29.03.1962
Efri deild: 74. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Þær framsöguræður, sem hér hafa verið fluttar af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, gefa í rauninni ekki tilefni til andsvara, svo að ég get orðið mjög stuttorður. Það, sem ræðurnar aðallega fjölluðu um, var sú spurning, hvort brbl. þau, sem sett hefðu verið í sumar, hefðu verið í samræmi við stjórnarskrána. Ég sagði í framsöguræðu minni, að ég mundi ekki hætta mér inn í myrkviði lögkrókanna, heldur láta aðra hv. þdm. úr mismunandi herbúðum um það, sem rötuðu betur á þeim vettvangi, og þeim góða ásetningi ætla ég ekki að bregðast, enda hefur hv. 9. landsk. nú gert þessu máli nokkur skil.

Það má auðvitað lengi um það deila, eins og ég sagði í framsöguræðunni, hvenær brýna nauðsyn beri til, að brbl. séu sett. Ég taldi mig leiða að því rök í framsöguræðunni, að ef ekki hefði verið gripið til sérstakra ráðstafana á s.l. sumri, hefðu hlotizt af vandræði í efnahagsmálum, sem ófyrirsjáanlegar afleiðingar hefðu getað haft, og það eitt tel ég ærna nauðsyn þess, að slík brbl. yrðu sett.

Að öðru leyti sögðu hv. frsm. stjórnarandstöðunnar, að þeir mundu, að því leyti sem þeir sæju tilefni til, ræða spurninguna um réttmæti gengisbreytingarinnar síðar, þegar ráðstafanir vegna gengisbreytingarinnar kæmu til umr. Við það hef ég í sjálfu sér ekkert að athuga. Ég taldi eðlilegt að ræða það í þessu sambandi, en það er auðvitað álitamál, og hitt getur alveg eins komið til greina.

Að öðru leyti vildi ég aðeins gera aths. við það, sem hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) sagði um kaupmátt launa, vegna þess að ég tel, að hann hafi misskilið nokkuð þá gagnrýni, sem ég bar fram á tölur þær, sem hann rakti varðandi þetta efni við 1. umr. málsins. Það er sjálfsagt rétt hjá hv. þm., að ef gera á grein fyrir áhrifum gengislækkunarinnar á s.l. sumri á kaupmátt launa, skiptir það ekki miklu máli, hvort miðað er við heildarvísitöluna eða aðeins a-lið vísitölunnar, vörur og þjónustu, þar eð ekki hafa orðið teljandi breytingar á sköttum, fjölskyldubótum eða slíku á því tímabili. En það, sem ég átti við, þegar ég gagnrýndi það, að þessar tölur Torfa Ásgeirssonar væru notaðar sem mælikvarði á þróun kaupmáttar launa, var samanburðurinn milli þess kaupmáttar launa, sem var fyrir gengisbreytinguna 1960, og kaupmáttarins nú. Ef bera á saman þróunina á því tímabili, gerir það auðvitað mjög mikinn mun, hvort miðað er við heildarvísitöluna eða aðeins vöru og þjónustu, sem m.a. sést af því, að sé miðað við heildarvístöluna, nema verðhækkanirnar aðeins 4%, en ef miðað er aðeins við a-lið vísitölunnar, eins og hv. þm. gerði, þá kemur það út, að kaupmáttur launa sé aðeins 83 á móti 100 fyrir gengisbreytinguna. Nú er það sjálfsagt rétt hjá hv. þm., að þessar voru niðurstöðurnar samkvæmt þeim útreikningum Torfa Ásgeirssonar, sem hann vitnaði í. En eins og ég taldi mig hafa sýnt fram á í framsöguræðunni, er þetta ekki réttur mælikvarði á þá breytingu, sem orðið hefur á kjörunum. Í því efni ber að miða við heildarvísitöluna.