14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það hefur í þessum umræðum nokkuð verið rætt um það, hvert eigi að vera verkefni biskups. Það hefur komið fram hjá hv. 1. þm. Vestf., að hann eigi fyrst og fremst að vera andlegur leiðtogi kirkjunnar, og það hefur komið fram hjá hæstv. dómsmrh. eða kirkjumrh., að hann eigi að hafa margþætt veraldleg skrifstofustörf með höndum. Mér finnst ekki úr vegi, að það sé spurt í framhaldi af þessu: Er hægt að ætla einum manni, að hann komist yfir þetta hvort tveggja, að hann komist yfir að sinna öllum þeim veraldlegu störfum, sem tilheyra stjórn kirkjunnar, og komist jafnframt yfir það að vera andlegur leiðtogi hennar, þ.e.a.s. ef kirkjunni er ætlað eitthvert raunverulegt, víðtækt verkefni?

Ég held, að ef menn athuga þetta tvennt, hljóti niðurstaðan að verða sú, að það sé ofvaxið einum manni að leysa þetta starf af hendi, svo að vel sé. Sú var líka reyndin áður, þegar kirkjan hafði miklu hlutverki að gegna og meira í íslenzku þjóðlífi en hún hefur nú, að biskuparnir voru tveir, og þótti það ekkert of mikið. Þess vegna held ég, að ef menn horfa lengra og ætla kirkjunni eitthvert verulegt starf í íslenzku þjóðlífi, þá eigum við ekkert að vera að karpa um það, hvort það eigi að vera biskupsstóli í Reykjavík eða biskupsstóll í Skálholti eða biskupsstóll á Hólum. Þá væri það sennilega ekki óeðlileg lausn þessa máls, að biskuparnir væru þrír, sem er þá ekki nema fjölgun um einn frá því, sem áður var. Mér finnst þess vegna, að það eigi að athuga þetta mál frá því sjónarmiði, að biskupsstólarnir á Hólum og í Skálholti verði endurreistir, án þess að biskupsembættið væri lagt niður hér í Reykjavik.

Menn eru að tala um það við ýmis tækifæri, að þeir telji nauðsynlegt, að störf kirkjunnar séu aukin, og vissulega má færa mörg rök af því, að það sé þörf fyrir það, að starf kirkjunnar verði aukið á ýmsum sviðum þjóðlífsins, og kannske helztu vonirnar um batnandi þjóðlif einmitt bundnar við það, að kirkjan geti aukið starfssvið sitt. En það er ekki hægt að ætlast til þess, að kirkjan geti sæmilega sinnt þessu verkefni, nema henni sé séð sæmilega fyrir starfsmönnum og starfsfé. Ég hygg, að það sé rétt, að íslenzk kirkja býr við lakari fjárhagslegar aðstæður en kirkja nokkurs annars lands. Og þess vegna verða menn að gera sér fullkomlega grein fyrir því, að ef þeir meina það í alvöru, að þeir vilji aukið starf kirkjunnar og bætta aðstöðu hennar, þá verður að skapa henni betri aðstöðu til starfsmannahalds og yfirstjórnar og betri fjárhagsaðstöðu en hún býr við í dag. Annars eru þetta ekki annað en marklaus orð, þegar menn eru að tala um það, að auka eigi starfsemi kirkjunnar.

Við vitum það, að eins og okkar þjóðfélag er í dag, þá er það orðið miklu margbreyttara og margþættara en okkar þjóðlíf var áður, og þetta hefur það í för með sér, að ef kirkjan á að geta starfað í samræmi við hina breyttu tíma, þá þarf hún á meiri starfskröftum og starfsfé að halda en hún áður hafði. Og ég held, að það væri engin ofrausn, þó að þannig væri búið að yfirstjórn kirkjunnar, að það væri bæði biskupsstóll í Reykjavik og svo einnig í Skálholti og á Hólum. Ég held, að þannig mundi bezt takast að sinna til fulls þeirri veraldlegu stjórn, sem starfsemi kirkjunnar útheimtir, og þó sérstaklega þeirri andlegu leiðsögn, sem starf hennar útheimtir. Og þegar maður litur á hinn sífellt aukna embættismannafjölda, sem er að mörgu leyti eðlilegur, vegna þess að starfshættirnir í þjóðfélaginu breytast þannig, þá held ég, að mönnum ætti ekki að vaxa það neitt í augum, þó að biskupsstólarnir í Skálholti og á Hólum væru endurreistir, þrátt fyrir að biskupssetur væri látið haldast hér í Reykjavik. En hitt er ég sannfærður um, að ef þessari skipun væri komið á, ef biskup væri áfram hér í Reykjavík og biskupsstólarnir á Hólum og í Skálholti endurreistir, þá gætum við vænzt þess, að kirkjan gæti náð betri árangri af starfi sínu en raun ber vitni um í dag.

Og það, sem ég vil leggja áherzlu á að síðustu, er einmitt þetta: Ef við meinum eitthvað með því, að við viljum aukið hlutverk og aukið starf kirkjunnar, þá megum við ekki skera allar fjárveitingar við nögl og halda fast við allt starfsmannahald hennar, því að það gildir að sjálfsögðu um kirkjuna eins og aðrar stofnanir nú, að hún getur ekki leyst sitt starf af hendi, svo að vel sé, nema henni sé séð fyrir nægu starfsmannahaldi og nægu fjármagni.