26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (954)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við frv. það, sem hér er til umr., ásamt 7. þm. Reykv. (ÞÞ). Það yrði þá á undan 1. greininni í þessu frv. um breyt. á lögum um Seðlabanka Íslands og kæmi inn í 13. gr. l. um Seðlabanka. Brtt. er þannig, að á undan 1. gr. komi ný grein, svo hljóðandi:

„Á eftir 2. málslið 13. gr. laganna komi nýr málsliður, svo hljóðandi:

Ákvörðun sína um hámark vaxta skal bankinn miða við það, eftir því sem unnt er, að íslenzkir atvinnuvegir sæti ekki lakari vaxtakjörum en atvinnuvegir þeirra þjóða, sem Íslendingar þurfa einkum að keppa við.“

13. gr. öll yrði þá þannig:

„Seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta, sem innlánsstofnanir, sem um ræðir í 10. gr., mega reikna af innlánum og útlánum. Nær þetta vald einnig til þess að ákveða hámarksvexti samkv. lögum nr. 58 1960.“ Og þarna bætist inn í: „Ákvörðun sína um hámark vaxta skal bankinn miða við það, eftir því sem unnt er, að íslenzkir atvinnuvegir sæti ekki lakari vaxtakjörum en atvinnuvegir þeirra þjóða, sem íslendingar þurfa einkum að keppa við.“

Og svo er áframhaldið þá: „Vaxtaákvarðanir skulu birtar í Lögbirtingablaði. Ákvörðunarvald þetta nær einnig til þóknunar, sem jafngildir vöxtum að áliti Seðlabankans.“

Það, sem farið er fram á þarna, er, að vextirnir séu miðaðir, eftir því sem unnt er, við það, sem nágrannaþjóðir okkar, sem við þurfum að keppa við um markaðinn, haga sínum vöxtum. Það hefur verið þannig, að ríkisstj. hefur falið Seðlabankanum að ákveða alla vexti. Það voru sérstök lög um vexti hjá Ýmsum sjóðum og stofnunum, en þessi völd hafa öll verið dregin á eina hönd, og Seðlabankinn á að ákveða þetta með samþykki ríkisstj., og það er vitanlega það sama og að ríkisstj. ráði þessu í framkvæmdinni. Það er eins og með gengið, að þrátt fyrir það þó að Seðlabankinn eigi að taka formlega ákvörðun, þá á að gera það í samráði við ríkisstj., og bankinn hagar sér eðlilega eða gerir eftir því, sem ríkisstj. mælir fyrir. Ég er ekki að segja, að það sé óeðlilegt. Það er eðlilegt, að ríkisstj. ráði mestu um Seðlabankann. En náttúrlega er anzi langt gengið að taka allt vald af Alþingi til að ákveða vexti og fela Seðlabankanum eða réttara sagt ríkisstj. sjálfri það. Valdið að skrá gengi íslenzkrar krónu og ákveða vexti er algerlega tekið af þinginu og fært í hendur Seðlabankans og ríkisstj. Það er gengið svo langt, að menn mega ekki ákveða vexti af því fé, sem þeir raunverulega lána sjálfum sér, — á ég þar við innlánsdeildir kaupfélaganna, — Því að bankinn hefur vald til að ákveða vexti þeirra líka. Og það er ekkert annað en að félagsmennirnir eru þar að lána sjálfum sér.

Fiskverðið er t.d. talsvert lægra hér en í Noregi. Við vorum að athuga þetta á fundi hjá

L.Í.Ú., og okkur virtist, að s.l. ár hefði þetta munað 50–60 aurum á kg af fiski upp úr sjó, þegar búið var að draga frá alla þá styrki, sem norska ríkið veitir sjávarútveginum. Ég hygg, að þessi verðmunur komi ekki af því, að norski fiskurinn seljist fyrir hærra verð, því að eftir þær upplýsingar, sem ég hef fengið, mun okkar fiskur seljast fullt eins vel. Það, sem veldur þessum mismun, er, að það eru hærri vextir hér og það eru hærri útflutningsgjöld hér. Þetta er það, sem aðallega skapar verðmuninn. En þetta er 20–25% verðmunur á fiski upp úr sjó. Þarna er um stóra hluti að ræða. Nú er gert ráð fyrir því, að við myndum einhvers konar tengsl við Efnahagsbandalag Evrópu, og þá kemur það til greina í einhverri mynd, að við þurfum að keppa á sömu mörkuðum, og þá er erfitt fyrir íslenzka atvinnuvegi að keppa á þessum mörkuðum, sem við raunar höfum orðið að gera undanfarið, að keppa við þessar þjóðir, ef mikill munur er á lánskjörum hér og þar.

Ég hef alltaf litið svo á, að þessi vaxtahækkun, sem gerð var hér, það væru eiginlega innfluttir hlutir. Ég hef litið svo á, að vegna þess að ríkið þurfti að fá yfirdráttarheimild hjá peningastofnunum ytra, þá hafi þau skilyrði verið sett, að vextirnir hækkuðu. Við vitum vel, að það er hægt að draga úr eftirspurn peninga með því að hækka vexti. Og tilgangurinn með vaxtahækkuninni var fyrst og fremst að draga úr eftirspurn eftir peningum. Það var látið í það skína, að það væri líka til að auka sparifjármyndun, en það gefur auga leið, þegar gengi er fellt um 40% á tveimur árum eða rúmlega tveimur árum, hvort það hefði ekki verið hægt að fara aðra leið til að bæta sparifjáreigendum lægri vexti, með því að fella gengið minna. Það má vera, að þetta hafi verið nauðsynlegt í bili, en ég hef ekki trú á, að úr þessu fari ekki að vera hægt að lækka vextina, færa þá til samræmis við það, sem gerist hjá öðrum þjóðum. Síðastliðið ár munu hvergi í Evrópu hafa verið jafnháir vextir og hér og ekkert svipað því. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef getað fengið, voru hvergi jafnháir vextir og á Íslandi nema í Suður-Ameríku hjá Indíánablendingunum, þar sem öll fjármál eru í óreiðu, og suður í Íran. Það má vel vera, að þetta hafi átt einhvern þátt í því að draga úr mönnum að gera framkvæmdir og festa fé. Hér á landi er ekki hægt að komast nema að vissu marki í því efni, því að það þarf geysilega mikið fé til þess að geta rekið atvinnuvegi eins og sjávarútveg, verzlun og landbúnað hér á landi. Umsetningin er svo mikil, það þarf svo mikið kapítal. Og vegna gengislækkunarinnar þurfti í krónutölu miklu meira rekstrarfé. Vaxtabyrðin varð óbærilega þung fyrir einstaklinga og fyrirtæki. T.d. bátur, sem kostar 8–9 millj. með veiðarfærum, 2/3 fást lánaðir í fiskveiðasjóði með 6½ % vöxtum, þá eru það 400 þús. kr. af því láni og 3 millj. í lausaskuldum. Ef allt væri tekið að láni með 9–10% vöxtum, gerir það 300 þús. Vextir af stofnfé þessa báts eru því um 700 þús. kr. árlega. Þetta er meira en lítill skattur. En svo er meira en það, sem hleðst á útgerðina. Það eru vextir, sem frystihúsin þurfa að borga af stofnkostnaði sínum, og vextir af vörubirgðunum, sem frystihúsin liggja með, þannig að þegar þetta kemur allt saman, verða vextirnir geysilega stór kostnaðarliður í útflutningsframleiðslunni og ekki sama þess vegna, hve háir þeir eru.

Enn fremur hefur vaxtahækkunin skapað mikið misrétti milli einstakra manna, því að þeir, sem voru búnir að fá föst lán með lágum vöxtum, bæði bændur og útgerðarmenn, borga allt að því helmingi lægri vexti eða jafnvel meira en þeir, sem eru nú að hefja framkvæmdir eða kaupa skip. Þannig er það t.d. með bændur. Þeir, sem búa að gömlu lánunum, sem eru með 2–4% vöxtum í ræktunarsjóði og byggingarsjóði, geta þar að auki borgað sínar tiltölulega verðmiklu krónur með verðlitlum krónum. Það er önnur aðstaða fyrir þá eða hina, sem eru að gera framkvæmdir nú og þurfa að borga 6½% í vexti af föstum lánum og miklu hærra af lausaskuldum. Þegar verðlag landbúnaðarins er reiknað út, er tekið tillit til, hvað meðalvextir eru. Skuldugi bóndinn skapar efnaða bóndanum í raun og veru tekjur með því að borga háa vexti. Þessu fylgir þess vegna mikið óréttlæti.

Það, sem við förum fram á með þessari brtt. okkar, er ekkert annað en það, að Seðlabankinn reyni, eftir því sem unnt er, að samræma vexti hér við það, sem vextir eru í nágrannalöndum okkar. Takmarkið þarf að vera það, að við búum við svipuð vaxtakjör og þeir, sem við þurfum að keppa við á markaðinum með okkar afurðir.