29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (972)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skil það mætavel, að hv. 9. landsk. þm. (JÞ) hafi runnið blóðið til skyldunnar. Hann hefur kunnað því illa að sitja hér undir ræðum stjórnarandstæðinga og hlýða á þau rök, sem þeir hafa flutt fram, án þess að reynt væri nokkuð að bera blak af ríkisstj. og færa fram nokkur gagnrök, og hann hefur kunnað því illa, að hæstv. ráðh. skyldu sitja þegjandi undir þeim ræðum og að þeir skyldu enga tilraun gera til þess að sanna sitt mál og sýna fram á þá nauðsyn, sem hefði borið til að gefa út brbl. um flutning gengisskráningarvaldsins í hendur Seðlabankans með þeim hætti, sem gert var. Og hann hefur því tekið að sér þann erindisrekstur, annaðhvort beðinn eða óbeðinn, að reyna að gerast hér málflytjandi fyrir hæstv. ríkisstj. og þá hæstv. ráðh., sem hér sitja. Þetta tel ég mjög virðingarverða þjónustulund hjá hv. 9.- landsk. þm. Hitt er annað mál, að ég geri ráð fyrir því, að ef einhver hæstv. ráðherra hefði lagt í það að koma hér upp í ræðustólinn og færa fram málsbætur fyrir sínar gerðir, þá hefði sá vopnaburður að ýmsu leyti orðið ólíkt fimlegri en hjá hv. 9. landsk. þm.

Hv. 9. landsk. lét þess getið, að ég hefði látið mér frekar títt um það á þingi að tala um stjórnarskrárbrot. Það má vel vera, að ég hafi stundum minnzt á það, að einhver lagaákvæði væru þess eðlis, að mér sýndust þau höggva nærri stjórnarskránni. Ef ég er þeirrar skoðunar, að svo sé, þá tel ég það skyldu mína, þá tel ég það mína þingmannsskyldu að benda á það. Hitt er svo annað mál, hvort menn fallast á það eða ekki. En til þess höfum við unnið drengskaparheit að stjórnarskránni, að við eigum að virða hana og fara eftir henni og ekki brjóta hana vísvitandi.

En hv. þm. hélt því fram, að það gæti bara verið hættulegt að vera að benda á, að það væri brotið í bága við stjórnarskrána, því að þá yrði það til þess, að þegar virkilega væri brotið í bága við hana, tækju menn ekki eftir því, og sagði dæmisögu af því, að smali einhver hefði kallað: Úlfur, úlfur, oft, án þess að nokkur úlfur hefði verið á ferðinni, og þá hefðu menn að vísu látið blekkjast, en svo hefði hann einu sinni kallað: Úlfur, úlfur, og þá hefðu menn ekkert tekið eftir því, en þá hefði hann þó farið rétt með, því að úlfurinn hefði verið að koma. Ég fullyrði það, að hvað sem hér hefur áður verið sagt um stjórnarskrárbrot, þá er þó nú úlfurinn á ferðinni og hér er um stjórnarskrárbrot að ræða. En það má vel vera, að það fari fyrir hv. stjórnarstuðningsmönnum eins og í sögunni, að þeir láti nú vera að taka tillit til þess og fari að eins og í þeirri sögu, sem hann var að segja.

Og svo lagði hv. þm. út á þá grýttu og erfiðu braut að ætla að reyna að sanna, að það hefði borið brýna nauðsyn til þess að gefa brbl. út, þess efnis, sem þau voru út gefin. En ekki reyndist sú ganga honum auðveld. Hann lagði nú ekki meir á brattann en það til að byrja með, að hann sagði, að hann teldi, að það hefði verið rétt af ríkisstj. að gefa brbl. út eins og þau voru úr garði gerð. Ekki gat hann þó í upphafi fengið sig til þess að segja, að það hefði verið brýn nauðsyn til að taka gengisskráningarvaldið af löggjafanum með brbl. og færa það í hendur Seðlabankanum. En hann sagði, að það hefði verið rétt. Og í framhaldi af því fór hann út í þá röksemdafærslu, sem æ og æ hefur verið endurtekin í þessum umr. af hálfu ríkisstj., að það væri eðlilegt, að gengisskráningarvaldið væri hjá þjóðbankanum. Það væri þar betur komið en í höndum löggjafans og Alþingis. En það er einmitt þessi röksemdafærsla, sem út af fyrir sig kemur þessu máli alls ekkert við. Það er ekki deilt um það út af fyrir sig í þessu máli, hvort gengisskráningarvaldið sé betur komið í höndum Alþingis eða í höndum Seðlabankans, heldur hitt og um það eitt í sambandi við stjórnarskrárbrot, hvort það hafi verið heimilt með brbl. að færa gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis og í hendur Seðlabankanum. Spurningin er um það eitt, hvort það hafi brýna nauðsyn borið til að færa gengisskráningarvaldið þannig til, hvort sú nauðsyn hafi verið svo brýn, að það hafi ekki mátt bíða þess, að Alþingi kæmi saman og fjallaði um það mál. Spurningin er um það, hvort ríkisstj. hefði ekki, ef hún taldi óhjákvæmilega nauðsyn að breyta genginu, getað breytt því með brbl. En ef ríkisstj. taldi óhjákvæmilega nauðsyn bera til að breyta genginu og sú nauðsyn raunverulega var fyrir hendi, þá er það út af fyrir sig ekki vefengt, að hún hefði getað gert þá ákvörðun með brbl. Hitt er aftur á móti vefengt, að hún hafi getað, eins og hún gerði, fært gengisskráningarvaldið úr höndum löggjafans, Þar með bráðabirgðalöggjafans, og þar með firrt sig sjálfa möguleika til þess að hafa áhrif á gengisbreytingar, því að fræðilega séð hafði hún, um leið og hún flutti valdið yfir í hendur Seðlabankans, firrt sjálfa sig möguleikanum til þess að breyta genginu í það horf, sem hún taldi nauðsynlegt vera. Um leið og hún afsalaði sér þar með valdinu, kippti hún í rauninni stoðunum undan þeirri skoðun sinni, að óhjákvæmilega nauðsyn bæri til þess að gera gengisbreytingu.

Allt tal og röksemdafærsla hv. þm um það, að gengisskráningarvaldinu væri betur fyrir komið í höndum Seðlabankans en Alþingis, var, eins og ég áðan sagði, ástæðulaust í þessu sambandi, af því að það á þar ekki heima. Um það geta menn deilt, og það hef ég skýrt tekið fram í þeim ræðum, sem ég hef haldið um þetta, að um það atriði gæti út af fyrir sig verið skiptar skoðanir, hvort gengisskráningarvaldið ætti að vera í höndum Þjóðbankans eða hjá löggjafanum. Og um það hafa verið skiptar skoðanir, eins og ég drap á í minni ræðu og sýndi fram á, að hæstv. viðskmrh. var t.d. 1950 algerlega annarrar skoðunar um það efni en hann virðist nú vera, þar sem hann hélt því mjög eindregið fram og lét mörg og stór orð um það falla, að gengisskráningarvaldið ætti að vera í höndum löggjafans, en það væri hættulegt og í því gæti falizt ögrun gagnvart verkalýðsstéttunum að færa gengisskráningarvaldið í hendur þjóðbankanum. Um það geta vissulega verið skiptar skoðanir. En hitt hef ég sagt, að ef gengisskráningarvaldið ætti á annað borð að vera hjá Þjóðbankanum, þá þyrfti sá þjóðbanki að hafa sjálfstæðari stöðu en Seðlabanki Íslands nú hefur gagnvart ríkisstj. En það var vitaskuld algert öfugmæli hjá hv. 9. landsk., þegar hann var að reyna af lítilli getu að sýna fram á það, að í 4. gr. seðlabankalaganna fælist eitthvert óskaplegt sjálfstæði fyrir Seðlabanka Íslands. Það er einmitt 4. gr. seðlabankalaganna, sem gerir það að verkum, að Seðlabanki Íslands er í reyndinni ekkert annað en afgreiðsluskrifstofa fyrir ríkisstj., og það er sú staða seðlabanka, sem ég álít að sé stórhættuleg. Ég veit, að menn hafa líka á þessu atriði mismunandi skoðanir. Það eru skoðanir sumra manna, að seðlabankar eða þjóðbankar eigi ekki að vera sjálfstæðir og eigi ekki að hafa neina sjálfstæða stefnu, heldur eigi þeir í einu og öllu að lúta þeirri ríkisstj., sem er á hverjum tíma, en það er skoðun, sem ég er algerlega andvígur. Ég álít, að það sé stórkostlega hættulegt, og ég held, að það sé stórkostlega hættulegt, ef gengisskráningarvaldið á svo líka að vera hjá þeirri stofnun, sem þannig er í einu og öllu undirseld vilja hæstv. ríkisstj. Þá álít ég, að hið pólitíska vald, sem er komið í hendur ríkisstj., sé allt of sterkt og allt of hættulegt, og þá álít ég, að vissulega geti farið að rætast þeir spádómar, sem formaður Alþfl., Stefán Jóh. Stefánsson, svo spámannlega sagði fyrir 1950 í umr. um þessi mál þá og ég minntist lítillega á í ræðu minni síðast.

Hv. 9. landsk. gat sem sagt ekki, þrátt fyrir góðan vilja, sýnt fram á, að það hefði nokkra nauðsyn borið til að flytja valdið úr höndum Alþingis yfir í hendur Seðlabankans. Öll hans rök, ef rök skyldi kalla, beindust að því að reyna að sýna fram á, að það væri heppilegra frá þjóðfélagslegu sjónarmiði, að gengisskráningarvaldið væri í höndum Seðlabankans. En hann gat ekki sýnt fram á neina nauðsyn þess að ganga fram hjá Alþingi í þessu efni og meina því í raun og veru að taka ákvörðun um, hvort það vildi afsala sér því valdi í þessum efnum, sem það hefur farið með um mörg undanfarin ár.

Hv. þm. sagði, að það hefði af mörgum ástæðum verið nauðsynlegt að taka gengisskráningarvaldið af löggjafanum. Hvaða ástæður liggja því til grundvallar? Hvaða ástæður vill þessi hv. þm. færa fram fyrir því, að það hefði verið nauðsynlegt að taka þetta vald úr höndum Alþingis sjálfs? Ég verð að segja, að það er ákaflega einkennilegt að heyra þessu haldið fram, að það hafi verið nauðsynlegt að taka þetta vald úr höndum Alþingis án atbeina þess sjálfs.

Ég hefði satt að segja haldið, að staða Alþingis væri þannig í hugum a.m.k. alþingismanna, að það ætti sjálft að segja til um það, en ekki aðrir, hvaða vald það færi með og hvaða valdi það afsalaði sér í hendur annarra manna og annarra stofnana. Og ef það lágu svo margar og mikilvægar ástæður til þess að taka gengisskráningarvaldið af löggjafanum, sem hann hefur farið með um mörg undanfarin ár, án þess að það sé hægt að benda á nokkra sérstaka misfellu í meðferð þess valds hjá löggjafanum, að ég ætla, hvers vegna var þá ekki horfið að því ráði, þegar síðasta Alþingi fjallaði um seðlabankalöggjöfina, sem var heildarlöggjöf um seðlabanka og var sögð af stjórninni og stjórnarstuðningsmönnum alveg sérstaklega rækilega undirbúin löggjöf? Það var alveg fullt tilefni til þess að kveða skýrt á um þetta efni, vegna þess að í seðlabankalögunum var tekið fram, hver afskipti Seðlabankinn skyldi hafa af gengismálum, og ef ríkisstj. var þeirrar skoðunar þá, fjórum mánuðum áður en hún setti gengisskráningarlögin, eins og hv. 9. landsk. gaf í skyn, að ríkisstj. hefði í raun og veru þá verið þeirrar skoðunar, að gengisskráningarvaldið ætti að taka úr höndum Alþingis, hvers vegna lét hún Þá ekki skoðun sína koma fram í sambandi við meðferð þess máls? Ég verð að segja það, að ég get ekki öðruvísi litið á en að þetta séu hinar furðulegustu getsakir í garð hæstv. ríkisstj., að hún hafi þá verið þeirrar skoðunar, að gengisskráningarvaldið ætti að flytja úr höndum Alþingis, eins og hv. þm. gaf í skyn, og að hún hafi í raun og veru þá þegar ætlað sér að gera þetta með brbl. Það er alveg furðulegt að bera ríkisstj. þeim sökum, að hún hafi leynt Alþingi þá þeim vilja sínum. En það var vissulega engin ástæða til þess að ætla þá, að ríkisstj. væri þeirrar skoðunar, að hún ætti að flytja þetta vald úr höndum Alþingis, því að það er skýrum stöfum skráð í aths. við 18. gr. frv. að seðlabankalögunum, sem hv. 9. landsk. getur flett upp á, að það skuli óbreytt skipun standa í þessum efnum, sem verið hafði að undanförnu. Og það var vissulega ekki ástæða til að tortryggja, að það væri meining ríkisstj., sérstaklega þegar menn höfðu í huga skoðanir og afstöðu hæstv. viðskmrh., sem jafnframt er bankamálaráðherra, sem hann hafði látið svo skýrt koma fram árið 1950, eins og drepið hefur verið á í umr. hér fyrr. Og það var allra sízt ástæða einmitt eftir þær umr. og þær yfirlýsingar, sem þá voru fluttar fram af hálfu formanns Alþfl., og það, sem þá var lýst yfir um stefnu Alþfl. í þeim málum, — það var sízt af öllu ástæða til þess að tortryggja Alþfl. í þeim efnum þær tylliástæður, sem hv. þm. reyndi að bera fram fyrir því, að ríkisstj. hefði ekki treyst sér til þess að láta hug sinn allan koma fram í sambandi við meðferð seðlabankamálsins á síðasta þingi, voru vægast sagt mjög óviðeigandi í garð hæstv. ríkisstj. og sýndu reyndar ekki ýkjamikið traust hv. þm. á hæstv. ríkisstj. Hann taldi, að hún hefði látið slíkt undir höfuð leggjast vegna þess, að hún hefði verið hrædd um, að stjórnarandstaðan mundi misnota það, ef hún færi að láta vilja sinn í þessu efni koma fram í sambandi við meðferð seðlabankamálsins, — stjórnarandstaðan mundi nota til að ögra, eins og hv. 9. landsk. þm. orðaði það. Ég vil segja, að það er engu líkara en hann hafi lesið mjög nákvæmlega upp á síðkastið ræður formanns Alþfl. 1950 um gengisbreytingarlögin, sem þá voru til umr., því að þá var það einmitt skoðun formanns Alþfl., að það ákvæði, sem þá var í því frv. um, að gengisskráningarvaldið skyldi flutt til Landsbankans, en síðan var svo reyndar niður fellt úr því frv. — það var einmitt skoðun form. Alþfl. og reyndar líka hæstv. viðskmrh., að það ákvæði yrði skoðað sem ögrun gagnvart verkalýðnum og launastéttunum, sem hótun um það, að gengisskráningu og gengisbreytingu yrði veifað og til hennar yrði gripið, ef launastéttirnar reyndu að rétta hlut sinn.

Ég tel þetta í sjálfu sér ekki svaravert, að hæstv. ríkisstj. hafi haft það í huga, þrátt fyrir yfirlýsingar bæði beinar og óbeinar, þegar seðlabankafrv. var hér til umr., að taka gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis og flytja það yfir til Seðlabankans. En ef hv. þm. veit svona vel um hugarfar hæstv. ráðh., þá verð ég að segja, að mér þætti æskilegra, að þeir samt sem áður kæmu hér í ræðustólinn á eftir og staðfestu, að hv. þm. hefði hér farið með rétt mál, það hefði í raun og veru þrátt fyrir andstæðar yfirlýsingar verið þeirra ætlun á þeim tíma, sem seðlabankalögin voru hér tekin til meðferðar á s.l. vori, að færa gengisskráningarvaldið til. Ef þeir ekki gera það, ef hæstv. ráðh. vilja ekki koma hér í ræðustólinn og staðfesta mál hv. þm. um, að það hafi verið ætlun ríkisstj. s.l. vor að flytja gengisskráningarvaldið til, þá verð ég að líta svo á, að það sé marklaust hjal, sem hv. þm. var með um þetta efni.

Hv. þm. talaði um það æ ofan í æ, að það hefði verið nauðsynlegt að gera fyrirkomulagsbreytingu. Látum það vera. En þá fyrirkomulagsbreytingu átti að gera með eðlilegum hætti. Það átti að bera frv. um það efni upp á Alþingi og láta Alþingi og löggjafann sjálfan segja til um það, hvort hann vildi afsala sér þessu valdi eða ekki. Það var hlægileg firra og fjarstæða að hlusta á einn hv. þm. koma fram hér og segja, að það hefði ekki verið hægt að gera það, af því að það mundi hafa tekið svo langan tíma að fjalla um málið á Alþingi. Ég verð að segja, að svona ummæli lýsa mjög einkennilegum hugsunarhætti gagnvart þinglegum og lýðræðislegum vinnubrögðum, svo að ekki sé meira sagt. Og það var vissulega því miður til þess að undirstrika þann viðsjárverða hugsunarhátt, sem hv. þm. hélt áfram og fór að tala um það, að þegar menn væru að gera sér grein fyrir því, hvort nauðsyn hefði borið til útgáfu þessara brbl. eða ekki, þá yrðu menn að átta sig á því, að það væri ríkisstj., sem hefði valdið til að meta það, og hann sagði, hv. þm.: Það eru skoðanir ríkisstjórnarinnar, sem skipta hér máli. — það er alveg sama, hvað stjórnarandstaðan segir um þetta. Það eru skoðanir ríkisstj., sem ráða. Ég verð að segja, að mér finnst þessi hugsunarháttur næsta furðulegur. Það er kannske að hans dómi, þessa hv. þm., alveg sama, hve andkannalegan skilning og einkennilegar réttarhugmyndir einhver ráðh, hefði eða ríkisstj., það ætti alltaf að vera rétt það, sem hann segði um þetta efni. Þetta er auðvitað skilningur, sem er fjarri lagi. Auðvitað metur ríkisstj. það fyrst, þegar hún grípur til brbl., hvort brýna nauðsyn beri til þeirra, þó að það sé raunar annar aðili, sem eigi að gera það samkv. stjórnarskránni, en sjaldan er nefndur í þessu sambandi, en það er forseti Íslands, því að í hans nafni eru þó brbl. gefin út. En eins og ég sagði í minni frumræðu, hefur þeim stjórnarháttum verið fylgt hér, að forseti hefur orðið við tilmælum ríkisstj. um hvað eina. Þess vegna tók ég það skýrt fram, að ég beindi ekki neinni gagnrýni að forseta Íslands í þessu sambandi, en benti hins vegar á þá nauðsyn, sem á því væri, að hann hefði sér við hlið einhvern aðila, einhverja stofnun, sem hann gæti leitað til og fengið sérfræðilegt álit í ýmsum vafasömum tilfellum, þ. á m. í því tilfelli, þegar spurning væri um það, hvort hann ætti að ljá atbeina sinn til útgáfu brbl. En hvað sem um það er, hvort sem það er forseti eða ríkisstj., sem maður talar um í þessu sambandi, þá er það sá aðili, sem fyrst á að meta, hvort brýna nauðsyn beri til. En það er vissulega ekkert endanlegt mat, sem þar er um að ræða, því að bæði er það svo, að samkv. okkar stjórnskipunarháttum er almennt talið, að það megi bera undir dómstóla, hvort lög séu í samræmi við stjórnarskrána eða ekki. En auk þess er það alveg sérstaklega skýrt tekið fram í 28. gr. stjórnarskrárinnar, að það á að leggja brbl. hverju sinni fyrir næsta Alþingi á eftir, og þá er það auðvitað Alþingi, sem hefur endanlegt mat um það, hvort brýna nauðsyn hafi borið til útgáfu brbl. eða ekki. Og svo kemur hv. 9. landsk. þm. og segir, að það séu skoðanir ríkisstj., sem hér skipti einar máli. Nei, því fer fjarri. Það er Alþingi, sem er hér æðri aðili en ríkisstj. og hefur um þetta efni síðasta orðið.

Hitt var svo leiðinlegur misskilningur hjá hv. 9. landsk. þm., því að hann er lögfræðingur, og sá misskilningur kom reyndar að nokkru leyti fram í ummælum hæstv. bankamálaráðherra hér, þar sem hann var að tala um, að nú væri málið lagt í hendur Alþingis og það gæti gert í því það, sem því sýndist, rétt eins og það væri svo, að ef Alþingi synjaði nú þessum brbl. samþykkis, þá væri allt, sem gert hefði verið, ógert og allt væri aftur komið í sama horf. Það er auðvitað mikill misskilningur. Þó að Alþingi jafnvel felldi þessi brbl., þá veit auðvitað hv. 9. landsk. þm., að þessi brbl. mundu vera talin gilda þann tíma, sem þau hafa þó staðið að formi til í gildi, og að þær ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið samkv. þeim, mundu ekki verða ógildar af þeim sökum, þó að Alþingi annaðhvort felldi lögin eða léti undir höfuð leggjast að samþykkja þau.

Af sama toga var misskilningur hv. 9. landsk. þm. runninn um það, að það sæju nú reyndar allir, að þetta skraf okkar stjórnarandstæðinga um þetta efni væri ekki alvarlega takandi, því að vitaskuld mundi hafa verið leitað til dómstóla og fenginn dómsúrskurður um þetta efni, ef við hefðum virkilega trú á því, að þessu skilyrði fyrir útgáfu brbl. hefði ekki verið fullnægt. Það hefur enginn dregið í efa, að ákvörðun bankastjórnar Seðlabankans um gengið, eftir að þessi brbl. voru sett, væri formleg og lögmæt í alla staði. Þess vegna hefur vitaskuld engum lögfræðingi dottið í hug, að það væri hægt að hnekkja því út af fyrir sig. En þar með er auðvitað ekkert um það sagt, hvort fullnægt hafi verið þeim skilyrðum, sem sett eru í stjórnarskránni fyrir útgáfu brbl. og ríkisstj. ber ábyrgð á að fullnægt sé. Það dettur auðvitað engum í hug að ásaka bankastjórn Seðlabankans fyrir að fara eftir þessum lögum, brbl., og breyta gengi í skjóli þeirra. Bankastjórnin var að sjálfsögðu í sínum fulla rétti með það. En það breytir ekki neinu um ábyrgð hæstv. ríkisstj. Brbl. sem slík gætu allt að einu verið í ósamræmi við stjórnarskrána, þ.e.a.s. verið gefin út án þess, að í 28. gr. stjórnarskrárinnar væri næg heimild til útgáfu þeirra.

Ég hef leyft mér að halda því fram, að setning þessara brbl., með því efni, sem þau hafa, væri algert einsdæmi, að það væri ekki hægt að benda á í sögu bráðabirgðalaga neitt tilfelli, þar sem það væri svo augljóst eins og í þessu tilfelli, að brbl. hefðu verið gefin út án þess, að nauðsyn hefði verið til að gefa þau út með því efni, sem þau höfðu. Og ég hef leyft mér að minnast á það, að hæstv. dómsmrh. mundi vera allra manna kunnugastur framkvæmd brbl., og ég hef sagt, að ef hann gæti ekki nefnt neitt dæmi, sem þessu væri áþekkt, þá væri óhætt að ganga út frá því, að þetta væri rétt. Og hæstv. dómsmrh. hefur ekki komið hér, og hann hefur ekki reynt að nefna dæmi, sem þessu væri hliðstætt. En hv. 9. landsk. kom hér áðan og nefndi dæmi, að vísu aðeins eitt dæmi, um útgáfu brbl., sem hann taldi víst eitthvað áþekkt því tilfelli, sem hér er um að tefla. Aðeins ein brbl„ kannske tvenn, gat hann nefnt. Og um hvað voru þessi brbl.? Þau voru um smávægilega breytingu á útsvarslögum. Það hefur auðvitað enginn maður haldið því fram, að það mætti ekki breyta lögum með brbl. Það er auðvitað fullheimilt, ef þörf krefur, og það alveg jafnt, hvort sem þau lagaákvæði, sem þar er um að tefla og breytt er, eru búin að standa lengur eða skemur. Þess eru dæmi, og ég mundi geta nefnt fleiri tilfelli af brbl., þar sem breytt hefur verið gömlum lagaákvæðum. En þetta að breyta með brbl. smávægilegum atriðum í útsvarslögum leggur hv. 9. landsk. að jöfnu við það að taka án atbeina Alþingis sjálfs gengisskráningarvaldið úr þess höndum, mjög þýðingarmikið og viðkvæmt pólitískt vald, sem má beita þannig, það leggur hann að jöfnu. Ég skora á hv. 9. landsk. að nefna mér dæmi um brbl., þar sem Alþingi hafi verið svipt valdi með hliðstæðum hætti og gert var með brbl. um gengisskráningarvaldið frá s.l. sumri.

Þrátt fyrir það, þó að ég meti mikils þann dugnað hjá hv. 9. landsk. að bregðast ekki sínum stjórnarherrum og reyna að bregða skildi fyrir þá, þegar honum þykir þeir ekki standa í stöðu sinni sem skyldi, þá verð ég nú að segja, að ég dreg í efa, að hann eða ríkisstj. standi nokkuð betur að vígi eftir innlegg hans í málið, því að hv. 9. landsk. hefur ekki getað hrakið neitt af því, sem ég hef sagt í þessu máli. Hann hefur ekki getað sýnt fram á, að það hafi borið nauðsyn til þess, hvað þá brýna nauðsyn, að flytja gengisskráningarvaldið úr höndum Alþingis í hendur Seðlabankans. Hann hefur ekki getað sýnt fram á, að það væri nein brýn nauðsyn á því, að bráðabirgðalöggjafinn svipti Alþingi, sem er sett yfir bráðabirgðalöggjafann, þessu valdi. Og hann hefur ekki getað fært neinar frambærilegar afsakanir fyrir því, að þetta skyldi vera gert fjórum mánuðum eftir að Alþingi hafði einmitt undirstrikað skýrlega vilja sinn um það, að í þessum efnum skyldi óbreytt skipan standa. Það er því ekki að mínum dómi neinum blöðum um það að fletta, að við útgáfu þessara brbl. og með því efni, sem þau höfðu, var ekki fyrir hendi skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar. Hitt er annað mál, ef ríkisstj. hefði í stað þess að fara þá leið, sem hún fór, valið þann kost að fella sjálf gengið, breyta því, þá hefði að vísu verið lengi hægt um það að deila, hvort brýna nauðsyn hefði borið til sjálfrar gengisfellingarinnar eða ekki. Við stjórnarandstæðingar hefðum haldið því fram, eins og við höfum haldið fram, að það hafi ekki verið nein raunveruleg ástæða til gengisfellingarinnar. Það hefði verið deilt um það þá. En eins og staðreyndirnar liggja fyrir, hefði hins vegar ekki verið hægt að deila um það, að það var raunverulega aldrei nein efnisleg nauðsyn á því að fella gengi íslenzku krónunnar. Þegar það liggur fyrir, að aflamagn útgerðarinnar var rúmlega 23% meira 1961 en það var 1960, þegar það liggur fyrir, að heildarframleiðsluverðmæti sjávaraflans 1961 var rúmlega 14% meira 1961 en 1960, og þegar það liggur fyrir og skrifað skýrum stöfum í skýrslu Seðlabankans, að verðmæti á útflutningsafurðum hafi yfirleitt farið hækkandi á árinu 1961, þá dettur auðvitað engum heilvita manni lengur í hug að halda því fram, að gengisfellingin hafi verið nauðsynleg, enda er það sannanlegt út frá því, sem sagt var um hana s.l. sumar af hálfu ríkisstj. og kom fram í þeirri grg., sem hún birti, að hún byggði á allt öðrum forsendum en þeim, sem nú liggja fyrir í þessu efni. Það má e.t.v. segja, að það hafi verið afsakanlegur misskilningur og afsakanleg mistök, sem þar áttu sér stað hjá ríkisstj., en það liggur fyrir, að hún gerði ráð fyrir því, að aflamagnið og þar af leiðandi aflaverðmætið yrði mun minna árið 1961 en 1960. Og það var á þeirri skoðun, geri ég ráð fyrir, sem hún byggði sína ákvörðun um gengisbreytinguna, um gengislækkunina. En nú verður ekki um það deilt, að þessi trú hæstv. ríkisstj. reyndist röng. Það liggur fyrir, að niðurstaðan er á allt aðra lund, og þess vegna mun fara svo, að hæstv. ríkisstj. mun hér eftir reynast algerlega ógerlegt að koma landsmönnum í skilning um, að það hafi nokkra nauðsyn borið til þess að leggja á þær þungu byrðar, sem gengislækkuninni voru samfara, þegar það liggur fyrir, að árið 1961 var metaflaár í íslenzkri sögu. En þetta er annað mál, sem verður betur rætt en hitt, sem aðallega hefur verið talað um hér af minni hálfu og hv. 9. landsk., hvort brbl. og útgáfa þeirra hafi verið í samræmi við stjórnarskrána eða ekki.

Hvað sem því líður og hvað sem menn segja um þá efnislegu þörf á gengislækkun, þá verður aldrei um það deilt að minni hyggju, að brbl. voru gefin út án þess, að það væri næg ástæða í 28. gr. stjórnarskrárinnar. Ég vil ekki leggja það út á hinn versta veg fyrir hæstv. ríkisstj. Ég álít, að það hafi verið slys hjá hæstv. ríkisstj., að svo tókst til, að brbl. voru þannig úr garði gerð, sem raun ber vitni. Ég hef haldið, að það hafi einfaldlega stafað af því, að um það mál hafi ekki neinir lögfræðingar fjallað. Ég hef t.d. ekki látið mér það til hugar koma, að hv. 9. landsk. hafi komið þar nálægt og borið ábyrgð að nokkru leyti á því, af því að ég fæ ekki skilið, að nokkur lögfræðingur mundi hafa ráðlagt að gefa brbl. út með því efni, sem þau höfðu, eins og raun ber vitni um. Og ég hef því viljað líta svo á, að ástæðan til þess, að svo fór sem fór, hafi verið sú, að það hafi verið gengið fram hjá lögfræðingunum í þessu efni og ekki þeirra ráða leitað sem skyldi. En þó að það fari nú svo, að þessi brbl. fái sína staðfestingu hér, og þó að hæstv. ríkisstj. fái þar að vissu leyti visst aflát synda sinna í þessu efni, er ég alveg viss um, að þessi brbl. verða um langan aldur sígilt dæmi brbl., sem verða talin útgefin án þess, að næg heimild hafi verið til þess í stjórnarskránni. Það má kannske segja, að það verði ekki nema lítið lauf í þeim mistakasveig, sem að lokum verður lagður á leiði núv. hæstv. ríkisstjórnar.