09.04.1963
Efri deild: 71. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1022)

205. mál, Kennaraskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá hv. Nd. og var þar samþ. shlj. með atkv. allra hv. dm., eftir að á því höfðu verið gerðar nokkrar mjög smávægilegar breyt. samkv. einróma till. menntmn. þeirrar hv. d. Ég sé ekki ástæðu til þess hér að rekja ýtarlega í einstökum atriðum efni þessa frv., en skal þó í örfáum orðum gera grein fyrir allra helztu breytingum, sem það felur í sér frá núgildandi skipan, og þeirri stefnu, sem í frv. er mörkuð í menntunarmálum kennarastéttarinnar.

Helztu nýmæli þessa frv. eru þau annars vegar, að gert er ráð fyrir því, að kennaraskólinn fái rétt til þess að útskrifa stúdenta, og hins vegar, að gert er ráð fyrir því, að við kennaraskólann sé stofnuð framhaldsdeild, er veiti þeim, sem lokið hafa almennum kennaraprófum frá kennaraskólanum, kost á nokkurri framhaldsmenntun á sviði kennaraháskóla. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að komið verði á fót sérdeild, sem kölluð er undirbúningsdeild sérnáms, og sérstakri handavinnudeild, er veiti sérmenntun í handavinnu karla og kvenna.

Kjarni þeirrar nýskipunar, sem tekin er upp, er sá annars vegar, að gert er ráð fyrir eins árs deild fyrir þá, sem lokið hafa almennu kennaraprófi, og nám í þeirri deild á að veita þeim, sem það próf hefur, rétt til inngöngu í háskóla. Er hún nefnd menntadeild. Hins vegar er framhaldsdeildin, sem veita á nemendum kost á framhaldsmenntun með nokkru kjörfrelsi, þó að próf í þeirri deild veiti hvorki sérstök starfsréttindi né heldur réttindi til náms í háskóla.

Um alllangt skeið hefur verið starfandi svonefnd stúdentadeild við kennaraskólann, þar sem þeim, sem lokið hafa almennu stúdentsprófi, hefur verið gefinn kostur á að taka kennarapróf og öðlast kennararéttindi eftir eins árs nám. Má því segja, að með þeirri skipan, sem hér er gert ráð fyrir að taka upp, séu þeim, sem ljúka almennu kennaraprófi, veitt hliðstæð réttindi til þess að öðlast stúdentsréttindi, eins og stúdentar hafa haft til þess að öðlast kennararéttindi. Hvort tveggja krefst eins árs náms til viðbótar við það nám, sem nemendurnir þegar hafa að baki.

Höfuðókostur þess skipulags, sem verið hefur á menntunarmálum kennara, hefur verið sá, að kennaraskólinn hefur í raun og veru verið lokuð námsbraut. Þeir, sem stundað hafa 4 ára nám þar, hafa ekki átt kost á neins konar framhaldsmenntun. Með þessu móti, með því að stofnsetja menntadeildina við kennaraskólann, eru þeim, sem stundað hafa 4 vetra nám í kennaraskólanum, opnuð skilyrði til þess með eins vetrar viðbótarnámi að stunda háskólanám. En áður en til þess gæti komið, að unnt væri að leggja til, að sett yrðu lög, sem heimiluðu þetta, var nauðsynlegt að undirbúa málið mjög vandlega og endurskoða kennslutilhögun alla og námsefni í sjálfum kennaraskólanum, þ.e. í hinu fjögurra vetra námi kennaraskólans. Þetta hefur verið gert mjög rækilega með starfi tveggja nefnda, sem að undirbúningi þessa frv. hafa starfað.

Upphaf málsins er það, að í febr. 1960 skipaði menntmrn. 7 manna n. til að semja nýtt frv. að lögum um kennaraskólann. Sú n. skilaði till. til rn., sem ræddar voru mjög ýtarlega, en að því búnu skipaði rn. nýja n. á s.l. sumri, í júlí 1962, skipaða fulltrúum frá rn., háskólanum og menntaskólanum í Reykjavík, auk fulltrúa frá kennaraskólanum og fræðslumálastjóra, í þeim tilgangi gagngert að bera saman námsefni kennaraskólans, eins og það var, og námsefni menntaskólanna og gera till. um, hvert námsefni kennaraskólans, hins almenna kennaranáms, þyrfti að vera, til þess að eins árs viðbótarnám gæti samsvarað almennu menntaskólanámi. Þessi nefnd starfaði síðan í fyrrasumar og lauk mjög miklu verki, sem gerð er grein fyrir í fskj. með þessu frv. Er þetta endurskoðaða frv. fyrri n. byggt á einróma till. þessarar seinni n. Þessi undirbúningur á að vera trygging fyrir því, að námsefni í fjórum bekkjum kennaraskólans, að viðbættu námsefni eins vetrar í væntanlegri menntadeild kennaraskóla, sé algerlega sambærilegt því, sem gerist um námsefni hinna almennu menntaskóla, en inntökuskilyrði í kennaraskólann eru samkv. þessu frv, algerlega hliðstæð því, sem gerist um inntökuskilyrði í menntaskólana.

Ég vil því leggja sérstaka áherzlu á, að með því nýja stúdentsprófi, sem hér er gert ráð fyrir að tekið verði upp, er ekki verið að leggja til, að dregið sé úr kröfum stúdentsprófs, dregið sé úr kröfum til þeirra manna, sem fá eiga rétt til að stunda nám í háskóla, heldur er til þess ætlazt, og um það mun verða séð .í framkvæmd, a.m.k. meðan ég hef eitthvað með framkvæmd þessara mála að gera, að innihald þess prófs úr Kennaraskóla Íslands, sem veitir rétt til inngöngu í háskóla, sé að efni til algerlega hliðstætt innihaldi þess prófs úr hinum almennu menntaskólum og Verzlunarskóla Íslands, sem nú er inngönguskilyrði í háskóla hér og annars staðar.

Ég skal að síðustu taka fram, að áður en frv. var lagt fram, hafði það hlotið rækilega meðferð í Háskóla Íslands og hlotið meðmæli háskólaráðs. Um það var einnig fjallað af menntaskólunum og efni þess hafði hlotið athugun og samþykki, sérstaklega menntaskólans hér í Reykjavík. Ég vil einnig geta þess, að hv. menntmn. Nd., sem fjallaði um málið, hafði samband bæði við háskólann og menntaskólana, og hlaut frv. meðmæli allra þessara aðila, að ég ekki tali um kennaraskólann sjálfan og samtök kennara, sem leggja mikið upp úr því, að þetta mál nái fram að ganga, þar eð þeir telja alveg réttilega, að fátt sé íslenzkri kennarastétt og raunar íslenzkri skólaæsku nú nauðsynlegra en að efla og bæta menntunarskilyrði kennarastéttarinnar.

Ég vildi því mega leyfa mér að vænta þess, herra forseti, að þetta frv. með þeim litlu breyt., sem á því urðu í Nd., eigi greiðan gang gegnum þessa hv. d., þannig að það geti orðið að lögum nú á þessu þingi.

Að svo mæltu leyfi ég mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.