21.03.1963
Neðri deild: 57. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

205. mál, Kennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) fyrir góðar undirtektir undir þetta frv. Ég vil einnig taka algerlega undir þau orð hans, að að sjálfsögðu er ekki nægilegt að bæta menntunarskilyrði kennarastéttarinnar, heldur þarf einnig að bæta starfsaðbúnað hennar, þ.e. launakjör hennar og starfsskilyrði. En um langan aldur má með réttu segja, að ekki aðeins menntunarskilyrðum þessarar mikilvægu stéttar hafi verið ábótavant, heldur hefur einnig kjörum hennar verið stórum ábótavant. Þetta hefur núv. ríkisstj. verið algerlega ljóst. Þess vegna var það ákveðið fyrir tæplega tveimur árum að greiða kennurum sérstaka launauppbót, sem kom til greiðslu á síðasta starfsári og kemur aftur til greiðslu nú á þessu ári. Í þessari ráðstöfun var fólgin veruleg kjarabót fyrir kennara og þó ekki síður viðurkenning á því mikilvæga starfi, sem kennarastéttin vinnur.

Þá skal ég enn fremur láta þess getið, að á s.l. sumri voru gefin út erindisbréf fyrir kennara og skólastjóra, þar sem kveðið er á um ýmis atriði í starfi, starfsskyldu og starfsréttindum kennara, sem áður hafa verið óákveðin, engar fastar reglur gilt um. En í áratugi hafa samtök kennara og kennarastéttin í heild óskað eftir því að fá settar fastar reglur í erindisbréf um starfsréttindi sín og starfsskyldur. Slíkt erindisbréf var gefið út á s.l. sumri, og má tvímælalaust telja, að kennarastéttinni hafi verið að því sérstaklega mikil réttindabót. Nú nýlega er búið að ákveða, með hvaða hætti haga skuli aukagreiðslum samkv. erindisbréfinu, en þar er m.a. kveðið á um daglegan starfstíma kennaranna, svo að nauðsynlegt var að ákveða, með hverjum hætti skyldi haga aukagreiðslum til þeirra, ef þeir ynnu umfram daglegan starfstíma. Hér var nokkurt vandamál á ferðinni, vegna þess að síðasta Alþ. afnam launalög opinberra starfsmanna, en gerði ráð fyrir því, að bandalag opinberra starfsmanna semdi við ríkisvaldið um kaup og kjör. En til skamms tíma hafði einkum verið rætt um flokkun opinberra starfsmanna í launaflokka og um launaupphæðirnar, en hins vegar ekki unnizt tími til þess að ræða milli ríkisvaldsins og bandalags opinberra starfsmanna um starfstíma og aukavinnugreiðslur. Var þess vegna ekki unnt að kveða á um, hvernig framkvæma skyldi afleiðingar ákvæða erindisbréfsins um greiðslu fyrir vinnu utan daglegs starfstíma, þar eð bandalag opinberra starfsmanna eða kjararáð hafði til skamms tíma ekki lagt fram till. sínar um ráðstöfun þessara mála og kjaranefnd ríkisstj. þar af leiðandi ekki tekið afstöðu til þess. En fyrir um það bil 3 eða 4 vikum lagði kjararáð bandalags opinberra starfsmanna fram till. sínar um starfstíma og eftirvinnugreiðslur. Þær hafa síðan verið ræddar milli aðila, þó að endanleg ákvörðun hafi ekki verið tekin. En þær viðræður voru þó þess eðlis, að ríkisstj. taldi fært að taka ákvörðun um túlkun á erindisbréfi kennara og skólastjóra, og að loknum ýtarlegum viðræðum við fulltrúa kennarasamtakanna hefur nú verið ákveðið, með hverjum hætti skuli haga aukagreiðslum í framhaldi af setningu erindisbréfsins í fyrrasumar, og taka þessar aukagreiðslur að sjálfsögðu til alls starfs, sem hefur verið unnið, eftir að erindisbréfið var gefið út.

Þá skal ég og geta þess, að í þeim viðræðum, sem þegar hafa farið fram milli kjararáðs bandalags opinberra starfsmanna og kjaranefndar ríkisstj., hefur verið samkomulag um að bæta kjör kennarastéttarinnar í heild mjög verulega frá því, sem áður var, og ekki aðeins í réttu hlutfalli við það, sem gert er ráð fyrir að kjör opinberra starfsmanna yfirleitt muni breytast, heldur hefur verið ákveðið og ríkisstj. á það fallizt að hafa kennarastéttirnar í tiltölulega hærra launaflokki en þeim var skipað í launalögum síðast. Ber þetta einmitt vott um, að hjá ríkisstj. er fullur skilningur á því sjónarmiði, sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að nauðsyn beri til þess að bæta mjög kjör kennarastéttanna, ekki aðeins beinlínis með því að auka laun þeirra í krónum talið, heldur einnig hlutfallslega í samanburði við ýmsar aðrar stéttir.

Þá skal ég svara þeirri fsp., sem hv. 7. þm. Reykv. beindi til mín varðandi menntaskólamálið. Ég skal staðfesta það, að samþykkt þessa frv. um Kennaraskóla Íslands mun engin áhrif hafa á fyrirætlanir ríkisstj. um nýbyggingu við hinn meira en 100 ára gamla menntaskóla hér í Reykjavík og byggingu annars menntaskóla í austurbænum. Mikill undirbúningur hefur farið fram undanfarna mánuði og vikur að nýbyggingu í þágu menntaskólans, hins gamla menntaskóla við Lækjargötu. Hefur ríkisstj. þegar fest kaup á nauðsynlegum lóðum við Bókhlöðustíg, til þess að unnt sé að hefja framkvæmdir við fyrirhugaða nýbyggingu í þágu menntaskólans í Reykjavík þegar snemma í vor. Teikningum af því húsi, sem þar er ætlað að reisa og fyrst og fremst eiga að vera sérstofur í þágu hinna tveggja deilda menntaskólans, er alveg að verða lokið, og það er þegar tryggt, að byggingarframkvæmdir við þessa nýbyggingu muni geta hafizt svo snemma í vor, að byggingunni verði lokið á næsta hausti, þannig að 1. okt. n. k. mun menntaskólinn í Reykjavík fá til umráða nýtt húsnæði, sem geri honum kleift að starfa á stórum betri og hagfelldari hátt en hann hefur áður átt kost á að gera undanfarna áratugi. Með þessu vona ég, að fsp. hv. þm. sé svarað.