14.02.1963
Neðri deild: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1042)

144. mál, heimild til þess að afhenda þjóðkirkju Íslands Skálholtsstað

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það hefur í sambandi við þetta frv. verið nokkuð rætt um biskupsstólinn hér á landi. Þetta er raunar ofur eðlilegt, að umr. um það mál blandist saman við þetta, úr því að verið er að ræða um Skálholtsstað og afhendingu hans til þjóðkirkjunnar. Vitanlega er það þannig, að meðan hér er ríkiskirkja, þá er það Alþingi, sem hefur æðstu stjórn þeirra mála og þ. á m. að ákveða, hvar biskup eigi að vera. Um þetta er hins vegar ekkert í frv., sem hér liggur fyrir, það er ekkert nefnt viðkomandi dvalarstað biskups þar.

Nú má vera og er sjálfsagt hægt að gera þetta upp hér á Alþ. í sambandi við þetta mál og taka ákvörðun, um leið og það er afgreitt, ef menn vilja, að þar verði biskup. Að vísu var það svo, að hæstv. ráðh. benti áðan á það, að slík mál ættu að koma til álita hjá kirkjuþingi, áður en þeim væri ráðið til lykta á Alþ. Og hvernig sem um það fer, hvort þetta verður gert upp nú eða ekki talið tímabært að svo stöddu að ákveða um það, þá vil ég benda á eitt atriði í sambandi við þetta mál.

Mér sýnist við fljótlegan yfirlestur á frv., að það gæti verið réttara að setja inn í það heimild til þess, að þar yrði ákveðinn biskupsstóll. Ef frv. verður samþ. óbreytt, eins og það er, og þjóðkirkjunni afhentur Skálholtsstaður, þá skilst mér, að þar sé ekki hægt að setja upp neina starfsemi og ekki heldur að ákveða þar biskupssetur nema með samþykki hinna nýju eigenda staðarins. Nú er að vísu um það rætt, að ákvörðun um það, hvar biskup eigi að sitja, mundi verða tekin í samráði við hin kirkjulegu yfirvöld. En þó sýnist mér, að það mundi vera réttara að hafa þetta heimildarákvæði í 1., því að þá gæti Alþ., sem á að hafa hér úrskurðarvald, komið sínum vilja fram í því efni án þess að vera öðrum háð um þá ákvörðun. Og ég sé ekki, að þetta ætti að saka neinn, þó að slíkt væri gert. Ég vildi því beina því til þeirrar hv. n., sem fær þetta. frv. til athugunar, hvort hún vildi ekki gera till. um að taka upp í frv. slíkt ákvæði um heimild til þess, að þarna yrði biskupssetur síðar, ef ekki þykir tímabært eða eðlilegt af ýmsum ástæðum að taka um þetta mál fullnaðarákvörðun nú á þessu þingi.