13.11.1961
Neðri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 993 í B-deild Alþingistíðinda. (931)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Lúðvík Jósefsson:

Hv. forseti. Þegar mál þetta var hér síðast á dagskrá, s.l. fimmtudag, flutti hæstv. viðskmrh. alllanga ræðu, þar sem hann vék að minni fyrri ræðu um þetta mál. Ræða hæstv. viðskmrh. var að ýmsu leyti mjög sérkennileg, og ég þykist þurfa að svara honum hér nokkuð í sambandi við það, sem fram kom í hans ræðu. Nú sé ég, að hæstv. viðskmrh. er hér ekki staddur, svo að ég hefði viljað mælast til þess við hv. forseta, að hann gerði tilraun til þess fyrir mig að sjá um það, að hæstv. ráðh. yrði hér staddur. (Forseti: Hæstv. viðskmrh. boðaði, að hann yrði fjarstaddur nú nokkra stund í upphafi fundar, en ég geri ráð fyrir, að hann komi hér innan stundar.) Hv. forseti. Þá hefði ég nú mjög gjarnan viljað fara fram á það við hv. forseta, að hann hefði viljað fresta þessu máli, þar til hæstv. ráðherra getur komið, en taka þá fyrir önnur mál á dagskránni á meðan, því að ég kann miklu betur við það að mega beina mínu máli til ráðh., þar sem ræða hans gaf mjög tilefni til þess að ég svaraði honum hér sérstaklega. (Forseti: Það verður orðið við því að fresta umr. um þetta mál.)