29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Framfærsluvísitalan hefur sem sé hækkað úr 104 stigum í 116 stig eða um 11.5%, en kaupið hefur hækkað um 10%, og verkamenn hafa þess vegna skaðazt um 1.5% síðan samningarnir voru gerðir, og jafnvel þó að meðaltalstölurnar, sem hæstv. ráðh. tók, séu teknar, þ.e.a.s. að meðalhækkunin hafi verið 111/4 eða 113/4, — ég skal ekki fullyrða, hvort hann heldur sagði, — þá sést, að meðaltalshækkunin, jafnvel þó að hún sé tekin alveg gild, er rétt um það bil sama og vísitöluhækkunin hefur orðið, þannig að samkvæmt því ættu launamenn nú almennt að standa sléttir, eins og sakirnar standa í dag. En í raun og veru ætti að vera algerlega óþarft að vera að deila um svo augljósa hluti eins og þessa, því að til eru um þetta útreikningar, sem verða ekki með nokkru móti vefengdir. Torfi Ásgeirsson hagfræðingur Framkvæmdabankans og fulltrúi Alþýðusambands Íslands í kauplagsnefnd hefur reiknað út þróunina um breytingu kaupmáttarins hjá almennum verkamönnum frá mánuði til mánaðar síðustu árin, og að þessum tölum hygg ég að allir þm. og enn þá frekar ráðh. hafi fullan aðgang, og hans útreikningar sýna m.a. þetta:

Í fyrsta lagi, að í maímánuði s.l., þegar verkalýðsfélögin hófu kauphækkunaraðgerðir sínar, var vísitala kaupmáttar 84 stig, miðað við 100 1945, og hafði lækkað um hvorki meira né minna en 15 stig, frá því að viðreisnin hófst, eða um 17%.

Í öðru lagi sýna útreikningar Torfa, að í júlímánuði, eftir að samningarnir höfðu verið gerðir, hafði kaupmátturinn ekki hækkað um 10 eða 11%, eins og kaupið hafði hækkað, heldur var vísitala kaupmáttarins þá aðeins 91.5 stig, þ.e.a.s. hafði hækkað um tæplega 9% við kaupgjaldssamningana. Ástæðan til þessa mismunar, sem strax kemur fram í næsta mánuði, eftir að samningarnir taka gildi, er auðvitað öllum mönnum augljós. Meðan almennt kaupgjald er bundið við vöruverð í landinu, t.d. kaup bóndans og verð landbúnaðarafurða, hlýtur auðvitað svo að fara, að engin kauphækkun getur orðið hrein kjarabót. Þar kemur ýmislegt til frádráttar. Og auðvitað hefur aldrei neinum skyni bornum manni dottið í hug, að 10–11% kauphækkun og jafnvel þó að hún hefði verið miklu minni, gæti komið að öllu leyti fram sem aukinn kaupmáttur. Þar við bætist, að ýmsar aðrar ráðstafanir ríkisvaldsins, aðrar en gengisfellingin, komu þarna til mjög fljótlega, eins og t.d. rýmkun á verzlunarálagningu og sitt hvað fleira. Og þessar ráðstafanir urðu til þess, að sú kaupmáttaraukning, sem svaraði algerlega til kauphækkunarinnar, kom vitanlega aldrei fram.

Í þriðja lagi sýna útreikningar Torfa, að 1. ágúst var vísitalan nær óbreytt frá því, sem hún hafði verið í júlímánuði, eftir að samningarnir voru gerðir, eða 91.2 stig.

Og í fjórða lagi sýna þessir útreikningar Torfa, að kaupmáttur tímakaups verkamanna er nú 83 stig, en var 84, þegar samningarnir voru gerðir, eða 1.2% lægri, og ætla ég þá, að ekki þurfi lengur um það að deila, að öll kauphækkunin er farin og meira til hvað almenna verkamenn áhrærir. Og það er annað athyglisvert við þessa tölu, að þessi vísitala kaupmáttarins er sú lægsta, sem hún hefur orðið í 17 ár. Kjör almennra verkamanna og verkafólks almennt hafa aldrei verið lakari í 17 ár en þau eru nú. Það er sú ömurlega staðreynd, sem blasir við eftir rúmlega tveggja ára viðreisnartímabil.

Þá kem ég að því, hvort það sé rétt, sem hæstv. ráðh. sagði og fullyrti, að aðeins mjög smávægilegar breytingar á framfærsluvísitölunni væru fram undan, og hversu Þær líkur eru miklar, sem hann reyndi að styðja hér, að eftir að 4% kauphækkunin kemur í vor, verði kaupgjald 7–9% hærra en það nú er — raunverulegt kaupgjald. Það vill nú svo til, að eins og stundum áður hefur hæstv. ráðh. svarað sínum eigin fullyrðingum sjálfur á öðrum vettvangi, og það gerðist í vetur í fyrirspurnatíma á Alþingi, að hæstv. viðskmrh. upplýsti eftir útreikningum Hagstofu Íslands, að ég tel víst, að fyrirsjáanlegt væri, að vísitalan mundi hækka á næstu mánuðum upp í 119 stig, eða um 3 stig til viðbótar frá því, sem hún er nú. Þá liggur líka í loftinu a.m.k., getur maður sagt, að niðurgreiðslur á vöruverði verði minnkaðar, og bendir afgreiðsla fjárlaga til þess, þar sem sú fjárhæð, sem ætluð er til niðurgreiðslna, mun ekki endast að öllu óbreyttu til að greiða vöruverð jafnmikið niður og verið hefur, og er ekki ólíklegt, að þar geti verið um allt að 70 millj. kr. fúlgu að ræða. En slík ráðstöfun, slík minnkun á niðurgreiðslum mundi hækka vísitöluna um 1–2 stig, sennilega frekar 2 en 1. Það er að vísu ekki alveg hægt að fullyrða um þetta, að það verði svo dregið úr þessum niðurgreiðslum, en það væri þá a.m.k. mjög fróðlegt og æskilegt að fá það fram hjá hæstv. ráðherra eða öðrum ráðherrum, að niðurgreiðslurnar verði ekki minnkaðar, en mér er kunnugt um það, að Alþýðusamband Íslands hefur lagt þetta fram sem eina af kröfum sínum við hæstv. ríkisstj., og hún hefur enn ekki fengið nein svör við því, hvort úr niðurgreiðslunum yrði dregið, heldur aðeins verið sagt, að það væri ekki fyllilega ráðið. Það væri sem sagt töluvert mikilvægt, að hæstv. ráðherra gerði grein fyrir því, ef það er ákveðið að minnka ekki niðurgreiðslurnar. Ef hann gerir það ekki, verður að ætla, að á því sé a.m.k. yfirvofandi hætta, að vísitalan hækki og framleiðslukostnaður um 1–2 stig af þessum ástæðum, og ef við bætum þessu við þau 119 stig, sem hæstv. ráðh. hefur áður upplýst, vafalaust eftir góðum heimildum, þá erum við komnir allt upp í 121 stig.

Sagan er ekki alveg öll sögð enn þá, því að það er augljóst, að 4% kauphækkun, sem ganga mundi í gildi 1. júní, mundi auðvitað leiða til einhverra verðlagshækkana. Það er óhjákvæmilegt að öllum lögum og reglum óbreyttum, þannig að ég held, að þó að engar kaupgjaldshækkanir ættu sér stað eða neinar sérstakar aðgerðir kæmu til, liggi nú í augum uppi, að vísitalan muni á þessu ári komast töluvert yfir 122 stig eða hækka um a.m.k. ein 6 stig frá því, sem hún nú er. Ég ætla, að allir sjái, að það er ekki um neina smávægilega hluti að ræða fyrir verkafólk, ef til þess er ætlazt, að það uni við það að halda sínu kaupgjaldi óbreyttu með þessari þróun. Og ég ætla líka, að það þurfi ekki mikla reiknimeistara til að sjá, að þegar svo væri komið, yrði minna en ekkert og það miklu minna en ekkert eftir af öllum launahækkunum, jafnvel þó að reiknað sé fullkomlega með þeim 4%, sem talið er að liggi á borðinu að launþegar geti fengið 1. júní, þó að hæstv. ráðh. vilji hins vegar halda því fram, að raunverulegar kaupgjaldshækkanir verði a.m.k. 7–9%.

Ég held þess vegna, að allir þessir útreikningar hæstv. ráðh. séu álíka haldgóðir og þeir, sem ég minntist á fyrr í ræðu minni, að hann hefði flíkað í hv. Nd. til stuðnings gengislækkunarfrv., en staðreyndirnar hafa nú verið að hrekja lið fyrir lið og gert allan þann málflutning hæstv. ráðh. fremur aumkunarverðan. Ég er líka þeirrar skoðunar, að það muni sannast, að verkamönnum og verkafólki yfirleitt muni þykja þær kjarabætur, sem hvergi eru til nema í ímyndunum hæstv. ráðh., frekar léttar í vasa og til framfærslu sér og fjölskyldum sínum og þess verði ekki ýkjalangt að bíða, að bæði þessi hæstv. ráðh. og aðrir, sem hafa staðið fremstir í flokki við að ræna verkafólk og alla alþýðu í landinu réttmætum og umsömdum kjarabótum síðustu árin, muni finna óþægilega fyrir því, að þessi skoðun er áreiðanlega ríkjandi hjá verkafólki í landinu.