10.11.1961
Neðri deild: 16. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 988 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Ingi R. Helgason:

Hæstv. forseti. Ég ætla nú ekki í löngu máli að lengja þá hina 1. umr. þessa máls, sem búin er að standa yfir í allmarga daga. Þó eru fáein atriði í ræðum þeim, sem hér hafa verið fluttar, sem ég vildi leyfa mér að staldra aðeins við og gera nokkrar athugasemdir við.

Hæstv. dómsmrh. kvaddi sér hljóðs að lokinni minni ræðu og gerði hana að nokkru að umtalsefni. Hann var ósköp hógvær, eins og hans er vandi, og sýndi mér ákveðið umburðarlyndi í þessari stofnun, sem er þakkarvert. En eitt var rangt hjá hæstv. dómsmrh., og það var sú fullyrðing hans, að tilvitnanir mínar í fyrrv. lagaprófessor Bjarna Benediktsson, sem ég flutti í ræðu minni, styddu allar útgáfu og réttmæti þeirra brbl., sem hér eru til umr. og voru gefin út 1. ágúst s.l. Þessi fullyrðing hæstv. dómsmrh. var alröng. Höfuðtilvitnun mín í hinn virðulega fræðimann Bjarna Benediktsson um útgáfu brbl. var sú, að það væri ekki nóg, að löggjöf væri æskileg, eðlileg eða skynsamleg, til þess að bráðabirgðalöggjafinn gæti látið taka til sín, og raunar ekki nauðsynleg, heldur svo bráðnauðsynleg, að hún mætti ekki biða næsta þings. Þetta var höfuðtilvitnun mín í hinn virðulega fræðimann. Þessi tilvitnun stendur í hinni gömlu kennslubók, sem hann gaf út hér fyrr á árum og var síðast prentuð 1948, og þessi tilvitnun stendur að mínu viti enn þá orðrétt í kennslubók Ólafs Jóhannessonar prófessors í stjórnlagafræði, þar sem ekki er hreyft neinum efnisbreytingum á þessu áliti fræðimanna um grundvöll eða forsendur útgáfu brbl. En í forsendum brbl., sem hér eru til umr., er hvergi sagt, að efni þeirra sé nauðsynlegt, hvað þá bráðnauðsynlegt, heldur aðeins tæpt á því, að sú skipan mála, sem fólgin er í brbl., sé eðlileg. Umsögn Bjarna Benediktssonar lagaprófessors fyrrv. um þessi brbl. frá 1. ágúst 1961, eins og þau liggja fyrir á þskj., er sú, að slík brbl. megi ekki gefa út. Það er sú umsögn, sem uppi stendur enn þá í þessum umr.

Hv. 3. þm. Reykv. (EOl) ræddi hér í löngu máli í gær þetta sama atriði og var með lögfræðilegar bollaleggingar um þessi ákvæði stjórnarskrárinnar, sem hér koma til álita, bollaleggingar, sem frá mínu sjónarmiði eru mjög athyglisverðar. Í sambandi við hans ræðu vildi ég leyfa mér að taka fram eftirfarandi: Að uppfylltum efnisskilyrðum stjórnarskrárinnar, þeim, að bráðabirgðalöggjafinn geti aðeins starfað milli þinga og af brýnni nauðsyn, — að uppfylltum þeim efnisskilyrðum stjórnarskrárinnar hefur bráðabirgðalöggjafinn sama vald og hinn almenni löggjafi, með einni skerðingu eða einni takmörkun: bráðabirgðalöggjafinn má ekki gefa út fjárlög, ef hinn almenni löggjafi hefur samþykkt fjárlög fyrir yfirstandandi tímabil. Og handhafar þessa bráðabirgðalöggjafa eru að mínu viti tveir í sameiningu: forseti lýðveldisins og ráðherrar þeir, sem Alþingi hefur falið framkvæmdavald í landinu. Handhafar bráðabirgðalöggjafans eru þannig tveir. Það er augljóst mál, að ráðherrar geta ekki á eindæmi gefið út brbl., á því er enginn vafi. Um forsetann er það að segja, að um það eru ekki bein eða sérstök ákvæði í stjórnarskránni, en 19. gr. stjórnarskrárinnar má þó skýra þannig, að forsetinn geti það ekki heldur einn. En eitt er augljóst, og það er það, að frumkvæðisvaldið til útgáfu brbl. liggur hjá forseta. Og forseta er gefið það vald að neita útgáfu brbl., ef hann fellst ekki á efni þeirra eða telur efnið ekki fullnægja skilyrðum stjórnarskrárinnar. Og samkv. beinum ákvæðum 28. gr. stjórnarskrárinnar er hann trygging og á að vera trygging Alþingis fyrir því, að efnisskilyrði stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Í þessu efni tel ég, að forseti lýðveldisins hafi brugðizt Alþingi í sambandi við útgáfu þessara brbl.

Hæstv. viðskmrh. Gylfi Þ. Gíslason flutti hér nærri 2 klst. ræðu á þingfundi í gær, og sú ræða var merkileg fyrir marga hluti og ekki sízt af þeim ástæðum, að í hinum langa ræðutíma örlaði ekki á því, að hann minntist einu einasta orði á efni frv., sem til umr. er, þ.e. skipulagsbreytinguna á því, hver fer með gengisskráningarvaldið í landinu. Það má segja að vísu, að hann hafi verið í þessari löngu ræðu sinni að bera hönd fyrir höfuð sér, og í því ljósi má telja afsakanlegt, að sjálfur frsm. málsins skuli ekki minnast á raunverulegt efni þess í svo langri ræðu. En einmitt þetta einkenni, sem var svo bert í ræðu hæstv. viðskmrh., er einmitt höfuðeinkenni alls málflutnings hæstv. ríkisstj. í þessu máli. Þeir hafa að vísu ekki talað allir, hæstv. ráðherrar, en þeir, sem hafa látið í sér heyra, hafa hlaupið í kringum efni brbl. eins og við segjum stundum að kettir geri í kringum heitan graut. Efni brbl. er skipulagsbreyting á því, hver fara skuli með gengisskráningarvald á ísl. krónu. Það kann að vera, að það hafi verið brýn nauðsyn til þess að umskrá gengi ísl. krónu á miðju þessu ári. Það kann að vera, að það hafi verið brýn nauðsyn til þess að lækka gengi ísl. krónu. Um það geta menn deilt, og eflaust er hæstv. ríkisstj. þeirrar skoðunar, að brýna nauðsyn hafi borið til þess. En það er öldungis eitthvað annað en það, að það hafi borið brýna nauðsyn til þess að búa með þessum brbl. svo um hnútana í framtíðinni í sambandi við framhaldandi gengisskráningu ísl. krónunnar, að þar mætti Alþingi ekki koma nærri, heldur væri það mál í höndum Seðlabankans í samráði við ríkisstj. Mér virðist einsýnt, og það hefur reyndar komið fram í þessum umr., að menn eru á misjöfnu máli um það, hvort brýna nauðsyn hafi borið til að fella gengið í sumar eða ekki. En ég hef engan heyrt enn þá í þessum umr. halda því fram eða færa að því rök, að það hafi borið brýna nauðsyn til þess að láta í framtíðinni ekki Alþingi lengur fjalla um gengisskráningu ísl. krónu, heldur Seðlabankann.

Til þess nú að auðvelda hæstv. ráðherrum leitina að meginefni frv., vildi ég leyfa mér að koma með eina stutta, skýra, efnislega spurningu í þessu máli. Og hún er þessi: Hver var hin brýna nauðsyn þess 1. ágúst s.l. að færa gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis til frambúðar í hendur Seðlabankans? Ef engin svör fást við þessari spurningu, hefur ekki á Alþingi verið gerð grein fyrir því, að fullnægt hafi verið öðru aðalefnisatriði og efnisskilyrði stjórnarskrárinnar um útgáfu þessara brbl. Þetta er einföld spurning, hún er að vísu um meginefni málsins, og ég vænti þess, að hæstv. ráðherrar, helzt hæstv. viðskmrh., svari þessari spurningu. Það ætlar sér enginn þá dul og allra sízt hæstv. ráðherrar, að þær forsendur, sem voru uppi á miðju sumri, í ágústmánuði, og leiddu til þess, að útgáfa brbl. var nauðsynleg að þeirra dómi, — að þær forsendur verði ævarandi. Hér er í þessum brbl. búið um hnútana til frambúðar, en forsendurnar og aðstæðurnar og nauðsynin í sumar, þetta fyrnist allt og hættir að vera til sem þættir málsins. Nýjar aðstæður, ný nauðsyn og nýjar forsendur fyrir endurskráningu á gengi íslenzkrar krónu, kunna að verða til á næsta ári eða þar næsta ári, og þá eru alls ekki forsendur þessara brbl. fyrir hendi, en þá er bara búið með þessum brbl. á forsendum ársins 1961 að búa þannig um hnútana, að þá verður það ekki Alþingi, sem fjallar um málið, heldur Seðlabanki Íslands. Ég vænti nú þess, að hæstv. viðskmrh. láti svo lítið að svara þessari litlu og einföldu spurningu minni.

Að vísu var það svo, að í minni jómfrúræðu hér endaði ég mál mitt á einni stuttri spurningu til hæstv. viðskmrh., en í hinni löngu ræðu sinni á eftir sá hann ekki ástæðu til þess að svara þeirri spurningu neinu. Það er kannske einhver tegund af umburðarlyndi við nýgræðing. En helzt vildi ég afþakka slíkt umburðarlyndi og vil leyfa mér að endurtaka spurningu mína, sem var sú, að hæstv. viðskmrh. gerði grein fyrir þeim tölulegum útreikningum, sem liggja að baki þeirrar niðurstöðu Seðlabankans og ríkisstj., að gengisskráningin skyldi vera nákvæmlega 13.15%, en ekki eitthvað annað, og því miður verð ég að segja það, að tilefni þessarar spurningar er það, að á vettvangi Seðlabankans, þ.e.a.s. í bankaráði Seðlabankans, fengust ekki þessir tölulegu útreikningar, þó að maður spyrði bankastjóra og ráðherra, sem þar áttu sæti. Þessir útreikningar hafa aldrei verið birtir, og það er þess vegna ástæða til, þar eð þessar umr. eru nú hvort sem er svo víðfeðmar um málið sem raun ber vitni, að þessari spurningu verði svarað og þessi rök eða þessir útreikningar lagðir á borðið.

Ég ætlaði mér nú ekki, eins og ég tók fram í minni jómfrúræðu, að fara hér út í mikið af þeim efnisatriðum, sem hafa komið fram í umr. um nauðsyn þess, sem ekki er í þessum brbl., að fella gengi íslenzkrar krónu á miðju sumri. En þó langar mig til að auka við þetta einu eða tveim atriðum.

Ég hjó eftir því hjá hæstv. viðskmrh., að hann taldi gengislækkunina hafa verið framkvæmda til hjálpar atvinnuvegunum vegna þeirra kauphækkana, sem urðu sökum nýgerðra kjarasamninga. Gengislækkunin átti að koma atvinnuvegunum til hjálpar, það var hin brýna nauðsyn hennar. Ég sit nú í stjórn eins ríkisfyrirtækis, það er sementsverksmiðja ríkisins. Eins og aðrir atvinnurekendur samdi hún við verkafólk sitt um kauphækkun svipaða og þá, sem almennt var samið um, kannske eilítið betur, af því að þar höfðu samningar aðeins farið aftur úr því, sem verið hafði við sambærilegar stofnanir, svo sem áburðarverksmiðjuna, áður fyrr. Afleiðing þessarar kauphækkunar var sú, að verð á sementi frá verksmiðjunni var hækkað um 10%a, og gaf hæstv. iðnmrh. eða ríkisstj. samþykki til þess að hækka verð á sementinu um 10%. Þessi verðhækkun á sementi var rökstudd með því, að kauphækkanirnar, sem um var samið, mundu valda svo auknum útgjöldum í rekstri fyrirtækisins, ekki sízt miðað við minnkandi sölu, að hreinn voði væri fyrir dyrum, ef verð á sementi yrði ekki hækkað. Sem sagt: í kjölfar kauphækkananna sigldi þá þessi verðhækkun strax á eftir. En þegar þessi verðhækkun var yfir dunin og gerð, þá kom gengislækkunin, þá kom hjálpræði hæstv. ríkisstj. Og í hverju var það hjálpræði fólgið? Ja, skuldir þessa ríkisfyrirtækis hækkuðu um 30 millj. kr. við þetta pennastrik, tæpar 30 millj. kr., og reksturinn varð fyrir þeim búsifjum, að hráefniskaup stórhækkuðu og margir liðir á rekstrarreikningi stórhækkuðu, þannig að nýr voði var fyrir dyrum. Þannig snerist hjálpræði gengislækkunarinnar gersamlega við gagnvart þessu ríkisfyrirtæki, og það leið ekki á löngu, áður en stjórnarliðar í hinni virðulegu stjórn sementsverksmiðjunnar komu með tillögu um það að hækka verðið aftur um 10%. Það varð afleiðing gengislækkunarinnar fyrir þetta fyrirtæki. Þá höfðum við hækkað sementsverðið í landinu um 10% — og 10% ofan á 10%. Verkamenn í sementsverksmiðjunni hafa þó ekki fengið kaup sitt bætt eða hækkað á sama tíma nema um liðlega 13%. Þannig líta þessar tölur út, og mér finnst það hljóma illa í eyrum, a.m.k. stjórnarmanns í sementsverksmiðju ríkisins, að gengislækkunin í sumar hafi verið hjálpræði handa henni, og ef hæstv. viðskmrh. vildi reyna að finna þessum orðum sínum stað, þá er eftir því óskað.

Hér er um að ræða fyrirtæki, iðnaðarfyrirtæki, sem skuldar mikið og mátti að vísu sjá fyrir, að gengislækkun mundi valda því búsifjum, svo að það væri hægt að segja, að þetta dæmi væri ekki alls kostar rétt eða almennt um hjálpræði eða skaðsemi gengislækkunarinnar fyrir efnahagslífið í landinu. En hér hefur líka verið minnzt á skipafélög, sem halda uppi farmflutningum til og frá landinu. Það eru yfirleitt fyrirtæki, sem standa sig vel og eru stórfyrirtæki, skulda að vísu misjafnlega mikið, en ekki tiltakanlega, miðað við almennan atvinnurekstur. Hæstv. ríkisstj. leyfði þessum fyrirtækjum að hækka farmgjöldin um 10%, og þegar reikningar voru skoðaðir niður í kjölinn, þá var það upplýst fyrir verðlagsyfirvöldunum og fyrir hæstv. ríkisstj., að 3.6% af þessum 10% voru vegna kauphækkananna, 6.4% voru vegna gengislækkunarinnar. Það er sem sagt verra en hjá sementsverksmiðju ríkisins. Þar verða ástæðurnar til farmgjaldahækkunar, með sínum afleiðingum almennt fyrir vöruverð í landinu, að 2/3 til vegna gengislækkunarinnar, þessa hjálpræðis ríkisstj.

Ég var ekki orðinn hlutgengur í þessari virðulegu stofnun, þegar hæstv. viðskmrh,. flutti framsöguræðu sína fyrir þessu máli, en ég hef þessa dagana blaðað í þeirri framsöguræðu, eins og hún liggur hér frammi á lestrarsal, og það er eitt atriði í henni, sem mig langar að lokum að gera stuttlega að umtalsefni. Það er skollaleikurinn um gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar í árslok 1960.

Hæstv. ríkisstj. og málsvarar hennar hafa sífellt klifað á því, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað á viðreisnarárinu 1960 um 240 millj. kr., ef miðað er við áramótatölur beggja áranna, þ.e.a.s. í árslok 1959 og árslok 1960. Þegar þessi tala er fengin og hæstv. viðskmrh., sem einnig er, að ég held, bankamálaráðh., vitnar til, þessi tala, 240 millj. kr., er byggð á því, að í árslok 1960 hafi gjaldeyrisstaða bankanna verið hagstæð um 112 millj. kr., en hún var óhagstæð um 54 millj. kr. í árslok 1959. Þessar tvær tölur eru lagðar til grundvallar: mínus 54 millj. í árslok 1959, en plús 112 millj. kr. í árslok 1960, og því slegið föstu, að gjaldeyrisstaðan hafi batnað um mismuninn eða 240 millj. kr. Þessi samanburður og þessi meðferð talna er fyrir neðan allar hellur og alröng. Eins og stjórn Seðlabankans gekk frá sinni skýrslu, er að vísu á þessa tölu minnzt og sagt, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað um 240 millj. kr. á árinu, en setningunni í skýrslunni er ekki lokið, heldur kemur svigi, sem í stendur þetta: „þó þannig, að um 70 millj. kr. eru kröfur á íslenzka aðila.“ Og þegar hæstv. ríkisstj. og málsvarar hennar eru að dásama bötnunina á gjaldeyrisstöðunni og hampa tölunni 240 millj., þá gleyma þeir alltaf þessum víxlum, sem eru upp á 70 millj. kr., vörukaupavíxlar gagnvart Sovétríkjunum í sambandi við olíu og vörukaupavíxlar gagnvart Austur-Þjóðverjum. Með einföldum frádrætti lækkar þessi tala, 240 millj. kr., niður í 140 millj., ef rétt er með tölurnar farið. Það mætti því segja, að gjaldeyrisstaðan hefði raunverulega batnað um 140 millj. kr., þ.e.a.s. gjaldeyrisstaða bankanna. En einnig við þá tölu er þörf á athugasemdum, því að rétt fyrir aftan svigann í skýrslu Seðlabankans segir: „hér eru ekki stutt vörukaupalán tekin með, en upphæð þeirra nam 214 millj. kr. í árslok 1960.“ Og ef menn vilja svo draga þessi vörukaupalán, sem voru ekki til staðar í árslok 1959, frá þeim 140 millj., sem eftir voru, samkvæmt réttri meðferð talna, þá erum við aftur komnir í mínus varðandi gjaldeyrisstöðu bankanna í árslok 1960.

Það hafa verið áður í þessum umr. viðhöfð nokkuð stór orð um þá ágætu fræðimenn, hagfræðinga, og meðferð þeirra á tölum. Ég ætla ekki að bæta neinu þar við. En ég vil leyfa mér, eins og ég hef gert gagnvart hagfræðideild Landsbankans og á vettvangi Seðlabankans, að mótmæla harðlega þessari meðferð í opinberri skýrslugerð, að gefa áróðursmönnum kost á því að hampa röngum tölum til framdráttar vafasömum málstað og telja sig svo hafa þessar tölur í samvizkusamlega útunnum skýrslum opinberra embættismanna.

Ég ætla nú ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég vildi aðeins leyfa mér, fyrst hæstv. viðskmrh. er kominn í salinn, að ítreka og endurtaka þær tvær spurningar, sem ég hef leyft mér að bera fram til hans.