14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1073 í B-deild Alþingistíðinda. (1032)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Ég er ekki mótfallinn því, að þjóðkirkjunni verði fenginn eignar- og umráðaréttur yfir Skálholti og hún studd til þess að hagnýta staðinn sem bezt í þágu sína og kristnihalds í landinu. Þess vegna get ég fylgt frv. því, sem hæstv. kirkjumrh. hefur nú mælt fyrir. Þetta frv. felur í sér merkileg nýmæli og stuðning við íslenzka kirkju. Það veitir henni tækifæri til þess að sækja nýjan styrk og nýtt líf til þess staðar, sem í rúm 700 ár var í senn höfuðstaður hennar og mesta menntasetur þjóðarinnar. En ég get ekki komizt hjá því að láta í ljós vonbrigði mín, vegna þess að svo virðist nú komið, að forustumenn kirkjunnar hafi varpað fyrir róða hugmyndinni um raunverulega endurreisn biskupsstóls í Skálholti, a.m.k. um sinn.

Þegar endurreisn Skálholts var hafin eftir langa og niðurlægjandi niðurníðslu, vakti það almennan og mikinn áhuga um land allt. Þori ég að fullyrða, að a.m.k. stór hluti þjóðarinnar ætlaðist til þess, að biskupsstóll yrði endurreistur á hinu forna biskupssetri. Í Skálholti var biskupssetur, frá því að biskupsdæmi var fyrst sett hér á stofn 1056, fram undir aldamótin 1800, er stóllinn var fluttur til Reykjavíkur, þegar ófrelsi og fátækt svarf sem fastast að íslenzku þjóðinni. Skálholtsstaður hefur nú verið endurreistur og húsaður þannig, að hann gæti innan skamms tíma tekið við æðsta kirkjuhöfðingja þjóðarinnar til búsetu. Samgöngur við staðinn eru svo góðar, að þangað er aðeins 11/2 klst. akstur frá Reykjavík, og símasamband við staðinn er einnig öruggt. Biskupinn yfir Íslandi gæti því auðveldlega unnið þar öll sín störf í þágu kirkjunnar og embættisins. Ýmis umboðsstörf, sem biskup og skrifstofa hans vinna nú, væri sjálfsagt að fela kirkjumrn., auk þess mundi biskup eins og áður hafa skrifstofu í höfuðborginni.

Raddir hafa verið uppi um það á undanförnum áratugum, að æskilegt væri, að biskupar væru tveir, og hefur þá jafnframt verið rætt um, að annar þeirra hefði búsetu á Hólum í Hjaltadal, hinu forna biskupssetri Norðlendinga. Í frv., sem Magnús heitinn Jónsson prófessor flutti hér á Alþ. fyrir nokkrum árum, var gert ráð fyrir því, að biskuparnir yrðu tveir. Mjög líklegt er, að þegar þjóðinni hefur fjölgað verulega, verði talið nauðsynlegt, að biskupar verði fleiri en einn. Mundi þá ekki talið óeðlilegt, að biskup sæti á Hólum. Hins vegar virðist í bili vera nægilegt, að einn biskup sé yfir Íslandi og 2 vígslubiskupar, eins og nú er.

Það hefur alltaf verið mín skoðun, að vel færi á því, að æðsti kirkjuhöfðingi þjóðarinnar væri búsettur í Skálholti, á hinu forna biskupssetri. Með slíkri ráðstöfun væru tengslin á ný treyst milli fortíðar og nútíðar, forn arfleifð sögu og hefðar vakin til nýs vegs og virðingar. Biskupsembættið fengi þá nýjan og traustari grundvöll í skjóli minninga um merkilega sögu Skálholtsstaðar. Þjóðlegasta og elzta embætti landsins fengi nýtt gildi og aukið sjálfstæði í hugum Íslendinga.

Því miður virðist íslenzka kirkjan og leiðtogar hennar ekki vera reiðubúin til þess að hv erfa að þessu ráði, og margt virðist vera á huldu um það, hvernig hagnýta eigi Skálholtsstað. Raddir hafa verið uppi um, að þar skyldi settur á stofn lýðháskóli að norrænni fyrirmynd. Ég játa hreinskilnislega, að mig brestur sannfæringu fyrir nauðsyn slíkrar stofnunar á þessum sögufrægasta stað íslenzkrar kirkju. Sannleikurinn er líka sá, að okkur vantar ekki fyrst og fremst fleiri bóknámsskóla hér á landi í dag, allra sízt skóla, sem margt bendir til að lítil eða engin þörf sé fyrir og samhæfist alls ekki þjóðarþörfum, þó að þeir hafi að ýmsu leyti rækt merkilegt hlutverk meðal stærri þjóða.

En þrátt fyrir það, að hugmyndin um biskupsstól í Skálholti virðist í bili eiga erfitt uppdráttar, er það ósk mín og von, að sú ráðstöfun, sem þetta frv., sem hér er til umr., felur í sér á Skálholtsstað, megi verða kirkju og kristnihaldi í landinu til eflingar á komandi árum.