14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1039)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til þess fyrir mig að fara að bæta miklu við það, sem ég sagði áðan um þetta mál. En þó vildi ég segja fáein orð að gefnu tilefni.

Aðalerindi mitt hingað í ræðustólinn áðan var raunar að grennslast eftir því hjá hæstv. kirkjumrh., hvort vænta mætti frekari till., eins og hann orðaði það, um endurreisn Skálholts. Vissulega var það rétt orðað hjá hæstv. kirkjumrh., því að þá fyrst hefur Skálholt verið endurreist, þegar það hefur fengið sinn biskupsstól á ný. Fyrr er ekki um endurreisn Skálholts að ræða. En svar hans var, að ekki væri frekari till. að vænta að þessu sinni frá hæstv, ríkisstj., og er þá fullsvarað af hans hálfu því, sem ég innti eftir.

Þegar ég lét þau orð falla, að mér virtist þetta frv. valda vonbrigðum, af því að menn hefðu búizt við öðru jafnframt, þá hafði ég fyrst og fremst í huga þá ræðu, sem hv. 1. þm. Vestf. var nýbúinn að flytja, þar sem greinilega kom fram frá þeim mikla áhugamanni um flutning biskupsstólsins, að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum. Og það eru áreiðanlega fleiri en hann, sem hafa orðið það, og sjálfsagt allmargir hér í þingi, svo sem ráða má af þeim tillöguflutningi um þetta mál, sem átt hefur sér stað og ég gerði grein fyrir. En hæstv. ráðh. sagði, að það yrði tryggt með frv., að ekki yrði sett nein sú stofnun niður í Skálholti, sem kirkjan vildi ekki hafa þar eða kirkjunnar yfirvöld, sem mun vissulega vera rétt hjá honum, að mér skilst samkv. frv. Ég geri nú reyndar ekki ráð fyrir, að hér sé um mikla breyt. að ræða, því að tæplega mundi það hafa komið fyrir, enda þótt engin lög væru sett, að ríkisstj. eða Alþ. færi að setja niður í Skálholti stofnanir, sem kirkjan væri beinlínis andvíg að þar væru, og getum við víst verið því sammála, að það sé heldur ekki rétt að gera slíkt.

Þær raddir heyrast stundum, m.a. hjá sumum kirkjunnar mönnum, að þjóðkirkjan sé ekki nógu sjálfstæð stofnun í landinu. Ef hæstv. ráðh. hefur skilið mín ummæli þannig, að ég væri að mæla gegn auknu sjálfstæði kirkjunnar, þá er þar um misskilning að ræða eða ég hef ekki hagað mínum orðum rétt. En hitt: verð ég að segja, að mér finnst ekki sjálfstæði íslenzkrar þjóðkirkju aukast mjög, þótt hún fái umráð yfir Skálholti á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Það væri að sjálfsögðu mikil aukning á sjálfstæði kirkjunnar, ef hún yfirleitt réði sínum málum, ef hún yfirleitt hefði umráð yfir því fé, sem varið er til kirkjunnar málefna, o.s.frv. Það væri aukning á hennar sjálfstæði. Og að ýmissa dómi væri það mikil aukning á sjálfstæði íslenzkrar kirkju, ef hún hætti að vera ríkiskirkja og yrði frjáls félagsskapur. Án þess að ég vilji taka afstöðu til slíks, nefni ég það. En þetta frv. er ekki mikið sjálfstæðismál fyrir íslenzka þjóðkirkju, sýnist mér. Það er mjög litið sjálfstæðismál a.m.k., þó að það kunni að vera eitthvað í þá átt.

Þá voru látin falla orð um það áðan, að það væri ekki rétt að gera mál eins og biskupsstólinn eða kirkjumálin að tilfinningamáli, og eins og verið að finna að því, að af sumum ræðumönnum hér í dag hefði verið horft á þessi mál frá andlegum sjónarhól. Mér finnst það ekki aðfinnsluvert að líta á mál kirkjunnar frá andlegum sjónarhól, og ég vildi óska, að hæstv. kirkjumrh. tækist að vera jafnan staddur á þeim hól, þegar hann fjallar um kirkjumál.