21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1062 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

205. mál, Kennaraskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau niðurlagsorð hæstv. menntmrh., að það sé mikið nauðsynjamál að bæta menntunarskilyrði kennara, og því tel ég ástæðu til þess að fagna þessu frv. Ég tel alveg tvímælalaust, að margar þær breytingar, sem þar er gert ráð fyrir, verði til bóta. Hitt hef ég hins vegar talið æskilegt, að það hefði verið möguleiki á því að leggja þetta frv. fyrr fyrir þingið, því þó að um þetta mál hafi margir góðir menn fjallað, þá er það þannig, að betur sjá augu en auga, og þess vegna hefði verið æskilegt, að gefizt hefði lengri tími til þess að athuga þetta mál hér í þinginu en verða mun að þessu sinni, og þetta álít ég að eigi við um fleiri mál, sem hafa komið fram hér að undanförnu.

Ég vil enn fremur taka undir það, sem hæstv. menntmrh. sagði um nauðsyn þess, að þjóðin hafi góða kennarastétt, og til þess að það megi takast, er að sjálfsögðu tvennt nauðsynlegt. Annað er það, að kostur sé á góðri kennaramenntun í landinu, og hitt er það, að kennarar búi við sæmileg launakjör, þannig að störf þeirra séu eftirsóknarverð.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að kennaraskólinn hefur verið mjög vanræktur á undanförnum áratugum, en sem betur fer er nú að því stefnt að bæta úr í þeim efnum. Bæði er skólinn nú að fá nýtt og gott húsnæði og auk þess er með frv. því, sem hér liggur fyrir, stefnt að því að bæta enn aðstöðu hans, og það er sérstök ástæða til þess að fagna þessu. En hitt málið er þó ekki siður aðkallandi, að það sé unnið að því að bæta launakjör kennara og það á þann hátt gert eftirsóknarvert að stunda þessi störf. Þar hefur nokkuð miðað í rétta átt að undanförnu fyrir harða baráttu kennaranna, en þó vantar mikið á, að þeim áfanga sé náð í þeim efnum, sem nauðsynlegt er að náist, ef þessi störf eiga að verða nægilega eftirsóknarverð. Og ég hygg, að það verði enn þá meiri nauðsyn á þessu eftir þá breytingu, sem gerð er á kennaraskólanum með þessu frv. og ég tel alveg rétta, þ.e. að hann eigi kost á að brautskrá stúdenta, en þetta kann að ýta undir það, að það verði kannske færri menn af þeim, sem ganga í kennaraskólann, sem festist við kennarastörf, leiti sér frekar framhaldsmenntunar, nema því aðeins að það sé jafnframt tryggt, að kjör kennara verði enn þá bætt og gerð eftirsóknarverðari en nú er. Á þetta atriði finnst mér alveg sérstök ástæða til að leggja áherzlu í sambandi við þetta frv., að jafnhliða því sem kennaramenntun sé bætt, þá sé ekki siður nauðsynlegt að bæta kjör kennaranna, svo að kennarastarfið verði eftirsóknarverðara en það er nú. En eins og kunnugt er, þá er nú mjög mikill skortur á kennurum víða um land og hefur farið vaxandi á undanförnum árum, og verður ekki úr bætt, jafnvel þó að þessi breyt. verði gerð á kennaraskólanum, nema því aðeins að kjör kennaranna verði einnig bætt.

Eins og hæstv. menntmrh. tók fram, er það sú aðalbreyting, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að kennaraskólinn fái rétt til þess að brautskrá stúdenta. Ég tel, að þetta sé sjálfsögð og eðlileg breyt. En í sambandi við það finnst mér rétt að minna á annað mál, sem er þessu mjög skylt. Á s.l. sumri var flutt í bæjarstjórn Reykjavíkur, af hálfu fulltrúa Framsfl. þar, till, um að stofnsetja nýjan menntaskóla í Reykjavík, en nauðsyn þess er aðkallandi, vegna þess að núv. menntaskóli er orðinn allt of litill til að fullnægja þeirri þörf, sem er fyrir slíkt nám hér í bæ. Þessi till. fékk mjög góðar undirtektir í bæjarstjórninni og var samþ. þar shlj. í sambandi við afgreiðslu fjárl. á þessu þingi lagði ég fram brtt. um það, að nokkur fjárveiting yrði veitt til byggingar nýs menntaskóla í Reykjavík. Þessi till. náði ekki samþykki þessu sinni, en hins vegar kom fram yfirlýsing frá hæstv. menntmrh. um það, að stjórnin hefði áhuga á þessu máli og mundi vinna að því að koma upp nýjum menntaskóla í Reykjavík. Ég tel að sjálfsögðu, að þó að kennaraskólinn fái rétt til að brautskrá stúdenta, þá verði það ekki á neinn hátt til þess að koma í veg fyrir það, að haldið verði áfram með þær fyrirætlanir, sem hefur verið talað um og ráðgerðar um nýjan menntaskóla í Reykjavík. En mér finnst eigi að síður rétt að fá um það yfirlýsingu frá hæstv. menntmrh. nú, að þó að þessi breyt. sé ráðgerð á kennaraskólanum, að hann fái rétt til að brautskrá stúdenta, þá verði það ekki á neinn hátt til þess að koma í veg fyrir þær fyrirætlanir og undirbúning, sem hefur verið að því að byggja nýjan menntaskóla hér í Reykjavík.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín fleiri að sinni, en vænti þess, að hæstv. menntmrh. svari þessari fsp. minni varðandi nýjan menntaskóla í Reykjavík.