10.11.1961
Neðri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Skaftason:

Herra forseti. Þetta mun nú vera fimmti dagurinn, sem umræður hafa staðið um frv. þetta í hv. d., og hefur á þeim tíma margt borið á góma í ræðum hv. þingmanna og hæstv. ráðh. Þau tvö atriði, sem mest hafa verið rædd, eru, hvort síðasta gengisfelling hafi verið óhjákvæmileg afleiðing kauphækkana þeirra, er samið var um á s.l. sumri, og hvort með útgáfu brbl. þeirra frá 1. ágúst s.l., sem hér er verið að leita eftir staðfestingu á, hafi verið brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ég mun ekki í þetta skipti ræða fyrra atriðið, en ætla að víkja örfáum orðum að því síðara.

Hæstv. forsrh. talaði hér s.l. þriðjudag og tók þá þetta atriði til athugunar alveg sérstaklega. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að brbl. þessi væru ekki brot á stjórnarskránni, eins og haldið hafði verið fram af nokkrum hv. þm. stjórnarandstöðunnar. Röksemdir hans fyrir þessari niðurstöðu voru efnislega þessar: Ríkisstj. hefur með atbeina forseta lýðveldisins heimild til að gefa út brbl. milli þinga, þ. á m. til þess að kveða á um nýja gengisskráningu, ef hún sjálf metur, að brýna nauðsyn beri til þess. Hún, þ.e. ríkisstj., hefði því fengið Seðlabankanum það vald, sem hún sjálf hafði, eins og á stóð. Á sama hátt hafði Alþ. vald til þess, hvenær sem er, að kveða sjálft á um nýja gengisskráningu eða annað fyrirkomulag hennar en ákveðið sé með brbl. Valdi Alþ. í þessu efni hefði því ekki verið haggað né breytt, sagði hæstv. ráðh. Þessi rökstuðningur hæstv. ráðh. er réttur, svo langt sem hann nær. En hæstv. ráðh. víkur sér bara alveg undan því að ræða það atriðið, sem hv. ræðumenn stjórnarandstöðunnar telja að ráði úrslitum um, að útgáfa þessara brbl. brjóti í bága við skýr og ótvíræð ákvæði stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, skilyrðið, að brýn nauðsyn þurfi að vera fyrir hendi, til þess að handhafar brbl. valdsins, þ.e.a.s. ráðh. og forseti lýðveldisins, megi beita því. Ekki er um það deilt hér í hv. d., að þetta sé eitt af efnisskilyrðum þeim, sem verða að vera til staðar, ef heimilt eigi að vera að gefa út brbl. Er þessu skilyrði stjórnarskrárinnar ætlað að tryggja þá þrískiptingu ríkisvaldsins, sem stjórnarskráin byggir á, og á að koma í veg fyrir, að framkvæmdavaldshafarnir gangi á gjörræðisfullan hátt inn á verksvið löggjafans, Alþ. í þessu tilfelli. Nú eiga handhafar framkvæmdavaldsins, forseti og ráðherrar, að dæma um það sjálfir, hvenær þessi brýna nauðsyn sé til staðar og hvenær ekki. Þau atvik geta hins vegar verið fyrir hendi, að enginn maður með heilbrigða dómgreind geti talið, að um brýna nauðsyn til setningar brbl. sé að ræða. Og þannig er því varið í þessu tilfelli, eins og ég skal reyna að sýna stuttlega fram á.

Í grg. með brbl. frv. því, sem hér er til umræðu, segir berum orðum, að þær kauphækkanir, sem um samdist á s.l. sumri, geri það nauðsynlegt að endurskoða gengisskráninguna og því séu brbl. þessi sett, skv. ákvæðum 28. gr. stjskr. Lögin sjálf hafa hins vegar ekki inni að halda ákvörðun um breytta skráningu krónunnar gagnvart erlendri mynt, heldur er í þeim ákvæði að finna um, að valdið til gengisskráningarinnar skuli framvegis vera hjá Seðlabanka Íslands og ríkisstj., en ekki hjá Alþ., eins og verið hefur til þessa. Það hlýtur að liggja í augum uppi, að til þessarar skipulagsbreytingar og breytingar á valdsviði Alþ. bar enga brýna nauðsyn í byrjun ágúst s.l., rúmum tveim mánuðum áður en reglulegt Alþ. átti að koma saman. Ég get fallizt á, að mörg rök mæli með því, að gengisskráningarvaldið sé hjá Seðlabankanum, eins og lögin kveða á um. En svo sterk rök eru hér ekki fyrir hendi, að jafna megi til þess skilyrðis stjskr., að um brýna nauðsyn þurfi að vera að tefla, til þess að gefa megi þessi brbl. út, enda liggur í augum uppi, að sá hefur ekki verið skilningur hæstv. ráðh. á síðasta þingi, því að þá fékk hæstv. ríkisstj. lögfest frv. um Seðlabanka Íslands, mikla og vel undirbúna löggjöf að hennar dómi, en þar er gert ráð fyrir óbreyttri skipan um gengisskráningarvaldið frá því, sem það var þá.

Hæstv. ríkisstj. taldi, að nauðsynlegt væri að fella gengi íslenzku krónunnar um 11.6% í ágúst s.l. til þess að vega upp á móti áhrifum kauphækkananna, sem urðu það sumar. Þetta gat hún framkvæmt og gert með brbl. án þess að brjóta gegn ákvæðum stjskr. Og það er alveg óútskýrt mál enn þá af hálfu hæstv. ráðherra, hvers vegna hún lét það ekki nægja, en fór í þess stað að hrófla við valdsviði Alþ., sem hana rak enginn nauður til að gera.

Hæstv. forsrh. sagði enn fremur í ræðu sinni hér í hv. d. s.l. þriðjudag, að ríkisstj. svipti Alþ. engu valdi með útgáfu þessara brbl., því að með þeim sé hún aðeins að framselja öðrum aðila það vald, sem hún hafði sjálf. Það er rétt, að hv. alþm. geta enn þá komið í veg fyrir, að Alþ. verði endanlega svipt gengisskráningarvaldinu, með því að fella frv. þetta. En það er líka eina leiðin. En þetta breytir engu um það, að hæstv. ríkisstj. hefur, með útgáfu margnefndra brbl. að nauðsynjalausu, gert sitt til þess að takmarka vald Alþ. og þar með brotið gegn fyrirmælum stjórnarskrárinnar. Hér kemur og fleira til. Ég man ekki betur en það væri kennt í lagadeild háskólans, þegar ég var þar fyrir nokkrum árum, og er vafalaust kennt þar enn þá, að framsal opinbers valds væri óheimilt og brot á grundvallarreglum laga. Hæstv. forsrh. segir, að hæstv. ríkisstj. hafi falið öðrum aðila það vald, sem hún sjálf, þ. e. ríkisstj., hafði til þess að ákvarða nýja gengisskráningu. Ef þessi ráðstöfun er ekki talin brot á grundvallarreglum laga, er þá ekki á sama hátt löglegt t.d. af forseta lýðveldisins að fela einhverjum Pétri eða Páli að fara með vald það, er honum er ákveðið í sjálfri stjskr.? Eða væri ekki á sama hátt dómendum hæstaréttar heimilt að fela einhverjum öðrum aðila að fara með það dómsvald, sem stjskr. gerir ráð fyrir að hæstaréttardómarar fari með? Ég hygg, að flestir hv. þm. geti verið mér sammála um það, að þeir teldu, að þetta væri ótækt og slík ráðstöfun væri að engu hafandi. En þá rís sú spurning, hvort hér sé ekki nákvæmlega verið að fremja sama lagabrotið og ef þetta gæti átt sér stað. Þótt talið sé heimilt að gera breytingar á valdi Alþ. með brbl., er sá háttur ákaflega óviðfelldinn og hv. alþm. ættu a.m.k. að geta verið sammála um að breyta valdi Alþ. ekki með brbl., nema mjög brýna nauðsyn bæri til. Ég tel því, að af framansögðu ættu hv. alþm., af hvaða flokki sem þeir eru, að geta verið sammála um það, að hér sé vegið að valdi og virðingu þingsins með þeim brbl., sem hér er verið að ræða, og því sé eina rétta svar þingmanna við þeim það að fella frv.