29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð í tilefni af ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem hér hafa flutt sín minnihlutaálit. Ég man ekki nú svo glöggt, hvernig því var háttað, þegar seðlabankalöggjöfin var afgreidd í fyrra, en ég minnist þó ekki þess, að við hana væri neinn eindreginn stuðningur andstæðinga ríkisstj. Mig minnir, að þeir væru hér með ýmsar brtt. á lofti. En það mál er út af fyrir sig hægt að kanna betur. Ég get ekki fallizt á það, jafnvel þó að rétt væri farið með hjá hv. síðasta ræðumanni, að um þetta hefði orðið samstaða milli stjórnarflokka og stjórnarandstæðinga, að þá hafi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar þar með skuldbundið sig til þess að breyta ekki þeim lögum síðar.

Þegar seðlabankalöggjöfin var afgreidd seint í marz í fyrra, var vitað, að kjaradeilur voru risnar upp í þjóðfélaginu. Hins vegar vissi þá enginn, hvort þeim kjaradeilum mundi lykta þannig, að það yrði nauðsynlegt eða gæti orðið nauðsynlegt að breyta gengisskráningunni. Um það var ekkert hægt að segja þá. En það er mitt álit, að ef inn í þessa löggjöf um Seðlabankann í fyrra hefði verið sett ákvæði um það, að seðlabankastjórnin færi með gengisskráningarvaldið, þá hefði það af hv. stjórnarandstæðingum verið mistúlkað á þann veg, að verið væri að hóta því að lækka gengið, hvernig svo sem kjaradeilunum lyktaði. Og ég álít, að það hefði verið mjög óheppilegt að setja þessa heimild inn í lögin á því stigi málsins vegna þessarar hættu, sem yfirvofandi var.

Hins vegar ber að fagna því, að það kom alveg ljóst fram frá hv. fulltrúa Alþb., að Alþb. er almennt á móti því, að gengisskráningarvaldið sé flutt frá Alþingi og yfir til bankastjórnar Seðlabankans. Andstaða Alþb. gegn þessu frv. er ekki eingöngu byggð á því, að það telji, að setning þeirra brbl., sem hér er verið að ræða um og staðfesta, hafi verið stjórnarskrárbrot, heldur eru þeir líka efnislega á móti þessu. Og við því er auðvitað ekkert að segja. Þeir hafa sínar skoðanir á þessu.

En mér finnst hins vegar hafa skort talsvert á hjá hinum stjórnarandstöðuflokknum, framsóknarmönnum, að þetta sjónarmið kæmi fram. Ég hef ekki tekið eftir því í ræðum þeirra, að þeir hafi lýst því greinilega, að þeir væru efnislega andvígir þessari breytingu. Nú voru þeir, eins og komið hefur fram, samþykkir þessari breytingu árið 1950, að þá færi gengisskráningarvaldið í hendur Landsbankans eða Seðlabankans, sem þá var aðeins deild í Landsbankanum, en er nú orðinn miklu sjálfstæðari stofnun. Þess vegna fyndist mér mjög æskilegt, að það kæmi fram af hálfu þeirra framsóknarmanna, hvernig viðhorf þeirra sé nú í þessu máli efnislega séð. Við skulum segja, að hér væri verið að flytja frv. um að flytja til gengisskráningarvaldið, eins og gert er, án þess að áður hefðu verið gefin út brbl., þannig að það þyrfti ekkert að deila um það hér, hvort um brot á stjórnarskránni væri að ræða eða ekki. Ég hef áður lýst því hér við 1. umr. þessa máls, að ég teldi, að hér hefði ekki verið um neitt stjórnarskrárbrot að ræða og því færi raunar fjarri. Því hefur reyndar ekki verið mótmælt eða a.m.k. ekki af neinum krafti af stjórnarandstöðunni, að ríkisstj. hefði getað breytt genginu sjáif með brbl. A.m.k. viðurkenna þeir, að það sé álitamál, eða jafnvel, að það hafi verið heimilt. Hinu mótmæla þeir aftur á móti harðlega, að það sé leyfilegt á þennan hátt að færa gengisskráningarvaldið með brbl. yfir í hendur Seðlabankans. Nú er Seðlabankinn sú fjármálastofnun með þjóðinni, sem fer með gengismál og á að hafa bezta yfirsýn yfir þessa hluti. Það var því í sjálfu sér brýn nauðsyn fyrir ríkisstj. að fela þessari stofnun að fara með gengisskráningarvaldið, og maður skyldi nú í aðra röndina hafa fremur vænzt þess, að stjórnarandstaðan fagnaði því, að gengisskráningarvaldið hefði farið í hendur Seðlabankans heldur en vera í höndum ríkisstj., meðan Alþingi sat ekki, vegna þess að stjórnarandstaðan á sinn fulltrúa í stjórn Seðlabankans. í ríkisstj. er að sjálfsögðu enginn fulltrúi stjórnarandstöðunnar. En í stjórn Seðlabankans sitja ekki eingöngu stjórnarstuðningsmenn, eins og kunnugt er, og mér er ekki kunnugt um, að sá maður, sem á sæti í stjórn Seðlabankans og er ekki stuðningsmaður ríkisstj., hafi haft neina sérstöðu í meðferð þessa máls eða þegar Seðlabankinn tók sína ákvörðun um að breyta genginu. Enn þá síður finnst mér nú raunar hægt að beita þessum rökum hjá hv. stjórnarandstæðingum, þegar þeir hafa látið orð um það falla, að Seðlabankinn væri eins konar afgreiðslustofnun ríkisstj. Ef það væri ekki stjórnarskrárbrot, að ríkisstj. breytti sjálf genginu, þá finnst mér það ekki frekar geta verið stjórnarskrárbrot, þó að ríkisstj. láti einhverja afgreiðslustofnun sína framkvæma þetta, því að það að láta einhverja afgreiðslustofnun gera eitthvað fyrir sig, það er alveg það sama og að gera það sjálfur.