vináttubragð við Sambandið og bjargráð því til handa til þess að bæta fyrir fyrri misgerðir í þess garð og ofsóknir af hendi stjórnarmeirihlutans, þá hefur sorglega mistekizt að bæta þess hag með nýju gengislækkuninni, eða gera því auðveldara að standa undir þeim kauphækkunum, sem óhjákvæmilega urðu á s.l. sumri.

Ég sé nú, að ráðherrastólarnir eru tómir, og ég veit ekki, hve lengi þeir hafa verið tómir. En vegna þess að ég ætla að spyrja stjórnina um tvö eða þrjú atriði, langar mig til að biðja hæstv. forseta að gera tilraun til, að viðskmrh. gangi í salinn. (Forseti: Já, það skal verða athugað, hvort ráðherrann er í húsinu. — Hæstv. viðskmrh. mun ekki vera staddur í húsinu núna.) Þá vildi ég biðja hæstv. fjmrh., — annars vil ég átelja, að hæstv. viðskmrh. skuli ekki vera við umr., því að með vissum hætti má hann teljast nokkur oddviti fyrir þessu máli, en ég mun ekki gera það að þrætuatriði að svo vöxnu, — en bið hæstv. fjmrh. að koma á framfæri við hann því, sem ég ætla að spyrja um.

Í máli sínu gerði hæstv. viðskmrh. talsvert úr því, að í raun og veru væru tvær ástæður fyrir gengislækkuninni. Málið væri tvíþætt. Annars vegar væru kauphækkanirnar frá í sumar og hins vegar væru aðrar ástæður, sagði ráðh. Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. viðskmrh., hvort hann vildi gera okkur grein fyrir því, hversu mikill hluti gengislækkunarinnar stafar að hans dómi beint af kauphækkunum og hversu mikill hluti af öðrum ástæðum.

Loks vildi ég svo biðja hæstv. fjmrh. að minna hæstv. viðskmrh. á, að ég spurði um það eða bað um, að kæmu fram upplýsingar, hversu miklu mundu nema þau nýju útflutningsgjöld, sem yrðu innheimt í framhaldi af gengislækkuninni á þessu ári og hugsanlega á næsta ári.

Að sjálfsögðu liggur beint við, að hæstv. viðskmrh. taki þau atriði fyrir, þegar það frv. verður rætt, sem næst er á dagskránni. En ég vek athygli á þessu fyrir fram, vegna þess að það er ekkert um þetta í grg. þess frv. og það er skylt þessu máli, sem nú er rætt.