09.04.1963
Efri deild: 71. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1070 í B-deild Alþingistíðinda. (1023)

205. mál, Kennaraskóli Íslands

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að lengja þessar umr. og allra sízt tefja fyrir þessu merka máli. Ég vil aðeins þakka þeim mörgu mönnum, sem hafa unnið að því að hefja kennaraskólann til þess vegs, sem nú eru horfur á að verði gert. Það hefur verið áhugamál margra okkar um langa tíð, sem þar fengum okkar fræðslu, að kennaraskólinn yrði efldur, eins og nú eru horfur á. Og mér er alveg sérstakt ánægjuefni, að þetta skuli gerast nú. Það stendur svo á, að þessa dagana á ég 40 ára afmæli frá því að hafa lokið námi í kennaraskólanum, og vil ég af því tilefni endurtaka þakklæti mitt til þeirra manna, sem hér hafa komið þessu máli svo vel á veg sem gert er með þessu frv.