24.10.1961
Efri deild: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í B-deild Alþingistíðinda. (96)

42. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég get verið út af fyrir sig sammála hv. 9. þm. Reykv. um það, að æskilegt væri, að bætur almannatrygginganna gætu verið hærri og meiri en þær nú eru. Þó ber þess að geta, að þær breytingar, sem gerðar voru í fyrra, á árinu 1960, voru meiri en nokkurn tíma hefur átt sér stað áður í sögu almannatrygginganna hér á landi. Það var þá tekið mjög stórt stökk til hækkunar, — stökk, sem kostaði ríkissjóðinn og Tryggingastofnunina hundruð milljóna króna, og stökk, sem kom bótagreiðslum almannatrygginga á Íslandi í einu vetfangi, að heita mátti, að krónutölu næstum því á sama stig og þar, sem bezt gerist á Norðurlöndum. Nú er það ekki alveg einhlítt að bera saman krónutöluna á Norðurlöndum og krónutöluna hjá okkur, því að kostnaðurinn við að lifa getur verið misjafn í þessum löndum, og ég ætla, að ef réttlátur samanburður væri á því gerður, hvað framfærslukostnaðurinn hjá okkur er og framfærslukostnaðurinn þar, þá mundi sá samanburður ekki verða óhagstæður fyrir Ísland, eins og nú er, þannig að hlutfallið á milli okkar og þeirra, bótaþeganna hér á Íslandi og þar, mundi batna hinum íslenzku í hag.

Það er að vísu alveg rétt, að dýrtíðin hefur aukizt og það hefur orðið nokkur hækkun á framfærslukostnaðinum á því tímabili, sem liðið er, síðan þessi lög voru sett og til dagsins í dag. En það var við setningu laganna í upphafi gert ráð fyrir því, að nokkur hækkun mundi verða, og bótahækkunin við það miðuð, að bótaþegarnir gætu tekið á sig nokkuð af þessari hækkun. Hins vegar skal ég vera fyrstur manna til þess að viðurkenna það, að æskilegt væri að geta haft bæturnar hærri og afkomu þess fólks sem bótanna nýtur, betri. En þá verður um leið að gera sér grein fyrir því, að til þess að geta greitt þessar bætur verður að afla ríkissjóði tekna á móti, til þess að kerfið geti staðizt, og hefur verið farið, að ég ætla, eins langt með bótagreiðslur á þessu stigi og talið hefur verið mögulegt og viðráðanlegt fjárhagslega fyrir ríkissjóðinn. Þó er þess að geta, að með þessari hækkun nú, 13.8%, er fengin hækkun á bótunum, sem nokkurn veginn samsvarar þeirri hækkun, sem orðið hefur á framfærslukostnaðinum á þessu tímabili.

Hv. þm. sagði, að stjórnarflokkarnir hefðu verið ófáanlegir til leiðréttingar á s.l. ári eða að ganga lengra en gert var. En ég vil nú stjórnarflokkunum til afsökunar a.m.k. segja Það, að þeir voru á þessu ári búnir að gera meira en nokkurn tíma hafði áður verið gert til leiðréttingar í þessu máli, og a.m.k. kemst ég þá ekki hjá því að geta þess, að Alþýðubandalagið harkaði það af sér að hafa mann í félagsmálaráðherrastóli í þrjú ár, án þess að gera þessa leiðréttingu. Það er hægara um að tala en í að komast, þegar þessu þarf að breyta.

Það er rétt að geta þess í sambandi við þá tillögu, sem hv. þm. nefndi, sem ég hef nú séð og er búið að útbýta, að endurskoðun almannatrygginganna stendur yfir, og ég vildi vænta þess, að hann gæti þá komið á framfæri við þá nefnd, sem að því vinnur, sínum áhugamálum, þannig að athuga mætti, hvort ekki gætu þá tekizt einhverjar þær leiðréttingar, sem til bóta kynnu að horfa.