21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

205. mál, Kennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Kennarar gegna einu ábyrgðarmesta starfi, sem unnið er í sérhverju þjóðfélagi. Uppeldi og menntun æskunnar hefur meginþýðingu, ekki aðeins fyrir farsæld þjóðarinnar, heldur einnig fyrir hagsæld hennar. Það hlýtur því að skipta miklu máli, að þeir, sem hafa eiga með höndum uppeldi æskunnar að miklu leyti og fræðslu hennar að mestu leyti, séu hinum mikla vanda sínum vel vaxnir. En að öðru jöfnu hljóta þeir að teljast vandanum þeim mun betur vaxnir, sem þeir hafa meiri og betri þekkingu til að bera. Það er því ein af frumnauðsynjum góðs skólakerfis, að verðandi kennarar eigi kost á góðri og traustri menntun.

Nokkuð hefur á það skort undanfarna áratugi, að kennurum hafi verið búin nægilega góð menntunarskilyrði. Kennaraskóli Íslands var stofnaður árið 1908. Núgildandi lög um skólann eru frá árinu 1947. Menntunarskilyrði kennara hafa ekki verið bætt á undanförnum áratugum í jafnríkum mæli og átt hefur sér stað um ýmsar aðrar mikilvægar starfsstéttir. Ein af ástæðunum er efalaust sú, að húsakostur skólans hefur verið algerlega ófullnægjandi hin síðari árin, enda hefur hann þangað til á þessum vetri starfað í upphaflegu húsi sínu. En á s.l. hausti flutti kennaraskólinn í nýju bygginguna, sem verið hefur í smiðum síðan 1958. Var henni að vísu ekki fulllokið og er ekki enn. Nú í sumar mun henni þó verða lokið, eða réttara sagt þeim áfanga heildarbyggingarinnar, sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Næsta haust mun því kennaraskólinn geta tekið til starfa í nýju húsnæði, sem telja má eitt vandaðasta skólahús landsins.

En undanfarin ár hefur ekki aðeins verið unnið að því að koma upp nýju húsnæði fyrir Kennaraskóla Íslands. Jafnframt hefur verið starfað að því að undirbúa algera nýskipan á skólanum sjálfum, skipulagi hans og námsefni, í því skyni að bæta menntunarskilyrði kennarastéttarinnar. Upphaf þessa máls er það, að 29. febr. 1960 skipaði menntmrn. 7 manna n. til að endurskoða gildandi löggjöf um Kennaraskóla Íslands og semja nýtt frv. til l. um skólann. Í n. áttu sæti: Freysteinn Gunnarsson skólastjóri, og var hann formaður hennar, Ágúst Sigurðsson kennari, dr. Broddi Jóhannesson kennari, Guðjón Jónsson kennari, Gunnar Guðmundsson yfirkennari, Helgi Elíasson fræðslumálastjóri og dr. Símon Jóh. Ágústsson prófessor. Hinn 31. ágúst 1960 var Sveinbirni Sigurjónssyni skólastjóra bætt í n. Lauk hún störfum í sept. 1961 og skilaði þá til menntmrh. frv. til l. um Kennaraskóla Íslands ásamt grg. fyrir störfum sínum og frv. sjálfu. Var frv. þetta athugað rækilega í menntmrn. og efni þess rætt við fulltrúa frá Háskóla Íslands og menntaskólanum í Reykjavík. Niðurstaða þeirra viðræðna var sú, að ekki þótti ráðlegt að leggja nýtt frv. um kennaraskólann fyrir þingið 1961–62, heldur undirbúa málið betur og freista þess að koma á algeru samkomulagi milli forustumanna kennaraskólans og kennarastéttarinnar, háskólans og forustumanna úr hópi menntaskólanna, áður en málið yrði lagt fyrir Alþingi.

Menntmrn. skipaði því 2. júlí 1962 sérstaka n, til að fjalla um frv., átta manna nefndarinnar og freista þess að samræma sjónarmið kennaraskólans, háskólans og menntaskólanna. Í þessa nefnd voru skipaðir Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, og var hann formaður hennar, Ármann Snævarr háskólarektor, Helgi Elíasson fræðslumálastjóri, Kristinn Armannsson rektor menntaskólans í Reykjavík og þáv. skólastjóri kennaraskólans, Freysteinn Gunnarsson, en dr. Broddi Jóhannesson var skipaður varamaður hans og tók fast sæti í n., þegar hann hafði verið skipaður skólastjóri kennaraskólans. Nefnd þessi athugaði allt málið mjög vandlega, gerði ýtarlegan samanburð á námsefni kennaraskólans og menntaskólanna og tillögur um námsefni hinna nýju deilda, sem gert er ráð fyrir í kennaraskólanum. Innan háskólans var málið ekki aðeins rætt í háskólaráði, heldur einnig í öllum deildum háskólans.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er niðurstaða af störfum þessarar n. og hefur samhljóða meðmæli hennar. Má því segja, að það fullnægi óskum forvígismanna kennaraskólans og kennarastéttarinnar og hafi samþykki og meðmæli háskólaráðs og rektors menntaskólans í Reykjavík. Ætti þessi undirbúningur málsins að auðvelda hinu háa Alþ, að taka skjóta afstöðu til frv.

Meginbreytingarnar, sem felast í þessu frv. frá gildandi ákvæðum um Kennaraskóla Íslands, eru: Í fyrsta lagi að veita skólanum rétt til að brautskrá stúdenta. Í öðru lagi að koma á fót framhaldsdeild við háskólann, Í þriðja lagi að stofna undirbúningsdeild fyrir sérkennara. Í fjórða lagi aukin æfingakennsla. Í fimmta lagi nokkurt kjörfrelsi um námsefni.

Frv. gerir ráð fyrir því, að skólinn greinist í 6 deildir. Í fyrsta lagi almenna kennaradeild, þar sem námið skal taka 4 ár og því ljúka með almennu kennaraprófi, sem veiti kennararéttindi í barna- og unglingaskólum landsins. Í öðru lagi kennaradeild stúdenta, þar sem stúdentum úr menntaskólunum skal gert kleift að ljúka kennaraprófi með eins árs námi. En í þeirri deild skulu nemendur ljúka sama námi og nemendur í almennu deildinni í uppeldisgreinum og þeim greinum kennaranámsins öðrum, sem ekki eru kenndar til almenns stúdentsprófs. Í þriðja lagi menntadeild, þar sem þeir, sem lokið hafa prófi frá almennu kennaradeildinni með 1. einkunn árið 1967 eða síðar, skuli geta búið sig undir stúdentspróf á einu ári. Námskröfur til stúdentsprófs frá Kennaraskóla Íslands skulu sambærilegar kröfum stúdentsprófs menntaskólanna, þó þannig, að heimilt sé að láta próf í uppeldis- og kennslufræðum frá almennu kennaradeildinni gilda til stúdentsprófs og fella þá niður inna:n takmarka, sem ákveðin eru í reglugerð, annað námsefni, sem því svarar, á svipaðan hátt og gert er um sérgreinar í mála- og stærðfræðideildum menntaskólanna. Gert er ráð fyrir, að þessi menntadeild taki til starfa í síðasta lagi eftir 4 ár, þ.e. þegar þeir, sem ganga inn í kennaraskólann á næsta hausti, hafa stundað nám í 4 ár í almennu kennaradeildinni. í fjórða lagi framhaldsdeild, sem veiti nemendum kost á framhaldsmenntun með nokkru kjörfrelsi, og skulu þeir þá stunda nám í eigi færri greinum en þrem og sé ein þeirra aðalgrein. Skal þessu framhaldsnámi ljúka með prófi og starfandi kennurum heimilt að leggja stund á einstakar greinar þessa framhaldsnáms eftir frjálsu vali og ljúka í þeim tilskildum prófum. Í fimmta lagi undirbúningsdeild sérnáms, og skal þar vera um 2 ára nám að ræða, sem búi nemendur undir kennaranám í sérgreinum, svo sem handavinnu, íþróttum, tónlist, teikningu, húsmæðrafræðslu og öðrum uppeldisstörfum, hvort sem sérnámið fer fram í kennaraskólanum eða annars staðar. Og í sjötta lagi handavinnudeild, sem veitir sérmenntun í handavinnu karla og kvenna og; sér nemendum fyrir æfingu í að kenna þær. Enn fremur sjái handavinnudeild nemendum í öðrum deildum kennaraskólans fyrir kennslu í handavinnu og kennsluæfingum í þeirri grein. Sé námstími í handavinnudeild 2 ár, og skulu þeir, sem útskrifast úr deildinni, öðlast réttindi til að kenna handavinnu í barna- og framhaldsskólum.

Í frv. eru sett ný ákvæði um rétt til inngöngu í 1. bekk almennu kennaradeildarinnar. Gert er ráð fyrir tvenns konar inntökuskilyrðum: Annars vegar landsprófi miðskóla með þeirri lágmarkseinkunn, sem ákveðin er í reglugerð um miðskólapróf í bóknámsdeild, eða fullgildu gagnfræðaprófi bóknámsdeildar með lágmarkseinkunn í nokkrum aðalgreinum, sem reglugerð ákveði, enda gangi gagnfræðingar undir viðbótarpróf í einstökum greinum, ef þörf krefur, svo að tryggt sé, að þeir hafi lokið námi, sem samsvari námi til landsprófs miðskóla.

Almennt stúdentspróf veitir rétt til inngöngu í kennaradeild stúdenta, en rétt til inngöngu í menntadeild og framhaldsdeild eiga þeir, sem lokið hafa almennu kennaraprófi með 1. einkunn 1967 eða síðar, þ.e.a.s. þeir, sem hefja nám í kennaraskólanum á næsta hausti eða síðar. Heimila má þeim, sem lokið hafa slíku prófi fyrir þann tíma, inngöngu í deildina, en vilji þeir þreyta stúdentspróf, skulu þeir Ijúka viðbótarprófi, sem nánar verður kveðið á um í reglugerð. Rétt til inngöngu í undirbúningsdeild sérnáms veitir landspróf miðskóla, gagnfræðapróf eða önnur hliðstæð próf með þeirri einkunn, sem stjórn skólans metur gilda, enda sé þá nám og prófkröfur fullnægjandi að dómi skólans. Rétt til inngöngu í handavinnudeild eiga þeir, sem lokið hafa námi í undirbúningsdeild sérnáms í kennaraskólanum, stúdentsprófi eða almennu kennaraprófi.

Með þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir í frv., má telja, að inntökuskilyrði í kennaraskólann verði hliðstæð inntökuskilyrðum í hina almennu menntaskóla. Nám í almennu kennaradeildinni á að vera 4 ára nám eins og menntaskólanámið. En þar eð námið í almennu kennaradeildinni þarf að sjálfsögðu fyrst og fremst að miðast við kennara, er ekki unnt að hafa námsefni hennar þannig, að lokapróf hennar geti svarað til stúdentsprófs og þannig veitt rétt til inngöngu í háskóla. Þess vegna er gert ráð fyrir stofnun menntadeildarinnar, og á námsefni hennar að vera þannig, að þar fái nemendur þekkingu í þeim greinum, sem nauðsynlegar eru til stúdentsprófs, sem veitt geti inngöngu í háskóla.

Þeir, sem ganga í kennaraskólann og vilja ljúka þaðan stúdentsprófi, verða að verja til þess 5 árum, í stað þess að menn geta lokið stúdentsprófi í almennu menntaskólunum með 4 ára námi. En með hliðstæðum hætti verða þeir stúdentar, sem ljúka vilja almennu kennaraprófi, að verja til þess einu ári til viðbótar 4 ára menntaskólanámi, þannig að þeir, sem hefja nám í almennum menntaskóla, verða að verja 5 árum til þess að geta jafnframt lokið kennaraprófi og fengið kennararéttindi.

Námið í kennaradeild stúdenta er fyrst og fremst helgað námi í sérgreinum almennu kennaradeildarinnar með hliðstæðum hætti og námið í menntadeild kennaraskólans er helgað sérgreinum almennu menntaskólanna. Er þar gert ráð fyrir valfrelsi milli latínu annars vegar og eðlis- og efnafræði hins vegar, þannig að þeir stúdentar frá kennaraskólanum, sem hyggjast helga sig raunvísindum í háskólanámi, geti lagt stund á eðlis- og efnafræði í stað latínu, en hinir, sem hyggjast helga sig hugvísindum, geti lagt stund á nám í latinu í stað eðlis- og efnafræði.

Lögð hefur verið á það sérstök áherzla við undirbúning þessa frv. og fyrirhugaðs námsefnis í almennu kennaradeildinni og menntadeildinni, að stúdentspróf frá kennaraskólanum verði algerlega hliðstætt stúdentsprófi frá þeim skólum, sem nú hafa rétt til að útskrifa stúdenta, enda ber til þess brýna nauðsyn, að ekki sé slakað á kröfum til stúdentsprófs og þar með þekkingarkröfum til þeirra, sem rétt skulu hafa til inngöngu í háskóla.

Rétt er að taka fram, að væntanlegir stúdentar frá Kennaraskóla Íslands munu ekki hljóta rétt til inngöngu í verkfræðideild háskólans né til náms í lyfjafræði lyfsala, þar eð krafizt er stúdentsprófs stærðfræðideildar til skráningar í þessum greinum. í þessu sambandi hefur verið ákveðið að efna til endurskoðunar á námsefni menntaskólanna, og skipaði menntmrn. hinn 7. marz s.l. n. til þeirrar endurskoðunar. Mun sú n. hafa lokið störfum, áður en fyrstu stúdentarnir brautskrást frá Kennaraskóla Íslands. Að öðru leyti en því, sem ég hef nú getið, munu stúdentar frá Kennaraskóla Íslands hafa sömu réttindi og stúdentar frá hinum stúdentaskólunum til þess að stunda nám í Háskóla Íslands eða við erlenda háskóla, þ.e. hliðstæð réttindi til háskólanáms og stúdentar úr máladeildum hinna almennu menntaskóla og lærdómsdeild Verzlunarskóla Íslands.

Það er eitt helzta nýmæli frv., að kennaraskólanum eru veitt réttindi til að brautskrá stúdenta. Skal ég fara nokkrum orðum um nauðsyn þess og nytsemi að gera þá breyt. Kennaraskólinn hefur verið 4 ára skóli, og aldur þeirra nemenda, sem inn í hann ganga, hefur verið svipaður og aldur þeirra, sem nám hefja í menntaskóla. En námsbrautin í kennaraskólanum hefur verið lokuð braut. Eftir 4 ára nám í kennaraskóla hafa þeir, sem þaðan brautskrást, ekki átt kost á neins konar framhaldsnámi. Nú er það svo, að 15–16 ára unglingar, sem ljúka landsprófi, geta tæplega gert sér nógu ljósa grein fyrir, hvers konar lífsstarf hentar þeim, t.d. hvort þeir vilja stunda störf, sem háskólanám er nauðsynlegt til að geta stundað, eða hvort þeir vilja t.d. gerast barna- eða unglingakennarar. Þeir, sem fara í menntaskólana, halda báðum þessum leiðum opnum. Þeir eiga aðgang að háskólum eftir 4 ára nám, en geta jafnframt öðlazt kennararéttindi eftir eins árs viðbótarnám í kennaraskóla. Þeir, sem fara í kennaraskólann, geta hins vegar aðeins öðlazt kennararéttindi, en eiga þess ekki kost að bæta við nám sitt þekkingu, er veiti þeim rétt til inngöngu í háskóla. Aftur á móti eiga stúdentar í kennaraskólanum kost á að afla sér þekkingar, sem veitir þeim kennararéttindi. Þetta hefur valdið því, að fjölmargir góðir nemendur, sem lokið hafa landsprófi, hafa fremur kosið menntaskólabrautina, þótt þeir hafi í sjálfu sér vei getað hugsað sér kennslustörf sem atvinnu, enda engri leið lokað með því að velja menntaskólanámið. Háskólaleiðinni hefur hins vegar verið lokað, þegar kennaranámið hefur verið valið. Það er því tvímælalaust framfaraspor að opna nemendum kennaraskólans leið til háskólanáms með sama hætti og stúdentar hafa átt kost á að afla sér kennararéttinda. Má örugglega gera ráð fyrir því, að afleiðing þessara breyt. verði sú, að aðsókn góðra nemenda að skólanum stóraukist, kennarastéttinni til eflingar og íslenzkum æskulýð til góðs.

En til þess að réttlætanlegt sé, að nemendum kennaraskólans sé opnuð leið til háskólanáms, verður hvort tveggja að vera fyllilega tryggt, að inntökuskilyrði í kennaraskólann séu algerlega sambærileg við inntökuskilyrði í menntaskólana og að stúdentspróf úr kennaraskólanum sé fyllilega sambærilegt við stúdentspróf hinna almennu menntaskóla. Við undirbúning þessa frv. hefur einmitt verið lögð á það sérstök áherzla, að báðum þessum skilyrðum sé fullnægt, þannig að með engu móti verði sagt, að nýja stúdentsprófið, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., rýri þær kröfur, sem nú eru gerðar til þeirra, sem rétt hafa til þess að stunda almennt háskólanám.

Annað helzta nýmæli frv. er stofnun framhaldsdeildarinnar, sem veita á nemendum kost á framhaldsmenntun með nokkru kjörfrelsi. Er gert ráð fyrir því, að nemendur framhaldsdeildar stundi nám í eigi færri greinum en 3 og sé ein þeirra aðalgrein, en náminu skal ljúka með prófi. Er hér um vísi að kennaraháskóla að ræða. Rétt þótti að gefa nemendum, sem lokið hafa prófi almennu kennaradeildarinnar og þar með öðlazt kennararéttindi, kost á framhaldsnámi í sérgreinum kennaranámsins, svo sem uppeldis- og sálarfræði og kennslufræði. Ýmsir kennarar munu eflaust óska þess að eiga kost á framhaldsnámi, þótt þeir kæri sig ekki um að þreyta stúdentspróf og stunda háskólanám. Það er og mjög mikilsvert, að gert er ráð fyrir því, að starfandi kennurum sé gert kleift að stunda þetta framhaldsnám eftir frjálsu vali og ljúka tilskildum prófum. Mun framhaldsdeildin án efa mjög geta stuðlað að bættri menntun starfandi kennara. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því, að í framhaldsdeildinni verði veitt fræðsla á háskólastigi, enda er stúdentspróf ekki skilyrði til inngöngu í framhaldsdeildina, heldur almennt kennarapróf.

Að baki þessu frv. liggur því að þessu leyti sú hugsun, að því er snertir háskólamenntun í þeim sérgreinum, sem kennarar hafa einkum áhuga á, að hún skuli hér á landi fara fram í Háskóla Íslands. í þessu sambandi tel ég rétt að skýra frá athugunum, sem nú fara fram á því með hverjum hætti bezt megi bæta skilyrði kennara til háskólamenntunar. Verði þetta frv. að lögum, munu stúdentar frá Kennaraskóla Íslands að sjálfsögðu eiga aðgang að heimspekideild háskólans, og þar á meðal að B.A.-námi því, sem þar fer fram. En þeir, sem lokið hafa cand. mag. eða magisterprófi frá heimspekideildinni eða B.A.prófi þaðan, hafa nokkurn forgangsrétt að kennarastöðum í framhaldsskólum. Um B.A.-námið, eins og það er nú, er það hins vegar að segja, að prófkröfur eru þar ekki yfirleitt nógu miklar, t.d. fyrir þá, sem kenna erlend mál eða raunfræði., náttúrufræði, eðlisfræði, stærðfræði, í gagnfræðaskólum.

Það er skoðun mín, að hverfa eigi frá B.A.-prófum í því formi, sem þau hafa viðgengizt undanfarin ár, en taka upp innan heimspekideildar háskólans 4 ára nám, sem ætlað sé þeim, sem gerast vilja kennarar í gagnfræðaskólum, og skulu þá þeir, sem slíku kandidatsprófi hafa lokið, hafa forgangsrétt að kennarastörfum við gagnfræðaskólana. Álít ég, að þetta háskólanám gagnfræðaskólakennara eigi að greinast í tvo þætti: vera annars vegar ætlað þeim, sem fyrst og fremst kenna hugvísindagreinar, svo sem tungumál og sögu, en hins vegar ætlað þeim, sem kenna raunvísindagreinar, stærðfræði, eðlisfræði, efnafræði og náttúrufræði. Með þessu móti yrði vel bætt úr þeim gífurlega skorti, sem nú er á vel menntuðum gagnfræðaskólakennurum, og mætti búast við, að stúdentar úr kennaraskálanum hefðu sérstakan áhuga á að stunda slíkt háskólanám, enda væru þeir sérstaklega vel til þess fallnir. En auðvitað yrði þetta nám einnig opið stúdentum úr menntaskólunum, eins og stúdentar úr kennaraskólanum gætu stundað nám í íslenzkum fræðum, lögfræði o.s.frv. Er verið að vinna að athugun á endurskipulagningu B.A.-námsins, en til slíkrar endurskipulagningar er ekki þörf lagabreytingar, heldur nægir breyt. á reglugerð háskólans.

Ég sé ekki ástæðu til þess að greina nánar frá frv. í einstökum atriðum, enda fylgir því mjög ýtarleg grg, Ég lýk því máli mínu með því að láta í ljós þá von, að hið háa Alþ. afgreiði þetta frv. nú á þessu þingi, þar eð ég tel hér vera um að ræða hið mesta nauðsynjamál og í frv. felist eitt stærsta framfarasporið, en nú sé hægt að stíga á sviði íslenzkra fræðslumála. Það er skoðun mín, að ekkert brýnna hagsmunamál sé nú til, er sé sameiginlegt íslenzkri kennarastétt og íslenzkri skólaæsku, en að bæta menntunarskilyrði kennarastéttarinnar. En einmitt það er megintilgangur þessa frv.

Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.