28.03.1962
Efri deild: 73. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Þó að frv. það, sem hér liggur fyrir, hafi ekki að geyma langt lesmál og sé ekki stórt í sniðum að formi til, þá er hér til umr. stórt mál og alvarlegt. Ég ætla mér ekki að ræða þá hlið þessa máls, sem snýr að stjórnarskrá lýðveldisins. Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur gert þeim þætti málsins svo rækileg skil, enda skortir mig gersamlega þekkingu til þess að ræða það á fræðilegum grundvelli. En ég tel aftur á móti, að ég geti sem leikmaður vottað það, að það þarf ekki stjórnlagafræðing til þess að gera sér fulla grein fyrir þeirri hliðinni á þessu máli, sem snýr að stjórnarskrá landsins.

Það hefur verið minnzt á það í þessum umr., að ein af röksemdum hæstv. ríkisstj. fyrir því að gera þá skipulagsbreytingu, sem felst í þessu frv., að færa vald Alþingis yfir gengisskráningunni til Seðlabankans, hafi grundvallazt á því, að nýlega hafi Seðlabankinn verið gerður að sjálfstæðri stofnun með þeirri löggjöf, sem um þau efni var sett á síðasta þingi. Ég vil nú líta svo á, að Seðlabankinn hafi verið sjálfstæð stofnun að þessu leyti, þó að hann hefði yfirstjórn, sem einnig tók til yfirráða viðskiptabankans, þ.e.a.s. Landsbankans. Ég verð að líta svo á, að í raun og veru hafi ekki orðið breyting á valdsviði Seðlabankans að þessu leyti með þeirri löggjöf, sem sett var á síðasta þingi. En í grg., sem hæstv. forsrh. flutti, eftir að þessi ákvörðun hafði verið tekin, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á síðasta Alþingi voru sett lög um stofnun Seðlabanka Íslands og honum falin forsjá peninga- og gjaldeyrismála þjóðarinnar. Með hliðsjón af þessu taldi ríkisstj. nú rétt, að sú breyting yrði gerð frá því, sem verið hefur, að Seðlabankinn skrái framvegis gengi krónunnar að fengnu samþykki ríkisstj., enda er sú skipan algengust með nálægum þjóðum.“

Ég verð að segja, að það er kaldrifjað gagnvart Alþingi að beita þessari röksemdafærslu í sambandi við útgáfu brbl., þegar þess er gætt, að hin nýja löggjöf um Seðlabankann var afgreidd hér á hv. Alþingi undir lok marzmánaðar 1961 og lögin staðfest 29. marz. Ríkisstj. bar það mál fram, og meiri hl. Alþingis veitti ríkisstj. fulltingi til þess að fá þessa löggjöf setta. En í meðferð málsins, eins og sýnt hefur verið fram á, er engin tillaga um það flutt, hvorki af hæstv. ríkisstj. né stuðningsmönnum hennar, að koma slíkri breytingu inn í löggjöfina um Seðlabankann. En aðeins fjórum mánuðum eftir að þessi nýja löggjöf hefur verið staðfest af forseta Íslands, tekur ríkisstj. sig til og færir það fram sem röksemd fyrir tilfærslu á gengisskráningarvaldinu, að vegna þess að hin nýja löggjöf um Seðlabankann hafi verið sett eða með hliðsjón af því, þá telji ríkisstj. nú rétt, að þessi breyting verði gerð.

Það er mjög alvarlegt, að hæstv. ríkisstj. hefur ráðizt í það að færa gengisskráningarvaldið þannig til með brbl. Þó að svo fari, sem vel má búast við, að hún fái þessi brbl. samþykkt, þannig að stuðningsmenn hennar sjái sér ekki annað fært, úr því sem komið er, heldur en að ljá málinu fylgi, þá er aðstaða hvers þm. gersamlega ólík, ef þetta er borið saman: Að taka afstöðu til brbl., sem þegar hafa verið sett og hafa komið til framkvæmda fyrir alllöngu, þegar málið kemur til afgreiðslu á Alþingi, ellegar að taka afstöðu til frv., sem lagt er fyrir þingið og tóm gefst til að athuga og vega ástæður, áður en málið kemur til framkvæmda. Og þetta er sérstaklega alvarlegt, þegar um gengisskráningu er að ræða, vegna þess að þegar búið er að ákveða að breyta skráningu krónunnar, þá lagar sig eftir hinu nýja gengi verðlag í landinu, sem viðskiptalífið og framkvæmdir eru háðar, og það er mjög örðugt um vik að breyta genginu aftur til hækkunar eftir á, er verðlagið hefur lagað sig eftir hinu nýja gengi, jafnvel þó að menn hefðu löngun til þess.

Meginröksemd hæstv. ríkisstj. fyrir þessu máli er sú, sem rækilega hefur verið bent á hér í umr., að kauphækkanir þær, sem gerðar voru s.l. sumar, mundu að gengisskráningunni óbreyttri hafa leitt af sér of mikla peningaþenslu innanlands og valdið því innan skamms, að of mikil eftirspurn yrði eftir erlendum gjaldeyri, af því skapaðist hreinn gjaldeyrisskortur og síðar erfiðleikar fyrir atvinnuvegina og jafnvel atvinnuleysi. Þetta er sú meginröksemd, sem færð er fram fyrir þessu máli og hæstv. viðskmrh. lagði mikla áherzlu á, þegar hann fylgdi málinu úr hlaði hér í þessari hv. deild. Nú vitum við, sem höfum átt sæti hér á Alþingi um skeið, að hliðstæðar ástæður hafa oft verið fyrir hendi áður í þjóðfélaginu. Og í sambandi við ýmsa lagasetningu, sem gerð hefur verið á undanförnum árum, hefur þessari röksemd verið haldið mjög á loft. Þannig var þetta t.d. 1950, þegar ráðizt var í það að breyta þá gengi krónunnar, og vitanlega í miklu stærra mæli en þetta lá fyrir eða hefði legið fyrir á s.l. ári. Þegar gengislögin, sem sett voru 1950, voru lögð fyrir þingið, — frv. var lagt fyrir þingið, — Þá fylgdi því ýtarleg hagfræðileg grg., samin af Benjamín Eiríkssyni og Ólafi Björnssyni. Í þeirri grg. er lögð megináherzla á þetta viðhorf í þjóðfélaginu, að of mikil peningaþensla innanlands valdi hallarekstri hjá atvinnuvegunum og gjaldeyrisskorti. Hér segir t.d. í þessari grg.: „Orsök dýrtíðar árin eftir stríðið er því sú, að fjárfesting og hallarekstur annars vegar nema meiru en sparifjármyndun, afskriftum og óúthlutuðum arði hins vegar, að óbreyttu verðlagi og peningatekjum þjóðarinnar.“ Og svo er þetta mjög rækilega rökstutt og skýrt í alllöngu máli. En hæstv. viðskmrh., sem beitir sér nú fyrir þessu frv., tók mikinn þátt í afgreiðslu gengislaganna 1950, með því að hann tók sæti þá í fjhn. Nd. sem fulltrúi Alþfl. og gerði úr garði hagfræðilegt álit, sem hann lagði til grundvallar þeim rökum, sem hann og Alþf1. færðu fram í sambandi við það mál. Hann viðurkenndi í áliti sínu, að orsakir þess vanda, sem þá var við að etja, væru þær, sem Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson bentu á, og hæstv. viðskmrh. núv., sem er eins og kunnugt er hagfræðingur að menntun og dósent að nafnbót í þeirri fræðigrein, hann tók svo djúpt í árinni að skýra þetta m.a. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisbúskapurinn var rekinn með miklum halla (þ.e.a.s. undanfarin ár) og halli var í ýmsum atvinnurekstri, en fjárfestingin og hallareksturinn var eins og áður kostað með áframhaldandi lánsfjárþenslu af hálfu bankanna. Útlán þeirra jukust úr 579 millj. kr. í árslok 1946 904 millj. kr. við síðustu áramót. Af þessari stefnu hlauzt vöruskortur og verðlagshækkun, svo sem við var að búast. í kjölfar þess sigldu kaupgjaldshækkanir, sem síðan höfðu aftur í för með sér nýja hækkun á verðlagi. Jafnhliða hækkandi framleiðslukostnaði innanlands breyttust markaðshorfur erlendis fyrir útflutningsvörur landsmanna mjög til hins verra. Greiða varð á verulegan hluta af útflutningsframleiðslunni uppbætur, sem fjár var aflað til með sköttum og tollum. Um leið og framleiðslukostnaðurinn innanlands hefur hækkað og markaðsaðstæður erlendis versnað, hefur reynzt æ erfiðara að halda áfram á þessari braut. Þannig er ástandið nú í dag.“

En þrátt fyrir þetta, þótt hæstv. viðskmrh. viðurkenndi, að ástæður væru þannig, að lagfæringar væri þörf, taldi hann, eins og þá var komið málum, ekki rétt að ráðast í gengislækkun, heldur að leita annarra ráða til þess að leysa vandann. Það getur þó ekki farið á milli mála, að viðhorfið var miklu alvarlegra og málið erfiðara viðfangs 1950 heldur en s.l. sumar. En þær leiðir, sem hæstv. viðskmrh. vildi þá fara og grundvallaði þá skoðun á hagfræðilegri þekkingu, voru m.a. þær að gerbreyta skipulagi innflutningsverzlunar landsmanna og binda enda á það ástand, að hún sé mikil og örugg gróðalind. „Það þarf að skipuleggja hana þannig, að hún sjái landsmönnum fyrir sem beztri og ódýrastri erlendri vöru og dreifi henni með sem lægstum kostnaði. Slíkt verður ekki tryggt nema með því, að hið opinbera taki innflutningsverzlunina í sínar hendur að verulegu leyti á þeim sviðum, þar sem hagkvæmast er að gera innkaup í sem stærstum stíl eða kaupa þarf í sambandi við verzlunarsamninga, en hafi að öðru leyti náið eftirlit með verzluninni,“ sagði hæstv. ráðh. þá. Og hann lagði þá til, að gerðar yrðu róttækar ráðstafanir í húsnæðismálum og ýmislegt fleira, en ekki horfið að því ráði að breyta gengi krónunnar. En nú, eftir að nokkrar kauphækkanir höfðu átt sér stað s.l. sumar, er það þessi hæstv. ráðh., sem byggði álit sitt 1950 á sinni hagfræðilegu þekkingu um að leita annarra leiða til að leysa vandann heldur en gengislækkunar, sem gerist oddviti núv. hæstv. ríkisstj. í þessu máli og beitir sér fyrir því að fá það samþ. hér á hv. Alþingi.

Þá vil ég með nokkrum orðum víkja sérstaklega að því viðhorfi, sem blasti við s.l. sumar. Ég hafði engin afskipti af þeirri kaupgjaldsbaráttu, sem þá var háð, né þeim samningum, sem þá voru gerðir, að neinu leyti, og það þykja nú sjálfsagt ekki nein meðmæli eða til frægðar á þessari öld stéttabaráttunnar, að ég hef aldrei verið í þeirri aðstöðu að taka virkan þátt í verkfallsbaráttu eða að bera fram kaupkröfur. En ég, sem er búsettur úti á landi og vinn þar yfir sumarmánuðina, tel mig hafa full skilyrði til þess að meta það, þar sem ég er í nokkurri snertingu við atvinnulífið einmitt um það leyti árs, hvaða gildi það hafði fyrir ýmsa landshluta og vitanlega fyrir þjóðarbúið í heild, að verkföllin drógust ekki á langinn umfram það, sem raun varð á, heldur að síldarvertíðin hófst og þeim miklu verðmætum varð bjargað á land til hagsbóta fyrir þjóðarbúið, sem raun var á. Ég tel mig hafa full skilyrði til þess að dæma um þetta, og ég vil í þessu sambandi leggja mikla áherzlu á, hve giftusamlega það fór, að síldarvertíðinni var ekki glatað s.l. sumar vegna langvarandi verkfalla. En hæstv. viðskmrh. fór með margar tölur í ræðu sinni, og niðurstaða hans var sú, að heildarlaunatekjur landsmanna skv. áætlun Framkvæmdabankans á ári væru áætlaðar 3500 millj. kr. og að hækkun á þessum launatekjum í krónutölu vegna þeirra kauphækkana, sem áttu sér stað, mundi nema 500–550 millj. kr. samtals. Enn fremur bætti hæstv. ráðh. við þessa tölu 300 millj. sem hækkun, er stafaði af öðrum ástæðum. Orð ráðh. um þetta atriði voru nær alveg samhljóða því, sem segir um þetta í grg. ríkisstj. fyrir gengislækkuninni, sem birt var í Morgunblaðinu 14. sept. 1961. En til þess að hér fari ekkert milli mála eða hallað sé máli, þá ætla ég að leyfa mér að lesa hér fáein orð úr þeirri grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt útreikningum Framkvæmdabankans þýðir 1% launahækkun, er þannig dreifist til nær því allrar þjóðarinnar, 30–44 millj. kr. hækkun heildartekna. Launahækkanirnar hlutu því von bráðar að leiða til 500–600 millj. kr. aukningar tekna í landinu. Í viðbót við þetta kemur svo sú tekjuaukning, sem stafar frá auknum fjölda vinnandi fólks og flutningi frá verr launuðum til betur launaðra starfa, sem sífellt á sér stað. Þetta tvennt samtals er varla undir 300 millj. kr. á ári, þannig að heildartekjuaukningin er 800–900 millj. kr. á ári eða 11–12% af þjóðarframleiðslunni.“

Það var aðeins sú breyting á þessu í ræðu hæstv. ráðh., að hann fremur lækkaði þessar tölur frá því, sem sagt var í sumar, þar sem hann miðaði við 800 millj. kr. heildarhækkun.

Þegar á þetta er litið, kemur það í fyrsta lagi einkennilega fyrir sjónir að leggja áherzlu á í þessu sambandi þá hækkun, sem verður í íslenzkum krónum vegna fólksfjölgunar þjóðarinnar. Það verður að ætla, að hið unga fólk, sem kemur á vinnumarkaðinn, vinni fyrir sér í þjóðfélaginu, þannig að á bak við vinnu þess standi raunverulega auknar þjóðartekjur og að fólksfjölgun geti því aldrei orðið þjóðfélaginu til byrði í þessu sambandi, enda væri það furðuleg niðurstaða hjá þjóð, sem er í vexti, ef aukin fólksfjölgun ætti að leiða til þess, að það þyrfti að breyta skráningu krónunnar af þeim ástæðum. Svipað á sér stað, þegar litið er á þann þáttinn, sem snýr að færslu milli launaflokka, og í þessari grg. ríkisstj., þar sem kennir margra grasa, er lögð á það áherzla á öðrum stað, þar sem það þykir henta til að draga fram þá hliðina, sem þá er verið að túlka, að tekjur verkamanna og iðnaðarmanna og sjómanna hafi orðið miklar á árinu 1961 vegna mikillar vinnu, vegna eftirvinnu. En vitanlega koma þessar hækkuðu launatekjur vegna mikillar eftirvinnu fram sem auknar peningatekjur innanlands, og ef það er nú svo, að það á að fara að draga fram í sambandi við gengisfellingu þær auknu peningatekjur, sem stafa af fólksfjölgun í landinu, eða peningatekjur, sem stafa af aukinni eftirvinnu, þá finnst mér satt að segja, að skörin fari að færast upp í bekkinn og að þessi hagfræði, sem allt þetta á að byggjast á, verði torskilin a.m.k. leikmönnum, því að vitanlega standa auknar vörubirgðir og aukin framleiðsla á bak við þessa vinnu þjóðfélagsþegnanna, svo að hún út af fyrir sig skapar enga peningaþenslu innanlands. Þegar á þetta er litið, er alveg augljóst, að í þessu sambandi ber að draga frá 300 milljónirnar, sem hæstv. viðskmrh. talaði um í þessu sambandi. Þá standa eftir einungis 500 millj., sem ég mun víkja nánar að síðar.

Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum áður, að gengi íslenzkrar krónu hefur verið lækkað, og ástæður geta verið þannig, að nauðsyn beri til að gera þá ráðstöfun. Það hefur Framsfl. ævinlega viðurkennt, og hann hefur stundum staðið að því að gera þá breyt., þegar hann hefur álitið að undangenginni athugun, að þess væri þörf. En það hefur verið föst regla að undanförnu, þegar um gengislækkanir hefur verið að ræða, að láta fara fram nákvæma rannsókn á hag atvinnuveganna og fjárhagskerfi landsins, áður en til slíkrar ráðstöfunar væri gripið. Þetta hefur til þessa verið ófrávíkjanleg regla, áður en Alþingi hefur ráðizt í það að breyta ákvæðum laga um skráningu krónunnar. En nú s.l. sumar var gersamlega frá þessari reglu brugðið. Svo að segja jafnskjótt og samningar höfðu verið gerðir um nokkra kauphækkun, virðist ríkisstj. setjast niður og fara að reikna sjálf, og niðurstaðan er fengin með mjög skjótum hætti og brbl. gefin út, þau sem nú liggja hér fyrir til umr. og afgreiðslu á hv. Alþingi. (Forseti: Má ég spyrja hv. þm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni?) Já, ég á nokkuð eftir. (Forseti: Ætli það væri þá ekki rétt, að hann frestaði máli sínu? Ég er að hugsa um að gefa núna fundarhlé þangað til kl. kortér yfir ellefu — tuttugu mínútur.) Ég skal verða við því. — [Fundarhlé].

Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum, að hv. Alþingi hefur talið nauðsyn bera til að breyta gengisskráningunni, en ávallt þegar það hefur verið gert, þá hefur það grundvallazt á ýtarlegri rannsókn á hag atvinnuveganna og fjárhagskerfi þjóðarinnar og löggjöfin verið byggð á slíkri rannsókn, sem gerð hefur verið. En með gengislækkuninni s.l. sumar var gersamlega brugðið út frá þessari venju. Skömmu eftir að samningar höfðu verið gerðir um kauphækkanir, ákvað ríkisstj. með brbl. að breyta gengi krónunnar, svo sem um ræðir í þessu frv. Og þegar litið er á þennan þátt málsins, þá vaknar þessi spurning: Höfðu atvinnurekendur óskað eftir þessu við ríkisstj.? Nú er það látið í veðri vaka, að þessi gengislækkun sé gerð til þess að styrkja atvinnuvegina í landinu. Nú er það kunnara en frá þurfi að segja, að landbúnaðurinn hafði ekki óskað eftir slíkri gengislækkun, enda fer ekki nema lítill hluti af framleiðslu landbúnaðarins á erlendan markað, svo að segja má, að breyting á gengisskráningunni snerti þar af leiðandi landbúnaðinn minna en suma aðra atvinnuvegi í þjóðfélaginu. Um iðnaðinn er það kunnugt, að iðnfyrirtækin hafa yfirleitt tekið á sitt bak kostnað þann, sem leiðir af kauphækkununum s.l. sumar, og munu ekki hafa fengið að hækka verð á framleiðsluvörum sínum nema sem svarar afleiðingunni af gengislækkuninni sjálfri, sem kemur fram í hækkuðu verði á hráefni, svo að ekki er hægt með rökum að halda því fram, að þessi gengislækkun í sumar hafi verið gerð vegna iðnaðarins eða fyrir áhrif frá atvinnurekendum í þeirri atvinnugrein.

Þá kem ég að sjávarútveginum, sem hefur þá sérstöðu meðal höfuðatvinnuvega þjóðarinnar, að meginhlutinn af framleiðslu hans, sjávarútvegsins, er seldur á erlendum markaði. í þeirri grg. ríkisstj., sem ég hef í höndum og birt var í Morgunblaðinu, eins og ég gat um áðan, 14. sept. 1961, er langur kafli um hag sjávarútvegsins og þar birtur sá grundvöllur, sem hæstv. ríkisstj. lagði sjálfri sér í hendur, þegar hún var að ákveða þessa gengisbreytingu, með tilliti til sjávarútvegsins. í þessari grg, er langt mál um það, hvað sjávarútvegurinn standi verr að vígi á miðju ári 1961 heldur en á árinu 1959 og að ástæðurnar til þess séu aflabrestur, verðfall á mörgum afurðum, verðfall á mjöli og lýsi o.s.frv. Og síðan eru birtar töflur um þetta, grundvöllinn, sem gengisskráningin hin nýja átti að byggjast á, og niðurstaða þessarar töflu um sjávarútveginn er þannig, að verðlag á sjávarafurðum muni í heild verða 3.8% lægra á árinu 1961 en á árinu 1959, og það er gerð áætlun um það í þessari töflu, hverju verðmæti sjávarafurða í heild muni nema á árinu 1961, og heildarniðurstaðan samkvæmt áætlun ríkisstj. er 2431,3 millj. kr., og þar er gengið enn lengra og reiknuð út vísitala framleiðslumagnsins á árinu 1961, og sú vísitala er þannig, að 1959 er miðað við töluna 100 og 1960 verður þá vísitala framleiðslumagnsins 92.6 og 1961 96.8. M.ö.o.: ríkisstj. telur sig geta sagt það fyrir um mánaðamótin júlí og ágúst 1961, að heildarframleiðslumagn sjávarafurða verði minna á því ári en það var 1959. Og þessar tvær tölur, vísitala framleiðslumagnsins og áætlunin um heildarverðmæti sjávarafurðanna, eru hinn hagfræðilegi, tölulegi grundvöllur, sem ríkisstj. byggir gengislækkunina á. Nú liggja hins vegar staðreyndirnar fyrir. Nú er árið 1961 liðið og búið að gera upp afkomu þess árs, bæði um aflamagn sjávarafurða og heildarverðmæti aflans. Þetta kemur greinilega fram, þar sem birtar eru nýjustu tölur í skýrslu Seðlabankans, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vitnaði til og ég hef einnig hér við höndina, en tel ekki ástæðu til að fara að lesa orðrétt þá sömu tilvitnun sem hv. síðasti ræðumaður las. En staðreyndirnar eru þessar samkvæmt skýrslu Seðlabankans, að vísitala framleiðslumagnsins er ekki 96.8 eða lægri en 1959, heldur eitthvað töluvert á annað hundrað, því að árið 1961 er metaflaár í sögu Íslands og heildarverðmæti sjávaraflans hefur numið á árinu 1961 um 3000 millj. kr., miðað við hið nýja gengi, en um mánaðamótin júlí—ágúst sagði ríkisstj., þegar hún settist niður í skyndi og tók blað og fór að reikna, að það yrði 2431.3 millj., miðað við gengi 38 kr. móti dollar. Mismunurinn á áætluninni, sem ríkisstj. leggur fyrir sjálfa sig, þegar hún ákveður gengislækkunina í sumar, og staðreyndunum, niðurstöðunni, sem varð á árinu 1961, nemur 568.7 millj. kr., sé ekki tekið tillit til gengisbreytingarinnar, eða meiru en hæstv. viðskmrh. segir að kauphækkanirnar hafi aukið peningatekjur með þjóðinni. Hins vegar er munurinn 372 millj. kr., ef báðar tölurnar eru miðaðar við hið nýja gengi. M.ö.o.: þessar tölur sýna, að grundvöllurinn, sem gengislækkunin er byggð á í sumar, er tilbúinn og reynist alls ekki í samræmi við raunveruleikann.

Þetta ásamt öðru er næg sönnun þess, hve mikið glapræði það var af hæstv. ríkisstj. að ráðast í að ákveða gengislækkun með brbl. án nokkurrar rannsóknar og án þess að bíða átekta og sjá, hvernig framleiðslan gengi á síðari hluta ársins 1961. En hefði hæstv. ríkisstj. fylgt þeirri reglu, sem jafnan hefur verið gert áður, þá hefðu þessi mál legið það ljósara fyrir, t.d. þegar þing kom saman í október, að það er mjög ósennilegt, að þingmeirihlutinn hefði þá talið eðlilegt eða rétt að gera þá gengislækkun, sem hér er nú fjallað um. Þessi gengislækkun er því ekki byggð á raunverulegu eða réttu mati á aðstöðu atvinnuveganna. þessi brbl. eru sett í skyndi. Þau virðast vera sett af reiðum mönnum, sem hafi fundið, að kaupgjaldsmálin réðust á annan veg en þeir óskuðu, og hún er sett af bölsýnum mönnum, sem draga það fram í löngu máli í grg. sinni, hversu afkoma atvinnuveganna sé miklum mun erfiðari á miðju ári 1961 en 1959. Það virðist vera, að þeir menn, sem þannig höguðu störfum, hafi algerlega verið slitnir úr tengslum við atvinnulífið sjálft, heldur farið að fletta gömlum námsbókum í hagfræði og reikna tölur. Þetta mál er því næsta alvarlegt, þegar þetta kemur til ásamt öðru um ákvörðun þess og málsmeðferð alla, og stjórnarathafnir af þessu tagi verðskulda þungan áfellisdóm.

Það hefur áður komið fram á hv. Alþingi, eins og minnzt hefur verið á, sú tillaga að hafa gengisskráninguna ekki bundna í lögum, var borin fram í frv. 1950 að gengislögunum, sem þá voru sett. En þá var það, alveg eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. sýndi fram á í ræðu sinni hér í fyrradag, að Alþfl. og sérstaklega sá hæstv. ráðh., sem nú beitir sér fyrir þessu máli, gekk fram fyrir skjöldu hér á hv. Alþingi til þess að fá því ákvæði breytt og halda gengisskráningarvaldinu í höndum Alþingis. Hv. 3. þm. Norðurl. v. vitnaði í því sambandi til ummæla, sem bæði þáv. form. Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, hafði og einnig hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, um þetta efni. Ég ætla nú ekki að lengja mál mitt með því að fara að endurtaka þá tilvitnun, en ég vil aðeins árétta það, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., með því að benda á, að það var ekki aðeins á einum stað eða við eina umr. málsins, að hæstv. viðskmrh. lét þessa skoðun í ljós, heldur liggja fyrir í Alþingistíðindum ummæli, sem að þessu lúta, á fleiri stöðum. Við 3. umr. gengislaganna í Nd. sagði hæstv. viðskmrh. m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta, um þá tillögu að hafa lausa gengisskráninguna:

Hæstv. ríkisstj. hefur ekki séð ástæðu til annars en að skella skollaeyrum við mjög eindregnum óskum alþýðusamtakanna um það að fella niður 2. gr. frv. og gera nokkra breytingu á ákvæðunum um greiðslu vísitöluuppbóta. Þessi vilji alþýðusamtakanna er mjög eindreginn, og að baki honum liggur fyllsta alvara. Alþýðusamtökin hafa ekki sýnt neitt ábyrgðarleysi. Framkoma þeirra hefur alls ekki verið ögrandi í þessu máli fram til þessa. Og það hefði verið fyllsta ástæða fyrir hæstv. ríkisstj. að taka með meiri sanngirni og meiri velvilja þeim sjónarmiðum, sem fram hafa komið frá alþýðusamtökunum. Hæstv. ríkisstj. hefur hins vegar ekki gert það. Fyllsta ástæða er til að vara hæstv. ríkisstj. við afleiðingum þess, ef hún knýr málið gegnum þingið, á sama veg eins og hún knúði það gegnum 2. umr. í þessari hv. d. það er sem sagt mjög eindreginn vilji fyrir því hjá alþýðusamtökunum, að 2. gr. frv. falli niður. Það verður ekki um hana annað sagt en að í henni felist allt að því hótun í garð alþýðusamtakanna, ef þau haldi sér ekki á mottunni í kaupgjaldsmálum. Þetta hefur óheppileg áhrif, og ef hæstv. ríkisstj. hefur vilja á, að þessar ráðstafanir beri árangur, þá ætti hún að taka meira tillit til samtaka launþeganna í landinu en hún nú gerir.“

Þannig leit hæstv. núv. viðskmrh. á þessi mál 1950, þegar hann sat ekki í ráðherrastól, heldur hér á þingmannsbekk og talaði máli alþýðusamtakanna í þessu landi. En nú hefur það fallið í hans hlut að bera fram þetta mál og gerast oddviti núv. ríkisstj. í þessu máli. Það hefðu menn nú ætlað fyrir nokkrum árum, að ekki bæri honum að höndum, en það hefur nú farið svo, að „Þetta, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann.“

En í sambandi við þá tillögu um þetta efni, sem fram var borin 1950, þykir mér ástæða til að benda á það, að röksemdir hæstv. núv. viðskmrh. og flokksbræðra hans voru teknar til greina af þingmeirihlutanum, sem þá sat, og þáv. ríkisstj. á þann veg, að það var horfið frá að lögfesta þetta ákvæði og því breytt í meðförum þingsins og gengisskráningin ákveðin áfram í lögunum sjálfum. þetta er aðeins dæmi þess, hvaða gildi það hefur, að fjallað sé um slíkt mál sem gengisskráningu á Alþingi, áður en málið kemur til framkvæmda úti í fjárhagskerfi þjóðarinnar. Sá þingmeirihluti og sú ríkisstj., sem sat 1950, tók til greina þessi rök og þessar ábendingar og sýndi þá tilhliðrunarsemi að breyta ákvæðum frv. að þessu leyti. (Fjmrh.: Er nú vist, að það hafi verið til bóta?) Það var a.m.k. mat þingmeirihlutans þá, að það væri réttmætt að gera það.

Ég ætlaði raunar að segja hér ýmislegt fleira út af ræðu hæstv. viðskmrh., en hann er nú ekki staddur á þessum fundi, svo að ég ætla að stytta mál mitt nú. En ég vil enn taka það fram, sem ég drap á fyrr í þessari ræðu, að á því er mjög mikill munur fyrir þá þingmenn, sem eiga að taka afstöðu til svona máls, hvort frv. er lagt fyrir þingið og hægt er að vega allar ástæður og meta, áður en genginu er breytt og verðlagið breytist í samræmi við það, eða hitt, að verða að taka afstöðu til brbl., sem ríkisstj. hefur þegar sett fyrir löngu og bæði er erfitt fyrir þingmeirihl. að rísa gegn, úr því sem komið er, og enn fremur mjög erfitt að breyta genginu aftur, jafnvel þótt menn litu svo á, að það væri hægt vegna atvinnuveganna. Þetta ásamt öðru sýnir, hvað sú ráðstöfun, sem hæstv. ríkisstj. greip til s.l. sumar, að ákveða gengisskráninguna með brbl., er varasöm.