29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (977)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og þau nál. fjhn., sem útbýtt hefur verið hér í deildinni, bera með sér, hefur nefndin ekki getað átt samleið um frv. það, sem hér liggur fyrir. Við þrír, sem að meirihlutaálitinu stöndum, mælum með því, að það verði samþykkt óbreytt, en fulltrúar stjórnarandstæðinga í nefndinni eru því andvígir.

Þetta frv. hefur sem kunnugt er verið mikið rætt í hv. Nd., er hún hafði það til meðferðar, og var einnig rætt allmikið við 1. umr. málsins hér í hv. deild. Ég get þó ekki látið hjá líða að fylgja þessu nál. úr hlaði með nokkurri grg. fyrir því, hvers vegna ég tel rétt að samþykkja það, og vona, að mér takist í því efni einnig að túlka skoðanir þeirra hv. meðnm. minna, er að meirihlutaálitinu standa, en mun þó eftir föngum forðast endurtekningu á því, sem þegar hefur komið fram við 1. umr. málsins hér í hv. deild. Ég mun þó ekki hætta mér inn í myrkviði lögkrókanna og ræða það deiluatriði, hvort hæstv. ríkisstj. hafi verið heimilt samkv. stjórnarskrá að setja brbl. þau, er hér er leitað staðfestingar á, heldur láta aðra hv. þm. úr báðum herbúðum, sem betur rata á þeim vettvangi, um það að leiða saman hesta sína um það atriði. Sem leikmanni í lögvísindum virðist mér þó, að æði auðvelt sé að jafnaði að vefengja heimild ríkisstj. til setningar bæði þessara brbl. og annarra, því að enginn algildur mælikvarði er auðvitað til á það, hvenær brýna nauðsyn beri til að setja brbl. slíkt verður auðvitað alltaf háð mati, sem að nokkru verður jafnan aftur háð þeim hagsmunum, sem hver og einn ber fyrir brjósti.

Aðatefni frv. er annars staðfesting brbl. frá 1. ágúst s.l. sumar, þar sem svo var kveðið á, að gengisskráningin skyldi framvegis verða í höndum Seðlabanka Íslands, en gengisbreytingar þó háðar samþykki ríkisstjórnar hverju sinni. Því hefur verið haldið fram af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, að með þessu afsali Alþingi sér í hendur annarrar stofnunar mikilvægu valdi og aðstöðu til að marka stefnuna í efnahagsmálum þjóðarinnar. Að mínu áliti á þetta aðeins við að formi, en ekki efni. Með ákvæðum laganna er tryggt, að Seðlabankinn getur ekki breytt genginu nema með samþykki ríkisstj., og engar líkur eru á því, að nein ríkisstj. mundi taka slíka ákvörðun án þess að tryggja sér stuðning þingmeirihl. til slíks. Hver sú ríkisstj., sem út í slíkt ævintýri legði, mundi eiga skammt ólifað. Á því verður engin breyting, að það verður eftir sem áður ríkisstj. og sá þingmeirihl., sem hana styður hverju sinni, sem markar stefnuna í gengismálum og efnahagsmálum almennt, svo sem sjálfsagt er í lýðræðisþjóðfélagi. Er sú stefna hins vegar hefur verið mörkuð, verður það tæknilegt framkvæmdaatriði, hvernig gengið skuli skrá hverju sinni. Er miklu eðlilegra, að sú framkvæmd sé í höndum Seðlabankans, sem jafnan má gera ráð fyrir að hafi í þjónustu sinni hina færustu sérfræðinga á því sviði, heldur en í höndum Alþingis. Reynslan hefur líka sýnt að undanförnu hér á landi, að margvísleg óþægindi hefur af því leitt, að gengisbreytingafrumvörp hafa vikum saman legið fyrir Alþingi, án þess að slíkt hafi nokkru breytt um það, að hafi ríkisstjórnir þær, er að völdum hafa setið, haft áhuga á gengisbreytingu, þá hefur hún náð fram að ganga. Það er og athyglisvert, að í öllum löndum Vestur-Evrópu að einu undanskildu er gengisskráningin í höndum annaðhvort seðlabankans eða ríkisstj. eða beggja aðila í sameiningu. Hef ég ekki heyrt nein frambærileg rök fyrir því, að einhverjar sérstakar aðstæður væru fyrir hendi hér á landi, sem gerðu það eðlilegt, að önnur skipan sé hér á þessum málum en sú, sem þar er talin hagkvæmust.

Núv. hæstv. ríkisstj. hefur frá upphafi valdatímabils síns markað skýra og ákveðna stefnu í gengismálum. Hún er sú, að gengið skuli hverju sinni skrá þannig, að hægt sé að fullnægja gjaldeyriseftirspurninni, án þess að beita þurfi innflutningshöftum eða safna erlendum lausaskuldum. Þegar þessi stefna hefur verið mörkuð, er það einungis reikningsdæmi að ákveða, hvað gengið skuli hverju sinni vera, en það verkefni eins og önnur slík er auðvitað eðlilegt að fela sérfræðingum. Nú vill svo einkennilega til, að þrátt fyrir þann mikla ágreining, sem verið hefur um gengismálin hér á hv. Alþingi frá upphafi yfirstandandi kjörtímabils, hefur málflutningur hv. stjórnarandstæðinga ekki grundvallazt á því, að þeir véfengdu réttmæti þeirrar stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefur fylgt í þessu efni og lýst hefur verið. Enginn úr herbúðum hv. stjórnarandstæðinga hefur, svo að ég hafi orðið var við það, gert sig að talsmanni fyrir því, að innflutningshöftin og gjaldeyrisúthlutunin yrðu tekin upp að nýju. Það er að vísu skoðun mín, að stefna ríkisstj. í þessu efni sé sú eina, sem framkvæmanleg er til lengdar. Með ströngum innflutningshöftum og gjaldeyrisúthlutun er að vísu um stundarsakir hægt að halda uppi óraunhæfu gengi. En reynsla bæði okkar og nágrannaþjóða okkar hefur á undanförnum árum sýnt það, að óhjákvæmilegri leiðréttingu gengisins hefur aðeins tekizt að skjóta á frest með því móti, en hún hefur ekki orðið umflúin. Þess vegna hafa allar Vestur-Evrópuþjóðir fylgt þessari stefnu síðasta áratug eða lengur, óháð því, hvort flokkar þeir, sem að þeim hafa staðið, hafa kennt sig við hægri eða vinstri stefnu.

En meðan engin rödd hefur komið fram um það úr herbúðum hv. stjórnarandstæðinga, að taka beri upp haftafyrirkomulagið að nýju, tel ég óþarft að ræða þá hlið málsins frekar. Hins vegar hafa hv. stjórnarandstæðingar, sem kunnugt er, vefengt nauðsyn þess að breyta genginu, bæði þegar efnahagsmálaráðstafanirnar voru gerðar í febr. 1960 og þegar genginu var breytt s.l. sumar. Að því atriði mun ég víkja bráðlega.

Auk þessa atriðis, sem ég nú hef rætt og er aðalefni frv., hefur við meðferð málsins í Nd. verið bætt inn í frv. ákvæði um heimild Seðlabankanum til handa til þess að taka lán hérlendis og endurlána þau innanlands. Það er sennilega álitamál, hvort nauðsyn beri til, að slíkt sé beinlínis heimilað í lögum, en til þess að taka af hugsanlegan vafa um það, hvort Seðlabankinn hafi slíka heimild, þótti rétt að setja slík ákvæði, og vænti ég þess ekki, að meiri háttar ágreiningur verði um þetta atriði út af fyrir sig.

Þó að meginefni þessa frv. sé samkv. áður sögðu það að fela Seðlabankanum framkvæmd gengisskráningarinnar, hafa þær löngu umr., sem orðið hafa um málið hér á hv. Alþingi, snúizt um það atriði, hvort sú breyting, sem Seðlabankinn gerði á genginu í ágúst s.l., hafi verið nauðsynleg eða ekki. Nú liggur það í rauninni ekki fyrir Alþingi að taka beina afstöðu til þess máls. Og einstakir þm. gætu vel verið þeirrar skoðunar, að eðlilegt sé að taka upp það fyrirkomulag varðandi gengisskráninguna, sem frv. gerir ráð fyrir, enda þótt þeir drægju í efa nauðsyn þeirrar ráðstöfunar, sem gerð var í þessu efni á s.l. sumri. Eðlilegt er þó, að þetta atriði blandist inn í umr. um frv., og tel ég því rétt að gera í sem stytztu máli grein fyrir mínum viðhorfum til þess máls.

Hæstv. ríkisstj. leit svo á á s.l. sumri, að þær miklu kaupgjaldshækkanir, sem þá hafði verið samið um milli launþega og vinnuveitenda, mundu stofna gjaldeyrisafkomu þjóðarbúsins í slíkan voða, ef ekkert væri að gert, að óverjandi væri að gera ekki ráðstafanir til þess að fyrirbyggja slíka þróun. Ég lít svo á, að þessi skoðun hafi haft við fyllstu rök að styðjast og gagnrök hv. stjórnarandstæðinga í þessu máli séu yfirleitt haldlítil eða haldlaus. Skal þetta nú nánar rökstutt.

Eins og hæstv. viðskmrh, upplýsti við 1. umr. málsins, mátti gera ráð fyrir því, að launatekjur í þjóðfélaginu hafi vegna kauphækkananna hækkað um hér um bil 550 millj. kr. En þar við bætast launahækkanir vegna tilfærslu í launaflokkum og fleira, sem áætlað er hafa verið 300 millj. kr. á ári. Að áliti Seðlabankans og hæstv. ríkisstj. hefði þetta, ef ekkert hefði verið að gert, leitt til svo stóraukinnar eftirspurnar eftir erlendum gjaldeyri, að öngþveiti hefði á fáum vikum eða mánuðum orðið í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Rök hv. stjórnarandstæðinga gegn þessu virðast einkum vera þau, að kauphækkanirnar hefðu ekki þurft að þýða samsvarandi aukningu peningateknanna, þar eð atvinnuvegirnir hafi verið færir um að bera kaupgjaldshækkanirnar, þannig að þær væru greiddar af hagnaði fyrirtækja. Hér hafi því verið um tekjutilfærslu, en ekki aukna kaupgetu að ræða. Jafnvel þótt slíkt hefði við rök að styðjast, hefði það út af fyrir sig valdið þjóðarbúinu ærnum vanda, ef ráðstafa hefði átt öllum hagnaði fyrirtækjanna, sem standa verður undir endurnýjun og aukningu framleiðslutækjanna, til hærri launagreiðslna. Einnig í því dæmi hefði orðið um stóraukna neyzluvörueftirspurn að ræða, sem leitt hefði m.a. til mjög aukins innflutnings neyzluvöru og því meiri gjaldeyrisnotkunar. En óþarft er þó að ræða slíkan möguleika, því að hann hefur aldrei verið fyrir hendi. Afkoma atvinnuveganna er alls ekki slík, að neinn möguleiki hafi verið á því, að þeir tækju slíkar kauphækkanir á sínar herðar, og æði mikið ósamræmi er í því, þegar hv. stjórnarandstæðingar halda því annars vegar fram, að viðreisnarráðstafanirnar hafi komið öllum atvinnuvegum landsmanna á kaldan klaka, en segja í hinu orðinu, að ekkert sé því til fyrirstöðu, að atvinnuvegirnir geti borið allt að 23% almenna hækkun kaupgjalds án þess að fá nokkuð í aðra hönd.

Við skulum nú líta á aðstöðu hinna einstöku atvinnugreina þjóðarinnar í þessu efni.

Hvað landbúnaðinn snertir, mun það tæpast skoðun hv. stjórnarandstæðinga, að hann geti axlað neinar byrðar í þessu tilliti. Ef þeir litu svo á, mundi það brjóta mjög í bága við þann málflutning þeirra, sem sífellt er einmitt búinn að klingja í eyrum okkar hér í hv. þd. síðustu daga, að afkoma landbúnaðarins hafi aldrei verið verri en nú, a.m.k. varla síðan móðuharðindunum lauk.

Ekki hafa hv. stjórnarandstæðingar heldur látið mikið yfir því, að efnahagsmálaráðstafanirnar hafi bætt hlut sjávarútvegsins. A.m.k. hafa ræður verið haldnar af þeirra hálfu í sambandi við fylgifrv. þessa frv., um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar, þar sem harðlega hefur verið mótmælt þeirri ráðstöfun að taka hluta gengishagnaðar útvegsins í útflutningsgjald. Þetta getur ekki samrýmzt því sjónarmiði, að útvegurinn hafi á s.l. ári verið fær um að taka á sig stórfelldar kauphækkanir bótalaust.

Þá er það verzlunin. Haustið 1958 eða í lok valdatíma vinstri stjórnarinnar voru sett ný ákvæði um álagningu í verzluninni. Sú álagning, sem þá var ákveðin, hefur síðan tvívegis verið skert, fyrst með efnahagsráðstöfunum þeim, sem gerðar voru eftir áramótin 1958–1959, og aftur eftir gengisfellinguna 1960. Ef hv. stjórnarandstæðingar halda því fram nú, að verzlunin hafi getað borið þær kauphækkanir, sem urðu á s.l. sumri, þrátt fyrir Það að hún á þeim tíma bjó tvímælalaust við verri kjör en fulltrúar vinstri stjórnarinnar í verðlagsnefnd ákváðu henni til handa haustið 1958, þá væri því um leið slegið föstu, að álagning sú, sem á þeim tíma var ákveðin með samþykki vinstri stjórnarinnar, hafi verið langt umfram það, sem nauðsyn bar til. Því hefur að vísu verið haldið fram, einkum af hálfu Alþb. og málgagna þess, að sú í sjálfu sér lítilfjörlega rýmkun álagningarákvæða, sem gerð var á s.l. sumri, hafi verið óþörf. í sambandi við þetta get ég þó ekki látið hjá líða að minna á þá staðreynd, að Samband ísl. samvinnufélaga varð á s.l. sumri til þess að rjúfa samtök atvinnurekenda og tók þannig á sig ábyrgð á því, að samið var um miklu meiri kauphækkanir en raunhæfur grundvöllur var fyrir. Því var þá og er enn haldið fram af forsvarsmönnum þess fyrirtækis, að þessi afstaða hafi verið fullkomlega ábyrg, því að Sambandið og fyrirtæki þess hafi verið fær um að bera þær kauphækkanir, sem um var samið. En þrátt fyrir þessa fullyrðingu á sínum tíma hef ég ekki orðið annars var en Sambandið hafi að fullu notað sér þær heimildir til hækkunar á álagningu vöruverðs, sem verðlagsyfirvöld hafa heimilað, síðan kaupgjaldshækkanirnar urðu. Enginn gat að vísu heimtað það af Sambandinu, að það hækkaði ekki verð á vöru sinni til samræmis við gengisfellinguna. En upplýst hefur verið, að verðhækkanir þær, sem orðið hafa síðan á s.l. sumri, eiga aðeins að hér um bil hálfu rót sína að rekja til gengisfellingarinnar. Að öðru leyti stafa þær af því, að fyrirtækin hafa velt kauphækkununum yfir á vöruverðið. Hefðu það verið annað en digurmæli, þegar forráðamenn Sambands ísl. samvinnufélaga á s.l. sumri töldu sig albúna til að láta fyrirtæki sín bera kauphækkanirnar, þá hefði Samband ísl. samvinnufélaga ekki hækkað verð vöru sinnar umfram það, sem beint leiddi af gengisfellingunni, og af samkeppninni hefði þá leitt, að önnur fyrirtæki hefðu orðið að gera hið sama. Almennar verðhækkanir hefðu þá orðið til muna minni en ella. Ég skal að vísu játa, að ég hef ekki framkvæmt neina rannsókn á þeim verðhækkunum, sem orðið hafa hjá Sambandinu, og vera má, að einhverjar undantekningar séu frá því, að það hafi að fullu notað sér hækkunarheimildirnar, en þær undantekningar eru þá svo fáar og smáar, að enginn hefur orðið þeirra var.

Þá er það iðnaðurinn. Um fiskiðnaðinn má í þessu efni segja það sama og um útveginn, enda aðstaða hans svipuð. Hvað aftur á móti snertir þann iðnað, sem framleiðir fyrir innlendan markað, þá hafa verðlagsyfirvöld metið það í hverju dæmi, hvort iðngreinin væri fær um að bera kauphækkanirnar að einhverju eða öllu leyti, og ákveðið verð framleiðsluvörunnar í samræmi við það. Hefur sumum þessara iðngreina fram til þessa verið ætlað að bera kauphækkanirnar að einhverju eða öllu leyti. Þessu, sem er rétt, svo langt sem það nær, hefur mjög verið hampað af hv. stjórnarandstæðingum og jafnvel gefið í skyn, að með þessu væri sannað, að atvinnuvegirnir gætu almennt borið kauphækkanirnar. Slík ályktun er þó fjarri lagi, því að í rauninni er hér um að ræða undantekningu frá því, sem segja má að hafi verið hin almenna regla, að hagur atvinnuveganna var yfirleitt slíkur á s.l. sumri, að þeir gátu ekki nema að mjög litlu og jafnvel í sumum dæmum að engu leyti tekið á sig þær kauphækkanir, sem þá var samið um. En það er ekki nýtt í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga í þessum málefnum, að þeir gera einstakar undantekningar, sem þeim virðast styðja málstað sinn, að almennri reglu, hversu mjög sem slíkt stangast á við staðreyndir.

Niðurstaðan af þessu verður því sú, að þjóðartekjurnar reiknaðar í peningum og innlenda kaupgetan hlaut að aukast nálægt því, sem nam þeirri heildarupphæð, sem launahækkanirnar námu. Hvaða áhrif má nú gera ráð fyrir, að þessi kaupgetuaukning hafi á þjóðarbúskapinn og sérstaklega gjaldeyrisaðstöðuna? Gera má ráð fyrir því, að aukning launatekna komi nær óskipt fram sem aukin eftirspurn eftir vöru og þjónustu, eða m.ö.o., að neyzla Þjóðarinnar aukist nokkurn veginn sem hinum hækkuðu tekjum nemur. Verulegur hluti hinnar auknu neyzlu yrði, ef slíkt væri ekki hindrað með sérstökum ráðstöfunum, í því fólginn, að innflutningur neyzluvöru mundi stóraukast. Það er að vísu ekki hægt að áætla það með neinni nákvæmni, hve mikill hluti kaupgetuaukningarinnar innanlands komi fram sem gjaldeyriseftirspurn. En í sambandi við mál það, sem hér liggur fyrir til umr., er þó mikilvægt að gera sér einhverja grein fyrir þessu. Samkv. grundvelli þeim, sem vísitala framfærslukostnaðar er byggð á, nemur erlend vara um 45% af neyzluútgjöldunum. Ef gert væri ráð fyrir því, að þær 550 millj. kr., sem launatekjurnar hafa hækkað um vegna kaupgjaldssamninganna á s.l. sumri, skiptust á sama hátt milli innlendrar og erlendrar vöru og vísitöluútgjöldin, mundi afleiðing kauphækkananna verða aukinn innflutningur neyzluvöru, sem næmi um 250 millj. kr. Gjaldeyrisaðstaðan mundi því versna sem þessu næmi.

Ég álít það í rauninni kjarna þess máls, sem hér er deilt um, hvort álíta beri eða ekki, að útlitið í gjaldeyrismálum hafi á s.l. sumri verið þannig, að varlegt hafi verið að leyfa aukinn innflutning neyzluvöru um 200–300 millj. kr. umfram þá aukningu, sem óhjákvæmilega hlaut að leiða af fólksfjölguninni og þeim launahækkunum, sem af áðurgreindum ástæðum eiga sér stað árlega, þó að ekki sé samið um almennar kauphækkanir. Ég lít svo á, að þessari spurningu beri að svara eindregið neitandi, þrátt fyrir þá bættu gjaldeyrisaðstöðu, sem leitt hefur af efnahagsmálaráðstöfununum, sem gerðar voru eftir áramótin 1959–60. Að vísu áttum við skv. þeim upplýsingum, sem hæstv. viðskmrh. gaf við 1. umr. málsins, gjaldeyrisvarasjóð um mánaðamótin febrúar–marz, sem nam rúmum 700 millj. kr. Er það að vísu álitleg upphæð, miðað við þá slæmu gjaldeyrisaðstöðu, sem við höfum lengst af búið við allt síðan 1955–56. Þetta nemur þó ekki nema þriggja mánaða innflutningi, en í Vestur-Evrópu er sá gjaldeyrisforði talinn lágmark þess, sem vera þurfi, ef viðskipti við önnur lönd eigi að vera með eðlilegum hætti. Af tveim ástæðum væri þó að mínu áliti skynsamlegt fyrir íslendinga að stefna að því að hafa stærri gjaldeyrisvarasjóð en þessu lágmarki nemur. Afkoma útflutningsatvinnuvega okkar, sem nær eingöngu eru fiskveiðar og fiskiðnaður, er miklu meiri sveiflum háð en meðal hinna iðnvæddu grannþjóða okkar. Það er fyrri ástæðan. Hin síðari er sú, að þrátt fyrir stórbætta gjaldeyrisaðstöðu síðustu missirin er skuldabyrði þjóðarinnar enn mjög þung, þannig að vextir og afborganir fastra lána munu í næstu framtíð nema hlutfallslega meiru af gjaldeyristekjum okkar en gerist með flestum þjóðum öðrum. Þetta takmarkar mjög lánstraust okkar, þannig að við getum ekki nema innan þröngra takmarka treyst lántökuleiðinni, ef þjóðarbúið yrði fyrir áföllum vegna aflabrests, verðfalls afurða eða af öðrum ástæðum. Mín skoðun er sú, að fyrr en við höfum safnað gjaldeyrisvarasjóði, er nemi um 1 milljarð kr., sé mjög óvarlegt að heimila aukinn innflutning neyzluvöru umfram það, er leiði af fólksfjölgun og hinum áðurgreindu sjálfvirku launahækkunum. Þessi niðurstaða er byggð á opinberum skýrslum um gjaldeyrisstöðuna.

En hvernig hafa nú hv. stjórnarandstæðingar hagað málflutningi sínum varðandi þróun gjaldeyrisaðstöðunnar s.l. ár? Ef þeir hefðu haldið því fram, að gjaldeyrisaðstaðan sé raunverulega betri en hinar opinberu skýrslur sýna, væri sá málflutningur a.m.k. sjálfum sér samkvæmur, að ekki hefði verið nauðsynlegt að gripa til gengislækkunar á s.l. sumri, heldur hefði mátt bíða átekta og láta reynslu næstu mánaða hvað gjaldeyrisafkomu snerti skera úr um það, hvort sérstakra ráðstafana væri þörf. En þetta segja þeir ekki. Þvert á móti er búið að verja óhemju prentsvertu í stjórnarandstöðublöðunum til þess að sýna fram á, að gjaldeyrisaðstaðan sé í rauninni miklu verri en hinar opinberu skýrslur sýni. En skv. þeim er gjaldeyrisaðstaðan nú um 900 millj. kr. betri en hún var í febrúar 1960 eða þegar efnahagsmálaráðstafanir núv. hæstv. ríkisstj. komu til framkvæmda. Ekki hafa þó hv. stjórnarandstæðingar að vísu lagt í það að koma þessum 900 millj. niður í núll, en þeir halda því fram, að gjaldeyrisaðstaðan sé a.m.k. ekki betri en hún var í árslok 1958. Að vísu er þetta að mínu áliti rangt, svo sem hæstv. viðskmrh. gerði glögga tölulega grein fyrir við 1. umr. málsins, en þær upplýsingar sé ég ekki ástæðu til að endurtaka hér. En ef sú staðhæfing hv. stjórnarandstæðinga væri rétt, að gjaldeyrisaðstaðan væri ekki betri en í árslok 1958, er inneign bankanna nam um 200 millj. kr. reiknað á núv. gengi, þá hefði inneignin gengið til þurrðar á einu ári vegna þeirrar auknu eftirspurnar eftir erlendum gjaldeyri, sem af kauphækkununum á s.l. sumri leiddi, ef ekkert hefði verið að gert. Framvegis hefði svo orðið að jafna hallann með yfirdráttarlánum í erlendum þjóðbönkum, svo lengi sem slík lán hefðu verið fáanleg. Stuðningsmenn núv. hæstv. ríkisstj. líta svo á, að ekki hafi verið verjandi að leyfa stóraukinn innflutning neyzluvarnings, meðan ekki var traustari grundvöllur fyrir slíkri neyzluaukningu en sá að ganga á gjaldeyrisvarasjóði, sem ná ekki því lágmarki, sem æskilegt má telja, eða taka yfirdráttarlán í erlendum bönkum. Enginn ágreiningur er um það, að kjarabætur séu æskilegar, og ekkert er í sjálfu sér athugavert við það, að kjarabæturnar séu í þeirri mynd, að neyzla erlends varnings aukist. En slíkt verður að grundvallast á aukningu útflutningstekna, ekki á eyðslu nauðsynlegra gjaldeyrisvarasjóða eða skuldasöfnun.

Það má líka minna á það í þessu sambandi, að ekki voru hv. núv. stjórnarandstæðingar Þeirrar skoðunar í árslok 1958, að gjaldeyrisaðstaða landsins væri með miklum glæsibrag. Síðustu vikurnar, sem vinstri stjórnin var við völd, lét hún einskis ófreistað til að sýna þjóðinni fram á, að skuldasöfnun þjóðarbúsins við önnur lönd væri orðin svo mikil, að þjóðin yrði að minnka mjög gjaldeyrisnotkun sína, bæði til neyzlu og fjárfestingar, ef hún ætlaði að varðveita efnahagslegt sjálfstæði sitt. Þó að gjaldeyrisaðstaðan sé hins vegar að dómi hv. stjórnarandstæðinga lakari nú en hún var í árslok 1958, á það að ganga glæpi næst að gera gagnráðstafanir gegn Því að neyzluvöruinnflutningur verði stóraukinn. Ég sé að vísu, að hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) kemst svo að orði í nál. sínu um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar, að auðvelt hafi verið að gera ráðstafanir til takmörkunar á gjaldeyrisnotkun, ef brýn nauðsyn krefði, án þess að gripa til kauplækkunaraðgerða, en því nafni mun hv. þm. hér nefna gengisfellinguna. Það ber út af fyrir sig að virða, að hv. þm. er ekki algerlega blindur fyrir þeim vanda, sem af því leiðir, að miklar kauphækkanir hljóta að hafa óhagstæð áhrif á gjaldeyrisafkomuna, en það er meira en sagt verður um málflutning allra samherja hans. En það eru til fleiri leiðir en gengisfelling til þess að takmarka gjaldeyrisnotkun, segir hv. þm. Já, það er alveg rétt, það eru til fleiri leiðir. Það er hægt að hækka aðflutningsgjöld, og það er hægt að taka upp innflutningshöft í einni eða annarri mynd. En hvor þessara leiða sem farin er, þá eiga þær það sameiginlegt með gengisfellingunum, að þær hindra það, að kaupmáttur launa gagnvart erlendri vöru aukist, og rýra kjör launþega sízt minna. Auk þess fylgir haftaleiðinni a.m.k. margvíslegt óhagræði og spilling, sem ég fer ekki nánar út í að ræða hér. Þó að gengisfellingin hafi að vísu hindrað að um verulega aukningu erlends neyzluvarnings gæti orðið að ræða vegna kauphækkananna, þá þýðir það ekki, að með henni sé hindruð öll kaupmáttaraukning. Launþegar verja þó meira en helmingi tekna sinna til kaupa á innlendri vöru og þjónustu, og aukinn kaupmáttur þess hluta teknanna er ekki af þeim tekinn með gengisfellingu. Annað mál er hitt, að aðrar hindranir eru í veginum fyrir því, að um slíka kaupmáttaraukningu gagnvart innlendri vöru og þjónustu geti orðið að ræða, og má þá fyrst og fremst nefna lagaákvæði þess efnis, að verð búvöru skuli hækka til samræmis við hækkun kaupgjalds, en ekki munu hv. stjórnarandstæðingar telja þá löggjöf ósanngjarna. Þrátt fyrir þetta hafa verðhækkanir þær, sem orðið hafa síðan í sumar, ekki gert kjarabæturnar að engu, svo sem hæstv. viðskmrh. sýndi fram á við 1. umr. málsins, og sé ég ekki ástæðu til að ræða það frekar. Hitt er svo annað mál, að þær kjarabætur, sem raunhæfur grundvöllur var fyrir, hefði verkalýðurinn auðveldlega getað fengið án verkfalla, en það er önnur saga.

Hv. stjórnarandstæðingar, sem hér töluðu við 1. umr. málsins, notuðu mikið þau rök gegn gengisfellingunni í sumar, að aflabrögð og verðlag sjávarafurða hefðu reynzt hagstæðari á s.l. ári en gert hefði verið ráð fyrir, þegar gengisfellingin var ákveðin. Það er rétt, að síldaraflinn s.l. sumar var meiri að magni og verðmæti en nokkru sinni hefur verið síðan á stríðsárunum, og á það síðan þátt í því, að gjaldeyrisafkoma ársins var betri en skynsamlegt var að gera ráð fyrir á miðju s.l. sumri. Þetta snertir þó að mínu áliti alls ekki kjarna þess máls, sem hér er um að ræða. Auðvitað væri engin heilbrigð skynsemi í því að ákveða gengisskráninguna með tilliti til afkomunnar á einni síldarvertíð, hvort sem umrædd síldarverífð er góð eða léleg. Gengið ber að ákveða með hliðsjón af gjaldeyrisaðstöðunni, eins og hún er, og væntanlegu framboði og eftirspurn erlends gjaldeyris miðað við meðalárferði. Það gefur auðvitað auga leið, að allar þær áætlanir, sem byggja verður á í þessu efni, hljóta alltaf að verða háðar verulegri óvissu, ekki sízt með tilliti til þess, hve áhættusamir útflutningsatvinnuvegir okkar Íslendinga eru. Meðan okkur hefur ekki enn tekizt að safna hæfilegum gjaldeyrisvarasjóðum, er óskynsamlegt að tefla á tæpt vað í þessu efni. Það mundi síður en svo valda þjóðinni neinu óbætanlegu tjóni, þótt hún í eitt ár eða svo neitaði sér um aukinn innflutning neyzluvöru vegna of lágs gengis. Það mundi aðeins leiða til meiri söfnunar gjaldeyrisforða en ella, en honum væri alltaf auðvelt að ráðstafa síðar. Hitt getur aftur valdið okkur óbætanlegu tjóni og álitshnekki, ef teflt er á svo tæpt vað með gengisskráninguna, að við lendum í svipuðum greiðsluvandræðum og þeim, sem yfirvofandi voru eða jafnvel skollin á, þegar gengið var fellt 1960, og raunar oft endranær.

Ég get ekki látið hjá líða við þetta tækifæri að leiðrétta þær tölur um kaupmátt launa, sem birtar eru í nál, hv. 5. þm. Norðurl. e. um ráðstafanir vegna gengisfellingarinnar, af því að ég tel, að umr. um það atriði eigi heima við meðferð þessa máls, enda nefndi hv. þm., ef ég man rétt, sömu tölurnar við 1. umr. þessa frv. Þessar tölur gefa að mínu áliti mjög villandi mynd af þeirri þróun.

Í útreikningum Torfa Ásgeirssonar, sem tölur þessar eru byggðar á, er aðeins tekið tillit til a-liðar núgildandi vísitölugrundvallar, þ.e. verðs á vöru og þjónustu. Húsnæðis- og skattaliðunum er hins vegar sleppt. Nú er húsnæði svo mikilvægur liður framfærslukostnaðar, að auðvitað ber að taka húsnæðisliðinn með, þegar metinn er kaupmáttur launa. í þessu felst ekki ádeila á þann mæta mann, Torfa Ásgeirsson, sem þessa útreikninga hefur gert. Mér eru ljósar ástæður hans fyrir því að taka útsvarsliðinn ekki með í þessum útreikningum. En þessar ástæður munu í fyrsta lagi þær, að vegna hinna algerlega óraunhæfu ákvæða um hámark húsaleigu, sem enn eru í lögum, hefur um langt skeið ekki verið fært að safna neinum gögnum, er á væri hægt að byggja, um raunverulega húsaleigu. En í öðru lagi mun þetta gert til þess að fá samanburðargrundvöll aftur í tímann. Þetta breytir engu um það, að þessir útreikningar sýna villandi mynd af áhrifum gengisbreytingarinnar á kaupmátt launa. Víst er um það, hvað sem segja má um áreiðanleik þeirrar tölu, er gefa á til kynna húsnæðiskostnaðinn, að húsaleiga hefur lítið breytzt til hækkunar af völdum gengislækkunar enn sem komið er. Þetta stafar einfaldlega af því, að enda þótt gengisbreytingin hafi valdið talsverðri hækkun á byggingarkostnaði, þá eru nýbyggingar svo lítill hluti af því húsnæði, sem í notkun er, að meiri tilkostnaður við þær vegur mjög lítið, ef meta á hækkun húsaleigunnar í heild. Það þarf því langur tími að líða, til þess að þeirra áhrifa gæti verulega. Af þessari ástæðu má fullyrða, að raunveruleg minnkun kaupmáttarins sé allmiklu minni en þessir útreikningar gefa til kynna. Hins vegar er ekki venja að taka tillit til skatta og fjölskyldubóta, þegar metinn er kaupmáttur tímakaups. Það skal ég fullkomlega gefa hv. 5. þm. Norðurl. e. eftir. En af því leiðir aftur, að kaupmáttur tímakaups er ekki einhlítur mælikvarði á þær breytingar, sem verða á kjörum launamanna. í því sambandi skipta auðvitað einnig máli atriði eins og beinir skattar, fjölskyldubætur o.fl. Ef verðlag hækkar t.d. um 5% jafnhliða því, að tekjur verkamannsins hafa verið hækkaðar um 5% vegna aukinna fjölskyldubóta, hefur kaupmáttur tímakaups að vísu rýrnað um 5%, en kjör verkamannsins hafa ekki breytzt. Að halda öðru fram í þessu efni stríðir gegn heilbrigðri skynsemi. Réttasti mælikvarðinn á þær breytingar, sem orðið hafa á kjörum verkafólks, frá því að efnahagsmálaráðstafanirnar voru gerðar, er því breytingin á heildarvísitölunni, en hún hafði hækkað um 4–5% fram að verkföllunum á s.l. sumri. Það, sem launþegar hafa haldið eftir af kauphækkununum s.l. sumar, vegur því nokkurn veginn á móti þeirri kjaraskerðingu, sem gengisbreytingin olli. Og eftir að þær kauphækkanir eru komnar til framkvæmda, sem um hefur verið samið frá 1. júní n.k., eru kjörin, ef verðlag helzt óbreytt, orðin betri en þau hafa verið frá styrjaldarlokum. Laun héldu áfram að hækka um 3–4% á ári. Þá yrði þróun kjaramála verkalýðsins allt önnur og hagstæðari en hún hefur verið frá stríðslokum, þar eð lífskjörin hafa í meginatriðum staðið í stað á því tímabili. Hvort verkalýðurinn svo vill styðja slíka þróun eða velja hina leiðina að leitast við með löngum og dýrum verkföllum að knýja fram kjarabætur, sem eru umfram það, sem launagrundvöllur er fyrir, og hljóta alltaf að renna út í sandinn með einhverju móti, er svo atriði, sem reynslan ein fær skorið úr að fullu.

Einhver fráleitasta staðhæfingin í málflutningi hv. stjórnarandstæðinga er sú, sem einkum hefur verið hamrað á í málgögnum hv. Framsfl., að lækkun vaxta gæti verið eitthvert úrræði til úrbóta, sem vegið hefði getað móti þeim kostnaðarauka, sem kaupgjaldshækkanirnar hafa í för með sér. Rökin fyrir þessu eru þau, að eitthvert frystihús hafi haft svo mikla vaxtabyrði, að það hefði munað meira um 2% lækkun vaxta en þá kauphækkun, — að mér skilst þó umfram tillögu sáttasemjara, — sem um var samið s.l. sumar. Að gera það, sem kann að eiga sér stað sem undantekning, að almennri reglu er auðvitað fráleitara en svo, að því taki að svara. Hæstv. viðskmrh. sýndi annars með glöggum rökum fram á það við 1. umr. málsins, að vaxtasparnaður fyrirtækjanna hefði aðeins numið litlu broti af kauphækkununum, ef litið er á atvinnuvegina sem heild. En auk þess hefðu aukin útlán og minni sparifjármyndun haft óhagstæð áhrif á efnahagskerfið í heild, ekki sízt gjaldeyrisstöðuna, þannig að vaxtalækkun hefði aukið þann vanda, sem leysa þurfti, en ekki hið gagnstæða.

Það, sem einkennt hefur málflutning hv. stjórnarandstæðinga í máli því, er hér liggur fyrir, sem í öðru því, er efnahagsmál varðar, er það, að þeir vilja ekki taka tillit til staðreynda í efnahagslífinu og forðast að ræða málin á grundvelli þeirra. Ekki er þetta þó sprottið af vanþekkingu, — því miður, liggur mér við að segja, — heldur hinu, að mat þeirra á þroska hinna óákveðnu kjósenda, sem um er barizt, er það, að þeir vilja ekki horfast í augu við veruleikann, heldur lifa í heimi óskhyggjunnar og trúa því, að allar óskir sé auðvelt að uppfylla með einföldum og sársaukalausum aðgerðum, sem strandi einungis á heimsku og illvilja þeirra, er stjórnartaumunum halda í hendi sér. Þó að því fari vitanlega fjarri, að með efnahagsmálaráðstöfunum þeim, sem gerðar voru fyrir 2 árum, hafi enn tekizt að skapa hér á landi hinn bezta heim allra heima, þá hefur þó árangur af þeim orðið mikill þrátt fyrir þær skemmdartilraunir, sem gerðar hafa verið gegn þeim af stjórnarandstöðunni.

Í ársbyrjun 1960 var gjaldeyrisaðstaðan svo slæm, að nær lá greiðsluþroti. Nú ráðum við hins vegar yfir talsverðum gjaldeyrisvarasjóði. Ísland er nú aftur hlutgengur aðili í alþjóðlegu samstarfi á sviði efnahagsmála einmitt vegna þessara ráðstafana. Ef árferðið verður sæmilegt næstu missiri og ekki verður hleypt af stað nýrri verðbólguöldu, getur þjóðin vissulega vænzt vaxandi framfara og batnandi lífskjara. Skilyrði fyrir því er þó að mínu áliti það, að haldið verði áfram á þeirri braut, sem mörkuð var með efnahagsmálaráðstöfununum fyrir tveimur árum. Ef tekið væri í þessum efnum tillit til ábendinga og úrræða stjórnarandstöðunnar í efnahagsmálum, en þau virðast helzt vera stórfelld lánsfjárþensla og óraunhæf gengisskráning, þá mundi fljótt sækja í sama horf og áður, að gjaldeyrisskortur og alls kyns höft mundu setja svip sinn á atvinnulífið. Ísland gæti þá ekki lengur verið hlutgengur aðili í efnahagssamvinnu vestrænna þjóða, en yrði eins konar Kúba Vestur-Evrópu, sem yrði að láta sér nægja þá mola, er til kynnu að falla af náðarborði Austur-Evrópulandanna. Þeir eru því miður til í hópi hv. stjórnarandstæðinga, sem slíka þróun mundu telja æskilega. En jafnvíst er hitt, að slík þróun mundi meginþorra stuðningsmanna þeirra mjög óhugnæm. En ráðstafanir í efnahagsmálum, sem ekki byggjast á staðreyndum og gildandi lögmálum, heldur brjóta í bága við þau, geta ekki náð þeim tilgangi, er til er ætlazt, fremur en læknisaðgerðir, sem ekki taka tillit til þeirra lögmála, er starfsemi mannslíkamans er háð, leiða ekki til bata.