17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (939)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Hæstv. forseti. Við 1. umr. um stjórnarfrv. til staðfestingar á brbl. frá 1. ágúst s.l. um Seðlabanka Íslands kom til deilu milli okkar hv. 4. þm. Austf. (LJós). Þessi deila var sömu tegundar og algengt er að deilur hér á hinu háa Alþingi og í íslenzkum stjórnmálablöðum séu. Það var ekki deilt um gildi ólíkra skoðana á því, hvernig ráða bæri fram úr tilteknum vandamálum, það var ekki einu sinni deilt um, hvernig túlka bæri ákveðið fyrirbæri eða skilja bæri ákveðnar staðreyndir, heldur stóð deilan beinlínis um það, hverjar sjálfar staðreyndirnar væru. Slíkar deilur eru allt of algengar hér á hinu háa Alþingi og í íslenzkum stjórnmálablöðum. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ekkert sé áliti Alþingis hættulegra en einmitt það, hversu algengt er, að þm. standi hér í þessum ræðustóli og fullyrði um staðreyndir. Einn segir, að staðreyndin sé þessi, en annar, að hún sé hin. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að álit stjórnmálaflokkanna með þjóðinni sé mun minna en það ætti að vera, einmitt vegna þess, að almenningi finnst hann ekki geta treyst orðum forvígismanna þeirra allra í senn vegna þess, hve algengt er, að þeir segja sitt hvað.

Þeir, sem fylgjast sæmilega vel með umræðum um efnahagsmál í nágrannalöndum okkar, vita, að það er mjög sjaldgæft, að stjórnmálamenn þar deili harkalega um það, hverjar séu raunverulegar staðreyndir í efnahagsmálum. Ef slíkt kemur fyrir, þá gerist það einkum vegna þess, að ónógar tölfræðilegar upplýsingar hafa verið fyrir hendi. Þá er málið upplýst mjög fljótlega og deilan þar með úr sögunni.

En ég þori að fullyrða, að hitt gerist ekki með nágrannaþjóðum, sem hér er svo að segja daglegt brauð, að stjórnmálamenn og stjórnmálablöð bera fyrir alþjóð gerólíkar staðhæfingar um mikilvægar staðreyndir í efnahagsmálum. En þetta átti sér stað í umr. um seðlabankafrv. á dögunum. Ég hafði í framsöguræðu minni rakið nokkra meginþætti í þróun efnahagsmálanna, frá því að núv. ríkisstj. tók við völdum og mótaði hina nýju stefnu sína og þar til gengisbreytingin síðari var ákveðin í ágústmánuði s.l. Ég greindi í þessu sambandi frá staðreyndum um breytingar á verðlagi og aflamagni á árinu 1960 og þessu ári. Heimildir mínar voru skýrslur og upplýsingar opinberra stofnana og embættismanna, sem gert höfðu skýrslur eða látið í té upplýsingar hver á sínu sviði. Síðar í umr. gerist það, að formaður annars stjórnarandstöðuflokksins, hv. 4. þm. Austf. (LJós), heldur langa ræðu og staðhæfir, að það, sem ég hafi sagt um aflamagn á árinu 1960, og þó einkum það, sem ég hafi sagt um verðlagsbreytingar á helztu sjávarafurðum landsmanna á árinu 1960 og þessu ári, sé alrangt, tölur þær, sem ég hafi farið með, fái með engu móti staðizt. í tilefni af þessu þótti mér ástæða til að gera Alþingi nákvæma grein fyrir því, hvernig tölur þær, sem ég hafði nefnt, væru fengnar, og skýra niðurstöðurnar í ýtarlegu máli, til þess að ljóst mætti vera, að ég hefði greint satt og rétt frá umræddum staðreyndum. Þetta gerði ég í alllangri ræðu, 9. nóv. s.l. En hinn 13. nóv. hélt hv. 4. þm. Austf. enn lengri ræðu og fullyrti þar, að ummæli mín um afla ársins 1960 væru a.m.k. villandi og að allar tölur, sem ég hefði skýrt frá um verðlag og verðbreytingar á árunum 1960 og 1961, væru beinlínis rangar. Þegar ég hafði hlýtt á málflutning hv. þm., mér til vaxandi undrunar, stakk ég upp á því við hann í lok umr., að við kæmum okkur saman um að biðja Fiskifélag Íslands að taka saman skýrslu um þær staðreyndir, sem okkur greindi á um. Skyldum við síðan gera ráðstafanir til þess, að skýrslan yrði birt, og ættu þá allir að geta séð, hvor hefði haft rétt fyrir sér, hvor hefði sagt satt og hvor ósatt. Ég stakk upp á því, að við sendum Fiskifélagi Íslands svo hljóðandi bréf:

„Þess er hér með óskað, að Fiskifélag Íslands semji skýrslu um þróun verðlags á fiskimjöli og lýsi á árunum 1959, 1960 og 1961 og geri enn fremur samanburð á verðlagi íslenzkra sjávarafurða um áramótin 1959–1960 og í ágúst s.l.

Hv. 4. þm. Austf. vildi ekki standa með mér áð því að senda Fiskifélaginu slíka beiðni. Til gamans skal þess hins vegar getið, hvernig blað hv. 4. þm. Austf., Þjóðviljinn, sagði frá þessum orðaskiptum okkar daginn eftir, í kjölfar þess, að hv. þm. hafði skorazt undan því að óska ásamt mér eftir hlutlausri rannsókn á því, hvor okkar færi með rétt mál, en Þjóðviljinn segir þriðjudaginn 14. nóv. á forsíðu í fjögurra dálka fyrirsögn, með leyfi hæstv. forseta:

„Afsakanir Gylfa fyrir ófarnaði viðreisnarinnar og gengislækkuninni hraktar lið fyrir lið.“ Og síðan segir í tveggja dálka formála að alllangri grein eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar 1. umr. lauk í Nd. í gær um brbl. ríkisstjórnarinnar um gengisskráningarvaldið, hafði sá ráðherra, sem helzt reyndi að verja þau, Gylfi Þ. Gíslason, fengið eina hina eftirminnilegustu útreið, sem ráðherra hefur hlotið. Var það einkum Lúðvík Jósefsson, formaður þingflokks Alþb., sem með yfirburðaþekkingu sinni á málefnum íslenzks sjávarútvegs hafði leikið sér að talnaröksemdum hins stofulærða hagspekings eins og köttur að mús. Stóð ekki steinn yfir steini í afsökunum Gylfa fyrir óförum viðreisnarinnar né fyrir gengislækkuninni í sumar eftir þá meðferð, og höfðu raunar fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar en Lúðvík þar að unnið.“

Með hliðsjón af þessum ummælum er mjög fróðlegt að sjá og heyra, hvað Fiskifélag Íslands hefur að segja um þau atriði, sem okkur greindi á um í umr., en ég fékk í gærkvöld svar frá Fiskifélagi Íslands við bréfi því, sem ég gat um áðan og las. Áður en ég les svar Fiskifélagsins, er rétt að rifja upp, hvað okkur hv. 4. þm. Austf. hafði greint á um í umr. Að því er aflamagnið snertir, er málið í raun og veru mjög einfalt. Ég hafði sagt, að á árinu 1960 hefði framleiðslumagn sjávarútvegsins verið 7.4% lægra en það hafði verið á árinu 1959 og svari sú minnkun framleiðslumagnsins til þess, að framleiðsluverðmætið hefði verið 185 millj. kr. minna 1960 en það hafði verið 1959. Þessari staðreynd andmælti hv. 4. þm. Austf. í sjálfu sér ekki, en reyndi hins vegar að gera sem minnst úr þýðingu aflaminnkunarinnar með því að undirstrika, að árið 1960 hafi verið mjög gott aflaár, þá hafi alls ekki verið um aflaleysi að ræða, afli bátaflotans hafi vaxið, þótt afli á togveiðum og síldveiðum hafi minnkað. Enn fremur taldi hv. þm. það skýringu á aflaleysi togaranna, að siglingar hefðu aukizt.

Í þessu sambandi vil ég aðeins taka það fram, að í framsöguræðu minni gerði ég eingöngu samanburð á árunum 1960 og 1959, vegna þess að gengisbreytingin í febr. 1960 var við það miðuð, að sjávarútvegurinn stæði ekki verr eftir hana en verið hafði áður, og var þá eðlilega miðað við árið 1959, næsta ár fyrir gengisbreytinguna. Að sjálfsögðu er ekki hægt að meta gildi breytingar á aflamagninu; nema hafa jafnframt hliðsjón af stærð fiskiflotans. Á árinu 1959 nam meðalaflinn á hverja rúmlest flotans 9.5 smálestum, en árið 1960 nam meðalaflinn á hverja rúmlest 7.8 smálestum, reiknað með, að flotaaukningin komi að hálfu í gagnið á árinu. Ef miðað er við annan afla en síld, verður lækkunin úr 6.5 smálestum í 5.7 smálestir. Árið 1960 minnkaði heildaraflinn á öðrum veiðum en síldveiðum um 2.5%, þrátt fyrir það að fiskiskipastóllinn jókst um nær 17% á því ári. Að því er snertir þýðingu aukinna siglinga togara á árinu 1960 er þess að geta, að afli togaranna á úthaldsdag, þegar landað var innanlands, var á árinu 1960 11.8 smálestir, en hafði á árinu 1959 verið 14.9 smálestir.

Af þessum tölum, sem allar eru byggðar á opinberum skýrslum, geta menn dregið ályktun um það, hvor okkar hv. 4. þm. Austf. hefur farið með réttara mál um þýðingu þeirrar breytingar, sem varð á aflamagninu á árinu 1960.

En kjarni deilu okkar var þó ekki um aflamagnið, heldur um verðlagið á útflutningsafurðunum. Skal ég nú rifja upp í fáeinum orðum, hvað okkur greindi á þar. Ég sagði í framsöguræðu minni, að árið 1960 hafi verð á mjöli fallið um 45% og á lýsi um 25%, verð annarra útflutningsafurða hafi að mestu haldizt óbreytt, en meðallækkun allra sjávarafurða hafi á árinu 1960 numið 8.9%. Síðan sagði ég, að á þessu ári hafi hins vegar orðið breyting til batnaðar, bæði að því er snertir verðlag sjávarafurða og aflamagn. Nokkur verðhækkun hafi orðið á freðfiski, saltfiski og skreið og enn fremur hafi verð hækkað að nýju á fiskimjöli. Hins vegar hafi verðhækkunin í ágústmánuði s.l., þegar genginu var breytt, ekki verið orðin svo mikil, að hún hafi vegið á móti verðfallinu 1960. Sagði ég, að ef tekið væri vegið meðaltal af verðlagi þorsks, karfa og síldarafurða, kæmi í ljós, að í ágúst 1961 hafi það verið 3.8% lægra en það hafi verið í ársbyrjun 1960.

Hv. 4. þm. Austf. staðhæfði þegar í fyrri ræðu sinni, áð allar þessar upplýsingar mínar væru alrangar. Hann lagði sérstaka áherzlu á, að verðfall á mjöli og lýsi hafi verið orðið áður en gengisbreytingin 1960 hafði verið ákveðin, hafi með öðrum orðum orðið á árinu 1959, en alls ekki á árinu 1960. Þetta endurtók hann svo í síðari ræðu sinni og bætti því þá við, að það hafi verið alrangt hjá mér, að í ágúst 1961 hafi meðalverð á sjávarafurðum verið 3.8% lægra en það hafi verið í ársbyrjun 1960, það hafi meira að segja verið orðið hærra. Það er því alveg augljóst, um hvað okkur hv. þm. greindi á, og skal ég nú — með leyfi hæstv. forseta — leyfa mér að lesa bréf Fiskifélags Íslands, dags. 16. nóv., en það er svo hljóðandi:

„Vér höfum móttekið bréf yðar, herra ráðherra, dagsett 13. þ. m., þar sem þér óskið eftir, að vér gefum skýrslu um þróun verðlags á fiskimjöli og lýsi á árunum 1959, 1960 og 1961 og gerum enn fremur samanburð á verðlagi íslenzkra sjávarafurða um áramótin 1959–1960 og í ágúst s.l. Mun hér á eftir verða gerð grein fyrir þeim þremur atriðum, sem um getur í bréfi yðar.

1) Fiskimjöl: Árum saman, allt fram að árinu 1959, hafði markaður fyrir fiskimjöl verið stöðugur og verðlag yfirleitt farið hækkandi. Á þessu varð breyting upp úr miðju ári 1959. Fer þá að bera á sölutregðu, vegna þess að kaupendur héldu að sér höndum vegna aukningar á framboði, einkum frá Perú, en þar var þá að verða mikil aukning á framleiðslu. Áhrif framboðsins á mjölinu frá Perú urðu þó mun meiri en vænta hefði mátt vegna mikillar og hömlulausrar spákaupmennsku, sem átti sér stað í sambandi við framboð á mjöli þaðan. Verðlag á fiskimjöli frá Íslandi komst hæst á fyrri hluta ársins 1959 og var þá sem svaraði 6772 kr. á lest fob., umreiknað á gengi því, sem var eftir gengisbreytinguna 1960. Þrátt fyrir tregari sölur síðari hluta árs 1959 var haldið fast við þetta verð eða lítið eitt lægra. Síðari hluta ársins nam útflutningur fiskimjöls 10 756 lestum. Til samanburðar má geta þess, að á sambærilegu tímabili 1958 nam fiskimjölsútflutningurinn 7470 lestum, en heildarútflutningsmagnið var svipað bæði árin. Í byrjun ársins 1960 var sýnt, að ekki mundi unnt að halda hinu háa verði ársins 1959, og var nú tekið að selja á verði, sem samsvaraði 5972 kr. fob. Þegar hins vegar kom fram á miðja vertíð 1960, eða nánar tiltekið í marz, heldur verðlækkunin enn áfram og nú með auknum hraða. Allan fyrri hluta ársins var útflutningurinn mjög dræmur, og eðlilegur útflutningur hófst ekki aftur fyrr en eftir um eitt ár, þegar verðið var komið niður í sem svaraði 3378 kr. fob. Frá því snemma á árinu og þar til skömmu eftir mitt ár nam því verðlækkunin rúmlega 43%, og var meginhluti framleiðslu ársins 1960 seldur á hinu lága verði. Frá hæsta verði 1959 var lækkunin hins vegar 47%. Í nóvembermánuði hófst svo breyting upp á við, og í árslok var verðið komið í um 3774 kr. á lest fob. Á árinu 1961 hefur þessi þróun haldið áfram, og á miðju ári var talið, að verðið mundi stöðvast á mjölinu í 4735 kr. til 5107 kr. á lest fob., eða 14.5–21.3% lægra en var í ársbyrjun 1960. Í haust hefur verðlag verið fremur óstöðugt, en lítils háttar hækkun hefur þó átt sér stað upp fyrir þetta verð. Hins vegar er talið mjög ólíklegt, að það geti haldizt til frambúðar, miðað við það ástand, sem nú er á fiskimjölsmörkuðunum. Verð það, sem hér hefur verið nefnt, miðast við, að selt hafi verið til hafna í Norður- og Vestur-Evrópu, en allt fram á árið 1959 hafði verð það, sem fékkst fyrir fiskimjöl, sem selt var á jafnkeypismarkaðina, verið a.m.k. 10% hærra en á frjálsum markaði. Þetta breyttist, og má telja, að enginn munur sé þar á lengur. Hefur þetta því áhrif til enn frekari lækkunar á fiskimjölsverðinu, þannig að heildarlækkunin frá ársbyrjun 1960 nemur 25.8%. Hér hefur eingöngu verið rætt um þorskmjöl, en verðbreytingar á öðru fiskimjöli og síldarmjöli hafa verið svipaðar.

2) Lýsi: Mestan hluta ársins 1959 hélzt verðlag á ókaldhreinsuðu þorskalýsi, en meginhluti lýsisins hefur undanfarin ár verið fluttur út þannig, stöðugt um 7400 kr. á lest fob., umreiknað eftir hinu nýja gengi 1960. Undir lok ársins 1959 varð svo verðlækkun á lýsi almennt, en ekkert þorskalýsi var þá selt. Miðað við verðlag á öðru lýsi til iðnaðar má telja, að í lok ársins og framan af árinu 1960 hafi verð á þorskalýsi verið um 6380 kr. á lest. Fyrri hluta ársins 1960 var nær ekkert flutt út af ókaldhreinsuðu þorskalýsi, enda var verðlag þá enn lækkandi, en meginhluti framleiðslunnar var seldur síðari hluta ársins á verði, sem nam 5160 kr. á lest. Hafði því orðið verðlækkun frá því í byrjun ársins, sem nam nær 20%, en 30% frá hæsta verði árið 1959. Á árinu 1961 hefur verðlag á lýsi verið óstöðugt og lækkandi, og á það einkum við um síðari hluta ársins. Lítið hefur verið selt af þorskalýsi á þessu ári, en miðað við það verðlag, sem nú er á svipuðu lýsi, mun mega gera ráð fyrir, að verðlag á Þorskalýsi ókaldhreinsuðu muni vera um 4350 kr. á lest eða nær 32% lægra en í ársbyrjun 1960, en 41% lægra en þegar verðið var hæst 1959. Verðbreytingar á öðru lýsi en þorskalýsi hafa verið svipaðar.

3) Verðlag á sjávarafurðum á tímabilinu frá áramótum 1959–1960 og fram undir mitt ár 1961 hefur verið ýmsum breytingum háð. Nákvæmur samanburður á verði á þessu tímabili verður þó, að því er nokkrar þýðingarmiklar afurðir snertir, ýmsum annmörkum háður. Stafar þetta af því, að breytingar eiga sér ætíð stað á verkunaraðferðum, tegundum og mörkuðum, en allt getur þetta haft áhrif á verðþróunina. Vér höfum reynt að meta þær verðbreytingar, sem orðið hafa á tímabilinu, og er niðurstöðu þeirra athugana að finna í eftirfarandi töflu, sem sýnir breytingar á verðlagi einstakra afurða á þessu tímabili, og jafnframt eru metin heildaráhrif breytinganna á framleiðsluverðmæti sjávarafurðanna. Er niðurstaðan sú, að heildarverkun verðbreytinganna hafi orsakað lækkun á framleiðsluverðmætinu um sem svarar 3.2%. Verðbreytingarnar hafa verið sem hér segir:

Ísvarinn fiskur, verðhækkun 3.8%.

Skreið, verðhækkun 4%.

Saltfiskur verkaður, verðhækkun 11%.

Saltfiskur óverkaður, verðhækkun 5%.

Freðfiskur, verðhækkun 4%.

Fiskimjöl, verðlækkun 25.8%.

Þorskalýsi, verðlækkun 32%.

Hrogn söltuð, óbreytt verð.

Karfamjöl, verðlækkun 23%.

Karfalýsi, verðlækkun 31.2%.

Ýmislegt frá þorskveiðum, verðhækkun 7.2%.

Síldarafurðir, verðlækkun 9.5%.

Að meðaltali samtals verðlækkun 3.2%. Virðingarfyllst,

Davíð Ólafsson.“

Þessar upplýsingar taka af öll tvímæli um það, hvað rétt er í þeim efnum, sem okkur hv. 4. þm. Austf. hefur greint á um. Fiskifélagið segir verðlækkun á fiskimjöli á árinu 1960 hafa verið 43–47%, en ég hafði sagt hana nema um 45%. Hv. 4. þm. Austf. hefur hins vegar, væntanlega á grundvelli yfirburðaþekkingar sinnar á málefnum íslenzks sjávarútvegs, hvað eftir annað staðhæft, að á árinu 1960 hafi engin verðlækkun orðið á fiskimjöli. Fiskifélag Íslands telur, að á árinu 1960 hafi orðið verðlækkun á lýsi, sem sé nær 20 en 30%, en ég hafði talið verðfallið á lýsinu 25%. Hv. 4. þm. Austf. hafði staðhæft, að árið 1960 hefði engin verðlækkun orðið á lýsi. Þá segir Fiskifélag Íslands, að meðalverðbreyting á sjávarafurðum frá áramótum 1959 og 1960 og Þangað til í ágúst 1961 sé þannig, að um 3.2% verðlækkun sé að ræða. Ég hafði í framsöguræðu minni talið verðlækkunina 3.8%, en hv. 4. þm. Austf. hafði talið, að um alls enga verðlækkun hefði verið að ræða, heldur þvert á móti verðhækkun. Þær tölur í skýrslum Fiskifélagsins, sem ég las, eru allar nákvæmlega eins og þær tölur, sem ég las í síðari ræðu minni, að frátöldum tölunum um verðlækkun á þorskalýsi og síldarmjöli. Fiskifélagið telur verðlækkun Þorskalýsis nokkru minni en gert var í skýrslu minni, vegna þess að Fiskifélagið tekur meira tillit til verðlagsins á ókaldhreinsuðu lýsi en gert hafði verið í minni skýrslu. Tölur Fiskifélagsins um verðlækkun á síldarmjöli eru einnig nokkru lægri en tölur þær, sem ég byggði á í minni ræðu, vegna þess að nú telur Fiskifélagið sig hafa öruggari upplýsingar um síldarmjölsverðið en hægt var að hafa, þegar sú athugun var gerð, sem tölur mínar grundvölluðust á. Þetta tvennt veldur því, að meðaltalslækkunin samkvæmt skýrslum Fiskifélagsins er 3.2%, en ég hafði talið hana 3.8%, og er hér í raun og veru um mjög smávægilegan mun að ræða, þegar það er haft í huga, að rannsóknir þessar eru gerðar með nokkru millibili.

Eftir þetta ætti að vera óþarfi að deila um, hver verðlagsþróunin hafi orðið á útflutningsvörum sjávarútvegsins frá því um áramótin 1959 og 1960. Formaður þingflokks Alþb., Lúðvík Jósefsson, hefur hér á hinu háa Alþingi haldið fram staðreyndum um þau efni, sem Fiskifélag Íslands hefur nú dæmt alrangan. Ég hef talið rétt að rekja þetta mál jafnrækilega og raun er á orðin, fyrst og fremst vegna þess, að ég tel það vansæmd fyrir Alþingi og stjórnmálalífið í landinu, að almenningur skuli heyra úr ræðustóli Alþingis gerólíkar staðhæfingar um staðreyndir, um þess konar staðreyndir, sem hægt á að vera að komast að hinu sanna um. Ef ekki er gerð tilraun til þess að komast að hinu rétta, þannig að allur almenningur viti, hverju hann á að trúa og hverju hann á ekki að trúa, þá er hætt við, að dómgreind almennings sljóvgist og áhugi hans á stjórnmálum minnki. En hvort tveggja er skaðlegt í lýðræðisþjóðfélagi. þess vegna var það, að ég vildi, að við hv. 4. þm. Austf. kæmum okkur saman um hlutlausan dóm um þau atriði, sem okkur hafði greint á um. þótt hann hafi að vísu ekki viljað standa að slíkri ósk, þá er sá dómur nú samt fenginn. Hann er á þá leið, að hv. 4. þm. Austf. hafi haft rangt fyrir sér í öllum atriðum.