23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (944)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 2. umr., er búið að vera nokkuð lengi hjá fjhn. deildarinnar. Því var vísað til hennar 13. nóv. í vetur, en ekki afgreitt frá n. fyrr en nú fyrir fáum dögum. Og það er ekki samkomulag í n. um málið. Kemur það fram í þrem nál., sem fyrir liggja, að menn eru þar ekki á einu máli um afgreiðslu þess.

Frv. er flutt af hæstv. ríkisstj. til þess að fá staðfest brbl., sem út voru gefin 1. ágúst 1961, um breyt. á lögum um Seðlabanka Íslands. Sú breyting, sem þar er gerð á lögunum, er, að Seðlabankinn skuli ákveða, að fengnu samþykki ríkisstj., stofngengi íslenzku krónunnar. En samkv. áður gildandi lögum var gengi íslenzku krónunnar ákveðið af Alþingi, síðast með lögum nr. 4 frá 1960.

Við útgáfu þessara brbl. 1. ágúst er í aths., eins og venja er til, vísað til 28. gr. stjórnarskrárinnar. Í upphafi þeirrar greinar segir: „Þegar brýna nauðsyn ber til, getur forsetinn gefið út brbl. milli þinga.“ Enginn hefur reynt að færa rök fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt að færa gengisskráningarvaldið til Seðlabankans með brbl. Hv. meiri hl. fjhn., sem mælir með frv., gerir enga tilraun til að rökstyðja það, að það hafi verið nauðsynlegt, og það er ekki von, að þeir nefndarmenn leggi út í það fyrirtæki að reyna að rökstyðja þessa þörf, því að sjálf hæstv. ríkisstj. gerir það ekki heldur. Hún hefur ekki reynt að færa nein rök fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt að færa gengisskráningarvaldið þannig til með brbl., enda getur enginn maður fært rök fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt. Og í aths. með brbl. er ekki reynt að halda því fram, að þetta sé nauðsynlegt. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp fylgiskjalið með brbl.:

„Forseti Íslands gerir kunnugt. Viðskiptamrh. hefur tjáð mér, að vegna hinna miklu kauphækkana, sem átt hafa sér stað að undanförnu, séu fyrirsjáanlegir miklir erfiðleikar í efnahagsmálum, ef ekkert sé að gert. Áhrif kauphækkananna muni á skömmum tíma breiðast um allt hagkerfið og valda almennri hækkun framleiðslukostnaðar og aukinni eftirspurn eftir gjaldeyri, en þetta muni svo á hinn bóginn hafa í för með sér versnandi afkomu útflutningsatvinnuveganna og alvarlegan greiðsluhalla þjóðarbúsins út á við. Til þess að koma í veg fyrir þessa þróun og atvinnuleysi og gjaldeyrisskort, sem henni mundi fylgja, beri nauðsyn til að endurskoða gengisskráningu í samræmi við breytt viðhorf og þyki eðlilegast, að Seðlabanki Íslands, sem komið hafi verið á fót nú á þessu ári, skrái gengi íslenzkrar krónu, að fengnu samþykki ríkisstj., enda sé sú skipan algengust í nálægum löndum.“

Af þessu sjá menn, að það, sem þarna er sagt að beri nauðsyn til að gera, sé að endurskoða gengisskráninguna, og svo er því skotið að þar á eftir, svona í leiðinni, að það þyki eðlilegast, að Seðlabanki Íslands skrái gengi íslenzkrar krónu. Þarna kemur fram, að meira að segja sá aðili, sem gaf út brbl., treystir sér alls ekki til að halda því fram, að það sé nokkur nauðsyn að fela Seðlabankanum þetta, því síður brýn nauðsyn, heldur bara þyki þetta eðlilegt, úr því að það þurfi að endurskoða gengisskráninguna.

Þar sem hér kemur fram, að brbl. eru sett vegna þess, að ríkisstj. álítur nauðsynlegt að endurskoða gengisskráninguna og eins og hún segir vegna hinna miklu kauphækkana, sem hafa átt sér stað, þá er ekkert undarlegt, þó að í sambandi við þetta mál sé nokkuð rætt m.a. um kaupgjaldsmálin. Það er gefið þarna beint tilefni til þess, þar sem það liggur ljóst fyrir, að breytingar á kaupgjaldi hafa valdið því, að þessi brbl. voru gefin út, fyrst og fremst, enda var ekkert að því fundið við 1. umr. um frv., og ég vænti þess, að hæstv. forseti hafi heldur ekkert við það að athuga, þó að ég fari nokkrum orðum um þau mál og fleira, sem snertir gengisbreytinguna.

Úr því að hæstv. ríkisstj. taldi þörf að endurskoða gengisskráninguna, sem hún nefnir svo hér í athugasemdum, sem þýðir það, að hún taldi nauðsynlegt að lækka gengi krónunnar, þá átti hún vitanlega að hafa aðrar aðferðir en þá, sem hér var höfð, að færa gengisskráningarvaldið til Seðlabankans. Stjórnin hefði auðvitað átt að kalla Alþ. saman til að fjalla um þetta stóra mál, fyrst hún taldi börf á breytingu. En hún gat einnig, — þó að Það væri verri aðferð miklu, — þá gat hún gefið út brbl. um breytingu á genginu, ef hún taldi það nauðsynlegt. Þetta gat hún gert. Ég hygg, að það hefði ekki verið hægt að segja í því sambandi, að stjórnarskrárákvæði hefðu verið brotin, — það var mat stjórnarinnar, að það væri nauðsynlegt að breyta genginu, — þó að hún hefði gert það með brbl. En það er ómögulegt að komast hjá því að álykta, að með útgáfu þessara brbl. um tilfærslu á gengisskráningarvaldinu hafi verið framið stjórnarskrárbrot.

Það liðu ekki nema tveir eða þrír dagar, frá því að þessi brbl. voru gefin út og þar til Seðlabankinn breytti gengisskráningunni með samþykki ríkisstj. Verð á erlendum gjaldeyri var hækkað um rúmlega 13%, og samsvarar það 11.6% lækkun íslenzku krónunnar. Seðlabankinn hefur í ársskýrslu sinni, sem er nýútkomin, gefið til kynna, að hann hafi talið þetta nauðsynlegt vegna þeirra breytinga á kaupgjaldi, sem urðu í júnímánuði árið sem leið, og virðist um það sammála ríkisstj. Mér þykir því rétt að fara fáeinum orðum um það mál.

Í okt. 1958 var tímakaup verkamanna 21.85 kr. í dagvinnu. Í umr. um efnahagsmál haustið 1958 lögðu ráðh. Framsfl. í þáv. ríkisstj. fram tillögur, sem voru miðaðar við það, að kaupmáttur tímakaups héldist óbreyttur eins og hann var í október 1958 eða febrúar sama ár. Þetta mál var, eins og menn rekur minni til, nokkuð til umr. á þingi Alþýðusambands Íslands þá um haustið og einnig innan ríkisstj. Þessum tillögum Framsfl. var hafnað, og ágreiningur um þessi mál leiddi til stjórnarskipta í des. 1958. Breyttist þá hagur verkamanna skjótt til hins verra, og síðan hafa þeir búið við miklu lakari kjör en þeir höfðu í okt. 1958 og áttu kost á að semja um að gilda skyldu framvegis. Í byrjun febr. 1959 var dagvinnukaup þeirra lækkað um 5.4% frá því, sem það hafði verið í okt. haustið áður, niður í kr. 20.67 á klst. Þetta kaup hélzt óbreytt allt það ár, 1959, allt árið 1960 og víðast hvar á landinu fram í júní 1961.

Verðlagsbreytingar voru ekki miklar á árinu 1959, en í febr. 1960 voru sett ný lög um efnahagsmál, og þá urðu geysimiklar breytingar á öllu verðlagi. Verð á öllum vörum hækkaði mjög mikið, svo að allur framfærslu- og framkvæmdakostnaður varð langtum meiri en áður hafði verið. Verkamannakaupið hélzt hins vegar, eins og áður segir, óbreytt í krónutölu. Verkamenn sýndu þó mikla þolinmæði og urðu við þeim tilmælum ríkisstj. að fresta mótaðgerðum. Þeir frestuðu þeim um heilt ár og víða nokkuð lengur, frá því að gengislækkunin 1960 og það, sem henni fylgdi, kom til framkvæmda. Það voru nokkuð hækkaðar fjölskyldubætur, svonefndar, um svipað leyti og gengisbreyting var framkvæmd 1960, og nokkur lækkun var gerð á tekjuskatti, allmikil í heild, en þannig, að hún hafði yfirleitt mjög litla þýðingu fyrir verkamenn. Tekjuskattslækkunin kom nær eingöngu til hagsbóta fyrir þá tekjuhærri, og um fjölskyldubæturnar er það að segja, að þær dugðu skammt á móti þeim gífurlegu hækkunum á tollum og sölusköttum, sem efnahagsráðstafanir stjórnarinnar höfðu í för með sér.

Það var fyrst um mánaðamótin febrúar–marz 1961, sem samið var um kauphækkun verkamanna í Vestmannaeyjum, og er talið, að þeir hafi fengið bar 14–15% kauphækkun. Þessi mál voru til athugunar hér í Reykjavík, þegar kom fram á vorið, og fóru þá fram samningatilraunir á milli verkamanna og vinnuveitenda um kaupgjaldsmálin. Það mun hafa verið um mánaðamótin maí-júní, sem sáttasemjari ríkisins lagði fram tillögu um breytingar á kaupgjaldi hér. Í tillögu sáttasemjara var lagt til, að kaup verkamanna skyldi hækka um 6% í dagvinnu, að ári liðnu skyldu koma 4% til viðbótar og eftir tvö ár enn viðbótarhækkun á kaupið 3%. Og þegar sú tillaga sáttasemjara lá hér fyrir til atkvgr. í félögum verkamanna, kom það glöggt fram, að ríkisstj. leit svo á, að atvinnuvegirnir gætu borið þessa kauphækkun. Um það vitna greinar, sem þá voru ritaðar í aðalmálgagn ríkisstj., Morgunblaðið. T. d. 2. júní 1961 var þannig stór fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins, með leyfi hæstv. forseta: „Í dag er valið á milli raunhæfra kjarabóta og langs verkfalls.“ Þarna er það sagt, að þessar kjarabætur, sem stóðu til boða í tillögu sáttasemjara, geti orðið raunhæfar, þ.e.a.s. að þær verði ekki teknar af verkamönnum með öðrum ráðstöfunum, en hins vegar gefið í skyn, að ef þeir vilji ekki þetta, þá megi búast við löngu verkfalli. Og í undirfyrirsögn á sömu síðu segir við verkamenn: „Segið já við sáttatillögunni og tryggið eigin hag og þjóðarinnar.“ Þarna kemur ótvírætt fram það álit, að það sé hagur ekki aðeins þeirra, heldur allrar þjóðarinnar, að þetta verði samþykkt. Í niðurlagi þessarar greinar segir m.a.: „Með atkvæði sínu við allsherjaratkvæðagreiðsluna um miðlunartillögu sáttasemjara hefur verkalýðurinn það ekki aðeins á valdi sínu að tryggja eigin hag, heldur um leið þjóðarinnar í heild.“ Ég tel alveg ótvírætt, að það megi líta svo á, að þarna hafi verið túlkaðar skoðanir hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokka, þar sem þetta birtist í aðalmálgagni stjórnarinnar. Maður getur af því dregið þá ályktun, að ef tillaga sáttasemjara hefði verið samþykkt, þá hefði alls ekki verið gripið til þessa ráðs, að lækka gengið.

Það fór hins vegar þannig, að tillaga sáttasemjara var felld. Um þær mundir gerðist það, að það voru gerðir nýir kaupgjaldssamningar á Húsavík og litlu síðar einnig á Akureyri og sömuleiðis samningar um kaupgjaldsmál milli Vinnumálasambands samvinnufélaganna og verkalýðsfélaganna. Samið var um 10% hækkun á dagvinnu- og næturvinnukaupi, nokkru meiri hækkun á eftirvinnukaupi og um 1%o gjald af dagvinnukaupi í styrktarsjóði. Að nokkrum tíma liðnum, frá því að þessir samningar voru gerðir, tókust einnig samningar á milli verkalýðsfélaga og Vinnuveitendasambands Íslands. Samkvæmt þessum samningum breyttist kaup verkamanna þannig, að það hækkaði úr kr. 20.67 á klst. í dagvinnu upp í kr. 22.74 á klst. Þar með var kaupið orðið 89 aurum hærra í dagvinnu á klst. heldur en það var í okt. 1958, og er þetta um það bil 4.1% hækkun. Á þessum tíma, í júní 1961, þegar þessir samningar voru gerðir, mun kaupgjaldsvísitalan hafa verið 104 stig, þ.e.a.s. samkvæmt henni hafði orðið 4% hækkun á framfærslukostnaði samkvæmt vísitölunni. Ég skal ekkert ræða um það hér, hvernig hún er reiknuð, en ég vil aðeins benda á það, að vitanlega hafði orðið miklu meiri rýrnun á kaupmætti tímakaupsins en sem þessu nemur, sem kom fram í vísitölunni. Þó að þar séu teknar hinar brýnustu nauðsynjar hvers heimilis, þá er þar með ekki tekið annað, sem menn þurfa að borga, og eins og ég sagði áður, þá hafði allur kostnaður, framkvæmdarkostnaður allur, verðlag á öllum varningi, sem er utan við vísitöluna, hækkað gífurlega árið 1960. Kaupmáttur tímakaupsins hafði náttúrlega rýrnað miklu meira en sem þessu nam. Ég held, að menn hljóti að líta svo á, að þjóðfélaginu sé ekki vel stjórnað, ef menn þurfa að búa við miklu lakari kjör nú en í okt. 1958, en það gera þeir vitanlega.

Með þessum samningum við verkalýðsfélögin, sem samvinnufélögin höfðu forgöngu um í júní 1961, var komið í veg fyrir áframhaldandi verkfall í byrjun síldarvertíðar, en að öðrum kosti mátti búast við, að það verkfall stæði lengi, og tjón af því hefði vitanlega orðið geysilega mikið fyrir þjóðarbúið. Samningarnir giltu til eins árs, þó með þeim fyrirvara, að segja mátti upp kaupgjaldsákvæðum þeirra, ef gengi íslenzkrar krónu yrði breytt á árinu eða ef vísitala framfærslukostnaðar hækkaði fram úr vissu marki, ef hækkunin næði 5%, og í samningunum var ákveðið, að ef þeim yrði ekki sagt upp að ári liðnu, þá ætti kaup að hækka um 4% og samningar að gilda áfram með sama fyrirvara vegna gengisbreytingar eða hækkunar á framfærslukostnaði fram úr vissu marki. Með þessu var lagður grundvöllur að vinnufriði næstu missirin, sem nú hefur því miður verið raskað. Það er ástæða til að bera þetta saman við sáttatillögu þá, sem fram kom frá sáttasemjara ríkisins í fyrravor. Hann lagði til þegar 6% hækkun á dagvinnukaupi, 4% að ári liðnu, en samið var um 10% hækkun á dagvinnukaupi og að auki 1% af kaupinu í styrktarsjóði. Auk þess var samið um nokkru meiri hækkun á eftirvinnukaupi, og þá er það þessi mismunur á samningunum, sem gerðir voru, og tillögu sáttasemjara, sem veldur því, að ráðizt var í það að lækka gengi krónunnar. Gengið var lækkað þannig, að verð á erlendum gjaldeyri var hækkað um rúm 13%. Og hvernig getur nokkur maður haldið því fram, að slík gengislækkun hafi verið nauðsynleg vegna þess munar, sem var á tillögu sáttasemjara og kaupgjaldssamningunum, sem gerðir voru? Það er ómögulegt að halda slíku fram.

Það er ástæða til í því sambandi að virða fyrir sér, hvernig aðstaða aðalatvinnuveganna var, eftir að þessir kaupgjaldssamningar höfðu verið gerðir í júní næstliðið ár. Samkvæmt útflutningsskýrslunum er freðfiskurinn langstærsti liðurinn í vöruútflutningi landsmanna. Hjá fiskfrystihúsunum nam hækkunin á kaupinu í júní í fyrra umfram þá hækkun, er fólst í tillögu sáttasemjara, ekki nema 1–2% af fob. verði framleiðslunnar. Ég hef séð reikninga um rekstur frystihúsa, sem sýna, að lækkun vaxta um 2% hefði lækkað rekstrarkostnað frystihúsanna a.m.k. sem svaraði þessari kauphækkun, þ.e.a.s. þessum mismun á því, sem samið var um, og tillögu sáttasemjara, og vitanlega hefði sú vaxtalækkun komið mjög til hagsbóta fyrir aðrar atvinnugreinar. Vextirnir hefðu þá orðið eins og þeir voru fyrir tveimur árum, og ég hika ekki við að halda því fram, að slík breyting á vöxtum hefði síður en svo verið óhagstæðari fyrir sparifjáreigendur en gengislækkunin. Sparifjáreigendur hafa nefnilega veríð ákaflega hart leiknir af núv. hæstv. ríkisstj., alveg eins og aðrir, því að sú vaxtahækkun, sem hefur komið þeim til góða þessi árin, segir lítið á móti þeirri geysilegu verðfellingu, sem orðið hefur á eignum þeirra.

Þetta var nú að segja um frystihúsin. Og um rekstur bátaflotans er það að segja, að þær kjarabætur, sem sjómenn fengu árið sem leið, voru komnar inn í fiskverðið, sem bátarnir fengu, og þurftu þeir því ekki á hækkuðu verði að halda þeirra vegna, og það er að segja um síldarútveginn, að þótt gengið hefði haldizt óbreytt, þá fengu sjómenn og útvegsmenn hærra verð fyrir síldina en þeir fengu árið áður, þrátt fyrir það þó að hækkun yrði nokkur samkvæmt kaupgjaldssamningunum á vinnulaunum við hagnýtingu síldaraflans. Kunnugt er það, að verð á saltfiski hækkaði árið 1961 að óbreyttu gengi. Togararnir hafa vitanlega átt í erfiðleikum. En þeim er ekki hægt að bjarga með gengislækkun, það veit hæstv. ríkisstj. eins og aðrir, og þess vegna hefur hún lagt fyrir þetta þing tillögur um ráðstafanir, aðrar ráðstafanir, vegna þeirra erfiðleika, sem togaraútgerðin á við að stríða.

Hvað er þá að segja um aðra höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar en útveginn? Um landbúnaðinn er það að segja, að gengislækkun er honum ekki til hagsbóta, heldur hið gagnstæða. Með gengislækkuninni voru enn lagðar byrðar á þann atvinnuveg. Og um iðnaðinn er það að segja, að iðnaðarfyrirtækin gátu undantekningarlítið tekið á sig þá kauphækkun, sem samið var um í júní í fyrra, án þess að fá nokkra hækkun á sínum framleiðsluvörum. Þetta kom glöggt fram í umr. og blaðaskrifum um málefni iðnaðarins á árinu sem leið.

Af þessu má sjá, að vegna aðalatvinnuveganna var engin þörf að lækka gengið fyrst í ágúst árið sem leið. Og það er fleira en það, sem ég hef nefnt, sem styður þetta. Það má nefna það, að fiskaflinn varð meiri árið sem leið en nokkru sinni áður. Það hefur vitanlega geysimikla þýðingu fyrir sjávarútveginn og þjóðarbúið í heild og styður þá skoðun, að þessi gengislækkun hafi verið gerð algerlega að þarflausu. Seðlabanki Íslands hefur nýlega gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 1961, og ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér úr henni stutta setningu, hún er þannig:

„Heildarfiskaflinn á árinu 1961 var samkv. bráðabirgðatölum 634 þús. tonn á móti 514 þús. tonnum 1960, og er þetta mesti ársafli, sem orðið hefur. Verðmæti aflans jókst hins vegar ekki að sama skapi, þar sem aflaaukningin stafaði svo að segja eingöngu af auknum síldarafla. Áætlað er, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hafi numið nærri 3000 millj. kr. á móti 2628 millj. króna 1960 og 2838 millj. kr. 1959, og eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi.“

Samkvæmt þessu og einnig skýrslum Hagtíðinda um aflann hefur hann á árinu 1961 orðið 23.3% meiri en 1960, þ.e.a.s. heildaraflinn, og hann hefur á árinu 1961 orðið 12.4% meiri en á árinu 1959 og 25.5% meiri en á árinu 1958. I þessari skýrslu Seðlabankans er reiknað með heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða, sem er kallað svo, og borið saman við árin 1960 og 1959, og er þar framleiðsluverðmætisaukning rúml. 14% frá árinu 1960, en ekki eins mikil, borið saman við árið 1959, enda var aflinn þá meiri en 1960.

Það má líka sjá í hagskýrslum, hverjar breytingar hafa orðið á verðmæti útflutningsins frá landinu í heild síðustu árin. Þær nýjustu tölur, sem birtar hafa verið, en þar eru komnar tölur, sem sýna útflutninginn 1961, kannske ekki alveg endanlegar, en þó bráðabirgðatölur, samkv. janúarhefti Hagtíðinda nú, — og sé þetta borið saman við árin á undan, sést, að heildarverðmæti útflutnings frá landinu hefur árið 1961 orðið 16.6% meira en 1959 og 13.7% meira en 1960. Svo sem kunnugt er, eru sjávarafurðir langmestur hluti útflutningsins.

Ég held, að þetta m.a., sem ég hef hér rakið, sýni mjög glöggt, að það var alveg ástæðulaust að lækka gengi krónunnar í ágústbyrjun árið sem leið, þó að verkamenn hefðu þá nýlega náð nýjum kaupgjaldssamningum, sem gáfu þeim þó ekki raunverulega jafnmiklar tekjur og þeir höfðu í okt. 1958, þ.e.a.s. samkv. nýju samningunum höfðu þeir að vísu um 4% hærra kaup, en með samanburði á verðlagi í júní 1961 og í okt. 1958 sést auðvitað glögglega, að kaupmáttur tímakaupsins í júní 1961, eftir breytinguna, var minni en hann var í okt. 1958. En hæstv. stjórn þótti ekki við þetta unandi og greip því til þessara óheillaráðstafana.

Við 1. umr. þessa frv. talaði hæstv. viðskmrh. að sjálfsögðu, því að það var hann, sem stóð að útgáfu þessara brbl. af hálfu ríkisstj., og hann færði ýmislegt fram í sínum ræðum, sem hann taldi vera því máli til stuðnings, að þörf hefði verið að lækka krónuna árið sem leið, og fór með ýmsar tölur. Í framsöguræðu um frv. 3. nóv. s.l. hér í þessari hv. deild sagði hæstv. viðskmrh. m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Áhrif þess, að verðlagið í ár er lægra en það var 1959 og aflinn minni, svara til þess, að ársframleiðsla sjávarafurða verði í ár að verðmæti til um 170 millj. kr. minni en hún var árið 1959.“

Hæstv. ráðh. tíundar þarna bæði verðlækkun og minni afla. Að vísu var þetta 3. nóv., og þá voru eftir tveir mánuðir af árinu, svo að vitanlega var ekki hægt að birta tölur um aflann öðruvísi en áætlaðan fyrir allt árið. En þarna hefur nú skeikað æði miklu samt í þeim áætlunum hvað aflamagnið snertir, því að eins og ég sagði áðan, þá segja Hagtíðindin, að aflinn 1961 hafi verið 12.4% meiri, heildaraflinn, heldur en hann var 1959, en ekki minni, eins og hæstv. ráðh. sagði 3. nóv. að hann mundi verða. Um verðlagið, um verðsamanburðinn get ég vísað til þess, sem segir í ársskýrslu Seðlabankans, sem ég vitnaði til áðan og menn hafa fengið, og enn fremur vísað til þess, sem ég skýrði hér frá áðan, að útflutningsskýrslur sýna, að árið 1961 var verðmæti útflutningsins alls frá landinu 16.6% meira en 1959. Það er að vísu ekki hægt að miða eingöngu við verðmæti útflutningsins, eins og það birtist í útflutningsskýrslum ár hvert, því að það geta verið mismunandi miklar birgðir af útflutningsvörum til um áramót, en samkv. upplýsingum í Fjármálatíðindum Seðlabankans voru útflutningsvörubirgðir meiri í árslok 1961 en í árslok 1959, þannig að þessi 16.6% hækkun á útflutningsverðmætinu 1961, miðað við árið 1959, stafar ekki af því, að það hafi gengið á útflutningsvörubirgðirnar. Samkv. því, sem Seðlabankinn segir í sínum Fjármálatíðindum og í ársskýrslunni, sem nýlega er komin frá bankanum, hafa útflutningsvörubirgðir verið 66 millj. kr. meiri í árslok 1961 en í árslok 1959. Þetta kemur þannig út, að samkv. því, sem segir í 2. hefti Fjármálatíðinda 1961, á bls. 95, telur Seðlabankinn, að á árinu 1960 hafi útflutningsvörubirgðir lækkað um 120 millj. frá því árið áður. En í ársskýrslu Seðlabankans nú fyrir 1961, á bls. 10, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jafnframt þeirri miklu bót, sem átti sér stað á gjaldeyrisstöðu bankanna og greiðslujöfnuðinum á árinu 1961, átti sér stað birgðaaukning á útflutningsvörum, er nam um 186 millj. kr.“

Þarna kemur út þessi mismunur. Birgðirnar lækkuðu um 120 millj. árið 1960, en hækkuðu um 186 millj. árið 1961. Mismunurinn er 66 millj., sem birgðirnar hafa verið meiri samkv. þessu í árslok 1961 heldur en í árslok 1959. Og þrátt fyrir það er heildarverðmæti útflutnings frá landinu 16.6% meira 1961 en 1959.

Þannig fór um þessar ágizkanir eða þessar tölur hæstv. viðskmrh., að þetta reyndist betri útkoma en hann sagði 3. nóv. En einmitt þetta, sem ég nefndi hér, var nokkuð stór steinn í þeirri byggingu, sem hann var að sýna okkur með sínum talnalestri, — og þegar þessi steinn fer úr veggnum, þá held ég, að megi segja, að mikið af slotinu sé hrunið.

Það hefur raunar komið fram hjá hæstv. stjórn sjálfri, að þótt hún segi, að gengisbreytingin hafi verið gerð vegna kauphækkananna í júní næstliðið ár, þá hefur hún haft fleira í huga, því að um leið og gengisbreytingin var gerð 3. ágúst s.l., gaf ríkisstj. enn út brbl. um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu. Og það frv. verður sjálfsagt hér á dagskrá mjög fljótlega. En eitt af ákvæðum þeirra laga var að hækka útflutningsgjald af sjávarafurðum úr 2¼% í 6% af fob.-verði. Áætlað er, að þessi hækkun nemi 100 millj. kr. á einu ári, og samkv. brbl. átti um það bil helmingur af þeirri upphæð að renna til sérstakrar lánastofnunar, stofnlánadeildar sjávarútvegsins. Af þessu sést, að gengisbreytingin var að nokkru leyti gerð í því skyni að afla fjár til lánastofnunar, þó að þess væri að engu getið í aths. með brbl., sem hér liggja fyrir.

Það hefur verið svo áður, þegar gengi íslenzku krónunnar hefur verið lækkað, að þá hefur það verið gert vegna þess, að menn litu svo á og voru þess fullvissir, að þess væri þörf vegna atvinnulífsins, til þess að atvinnureksturinn gæti gengið með eðlilegum hætti. Þannig hefur þetta verið áður, að genginu hefur aðeins verið breytt af brýnni þörf. En ég vil alveg hiklaust halda því fram, að gengislækkunin í ágúst í sumar hafi verið óþörf, og þess vegna tel ég, að hæstv. ríkisstj. sé mjög ámælisverð fyrir þessa gengislækkun. Krónan okkar var sannarlega nógu lítil fyrir.

Vegna þessarar gengislækkunar hefur nú kaupgjaldssamningum verkamanna verið sagt upp, eins og við mátti búast. Þeir höfðu til þess rétt samkv. samningunum, ef genginu yrði breytt. Og fram eru komnar kröfur um kjarabætur frá þeim og ýmsum öðrum, t.d. opinberum starfsmönnum, og mér hefur skilizt af umr. og blaðaskrifum nýlega, að ríkisstj. sjálfri sé að verða það ljóst eins og ýmsum öðrum, að ekki sé hægt að standa gegn öllum slíkum kröfum vegna þeirra miklu verðhækkana, sem orðið hafa, m.a. fyrir þessa gengisbreytingu árið sem leið. Ég vil fullyrða, að betra hefði verið að hafa gengið óbreytt, eins og það var fyrir 3. ágúst árið sem leið. Það hefði verið öllum betra. Þá hefði afkoma verkamanna og annarra launamanna verið betri, þá hefði verið öryggi í kaupgjaldsmálum og vinnufriður fyrst um sinn samkv. þeim samningum, sem gerðir voru í júní næstliðið ár. Þetta hefði verið öllum betra. Og ég tel það mjög illt, að þetta skref skyldi vera stigið, að lækka verð gjaldmiðilsins. Það á aldrei að gera, nema þess sé brýn þörf.

Það var sagt við 1. umr. af ýmsum, að ríkisstj. hefði víst orðið vond, þegar kaupgjaldssamningarnir voru gerðir og var samið um eitthvað dálítið annað en hún vildi, og hún hefði þá gert þetta í bræði sinni án þess að athuga málið. Ég skal ekki um þetta segja. En það er nú svo fátt um skýringar á þessu tiltæki stjórnarinnar, að manni getur dottið í hug, að þannig hafi þetta verið. En það er nú svo, að það eru yfirleitt ekki happaverk, sem menn gera, ef þeir framkvæma eitthvað í bræði. Stundum er sagt, að menn eigi ekki að framkvæma neitt, fyrr en þeim sé runnin reiðin, og þá sé gott að telja upp að 100 kannske. Ég get nú búizt við, að stjórnin hefði þurft að reyna að fara enn hærra en í 100. En annaðhvort er, að hún hefur ekki gripið til þessa ágæta ráðs að fara að telja og láta renna af sér reiðina, eða þá að hún hefur ruglazt í tölunum, þegar hún komst eitthvað dálítið upp í talnastigann, og þá náttúrlega ekki batnað skapið við það.

Eins og ég hef áður sagt, tel ég, að samkv. stjórnarskránni hafi algerlega skort heimild til að gefa út þau brbl., sem hér liggja fyrir, enda hefur ekki stjórnin sjálf, hvað þá aðrir, reynt að færa fram nokkur rök fyrir því, að það hefði þurft að gefa út brbl. um að færa til gengisskráningarvaldið. Hún hefur ekki minnzt á það, ekki í ástæðunum fyrir frv. — alls ekki, að það sé nauðsynlegt, hvað þá brýn nauðsyn. Hún segir, að það sé eðlilegast, tekur það í niðurlagi athugasemdanna, eins og bara í leiðinni. Og það er mitt álit, að gengislækkunin, sem fylgdi í kjölfar þessara brbl. um Seðlabankann, hafi alls ekki átt rétt á sér, hún hafi verið óþörf og þess vegna hafi hún verið óhæfuverk. Það á aldrei að skerða verðgildi gjaldmiðilsins, nema óhjákvæmilegt sé. Það er því till. mín til hv. þingdeildar, að hún felli þetta frumvarp.