28.03.1962
Efri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (964)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson [frh.]:

Herra forseti. Ég hafði, þegar ég lauk máli mínu hér í gær, rætt um hina formlegu hlið þessa máls, þ.e.a.s. ég hafði gert grein fyrir þeirri skoðun minni, að útgáfa brbl. um tilflutning gengisskráningarvaldsins væri andstæð 28. gr. stjórnarskrárinnar, þar eð enga brýna nauðsyn hefði borið til að svipta Alþingi gengisskráningarvaldinu. Ég hafði sýnt fram á, að engir sérstakir agnúar hefðu komið í ljós í sambandi við meðferð löggjafans á því valdi. Og hvað sem annars liði skoðunum manna um það, hvar gengisskráningarvaldið ætti bezt heima, þá stæði það eftir sem áður óhrakið, að engin, alls engin þörf hefði verið til svo skjótra breytinga á aðild ákvörðunarvaldsins, að ekki hefði mátt bíða atbeina Alþingis sjálfs, einkanlega þar sem fyrir lá skýr vilji síðasta Alþingis um það, að skipan þessara mála skyldi framvegis óbreytt standa, en það var einmitt undirstrikað með setningu seðlabankalaganna á síðasta Alþingi, svo sem ég rakti hér í gær. En til þeirrar lagasetningar var að dómi stjórnarstuðningsmanna alveg sérstaklega vandað. Hitt er að vísu annað mál, að ég er og hef alltaf verið annarrar skoðunar um það atriði og hef litið svo á, að sú löggjöf hafi að ýmsu leyti verið mjög flaustursleg, svo sem reyndar er nú alltaf að koma betur á daginn og ég vík e.t.v. að síðar.

Nú ætla ég hins vegar, að gefnu tilefni frá hæstv. viðskmrh., að ræða um efnishlið þessa máls, þ.e.a.s. að athuga, hvort raunverulegar efnisástæður hafi legið til grundvallar gengislækkuninni s.l. sumar, og þá einkanlega, hvort sú gengisstýfing, sem þá átti sér stað, hafi verið óhjákvæmileg til þess að afstýra einhverjum yfirvofandi háska.

Eins og kunnugt er, var það um leið og gengisskráningarvaldið hafði verið flutt yfir til Seðlabankans, að þá ákvað stjórn hans samkv. óskum ríkisstj. að lækka gengi íslenzku krónunnar. Krónan var þá lækkuð, sem kunnugt er, um 11.6% eða verð á erlendum gjaldeyri hækkað um 13.1%. Bæði ríkisstj. og bankastjórn Seðlabankans hafa haldið því fram, að gengislækkun þessi hafi verið óhjákvæmileg eða nauðsynleg vegna kauphækkana þeirra, sem hér urðu á s.l. sumri. Því er haldið fram, að kauphækkanirnar hafi valdið þvílíkri hækkun framleiðslukostnaðar, að atvinnuvegirnir hefðu ekki undir risið. Og því er haldið fram, að aukin kaupgeta almennings vegna kjarabótanna s.l. sumar hefði leitt til svo mikillar eftirspurnar eftir gjaldeyri, að komið hefði til alvarlegs greiðsluhalla þjóðarbúsins út á við.

Þetta virðast mér vera einu röksemdirnar, sem talsmenn gengisbreytingarinnar hafa borið fram henni til réttlætingar. Á þessar röksemdir get ég alls ekki fallizt. Kjarasamningarnir s.l. sumar höfðu að sjálfsögðu í för með með sér nokkra útgjaldahækkun hjá atvinnurekendum og því opinbera. Sú útgjaldaaukning mundi þó áreiðanlega í langfæstum tilfellum hafa orðið atvinnurekstrinum ofviða, ef jafnframt hefðu verið gerðar ráðstafanir til þess að draga úr öðrum tilkostnaði, svo sem t.d. með því að lækka verulega vexti, tryggingarkostnað ýmiss konar og ýmislegt fleira. Hæstv. viðskmrh. vildi að vísu í gær gera lítið úr þýðingu vaxta í þessu sambandi og vildi gera lítið úr þýðingu vaxtanna yfirleitt fyrir afkomu atvinnuveganna. En þar held ég að atvinnurekendur séu á allt annarri skoðun, a.m.k. benda síendurteknar óskir þeirra og samþykktir til þess. Og hvað sem öðru líður, þá eru þeir þó vissulega sá aðilinn, sem bezt finnur, hvar skórinn kreppir að, hvað sem allri talnafræði hæstv. ráðh. líður. En þegar menn reyna að gera sér grein fyrir því, hvort atvinnuvegunum hafi verið gert ókleift að starfa vegna kjarabótanna, sem samið var um s.l. sumar, verða menn að hafa í huga forsögu þeirra kjarasamninga, og menn verða að minnast þess, að sáttasemjari ríkisins hafði á sínum tíma lagt fram tillögu um 6% hækkun kaups verkamanna hér í Reykjavík og þá þegar 4% kauphækkun næsta árið og 3% viðbótarhækkun eftir 2 ár. Og menn verða þá líka jafnframt að hafa það hugfast, að í aðalmálgagni ríkisstj., Morgunblaðinu, var því lýst yfir, að atvinnuvegirnir gætu borið þá kauphækkun, sem sáttatillaga sáttasemjara fól í sér, og verkamenn voru einmitt þar hvattir til að samþykkja þá sáttatillögu. Það verður því naumast dregið í efa, að atvinnurekendur hafi treyst sér til að greiða þá kauphækkun. Þar af leiðir, að það bil, sem hér þurfti að brúa, var ekki kauphækkunin öll, sem um var samið, heldur í raun og veru aðeins mismunur þeirrar kauphækkunar, sem tillaga sáttasemjara fól í sér, annars vegar og þeirrar kauphækkunar, sem endanlega var samið um, hins vegar.

Í umr. um þetta mál, bæði utan þings og á þingi, og þ. á m. við umr. í hv. Nd., hefur verið sýnt fram á það, jafnvel með óhrekjandi tölum, að þetta bil var ekki breiðara en svo, að það var auðvelt að brúa án nokkurrar gengisfellingar. Það hefur verið sýnt fram á, að munurinn á kaupgjaldstillögu sáttasemjara og samningunum, sem gerðir voru, var ekki svo mikill, að hans vegna eingöngu þyrfti að lækka gengi íslenzku krónunnar. Það hefur verið sýnt fram á það, að velflest iðnaðarfyrirtæki hefðu getað borið umsamdar kauphækkanir án þess að hækka verð sinnar framleiðsluvöru. Það hefur enn fremur verið sýnt fram á það, að frystihúsin hefðu með því að fá 2% vaxtalækkun auðveldlega getað mætt þessum mismun á kauphækkuninni, þeirri sem fólst í tillögu sáttasemjara og þeirri sem endanlega var um samið. Ekki þurfti því gengislækkun þeirra vegna, og er þar þó um að ræða, eins og kunnugt er, stærsta liðinn í útflutningnum.

Það liggur nú fyrir, að aflinn á s.l. ári varð rúmlega 23% meiri en árið áður, og jafnframt, að verðmæti sjávarafurða hefur aukizt á árinu 1961 frá því árið áður um rúmlega 14%. Þetta er staðfest í skýrslu Seðlabankans, sem nýlega hefur verið birt. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heildarfiskaflinn á árinu 1961 var samkv. bráðabirgðatölum 634 þús. tonn á móti 514 þús. tonnum 1960, og er þetta mesti ársafli, sem orðið hefur. Verðmæti aflans jókst hins vegar ekki að sama skapi, þar sem aflaaukningin stafaði svo að segja eingöngu af auknum síldarafla. Áætlað er, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hafi numið nærri 3000 millj. kr. á móti 2628 millj. kr. árið 1960 og 2838 millj. kr. 1959, og eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi.“

Þetta segir í skýrslu Seðlabankans, og ég hygg, að það verði ekki rengt, að þessar tölur séu réttar. Þar segir enn fremur, að verð á útflutningsáfurðum hafi batnað verulega á árinu 1961, þegar á heildina er litið. Svo á, eftir að mönnum eru þessar staðreyndir kunnar, að telja mönnum trú um, að nauðsynlegt hafi verið að fella gengið vegna útflutningsatvinnuveganna, af því að þeir hafi ekki þolað þá hóflegu kauphækkun, sem samið var um s.l. sumar. Ég verð að segja, að það þarf býsna mikinn kjark til þess að halda slíku fram í alvöru, þegar þessar staðreyndir eru kunnar og liggja fyrir. Og manni verður að spyrja: Hvenær og undir hvaða kringumstæðum ætli atvinnuvegirnir hér á Íslandi geti skilað einhverjum kjarabótum til fólksins, sem við þá vinnur, ef ekki undir þessum kringumstæðum, þegar aflinn hefur orðið meira en 23% meiri en árið áður og þegar heildaraflaverðmætið hefur orðið meira en 14% meira en árið áður? Og manni verður að spyrja: Hvenær skyldi ekki þurfa að fella gengi vegna atvinnuveganna, ef það er óhjákvæmilegt að lækka krónuna í svona árferði undir þessum kringumstæðum? Nei, sannleikurinn er sá, að því fer fjarri, að það hafi verið sýnt fram á, að til gengislækkunar hafi þurft að grípa vegna atvinnuveganna almennt, af því að þeir hafi ekki getað borið hina umsömdu kauphækkun frá s.l. sumri.

Gengislækkunin felur auðvitað alls ekki í sér hagsbætur fyrir landbúnaðinn, heldur er einmitt til tjóns fyrir hann, þegar á heildina er litið, og því er náttúrlega ekki þeirri röksemd hreyft eða reynt að hreyfa því, að gengislækkunin sé gerð hans vegna eða til þess að verða honum til hagsbóta.

Hitt er svo annað mál, eins og ég drap á aðeins í því, sem ég sagði hér áðan, að togaraútgerðin á hér á landi við sérstaka erfiðleika að etja. En þeir erfiðleikar hafa verið svo miklir, að það lá alveg ljóst fyrir, að henni yrði ekki bjargað með gengislækkuninni einni saman og að vandræðum togaraútgerðarinnar yrði ekki afstýrt með þeim hætti, heldur þyrfti þar meira til að koma og þar þyrfti til annarra úrræða að grípa, sem líka hefur komið á daginn, þar sem það liggur nú fyrir Alþingi, eins og kunnugt er, frv. um sérstakar ráðstafanir til aðstoðar togaraútgerðinni, þannig að þar hefur gengislækkunin alls ekki komið til bjargar, og gengislækkunin verður þar af leiðandi alls ekki rökstudd með því, að hún hafi verið nauðsynleg og óhjákvæmileg til þess að koma togaraútgerðinni aftur á kjöl. Þar er sannleikurinn sá, þó að ég ætli ekki að fara út í almennar rökræður hér um gengismál eða þær verkanir, sem gengisbreytingar hafa, að gengislækkun er alls ekki atvinnuvegunum yfirleitt það bjargráð, sem sumir hér á landi hafa viljað vera láta. Þar kemur svo margt til greina og kemur svo margt í mínus-hlið reikningsins, að hagnaðurinn útflutningsatvinnuvegunum til handa vegna gengislækkunar verður alls ekki sá, sem margir gera sér í hugarlund. Enda er það svo, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, að þeim atvinnuvegum er einmitt þannig háttað, að þeir þurfa aftur á að halda margvíslegum vörum til síns rekstrar frá útlöndum, sem þeir atvinnuvegir verða að greiða með erlendum gjaldeyri, og gengislækkun verður því auðvitað til þess að hækka þann tilkostnað.

Hvað hinni röksemdinni, sem borin hefur verið fram gengislækkuninni til réttlætingar, viðvíkur, sem sé þeirri, að hætta hafi verið á því, að hin mikla tekjuaukning, sem kauphækkanirnar leiddu til, mundi koma fram í aukinni eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri og leiða til halla á gjaldeyrisviðskiptunum, þá er þetta þar um að segja í fyrsta lagi, að þegar gengisbreytingin var gerð á s.l. sumri, varð, eins og þá stóð á, alls ekkert fullyrt um það, hvernig gjaldeyrisafkoman mundi verða. En útlitið í gjaldeyrismálunum var þá samt sem áður tiltölulega gott og gaf því ekki sérstakt tilefni til neins ótta. Þegar þannig stóð á, var að mínum dómi óverjandi að grípa til svo harkalegrar aðgerðar og tilfinnanlegrar fyrir allan almenning og fjölda manns sem gengislækkun er. Þá hefði að minni hyggju átt að bíða átekta og sjá, hverju fram yndi, og ef hæstv. ríkisstj. taldi, að þarna væri um verulegan vanda að ræða, sem ekki yrði við ráðið og þyrfti að grípa til sérstakra ráðstafana til að afstýra, þá átti hún vitaskuld að kalla Alþingi saman, og síðan var það þess að taka þær ákvarðanir, sem það taldi réttar og við eiga vegna þessa máls. En það var ekki gert. En hvað sem um þetta mátti segja á s.l. sumri, þegar gengislækkunin var gerð, og hvað sem mönnum gat sýnzt um þetta þá, liggja nú fyrir gögn um það, hver gjaldeyrisafkoman varð, og vísa ég þá aftur til skýrslu Seðlabankans, sem ég vitnaði til áðan. í þeirri skýrslu stendur, með leyfi hæstv. forseta, m.a. svo:

„Gjaldeyrisstaða bankanna batnaði á árinu 1961 um 400 millj. kr., reiknað á núgildandi gengi. Þar af batnaði staðan í frjálsum gjaldeyri um 567 millj. kr., en staðan í vöruskiptagjaldeyri versnaði um 167 millj., og stafaði það fyrst og fremst af skuldasöfnun við Rússland vegna minni útflutnings þangað. Hin bætta gjaldeyrisstaða bankanna er samkv. þessu um 150–200 millj. umfram þann greiðsluafgang, sem átti sér stað á árinu vegna viðskipta með vörur og þjónustu. Mismunurinn stafar í fyrsta lagi af óafturkræfu framlagi frá Bandaríkjunum, en af því voru 85 millj. kr. notaðar á árinu og í öðru lagi af ýmsum fjármagnshreyfingum, en þar af var aukning stuttra vörukaupalána innflytjenda 52 millj. Samkv. bráðabirgðatölum námu nýjar lántökur til langs tíma á árinu 364 millj. kr., en afborganir slíkra lána 389 millj. kr. Virðast því erlendar skuldir þjóðarinnar til langs tíma hafa lækkað nokkuð á árinu.“

Og síðan segir:

„Jafnframt þeirri miklu bót, sem átti sér stað á gjaldeyrisstöðu bankanna og greiðslujöfnuðinum á árinu 1961, átti sér stað birgðaaukning á útflutningsvörum, er nam um 186 millj. kr.“

Framsóknarmenn líta að vísu svo á, að þessar tölur, sem þarna er farið með, megi ekki taka án vissra skýringa. En hvað sem því líður, fæ ég ekki betur séð en með þessari skýrslu sjálfs Seðlabankans, sem stóð að gengislækkuninni og ákvað hana s.l. sumar, sé gersamlega kippt stoðum undan þeirri fullyrðingu, að gengislækkunin hafi verið nauðsynleg eða óhjákvæmileg til þess að koma í veg fyrir greiðsluhalla við útiönd og til þess að halda jöfnuði í gjaldeyrisviðskiptunum.

Ég hygg, að það sé erfitt að sýna fram á, að sú breyting hefði orðið á þeirri mynd, sem hér hefur verið brugðið upp, þó að gengið hefði verið óbreytt, að gjaldeyrishalli hefði átt sér stað á árinu 1961. Ég fæ því ekki betur séð en þær röksemdir, sem hafa verið hafðar uppi til styrktar gengislækkuninni, að hún hafi verið nauðsynleg, vegna þess að atvinnuvegirnir hafi ekki getað staðið undir útgjaldaaukningu vegna kauphækkana og til þess að tekjuaukning almennings leiddi ekki til svo mikillar gjaldeyriseftirspurnar, að greiðsluhalli yrði, — ég fæ ekki betur séð en þær séu algerlega úr lausu lofti gripnar og það verði menn að játa nú eftir á, þegar gleggri staðreyndir liggja fyrir í þessu efni og tölur, sem ekki verður um deilt.

Þá kem ég nú eiginlega að hæstv. viðskmrh. Ég vil aðeins segja það fyrst, að það er ekki aðeins, að það sé ljóst, að gengislækkunin hafi verið óþörf, heldur er hitt líka staðreynd, að með henni og því, sem fylgt hefur í kjölfar hennar, hefur nýrri dýrtíðaröldu verið hleypt af stað, sem brotnar með æ meiri þunga á þjóðinni, eins og mönnum almennt er kunnugt um. Ég hafði nú ætlað mér að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. viðskmrh. talaði hér um í gær, en hann fór ákaflega vítt og breitt í sinni frumræðu og gaf reyndar mjög mikið tilefni til þess, að það væri talað um ýmis mál almennt. Og þó að hann sé nú ekki viðstaddur, get ég ekki að öllu sleppt því að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af hans ræðu. (Forseti: Ég vil aðeins taka það fram, að ráðherrann er veikur og getur ekki af þeim ástæðum verið við.) Þá skil ég, hvers vegna hæstv. viðskmrh. var svona forsjáll í gær að svara fyrir fram því, sem hann gerði ráð fyrir að mundi koma fram í þessum umr.

Hæstv. viðskmrh. gerði allmikinn samanburð á árunum 1958 og 1961 og tilfærði í því sambandi ákaflega margar tölur, sem áttu að sýna, hvað allt væri nú miklu betra 1961 heldur en það var 1958. Ekki dettur mér í hug að vefengja þær tölur, sem ráðh. fór með, enda veit ég, að hann er mjög gætinn í meðferð talna og fer ekki með aðrar tölur en þær, sem hann veit að eru réttar. En það er nú svona með tölurnar, að það getur oft verið spurning um það, hvaða ályktanir má af þeim draga, — og einn dregur þessa ályktun af þeim og annar hina. Ég ætla ekki að fara út í það hér og þá allra sízt af því að ráðherrann er nú ekki viðstaddur að fara að draga neinar ályktanir af þeim tölum, sem hann fór hér með, og mætti það þó gera á ýmsa lund og alls ekki allar á þann veg, sem hæstv. ráðh. vildi vera láta. Það er ákaflega gott og æskilegt að eiga góðan og gildan gjaldeyrisvarasjóð, en það er náttúrlega ekki eitt út af fyrir sig neitt sáluhjálparatriði eða eitt út af fyrir sig órækt merki um velgengni eða velmegun hjá neinni þjóð. En út af fyrir sig geri ég ekki samt lítið úr því, að það sé gott.

En það, sem ég ætlaði að gera, var að fara að eins og ráðh. og nefna hér líka nokkrar tölur, en bara aðrar tölur en hæstv. ráðh. nefndi, — tölur, sem ég held að skipti almenning ekkert síður máli en þær tölur, sem hæstv. ráðh. fór hér með, og tölur, sem almenningur verður áreiðanlega ekkert síður var við í sínu daglega lífi heldur en þær, sem ráðherrann nefndi hér.

Ég get þá nefnt það fyrst, að frá því á árinu 1958 og til ársins 1961 hefur innkaupsverð véla hækkað um 90%. Skyldi nú ekki þetta koma við þá mörgu, hvort heldur eru til lands eða sjávar, sem þurfa að flytja inn og halda á margvíslegum vélum? Á sama tímabili hafa skip og bátar hækkað um 70–90%. Ég get nefnt eitt alveg einstakt dæmi með alveg ákveðnum tölum, og geri það af því að það eru tölur, sem ég hef fengið frá aðilum, sem ég veit að vita hið rétta í þessu efni. Og ég fer með þessar tölur af því að ég veit, að hæstv. viðskmrh. er mikið fyrir tölur og tekur á þeim fullt og réttmætt mark. En það er um innkaupsverð á 75 rúmlesta eikarskipi með öllum búnaði. Það kostaði um 3 millj. kr. eða því sem næst. Lán út á þetta skip úr fiskveiðasjóði fékkst að 2/3 eða um 2 millj. kr. Eigið framlag var því um 1 millj. kr. Þá var fiskveiðasjóðslánið til 20 ára með 4% ársvöxtum. Árgjald var þá af láninu: Afborgun 136 þús. og vextir 81600 kr. eða samtals 217 600 kr. Nú aftur á móti kostar alveg sams konar skip af sömu stærð um 5 millj. kr. Fiskveiðasjóður lánar út á það um 3 millj. 335 þús., en eigið framlag verður þá að vera 1 millj. 665 þús. kr. Nú er lánið aðeins til 15 ára og í vexti af þessu láni verður að greiða 6½%. Þá er árgjaldið af þessu láni: Afborgunin 222 þús. kr. og vextir 216 þús. eða samtals 438 þús. kr., á móti 217 600. Ég hygg, að hæstv. viðskmrh. hefði gott af því, þegar hann ber saman árin 1958 og 1961, að velta þessum tölum fyrir sér og athuga, hverja þýðingu það hafi fyrir þann, sem þarf að flytja inn skip, og fyrir það fólk, sem þarf að byggja afkomu sína á því tæki, að þessi verðbreyting hefur átt sér stað.

Það mætti nefna margar fleiri tölur. Það mætti t.d. nefna tölur, sem talað hefur verið hér um nýlega, t.d. um byggingarkostnað, hvað hann hefur hækkað á þessu tímabili, hvernig hækkunin á meðalíbúð hefur í raun og veru gert það að verkum, að upp hefur verið étið bara í hækkunina allt það lánsfé, sem fáanlegt hefur verið úr byggingarsjóði. En ég skal ekki rekja það nánar, vegna þess að það er nýlega búið að tala um það mál hér í d. Og sama máli gegnir í raun og veru um atvinnubótaféð. Það hefur verið minnzt á það, hver breyting hefur þar á orðið, að t.d. árið 1958 voru veittar til atvinnubóta eða atvinnuaukningar á fjárlögum 13.5 millj. kr. og árið 1960 voru veittar 14,5 millj., en 1961 eru aftur veittar aðeins 10 millj., og nú liggur, eins og kunnugt er, fyrir hv. Alþingi frv. um atvinnubótasjóð, þar sem gert er ráð fyrir árlegu framlagi í sjóðinn um 10 millj. kr., en vegna þeirra verðbreytinga, sem almennt hafa orðið á þessu tímabili, svara 10 millj. nú í sjóðinn til 6–7 millj. kr. árið 1957 eða 1958. Það mætti líka nefna hæstv. viðskmrh. til umhugsunar það, að þegar efnahagslögin voru sett í febr. 1960, var kaupmáttur tímakaups talinn 99 stig, sé miðað við 100 stig 1947, en í maímánuði 1961 var kaupmáttur tímakaupsins aftur orðinn 84 stig aðeins, og í árslok 1961 var kaupmáttur tímakaupsins kominn niður í 83 stig, eða orðinn lægri en nokkru sinni á s.l. 15 árum. Ég held, að þetta væru vissulega tölur, sem hæstv. viðskmrh. ætti að velta fyrir sér, þegar hann ber saman árið 1958 og árið 1961. Og það má líka í þessu sambandi benda á það, að samkvæmt janúarhefti Hagtíðinda eru útgjöld vísitölufjölskyldunnar orðin þessi: matvörur kr. 30 078.73, hiti og rafmagn 5 256.91, fatnaður 12944.30, ýmsar vörur og þjónusta 15 594.01 og húsnæði 34 700.00, og er sá liður áætlaður af mér, eða samtals kr. 98 573.45, en tímakaup Dagsbrúnarverkamannsins er nú kr. 22.74, eða miðað við árið, þegar unnið er 8 stundir á dag í 300 daga, kr. 54576.00. Verkamanninn skortir því um 44 þús. kr. til þess, að árskaupið dugi fyrir þeim lífsnauðsynjum yfir árið, sem vísitölufjölskyldunni eru þannig taldar óhjákvæmilegar. Þótt verkamaðurinn ynni tveggja stunda eftirvinnu hvern virkan dag ársins, mundi samt skorta 22 þús. kr. rúmlega, til þess að árstekjurnar dygðu fyrir útgjöldum.

Hæstv. viðskmrh. talaði í þessum samanburði sínum sérstaklega mikið um gott árferði. Hann viðurkenndi, að afkoman hefði í raun og veru verið góð árið 1958, en hann eignaði það alveg sérstaklega eða taldi það hafa átt rætur að rekja til góðs árferðis, — en hann gleymdi hins vegar alveg, held ég, að minnast á góðærið 1961. Skyldi það nú ekki vera svo, að hið góða árferði hafi átt sinn þátt í þeirri afkomu, sem hefur orðið það ár, og skyldi hið góða árferði ekki vera undirstaða að verulegu leyti undir þeim tölum, sem hæstv. viðskmrh. fór hér með? Það er annars athugandi við samanburðinn á árinu 1958 og vinstri stjórninni og svo aftur árinu 1961 — sæluástandinu nú, að það er eins og hæstv. viðskmrh. sé alveg búinn að gleyma því, að hann átti sæti í þessari vinstri stjórn, og ég hefði nú kannske rætt ofur lítið nánar um það, ef hann hefði verið hér viðstaddur, en ætla nú að sleppa því. Mér finnst, að hann ætti að hafa svolitlar taugar til þeirrar stjórnar.

Það verður sjálfsagt lengi deilt um það út af fyrir sig, hvort það hafi verið raunverulegar ástæður til gengisfellingarinnar eða ekki. Ríkisstj. heldur því fram, að það hafi verið ástæður til gengisfellingarinnar, og reynir að bera fram þau rök, sem hún telur stoða sinn málstað. Við stjórnarandstæðingar teljum hins vegar, að það hafi engin fullnægjandi rök verið fram borin fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt að stýfa krónuna svo sem gert var. Þessi rök verða borin á borð fyrir kjósendur, og þeir verða þá auðvitað að reyna að gera sér grein fyrir því, hvor hafi réttara fyrir sér. Það getur sjálfsagt orðið erfitt mat fyrir þá, vegna þess að málin eru nú flutt á ýmsa lund, og um þetta má sjálfsagt ræða fram og aftur, þannig að fullyrðing standi þar gegn fullyrðingu.

En um hitt verður ekki deilt að mínum dómi, að skilyrðum 28. gr. stjórnarskrárinnar var ekki fullnægt við útgáfu þessara brbl. Hvað sem segja má um þörf gengisfellingarinnar, verður hinu aldrei haldið fram með neinum rökum, að brýna nauðsyn hafi borið til að flytja gengisskráningarvaldið til, úr höndum löggjafans til Seðlabankans, og þá alveg sérstaklega af því að Alþingi hafði nýlega fjallað um málið og staðfest þar þann vilja sinn, að ákvörðunarvaldið um gengi skyldi vera áfram í höndum Alþingis.

Það er því alveg ómótmælanlegt og efalaust, að við útgáfu þessara brbl., í því formi, sem þau eru, hefur hent ríkisstj. mikið slys. Hins vegar er þetta mál þannig vaxið, að það er ekki svo auðvelt að fá um það úrlausn dómstóla. Ég býst nú við, þrátt fyrir þá augljósu annmarka, sem eru á setningu þessara brbl. og nú hafa ótvírætt verið leiddir í ljós, að hv. stjórnarstuðningsmenn samþ. nú þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram til staðfestingar á brbl. Ég skil það vel, að þeir eiga, úr því sem komið er, úr vöndu að ráða í því efni, og býst ekki við því, að þeir sýni nú þá karlmennsku, sem þó væri mjög lofsverð, að synja um samþykki á þessu máli, eins og það þó verðskuldaði.

En þegar stjórnin hefur fengið þetta frv. hér staðfest, hrósar hún að sjálfsögðu happi og þykist báðum fótum í jötu standa, og vissulega má það til sanns vegar færa, að hún megi þá vera sigri hrósandi, vegna þess að hvernig sem á verður litið, verður þó að skoða slíka samþykkt Alþingis á brbl. sem eins konar syndakvittun til ríkisstj. fyrir þau glöp, sem ég tel að henni hafi á orðið í sambandi við útgáfu þessara brbl. En hvað sem um það er, hvað sem þeirri syndakvittun líður, sem hæstv. ríkisstj. kann nú að fá hjá þeim meiri hl. Alþ., sem hún styðst við, þá er það svo, að sagan verður ekki snuðuð. Og ég er fyrir mitt leyti alveg sannfærður um það, að þessi brbl. verða jafnan nefnd sem sígilt dæmi um brbl., sem gefin hafi verið út í blóra við stjórnarskrána og án þess að fullnægt hafi verið þeim skilyrðum, sem sett eru í 28. gr. stjórnarskrárinnar fyrir útgáfu brbl.