17.04.1963
Efri deild: 74. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

214. mál, þátttaka síldarverksmiðja ríkisins í útgerðarfélagi

Frsm. (Jón Arnason):

Herra forseti. Frv. þetta, ef að lögum verður, heimilar síldarverksmiðjum ríkisins að leggja fram allt að 2 millj. kr. hlutafé í hlutafélag, sem stofnað yrði á Siglufirði og í samvinnu við Siglufjarðarkaupstað. Tilgangur þess er að eiga og reka útgerð vélbáta; sem gerðir yrðu út frá Siglufirði. Þessi hlutafjárupphæð, sem hér um ræðir, er ætlað að verði 55% af heildarupphæð hlutafjár félagsins.

Eins og fram kemur í aths. við frv., er forsaga þessa máls sú, að fyrir allmörgum árum reistu síldarverksmiðjur ríkisins hraðfrystihús á Siglufirði. Tilgangur þeirrar framkvæmdar var tvíþættur. Myndaður var grundvöllur fyrir stöðugra atvinnulíf á Siglufirði vetrarmánuðina, auk þess sem verksmiðjurnar sköpuðu þannig verkefni fyrir vélstjóra fyrir verksmiðjurnar þann tíma, sem ekki var unnið að síldarbræðslu eða undirbúningi undir síldarvertíðina. Um skeið lögðu togararnir Hafliði og Elliði frystihúsinu til hráefni, en hvort tveggja er, að Elliði fórst og aflabrögð togara fóru hrakandi, svo að hráefnaöflun til frystihússins hefur ekki verið eins jöfn og æskilegt má teljast. Með því að síldarverksmiðjunum er hagkvæmt að reka frystihúsið og halda þannig starfsfólki, sem þær nauðsynlega þurfa á að halda sumarmánuðina, og sú ráðstöfun styrkir almennt atvinnuástand á Siglufirði, er eðlilegt, að verksmiðjurnar taki þátt í þeirri útgerð, sem nauðsynleg er, til þess að frystihúsið fái nægt hráefni til vinnslu. Það er álit n., að hér fari saman hagsmunir síldarverksmiðja ríkisins og þess bæjarfélags, sem í hlut á, og mælir því n. með, að frv. verði samþykkt.