23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1038 í B-deild Alþingistíðinda. (945)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 2. meiri hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og glögglega hefur komið fram hér í þessum umr., gat fjhn. d. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. n., stuðningsmenn ríkisstj., vill samþykkja frv. og auka nú nokkuð við það, þar sem þeir flytja brtt. um að veita Seðlabankanum nokkru frekari heimildir varðandi lántökur en gildandi lög um Seðlabankann höfðu heimilað. En við í minni hl., ég og hv. 1. þm. Norðurl. v., sá sem var nú að ljúka máli sínu hér, við erum andvígir frv. og teljum, að það beri að fella það.

Ég er fullkomlega sammála hv. frsm. meiri hl., sem hér talaði fyrir því, að frv. yrði samþykkt, að því leyti til, að raunverulega sé efni þessa frv., sem hér liggur fyrir til umr., aðeins um það að ákveða að breyta gengisskráningarvaldinu, að raunverulega sé þetta frv. ekki um sjálfa gengisskráninguna, ekki heldur beinlínis um þann verknað, sem framinn var á s.l. sumri af núv. hæstv. ríkisstj., um það að fella gengi krónunnar þá og gera þær ráðstafanir, sem því fylgdu. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, felur raunverulega í sér þá breytingu eina að ákveða, að eftirleiðis skuli það vera Seðlabanki Íslands, sem hefur á hendi það verk að ákveða gengi íslenzkrar krónu gagnvart erlendum gjaldmiðli. Og sem sagt, um þetta efni voru sett brbl. 1. ágúst í sumar.

Eins og hér hefur margsinnis verið bent á, bæði við 1. umr. þessa máls og svo aftur nú í þessum umr., leikur auðvitað enginn vafi á því, að það er enga heimild að finna í stjórnarskrá landsins fyrir því að setja brbl. um þetta efni, sem frv. raunverulega fjallar um, á þeim tíma, sem það var gert. Það getur enginn maður haldið því fram í fullri alvöru, að það hafi borið brýna nauðsyn til þess 1. ágúst í sumar að breyta þannig til um vald Alþingis að taka af því gengisskráningarvaldið og færa þetta vald yfir í hendur bankastjóra Seðlabankans. Það er alveg augljóst mál, að þó að hæstv, ríkisstj. hafi talið, að það væri orðin ástæða til þess að breyta gengisskráningunni, þá gat hún í sumar gripið til brbl. um sjálfa gengisskráninguna. Fyrir slíku voru fordæmi og það var hægt að gera, ef hún taldi verulega þörf á því að breyta gengi krónunnar. Hefði ríkisstj. gert það, þá hefði þetta mál legið hér fyrir nú á allt öðrum grundvelli en það liggur að þessu sinni. Þá hefðu hv. alþm. þurft að greiða atkv. um það á Alþingi, hvort þeir voru samþykkir þeirri gengislækkun, sem framkvæmd var. Nú sleppa hv. alþm. við að greiða atkv. um það, hvort þeir eru raunverulega samþykkir gengislækkuninni, sem ákveðin var í sumar, eða ekki. Nú geta ýmsir úr liði ríkisstj. gengið fram fyrir kjósendur sína og sagt: Ekki var ég með gengislækkuninni, sem ákveðin var í sumar. Ekki hef ég samþykkt hana. Það voru þeir í Seðlabankanum, sem gerðu það. — Þetta er sá mikli eðlismunur á því, hvernig þetta mál ber að. Hefði ríkisstj. farið að réttum lögum í þessu máli og sett þá brbl. s.l. sumar um skráningu gengisins, þá hefði sjálf gengisskráningin legið hér fyrir og atkv. orðið að greiða um hana. En sem sagt, hæstv. ríkisstj. hefur valið þá leið að setja brbl., sem raunverulega stríða í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, um, það að taka tiltekið vald af Alþingi og færa það í hendur bankastjóra Seðlabankans. Það er svo auðvitað mál út af fyrir sig, hvort menn eru á því, að það sé hentugra fyrirkomulag, að bankastjórar Seðlabankans hafi þetta vald, heldur en Alþingi hafi það. Það kom greinilega fram í ræðu frsm. meiri hl., að hann er á þeirri skoðun, að það sé heppilegra, að bankastjórar Seðlabankans hafi þetta vald, heldur en Alþingi hafi það, og hann rökstuddi það m.a. með því, að slíkt vald sem gengisskráningarvaldið væri, það þyrfti að vera, eins og hann orðaði það, í höndum kunnáttumanna. Alþingismenn eru ekki miklir kunnáttumenn í þessum efnum, en þeir í Seðlabankanum kváðu vera kunnáttumenn í þessum efnum. En mér dettur í hug í þessu sambandi, að það átti sér stað fyrir nokkrum árum, að þeir, sem þá voru í stjórn seðlabanka landsins, lögðu það til þá, að allmiklu fjármagni, sem þjóðin réð þá yfir, í stríðslokin, yrði ráðstafað á þann hátt, að þetta fjármagn yrði lánað erlendum aðilum með 4% vöxtum til 12 ára, í stað þess að kaupa fyrir þetta fjármagn framleiðslutæki handa íslendingum sjálfum. Ætli það sé nokkur maður nú hér, sem vill halda því fram, að stjórnendur Seðlabanka Íslands á þeim tíma hafi verið meiri kunnáttumenn varðandi efnahagsmál þjóðarinnar í það skipti heldur en t.d. meiri hl. á Alþingi, sem ákvað að hafa annan hátt á í þessum efnum, gera aðrar ráðstafanir, sem hafa orðið þjóðinni ólíkt heilladrýgri, að ég álít? Nei, það er auðvitað mesti misskilningur að halda því fram, að þrír bankastjórar Seðlabankans séu eitthvað meiri kunnáttumenn í því að meta það út frá efnahagsástæðum hjá þjóðinni, hvað á að vera skráð gengi krónunnar, heldur en Alþingi sem heild. En hitt skil ég, að það getur verið þægilegra fyrir t.d. ríkisstj. eins og þá, sem nú situr, að hafa þennan hátt á og geta að meira eða minna leyti skotið sér undan ábyrgðinni af því eða a.m.k. fríað ýmsa sína fylgismenn á Alþingi við að bera fulla ábyrgð á slíkum ráðstöfunum eins og hreyfing á genginu er. Það getur verið gott að hafa hálf eða alstikkfría menn í seðlabankastjórninni, sem eiga að taka á sig alla ábyrgð af slíkum verknaði.

Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að það ber að fordæma það, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa brotið stjórnarskrá lýðveldisins 1. ágúst í sumar með setningu þessara brbl., því að það hafa ekki verið færð fram nein rök fyrir Því — (Forseti: Ég ætla að biðja hv. þm. að gera svo vel að gæta þingskapa.) Ég hef aðeins sagt það, sem ég hlýt að endurtaka, að það er skoðun mín, vegna þess að ég hef ekki heyrt nein önnur rök færð hér fram en þau, að setning þessara brbl., sem hér eru til umr., hafi verið brot á stjórnarskrá landsins, eins og hún hljóðar. Ég hlýt líka að krefjast þess, að þeir hæstv. ráðh., sem staðið hafa að því að setja þessi brbl., reyni hér í þessum umr. að finna því rök, hvaða brýna nauðsyn bar til þess að færa til þetta vald. Ég vil líka minna á það, að þessi lagasetning var óeðlileg, einnig að því leyti til, að það voru aðeins liðnir um fjórir mánuðir frá því að Alþingi hafði sett lögin um Seðlabanka Íslands og þar til brbl. voru gefin út. Þegar lögin um Seðlabanka Íslands voru sett 29. marz 1961, hafði Alþingi markað Seðlabankanum verksvið, og í þeirri sérstöku endurskoðun, sem þá hafði farið fram á seðlabankalöggjöfinni, hafði það orðið meirihlutaniðurstaða hér á Alþingi að afhenda Seðlabankanum ekki gengisskráningarvaldið. En svo liðu sem sagt aðeins fjórir mánuðir, frá því að Alþingi hafði gengið frá lögunum um verksvið Seðlabankans, þar til ríkisstj. gripur til þess að setja brbl. og breyta til um verksvið bankans. Ekkert hafði þarna gerzt í millitíðinni, sem réttlætti það, að bankinn ætti fremur að hafa þetta valdsvið 1. ágúst en 29. marz, þegar Alþingi gekk frá lögunum, — ekkert annað en það, að ríkisstj. vildi fá breytt gengi íslenzkrar krónu, og hún valdi þá þessa leið, þrátt fyrir það þó að hún vissi, að hér væri um að ræða brot á stjórnarskrá landsins.

Það er auðvitað ekki óeðlilegt, þó að nokkuð sé rætt einmitt um þessa valdbeitingu, sem felst í þessu frv., því að í breytingunni felst meira en margan grunar. Gengisskráningarvaldið er gífurlega mikið vald. Á því leikur enginn vafi, að með því að hreyfa til gengið er hægt á svipstundu að gerbreyta t.d. gildandi samningum manna á milli og félaga á milli í landinu. Það er svo að segja hægt að ógilda á svipstundu með gengisbreytingu þá samninga, sem hafa verið gerðir að réttum lögum. Það er með gengisbreytingu hægt að færa til fjármuni á milli einstaklinganna í landinu svo að nemur mörgum hundruðum millj. kr. Það er því ekkert smáræðisvald, sem stendur á bak við það að mega hreyfa til gengið. Og það er mín skoðun, að Alþingi eitt eigi að hafa slíkt vald, Alþingi eigi ekki að framselja þetta vald í hendur neinnar peningastofnunar. Hitt er aðeins eðlilegt, að stjórnendur Seðlabankans eða aðrir þeir, sem ríkisstj. leitar ráða til eða Alþingi leitar ráða til á hverjum tíma, t.d. varðandi gang peningamála, að þessi stofnun jöfnum höndum svari fsp. Alþingis og ríkisstj. um það, hvert sé hennar álit um það, hvort breyta þurfi gengi krónunnar eða ekki, eða þá að stjórnendur þessarar stofnunar hafi beinlínis frumkvæði um það að benda stjórn landsins eða Alþingi á, að þörf sé á gengisbreytingu. Ég tel, að það sé miklu eðlilegra verksvið fyrir stjórnendur Seðlabankans að vinna á þessum grundvelli, þ.e.a.s. að láta uppi álit sitt um það, hvað þurfi að gera í þessum efnum, út frá þeim gögnum, sem stjórnendur Seðlabankans hafa í sínum höndum á hverjum tíma, en síðan sé það ríkisstjórnar og Alþingis að taka hina endanlegu ákvörðun um það, hvort stíga á slíkt skref eins og breyting á gengi krónunnar er.

En það er líka annað, sem liggur á bak við þessa skipulagsbreytingu, og það hefur komið greinilega fram í sambandi við þær umr., sem farið hafa fram að undanförnu um þessi mál, bæði hér á Alþingi og eins í blöðum landsins. Það hefur sem sé komið fram, að það muni vera fljótvirkara að grípa til gengisbreytingar, ef gengisbreytingarvaldið er í höndum Seðlabankans heldur en í höndum Alþingis. Það er m.ö.o. verið að hóta mönnum í landinu með því að hreyfa til gengið. Og það hefur verið sagt berum orðum: Ef t.d. atvinnurekendur og verkamenn semja sín á milli um of hátt kaup, þá hreyfum við til gengið. Það er farið inn á þessa hættulegu braut að ætla að nota valdið yfir gengisskráningunni sem sérstaka hótun, svo réttmætt sem það er. Auðvitað er það hin reglan, sem á að gilda, jafnt hér hjá okkur sem öðrum, að það á að breyta gengi krónunnar eins sjaldan og tök eru á, það á ekki að grípa til gengisbreytingar, nema alveg brýna nauðsyn beri til. Það væri auðvitað hin mesta fásinna að ætla að beita þessu valdi á þann hátt, að vegna þess að einhverjir aðilar í þjóðfélaginu hafa farið eilítið öðruvísi að en ríkisstj. samþykkir eða er sammála á hverjum tíma, þá eigi að beita gegn slíku gengisskráningarvaldi. Slíkt vitanlega lendir út í hreint öngþveiti.

Það er svo mál út af fyrir sig, að einmitt þeir, sem standa fyrir þessari breytingu og standa fyrir þessum hótunum, það eru sömu mennirnir, sem mest tala um samningafrelsi og athafnafrelsi þegnanna og það eigi ekki af hálfu hins opinbera að skipta sér af því, sem fram fer á milli þegna í landinu, fram yfir viss takmörk. En þó að t.d. atvinnurekendur í landinu og verkamenn hafi komið sér saman um bindandi samning sín á milli eftir réttum lögum og reglum, þá kemur ríkisstj. þar aðvífandi og segir: Ég samþykki þetta ekki, — og færir til í samningagerðinni á milli aðila frá því, sem áður var um samið þeirra á milli. Er þetta samningafrelsi? Er þetta ekki að misnota ríkisvaldið? Hér verður að gæta að því, þegar málin liggja þannig fyrir, að hér er um frjálsa samninga að ræða á milli þeirra aðila, sem starfa samkv. lögum og hafa farið að öllu leyti með sína samninga samkv. settum reglum. En það er þetta, sem ríkisstj. hefur verið að segja að undanförnu, að hún vildi ekki fallast á það, að þeir samningar mættu gilda á milli atvinnurekenda og verkamanna, sem þeir höfðu þó komið sér saman um. Hún vill ekki viðurkenna það. Hvar er svo samningsfrelsið? Hvar er svo félagafrelsið, samtakafrelsið í þessum efnum? Og hverjir eru það, sem standa þarna að því að gera það raunverulega að engu? En hvað halda menn um það, ef t.d. hefði nú svo atvikazt í kaupgjaldssamningunum á s.l. sumri, að verkamenn hefðu samið um allmiklu lægra kaup en þeir sömdu um, jafnvel um lægra kaup en áður gilti? Hvað halda menn, að þá hefði gerzt? Dettur nokkrum manni það í hug, ef verkamenn hefðu samið um það, að þeir sættu sig við lægra kaup fyrir vinnu sína en þeir bjuggu við áður, að ríkisstj. hefði þá stokkið til og hækkað gengi krónunnar? Dettur nokkrum manni í hug, að hún hefði gert það? Nei, hún hefði eflaust ekki gert það. Hennar útreikningar eru nefnilega ekki svo nákvæmir, að hún sigli eftir einhverju slíku lögmáll. Nei, en þegar annað kemur út úr dæminu en henni þykir gott, þá er gott að hafa svona vald og grípa inn í.

Af þessu geta skapazt auðvitað margar hættur, m.a. sú hætta, að atvinnurekendur í landinu, svo að maður haldi sig við samninga á milli verkamanna og atvinnurekenda, geta farið að sjá sér hag í því að semja, semja bara um tiltekna kauphækkun, í fullu trausti á það, að ríkisstj. eyðileggi samninginn rétt á eftir og breyti gengi krónunnar þeim í hag. Þegar menn vita um það, að undirskriftir þeirra undir samninga eru ekkert bindandi, það er raunverulega hægt að hlaupa frá þeim, þá er verið að eyðileggja gildi samninganna, þá er verið að eyðileggja samningafrelsið. Auðvitað veit maður, að þau atvik geta verið, að mikill hluti atvinnurekenda hefði beinlínis hug á því að vilja fá fram gengislækkun. Mál þeirra geta staðið þannig í vissum tilfellum, að það sé beinlínis hagur fyrir mikinn hluta atvinnurekenda að fá fram gengislækkun. Það getur jafnvel skipt þá miklu meira en nokkrar prósentur í kaupgjaldi. Þeir gætu því beinlínis gert leik að því að knýja fram gengislækkun á þennan hátt og fría sig við undirskrift sína í samningum, ef ríkisstj. ætlar að beita þessu valdi á þann hátt, sem hún hefur gert. (Forseti: Ég vil nú spyrja hv. ræðumann, með því að liðið er senn að lokum hins venjulega fundartíma, hvort hann eigi langt mál eftir af ræðu sinni.) Já, ég á talsvert eftir. (Frh.)