14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1076 í B-deild Alþingistíðinda. (1034)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þegar hafizt var handa um endurreisn Skálholts fyrir nokkrum árum, mun því almennt hafa verið fagnað. Það má víst segja, að sú endurreisn hafi verið hafin fyrir frumkvæði og áhuga ýmissa, sem gengust fyrir stofnun Skálholtsfélagsins. En síðan kom ríkisvaldið til samstarfs við þá, sem hér unnu að, og var tekið að veita fé til að endurreisa staðinn. Og 1958 var þessi fjárveiting til endurreisnar í Skálholti orðin 1 millj. 200 þús. kr., sem var talsvert fé á þeirri tíð, sennilega ekki. minna en sem svarar 2 millj. nú. Síðan kom nokkur lægð í þetta, og er t.d. framlag í þessu skyni á fjárl. yfirstandandi árs aðeins 800 þús. kr. En ég fagna því, að með því frv., sem nú er lagt fram, má gera ráð fyrir, að aukinn skriður komist aftur á þetta mál, endurreisn Skálholtsstaðar.

Eins og hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir, er efni málsins það, að ríkið afhendi þjóðkirkjunni staðinn og biskup og kirkjuráð skuli taka þar við staðarforráðum. Ég lýsi mig fylgjandi þessari hugmynd og þessu frv. Ég tel það vei við eiga að setja nú með lögum ákvæði um, að þjóðkirkjan skuli fá þennan stað, sem hefur verið annar höfuðstaður hennar um aldir. Og í raun réttri er með þessu ákveðið, að sú ein starfræksla og þær einar stofnanir komi í Skálholti, sem þjóðkirkjan vill hafa þar. Og þetta tel ég alveg laukrétta stefnu. Ég hef aldrei almennilega sætt mig við ýmsar bollaleggingar, sem hafa verið uppi um að hefja Skálholt með því að setja þar þessa eða hina veraldlega stofnun, kannske láta þar við sitja, og svo kirkjuna, en ætíð fellt mig betur við, að kirkjulegar stofnanir ættu að koma í Skálholti.

Verði þetta frv. samþ., ætti að vera ljóst, að þjóðkirkjan sjái svo um, að Skálholt verði framvegis kirkjulegt setur, eins og það var, þegar vegur þess var mestur. Og ég mundi vilja mega taka undir það, sem hér hefur verið látið í ljós, að þetta mundi verða til að lyfta þjóðkirkjunni og örva hennar starf, og það mundi ég fyrir mitt leyti telja mjög vel farið.

Það er oft talað um það, að kirkjustarfið sé heldur dauft og áhrif kirkjunnar minnkandi. Ég held, að þetta sé að sumu leyti byggt á misskilningi. Menn byggja þetta á því, að messur eru oft fremur slælega sóttar. En ég spyr: Er ekki því einnig til að dreifa um almenna fundi, eru þeir ekki líka slælega sóttir, t.d. fundir ýmsir, sem boðað er til um veraldleg efni? Við skulum segja þjóðmálafundir og annað slíkt, þar sem ekki er von á kappræðum, eru þeir ekki líka slælega sóttir? En hver mundi vilja halda því fram, þótt slíkir fundir séu slælega sóttir, að áhrif stjórnmálaflokka í landinu séu sáralítil eða þetta sé vottur um, að áhrif þeirra séu lítil? Sannleikurinn er sá, að kirkjan er miklu sterkari þáttur í þjóðlífi landsins en kirkjusóknin ber vott um. Það, að kirkjusókn er heldur lítil, er fyrirbrigði, sem á sér stað í öllum félagsskap svo að segja nú um þessar mundir. Menn hafa í svo mörg horn að líta.

Sannleikurinn er sá, að kirkjan er þrátt fyrir allt sú stofnun í landinu, sem hefur mest samband við heimilin og fólkið yfirleitt, þegar dýpra er skoðað. Við þurfum ekkert annað en athuga, hvað gerist við skírnir, fermingar, giftingar og andlát og ef eitthvað verulega bjátar á. Þá er það ætíð kirkjan og hennar menn, er koma þar til greina. Þessi stofnun er miklu voldugri og miklu sterkari þáttur í öllu lifi þjóðarinnar en menn telja sumir hverjir, sem líta á það eitt, að kirkjusókn er stundum lítil, þegar messað er.

En þetta var útúrdúr. Ég stóð hér upp aðeins til að lýsa því yfir, að ég er fylgjandi þessu máli. að þessi staður, Skálholt, verði lagður til þjóðkirkjunnar og verði þar með kirkjulegt setur um alla framtið. Ég er sannfærður um, að verði það gert, þá verður því ekki breytt aftur. Ég enda svo þessi orð með því að segja, að ég tel, að íslenzku þjóðkirkjunni sé vel trúandi fyrir staðnum.

Hitt er annað mál, að gera má ráð fyrir því, að það kunni svo að fara, að það verði að styðja kirkjuna meira fjárhagslega en gert er ráð fyrir í þessu frv., en það er engin ástæða til að vera að fara út í það núna. Það er hægt að bæta við á fjárl. eða með öðrum hætti, eftir því sem áætlanir um uppbyggingu staðarins gefa tilefni til.

Ég sé ekki heldur ástæðu til að fara að ræða hér um það, hvaða stofnanir eigi að koma í Skálholt. Það er í raun og veru það eitt gert með þessu máli, að þar koma þær einar stofnanir, sem þjóðkirkjan telur að þar eigi að vera og hentugt að þar séu, þar á meðal biskupssetur, ef þjóðkirkjan kemst að þeirri niðurstöðu, að það sé heppilegt. Og ég tel engu lokað í því, að biskupssetur verði í Skálholti, þótt þessi skipan verði nú upp tekin. Þvert á móti þætti mér alls ekkert ólíklegt, að menn kæmust á þá skoðun innan þjóðkirkjunnar, að biskupssetur ætti að vera í Skálholti. Og sannleikurinn er sá, að fyrir þá, sem hafa áhuga fyrir því, að biskupssetur komi í Skálholti, er þetta ekki spor aftur á bak, vegna þess að biskupssetur mundi heldur aldrei verða sett í Skálholt að þjóðkirkjunni nauðugri eða gegn hennar mótmælum.