29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara hér í ræðu minni út í almennar stjórnmálaumr., þótt að vísu hafi margt komið fram hjá hv. stjórnarandstæðingum í umr. um þetta mál, sem gæfi tilefni til þess. Bæði er nú, að margt af því, sem hér hefur verið rætt og borið á góma, var rætt í sambandi við vantraustið á ríkisstj., sem borið var fram í haust, og svo eru líka eldhúsdagsumr. fram undan nú eftir nokkra daga, þannig að ég ætla að leiða þetta hjá mér. Þar verða þessi mál sjálfsagt rædd ýtarlega. Það eina atriði, sem ég ætlaði hér að gera að umtalsefni, eru ásakanir hv. stjórnarandstæðinga og þá alveg sérstaklega hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) í þá átt, að með útgáfu þessara brbl., sem hér er verið að ræða um, hafi verið framið stjórnarskrárbrot.

Það er alkunn sagan af smalanum, sem gætti hjarðarinnar uppi á brekkubrúninni og átti m.a. að gæta þess, að ekki kæmi úlfur úr skóginum og grandaði hjörðinni. En fyrir neðan brekkuna voru vinnumennirnir að slá, og ef svo bæri við, að úlfur sæist, þá átti smalinn að hrópa á vinnumennina, og þeir áttu að hlaupa upp brekkuna og koma til hjálpar. Smalinn var, eins og menn vita, hrekkvís, og það var heitt í veðri, og hann hugsaði sem svo, að Það væri nú gaman að snúa á vinnumennina og láta þá hlaupa upp brekkuna. Þess vegna kallaði hann: úlfur. Úlfur, kallaði smalinn, og vinnumennirnir hlupu allir af stað, komu á brekkubrúnina. Þá sáu þeir, að þetta var ekkert annað en snuð, það var enginn úlfur á ferðinni. Þetta endurtók sig svo nokkrum sinnum, og vinnumennirnir hlupu alltaf upp brekkuna. Að síðustu gerðist það svo, að það kom úlfur, og þá hrópaði smalinn á ný, en þá voru vinnumennirnir orðnir uppgefnir á þessu og trúðu honum ekki lengur og hreyfðu sig ekki. Úlfurinn kom, og grandaði hjörðinni.

Þessi saga rifjast upp fyrir mér, þegar ég lít yfir það, hversu oft þessi hv. þm., 3. þm. Norðurl. v., hefur staðið hér upp á Alþingi og hrópað: Stjórnarskrárbrot. Stjórnarskrárbrot. Og ég held einmitt, að þetta sé miklu hættulegri leikur en hann gerir sér grein fyrir, því að það getur komið að því einhvern tíma, að einhver ríkisstjórn hér á landi fremji stjórnarskrárbrot, og þá getur verið, að þjóðin verði ekki á verði, af því að það væri búið að slæva svo hugsun hennar, hún væri orðin svo vön þessum hrópum, án þess að það væri mark á þeim tekið, að það gæti þess vegna komið að því, að hún sofnaði á verðinum einmitt fyrir svona atferli. Og það er í þessu, sem hin mikla hætta liggur, í því að leika sér að því að hrópa: Stjórnarskrárbrot. Stjórnarskrárbrot.

Það, sem um hefur verið deilt hér, er Það, hvort þessi brbl. brytu í bága við stjórnarskrána, og þá alveg sérstaklega, hvort það hafi borið brýna nauðsyn til þess að flytja gengisskráningarvaldið í hendur Seðlabankans eða ekki. En samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar þarf brýn nauðsyn að vera fyrir hendi, til þess að heimilt sé að gefa út brbl. Ég lít svo á, að það hafi verið alveg rétt hjá ríkisstj. að gefa út brbl., sem fólu bankastjórn Seðlabankans gengisskráningarvald í hendur, og það sé fjarstæða að álíta útgáfu þessara laga stjórnarskrárbrot. Það var af mörgum ástæðum nauðsynlegt að láta skráningu íslenzku krónunnar ekki lengur vera beint löggjafaratriði, heldur fela skráningarvaldið bankastjórn Seðlabankans í hendur. Og ástæðurnar fyrir því eru þær, sem ég ætla að greina hér á eftir.

Það er í fyrsta lagi, að Seðlabankinn er ópólitísk stofnun, og því má ætla, að ákvarðanir hans um gengisskráningu njóti almennara trausts og um þær rísi síður pólitískur ágreiningur en um gengisákvarðanir ríkisstj. eða meiri hl. Alþingis. Sjálfstæði Seðlabankans gagnvart ríkisstj. kemur m.a. fram í 4. gr. laga um Seðlabanka Íslands, þar sem segir, að sé um verulegan ágreining að ræða við ríkisstj., sé seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Þetta á auðvitað ekki síður við ágreining út af skráningu krónunnar heldur en ágreining út af öðrum efnum.

Í öðru lagi: Hlutverk Seðlabankans er samkv. lögum frá síðasta ári m.a. að annast seðlaútgáfu, efla gjaldeyrisvarasjóð landsins og fara með gengismál. Þetta hlutverk Seðlabankans gerir hann sjálfkjörinn til að ráða gengi íslenzku krónunnar, enda er gengisskráningarvaldinu fyrir komið á mjög svipaðan hátt hjá nágrannaþjóðum okkar, sem við getum tekið okkur til fyrirmyndar í þessu efni. Brbl. voru því beint og eðlilegt framhald af lagasetningunni um Seðlabanka Íslands, er lokið var á Alþingi 24. marz 1961. En nú hafa hv. stjórnarandstæðingar spurt: Því var Seðlabankanum ekki veitt vald yfir gengisskráningunni strax með seðlabankalögunum frá 24. marz 1961, úr því að ríkisstj. var þeirrar skoðunar, að bankinn ætti að fá þetta vald í hendur og lagabreytingin hefði gert hann að nægilega sjálfstæðri stofnun til þess að geta gegnt þessu hlutverki? í sjálfu sér hefði þetta á margan hátt verið æskilegt. En ástæðuna til þess, að ríkisstj. lét ekki gera þetta, tel ég augljósa. Síðari hluta vetrar 1961 voru í uppsiglingu mjög alvarlegar kjaradeilur, og vinnustöðvanir voru yfirvofandi. Ef ríkisstj. hefði, meðan þetta ástand ríkti, flutt gengisskráningarvaldið yfir í hendur seðlabankastjórnar, hefði stjórnarandstaðan tvímælalaust gert sitt ýtrasta til að mistúlka þessa ráðstöfun. Stjórnarandstaðan hefði haldið því fram, að hér væri verið að ögra verkalýðssamtökunum eða hóta þeim með yfirvofandi gengislækkun, ef kauphækkanir væru knúðar fram. Á þessu stigi málsins hefði því tilflutningur gengisskráningarvaldsins aðeins orðið til þess að magna kjaradeilurnar og hleypa í þær meiri hörku, þegar þörf var á að gæta hófs og stillingar.

Þriðja ástæðan til þess, að nauðsynlegt var að koma gengisskráningarvaldinu úr höndum Alþingis, var sú, að reynslan hefur sýnt, að það tekur mjög langan tíma á Alþingi að breyta genginu með löggjöf. Mig minnir, að það hafi tekið um 3 vikur 1960, Þegar gengislækkunin var framkvæmd þá í febrúarmánuði. Þessi langi tími skapar margvísleg óþægindi, m.a. verður að stöðva alla tollafgreiðslu á meðan, og slíkt ástand skapar ýmsum aðilum aðstöðu til brasks og gróðabralls. Nauðsynlegar gengisbreytingar verður helzt að gera fyrirvaralaust, og því var nauðsyn á að gera hér fyrirkomulagsbreytingu.

Ég tel mig hér hafa sýnt fram á, að það hafi borið nauðsyn til að flytja valdið yfir gengisskráningunni í hendur Seðlabankans. Þegar svo var komið á s.l. sumri, að kjaradeilurnar voru leystar með meiri kauphækkunum en efnahagur þjóðarinnar gat með góðu móti risið undir og þörf var á gagnráðstöfunum, sem ríkisstj. taldi að mjög kæmu til greina í formi gengislækkunar, þá var fyrir hendi brýn nauðsyn á því að veita Seðlabankanum fulla heimild með brbl. til að ákveða gengi íslenzku krónunnar. Útgáfa brbl. var því í fyllsta samræmi við 28. gr. stjórnarskrárinnar.

Þegar menn þurfa að gera sér grein fyrir því, hvort brýn nauðsyn sé fyrir hendi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar eða ekki, verða menn jafnframt að glöggva sig á því, hver hafi valdið til þess að meta, hve mikil nauðsynin sé, í hvers höndum Það vald sé. Þetta matsvald hefur alltaf verið á hendi þeirrar ríkisstj. eða þess ráðh., er brbl. hefur gefið út. Það skiptir því engu máli, hvaða skoðanir hv. 3. þm. Norðurl. v. eða aðrir stjórnarandstæðingar hafa á því, hverja nauðsyn hafi borið til að flytja gengisskráningarvaldið til. Það eru skoðanir ríkisstj., sem gilda í þessum efnum, enda hefur alltaf verið litið þannig á. Það er út af fyrir sig ekki Alþingi, sem gefur út brbl., það þarf ekki að ræða það frekar, enda hefur alltaf verið litið þannig á, þegar áður hafa verið gefin út brbl. í þessu landi, að það væru skoðanir viðkomandi ráðh. og ríkisstj., sem giltu.

Þetta verður m.a. augljóst af því, að ýmislegt, sem ríkisstj. gerir og telur mikla nauðsyn bera til að gera, það telja stjórnarandstæðingar alveg nauðsynjalaust og jafnvel skaðlegt. Og í sjálfu sér er þessi skoðanamunur ákaflega eðlilegur í lýðræðislegu þjóðfélagi. Skortur á brýnni nauðsyn og þar með brot á stjórnarskrárákvæði væri því aðeins fyrir hendi, að hægt væri að sanna, að það væri raunverulega ekki skoðun ríkisstj., að brýna nauðsyn hefði borið til útgáfu þessara brbl. En fyrir slíkri sönnun er enginn grundvöllur í þessu máli.

Hv. 3. Þm. Norðurl. v. viðurkenndi í sinni ræðu í gær, held ég, að það mætti að vísu finna ýmis dæmi þess, að þegar brbl. hefðu verið gefin út, hefði ekki verið gengið eins ríkt eftir því og skyldi, að brýn nauðsyn væri fyrir hendi um útgáfu þeirra laga. Þó að slík tilfelli væru til, taldi hann samt, að þetta tilfelli hér um gengisskráningarvaldið, sem fært væri yfir í Seðlabankann með brbl., væri algert einsdæmi, þar væri ekki hægt að finna nokkur rök fyrir nokkurri nauðsyn. Þess vegna væru þessi brbl., sem við erum að ræða, algert einsdæmi. Það væri ekkert, sem hægt væri að bera saman við Þetta. Ég skal að vísu játa, að ég hef lítið fylgzt með og þekki lítið til útgáfu brbl. almennt í genum árin, svo að ég er fákunnandi í þessum efnum að leita eitthvað uppi til samanburðar. Þó hef ég athugað brbl., sem gefin voru út á síðasta valdatímabili Framsfl., og ég hef rekizt hér t.d. á brbl., sem voru gefin út 26. sept. 1957 af þáv. hæstv. félmrh., Hannibal Valdimarssyni. Að vísu er hann, eins og allir vita, ekki framsóknarmaður, en hann var ráðherra í þeirri ríkisstj., og ég tel í sjálfu sér, að öll ríkisstjórnin beri ábyrgð á útgáfu brbl., a.m.k. þá ábyrgð, að það sé ekki um stjórnarskrárbrot að ræða. í þessum brbl., sem fjalla um útsvör, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Félagsmálaráðherra hefur tjáð mér, að hann telji, að upphæð álagðra útsvara hafi af ýmsum ástæðum hækkað svo mjög á síðari árum, að brýna nauðsyn beri til að breyta ákvæði 2. málsl. 26. gr. gildandi útsvarslaga þannig, að yfirskattanefnd og ríkisskattanefnd verði heimilað að breyta útsvari, sem kært er yfir, ef Það reynist a, m. k. 3% of hátt eða lágt, í stað 10%, eins og nú er í lögum.

Fellst ég því á, með skírskotun til 28. gr. stjórnarskrárinnar, að gefa út svofelld brbl.: 1. gr.: í stað „10%“ í 2. málsl. 26. gr. komi: 3%.“

Nú var það þannig með þessa lagabreytingu, að ég veit ekki betur en þetta ákvæði um, að breytingin þyrfti að ná 10% til þess að ríkisskattanefnd væri heimilt að raska útsvarsálagningu, hafi staðið í lögum mjög langan tíma, hygg ég vera, jafnvel áratugi, og ég varð ekki var við, að um það ákvæði yfirleitt ríkti neinn ágreiningur. Þarna er samt talin vera fyrir hendi að mati þessa ráðh. og þeirrar ríkisstj., sem stendur að baki þessara brbl., brýn nauðsyn til að breyta þessu. Nú er þetta út af fyrir sig lagaákvæði, sem hefur ekki nema tiltölulega smávægilega þýðingu. Og einmitt síðast í september, eða hálfum mánuði áður en þing kemur saman, telur þáv. ríkisstj. og þessi ráðh., að það hafi borið brýna nauðsyn til að gefa út þessi brbl. Ég er út af fyrir sig alls ekki að vefengja það, að sú brýna nauðsyn hafi verið fyrir hendi, en mér finnst í raun og veru ekki hægt að bjóða nokkrum heilvita manni upp á þá röksemdafærslu að álíta t.d., að nauðsynin fyrir útgáfu brbl. hafi í þessu tilfelli frá 1957 verið meiri en nauðsynin til að flytja gengisskráningarvaldið yfir í hendur Seðlabankans. Reyndar má segja ósköp svipað um önnur brbl., sem voru gefin út af þessum sama ráðh. 1956, þegar fjölgað var í húsnæðismálastjórn um tvo eða þrjá menn og það nokkrum dögum áður en þing kom saman. Til þess var talið bera brýna nauðsyn, og ég tel það þó á engan hátt sambærilegt við þá nauðsyn, sem var til þess að gefa út þessi brbl., sem hér er verið að deila um.

Það væri í raun og veru ákaflega alvarlegt mál, ef það væri rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. og aðrir stjórnarandstæðingar halda fram, að þessi brbl. og þar með sú gengisákvörðun, sem byggist á þessum brbl., væru brot á stjórnarskránni og þar með væri sú gengisákvörðun, sem byggist á brbl., lögleysa. Það hlýtur þá að leiða af því að þeirra áliti, að þá ætti rétt gengi í dag sjálfsagt að vera gamla gengið, 38 kr. á dollara, en ekki 43 kr., og það hlýtur þá að þýða það, að allir innflytjendur og allir, sem hafa þurft að kaupa gjaldeyri, hafi keypt dollarann fyrir 5 kr. hærra verð en þeim hafi borið og annan erlendan gjaldeyri að sama skapi dýrar eins og þessu nemur. Ef þessir hv. stjórnarandstæðingar hefðu einhverja trú á því, sem þeir sjálfir eru að bera fram, skyldi maður ætla, að það hefði verið alveg sjálfsögð leið fyrir þá að bera þetta mál undir dómstólana. Ég verð að segja, að oft hefur verið farið í mál út af minna en því, hvort öll þjóðin kaupir gjaldeyrinn 12–13% dýrar en hún á rétt á að lögum. Og ég tel einmitt það, að allur þessi tími — eða frá því í ágúst — skuli hafa liðið, án þess að þessir stjórnarandstæðingar eða nokkur úr þeirra flokki skuli hafa hafizt handa um það að fá þessari gengisákvörðun og þessum lögum hnekkt með dómi, það sýni í raun og veru, að þeir hafa enga trú á því sjálfir, sem þeir eru að reyna að telja öðrum trú um.

Í þessu máli hafa kommúnistar alveg haft samstöðu með Framsfl. um það að gagnrýna þessi brbl. á grundvelli þess, að þau brytu í bága við stjórnarskrána. Þeir hafa að vísu ekki hér við þessar umr. haft um þetta mörg orð sjálfir, heldur hafa þeir vitnað til þess, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur sagt um þessi mál. Þeir hafa talið hann gera því svo fullnægjandi og rækileg skil, og þeir hafa hrósað honum í Þjóðviljanum fyrir að hafa sannað það svart á hvítu, að ríkisstj. hafi hér orðið sek um stjórnarskrárbrot. Ég vil aðeins af þessu tilefni minna á, að kommúnistar höfðu ekki svona mikið álit á þessum hv. Þm. árið 1956. Þá gat að líta í Þjóðviljanum greinar, þar sem þeir báru þennan hv. þm. þeim sökum, — að vísu tel ég þær sakargiftir rangar, en þeir báru hann þeim sökum, að hann hefði með höndum sýnikennslu í lagarefjum. Þeir báru hann þeim sökum, að hann stæði á bak við kosningasvindl og alvarlegt stjórnarskrárbrot. Það má þess vegna segja, að aumlega sé nú komið fyrir kommúnistum, þegar þeir verða að leita stuðnings í málflutningi slíks manns til þess að reyna að klekkja á ríkisstj. og sannfæra almenning um það, að hún hafi staðið fyrir því að brjóta stjórnarskrá landsins.